Thursday, June 25, 2009

Allt í pöllum


Það var voða skrítið að keyra um á þessu svæði, því þrátt fyrir þessa hörðu náttúru, þá er alls staðar á mögulegum og ómögulegum svæðum búið að skipta svæðinu í hluta og búið að búa til "tröppur" í brekkurnar, til að nýta svæðið til ræktunar. Þessir pallar eða tröppur eru hins vegar ekki hugmynd nútímans, heldur eru þeir alveg síðan fyrir Inka-tímabilið, sem sagt frá um 1200. Svakalega fallegt að horfa yfir þetta og með ólíkindum hvað þeir hafa farið hátt upp í fjallshlíðarnar til að gera þessa palla. Alger snilld líka hvernig þeir svo nýttu vatnið til að vökva gróðurinn, það voru byggðar rennur meðfram pöllunum og vatnið rann frá efsta palli, gegnum jarðveginn og niður í næsta pall, þannig að sem minnst fór til spillis. Alger snilld og ofboðslega spes að horfa yfir þetta villta, stórbrotna en skipulagða svæði.

4 comments:

Unknown said...

Merkilegt að lesa þetta með hliðsjón af Kárahnjúkastíflu. Þanna gjörbreyttu mennirnir náttúrunni og það þykir alveg ofsalega merkilegt og fallegt. En í dag er eins og það sé ekki gert ráð fyrir því að við megum skilja eftir okkur fótspor.

Eitthvað til að hugleiða yfir helgina... hmmmm

Gaui said...

Þetta er áhugaverður punktur, Bragi. Hinsvegar voru menn að græða upp hrjóstrugt land með þessum aðferðum, gera vistvænt og náttúrulegt umhverfi úr einhverju sem var bara grjót og sandur. Kann ekki aðferðina nákvæmlega, en hugsunin er að gera microclimate úr hverjum bakka, steinarnir sem mynda af rammann draga í sig hitann frá sólininni á daginn og varpa honum svo frá sér út í bakkann sinn á kvöldin og fram á nótt. Skapa þannig ákjósanlega vaxtarskilyrði fyrir gróður. Vatninu frá fjöllunum rennur síðan í gegnum kerfið til að vökva. Hefur virkað í fleiri hundruð ár. Líftími stórra stífla er miklu styttri og þegar þær eru orðnar fullar af drullu virka þær ekki lengur og landið lítið spennandi. Er það ekki rétt annars? er enginn stíflusérfræðingur. Það er svo áhugavert í þessu líka að bændurnir sem búa í Colca dalnum, lokuðu dalnum í 5 ár (um 1990 minnir mig) þegar stórt amerískt fyrirtæki ætlaði að fara að hefja massíva námuvinnslu í fjalllendi í dalnum. Bændurnir töldu að það myndi eyðileggja dalinn, vildu frekar halda í sitt vistvæna kerfi heldur en að fá skammtímagróða í hús – og kannski var ekki einu sinni um skammtímagróða að ræða, bara dirty vinnu, bandaríska fyrirtækið ætlaði sjálfsagt ekki að skilja mikið eftir sig, frekar nýta ódýrt vinnuaflið og hirða það sem til félli. Kanarnir gáfust upp og í dag er Colcasvæðið eitt af vinsælustu ferðamannasvæðum í Perú.

Vala said...

Bændur í dalnum lokuðu dalnum í 6 mánuði í mótmælum við stórfyrirtækið, sem vildi komast í námuvinnslu þar. Ekki 5 ár, eftir 6 mánuði gáfust stjórnvöld upp og létu eftir bændum og dalurinn var opnaður aftur fyrir ferðamenn og aðra.

Anonymous said...

Já merkilegt. Ekki það að ég sé mikill virkjanasinni og var mjög mótfallinn Kárahnjúkum. En ég kom þangað bara til að skoða mig um en hef ekki farið eftir breytingarnar.

En merkilegt samt að pæla í þessu þegar að maðurinn breytir náttúrunni.

Bragi

Blog Archive