Thursday, June 25, 2009

Á veitingastað..


þar sem við stoppuðum eftir gilið og condorana, voru þessir hrikalega sætu tveggja mánaða Alpaca-ungar. Þeir eru þarna eins og heimalningar, fá pela og eru bara á rölti í portinu fyrir framan veitingastaðinn. Guttarnir voru náttúrulega gríðarlega hrifinir af þeim, prófuðu að gefa þeim lauf og þeir átu aðeins hjá þeim. Sá brúni var ofsalega blíður og rólegur og það mátti klappa og knúsa hann, en sá hvíti var öllu stífari. Hann var meiri mannafæla og virkaði töluvert lítið hrifinn af fólki. Þegar Orri beygði sig yfir hann, hélt höndinni á bakinu hans og hallaði sér fram til að sjá framan í hann, þá tók kvikindið sig til og spýtti góðri slummu framan í Orra. Guttinn fékk náttúrulega vægt sjokk, kom til mín með undirskálaaugu, allur í grænum lauf-slef-slettum og sagði hátt "þetta er EKKI fyndið!!" því allir í kring misstu gersamlega stjórn á sér. Alltaf svo fyndið þegar aðrir lenda í svona. Ég vildi koma þessu slefi sem fyrst af litla stráknum mínum, hélt niðri í mér hlátrinum og sagði, nei, nei, þetta er ekkert fyndið, og í æsingnum reyndi ég að komast inn á karlaklósettið, en var þá tekin föstum tökum af "alpaca-verðinum" sem stýrði mér, þó mjúklega, að kvennaklósettinu, með snöktandi grænflekkóttan Orra á eftir mér. Hann var nú fljótur að jafna sig og getur hlegið að þessu núna.

No comments:

Blog Archive