Tuesday, May 26, 2009

Huacachina


Hér er ég komin upp á sandfjallið sem Huacachina, litla þorpið sem við vorum í, liggur við. Æðislegt útsýni! Það sést þarna á myndinni í Viktor þarna nálægt, og Arnór og Orri aðeins neðar, allir að berjast að komast upp á fjallið. Sem tókst að sjálfsögðu á endanum þrátt fyrir mikið púl!! Það er ketilbjöllu-gen í guttunum, "never give up!!"

Sólsetur í eyðimörkinni


Við Gaui fórum þrisvar upp á sandfjallið góða fyrir ofan hostelið, og í einni ferðinni fórum við til að sjá sólsetrið, rosa rómó. Þetta var einstök sjón og ég er eiginlega ennþá alveg gáttuð á hve mikil víðátta þessi eyðimörk er, sandur, sandur og ekkert nema sandur! Svo húka lítil þorp þarna hér og þar, og ekki nóg með að sandurinn/umhverfið sé allt brúnt, heldur eru húsin í þessum eyðimerkur-þorpum líka brún.

Sandfjallið - og smá mont


Þarna er ég á leið niður úr ferð númer tvö upp á sandfjallið sem var fyrir ofan hostelið okkar í

Huacachina. Þetta var hörkuæfing að fara upp fjallið, maður sekkur niður í sandinn í hverju skrefi og hjartað fer á fullt eftir nokkur skref. Við fórum öll upp fjallið á fyrsta degi, guttarnir létu ekki erfiðið stoppa sig, og svo fórum við Gaui tvisvar í viðbót. Mega-æfing! Þegar Gaui var að taka göngu númer tvö á degi tvö og ég beið niðri við laugina til að taka tímann hjá honum, þá heyrði ég í tveimur könum sem voru að plana ferð upp fjallið. Þeir byrjuðu að teygja, voru að hita sig upp, rosa alvarlegir meðan þeir spjölluðu um kallinn sem var þarna kominn hálfa leið (Gaui). "Hann fer þetta ótrúlega hægt mar, við tökum þetta á spretti, það er málið, bara hratt og örugglega!!" Ég alveg titraði af spenningi, búin að prófa þetta daginn áður, vissi aðeins um hvað þeir væru að fara í. Þeir löbbuðu rólega frá lauginni, teygðu hálsinn aðeins og sveifluðu handleggjum og öxlum og svo þegar þeir komu að hliðinu, þar sem fjallið byrjaði strax í miklum bratta, þá sprettu þeir af stað!!! Sprettu, sprettu, sprettu í cirka 6 sekúndur, og þá hægði nú á hjá hetjunum, í nokkrar sekúndur, og svo voru þeir bara stopp! Hahahah, ég er nú svo mikið kvikindi að ég hafði gríðargaman að þessu. Á meðan þeir reyndu að skríða áfram og tóku ansi margar pásur í skriðinu, hélt Gaui áfram jafnt og þétt, ekkert stopp og náði toppnum á 12 mín. Svo skokkaði hann niður, rosa gaman að fara niður, því maður eiginlega skíðar niður og það tekur bara 2-3 mín. Hetjurnar voru þá komnar ca einn þriðja af leiðinni og voru alveg stopp. Þá var komið að mér, og ég hélt nú að það myndi aðeins ýta við þeim að sjá stelpuskjátu (ég var meira að segja í bleiku pilsi og bleikum bol... hehe) nálgast þá og þeir myndu gefa í. En ég náði þeim fljótt, því þeir gáfust barasta upp! Ég mætti þeim þegar þeir voru nýbúnir að snúa við, þeir sögðu "þetta er mun erfiðara en það lítur út fyrir að vera!" og ég reyndi aðeins að hvetja þá áfram, en nei, þeir gáfustu bara upp. Þá missti ég út úr mér "common, it´s not that hard.." og hélt áfram. Fátt sem mér finnst jafn asnalegt og að fullfrískir menn sem gera grín að öðrum í æfingum, gefist upp og standi ekki undir montinu! Æ æ æ, þeim fannst nú ekki gaman að koma niður. Kærasta eins þeirra, sem hafði nuddað hann með olíu fyrir "sprett-ferðina miklu" tók á móti þeim (Gaui heyrði í þeim) og þeir töluðu um hvað þetta væri erfitt og hvað það væri heitt og hvað þetta væri svakalega hátt" og hún hlustaði samúðarfull á þá og sagði svo lágt "já, já, þetta er eflaust erfitt.... stelpan þarna virðist þó ekki vera í neinum vandræðum". Ok, kvikindislegt af mér að segja þessa sögu, eeeen þetta var bara svo fyndið...hihi. BTW ég var líka 12mín upp.

Sand-boarding


Við renndum okkur í sandinum, það var langskemmtilegast að renna á maganum, þá fór maður á svoleiðis fljúgandi ferð!! Sumir reyndu að standa og í bænum var algengt að sjá fólk sem ansi stór sár eftir veltur í sandinum þegar það hafði reynt að standa á brettunum eins og snjóbrettum. Við vildum ekki taka sjéns á því, enda Viktor ennþá á hækjum eftir tábrotið þarna. Þetta var hrikalega gaman og eiginlega alveg furðulegt líka!

Orri í eyðimörkinni stóru


Buggy-riding in the desert


Þetta var GEEEEEEEEEEÐVEIKT!!!! Keyrt á fullu í þessu tryllitæki yfir sandhóla og hæðir, þetta var eins og að vera í rússíbana sem bara entist og entist!!!!

Herbergisfélagar


Í Huacachina vorum við í 9 manna hostel-herbergi, sem okkur Gauja leist nú ekki á fyrst, en við vorum rosalega heppin með herbergisfélaga og höfum ekki yfir neinu að kvarta í sambandi við að deila herbergi á hosteli. Þessir tveir gaurar, annar frá Ástralíu og hinn frá Kanada fengu heldur betur að kynnast guttunum. Eiginlega um leið og þeir mættu í herbergið eftir dagsferð í eyðimörkinni byrjaði Arnór að athuga hvar tónlistarsmekkurinn lægi: "Do you like Kiss?", það kom nú smá hik á Ástralann, sem svaraði svo "well, I used to be a fan, my dad actually took me to a concert in Australia when I was about your age". "Ok" svaraði Arnór, "who was the drummer", "eeeh, well..." "was it Peter Criss, Eric Singer or Eric Carr??" "eeeeehh... " og þá kom ég aðeins til bjargar og sagði "what, you can´t remember?? how can that be?" og hann var fljótur að koma til og hló og sagði "I guess I wasn´t paying enough attention..", þá horfði Arnór á hann og sagði "ok, you don´t remember.. but who was the lead guitarist, Ace Frehley, Vinnie Vincent, Mark St. John, Bruce Kulkick og Tommy Thayer?" "eeeeeehh.. aren´t you supposed to be asleep now?". Það var voða gaman að kynnast þeim og Orri fékk mikið kitl og allir æfðu sig mikið í enskunni.

Austurlensk fegurð..?


Eða barasta al-íslensk!! Orri að hlýja sér eftir sundæfingu,

eitthvað er bringusundið lengi að koma hjá guttanum, enda allt öðruvísi að svamla í sjónum heldur en í sundlaugum. Þess vegna vill sundtæknin vejast fyrir Orra litla, sem tekur 2-3 sundtök og svo fer það að vera erfitt. Stefnan tekin á stífar æfingar í íslenskum sundlaugum í sumar, enda eru þær töluvert hlýrri en þær í Suður-Ameríku!!

Páfagaukar á hosteli


Þessi skemmtilegi félagi býr á hostelinu sem við vorum á í Huacachina (sem er pínulítil vin í eyðimörkinni). Þar búa þrír páfagaukar, tveir svona eins og þessi á myndinni og svo einn stærri. Allir eru mikið fyrir að koma á öxlina og sérstaklega þessi tveir minni tóku stundum upp á því að klifra niður af spýtunni sinni sem er í tré við sundlaugina, rölta svo hægt og rólega meðfram sundlaugabakkanum og klifra upp sólstóla hjá fólki sem var að narta eitthvað. Hrikalega skemmtilegir gaurar og algerar frekjur, haha. Þessi hér sem Viktor er með á öxlinni (og er að éta ostinn okkar) hafði líka mjög gaman af því að heilsa manni, kallaði hátt og skýrt "Hola!!" þegar maður mætti. Og ef við svöruðum, þá svaraði hann aftur og aftur og aftur og aftur. Og núna langar okkur öll í stóran páfagauk!!

Sunday, May 24, 2009

Sólsetur í Paracas


Skoðunarferð í eyðimörk við sjóinn


Paracas er þorp sem liggur í eyðimörkinni, þeirri þurrustu í Perú og þar rignir bara 2mm á ári að meðaltali. Það skrítna í þessu fannst mér vera að eyðimörkin liggur svo alveg að sjónum og andstæðurnar því svo skýrar. Eyðimörkin var einu sinni undir sjó, og jarðvegurinn er ennþá svo saltur að ekki ein einasta planta þrífst þarna. Ekki stingandi strá, svo langt sem augað eygir, nema þar sem bærinn er, en þar hefur jarðveginum verið skipt út að hluta til að gera jörðina lífvænni. Viktor er farinn að jafna sig vel eftir tábrotið, en vinsældir hækjanna minnka ekki við það. Þær eru t.d. ágætis tæki til að taka stórt og mikið gítarsóló öllum í kring til gleði og yndisauka.

Eruð þið með mat?


Pelikanar


Við bryggjuna í Paracas búa ansi margir pelikanar, risastórir og minna mann á flugeðlur úr fortíðinni þegar þeir hlussast af stað til að fljúga að bátunum sem eru að koma inn með afla. Rosalega stórir fuglar og skemmtilegir og strákarnir fengu að gefa þeim! Þeir átu úr höndunum hjá þeim og gripu líka fiskinn á lofti eins og sirkusdýr. Stundum horfðu þeir hugsi á guttana, eins og þeir væru að pæla í hvaða fyrirbæri þeir væru og mér varð hugsað til videósins af pelikananum sem var í dýragarðinum, hundleiddist og tölti því að næsta polli og át eina dúfu í heilu lagi, sér til dundurs. Þetta er sko engin smá kjaftur á þessum félögum!

Á leið til Ballestas eyjanna....


fengum við smá fylgd. Höfrungar sem syntu með bátnum og hoppuðu í kringum okkur. Mikið svakalega var gaman að sjá þá og þarna rættist enn einn draumurinn á ferðalaginu!

The man and the sea..


Náði mynd af þessum hörkukalli í vinnunni
úti á reginhafi. Hann heldur í kaðal og hinum megin á kaðlinum er félagi hans að kafa eftir skelfiski. Engin net eða botnvörpur hér, allt tínt í höndunum til að vernda náttúruna, enda gríðarlegt dýralíf allt í kring og greinilega mikil fæða í sjónum. Dýptin þarna hlýtur að vera þó nokkur, því við vorum ansi langt frá landi þarna. Þorpið, Paracas er líka sjávarrétta-þorp, eiginlega ekkert annað í boði en fiskur á veitingastöðunum, sem okkur Gauja fannst fínt, en guttunum fannst nóg komið þegar þeim var boðinn steiktur fiskur í morgunmat! Gaui þáði boðið og sagði eftirá að þetta væri besta matar-byrjun á degi sem hann hefði prófað lengi!

Gúanóið


Einu mannaferðirnar sem eru leyfðar í Ballestas-eyjunum eru "gúanó-vinnumenn" og vísindamenn sem stunda rannsóknir á eyjunum.
Gúanóið þykir mikið verðmæti, er notað sem áburður og virkar einstaklega vel. Bryggjan var byggð vegna gúanótínslunnar, en hún er leyfð 7. hvert ár á hverju svæði, þá er skafinn upp fuglaskíturinn í fötur og allt flutt í land. Sums staðar er jafnvel sagður vera um 10m djúpur gúanó á eyjunum, svo þetta er svo sannarlega skíta-jobb! Mest fannst mér af mávum þarna í kring, svo voru mörgæsir og kríutegundir, en einnig voru alls konar fuglategundir sem ég þekki ekki nöfnin á. Stóri fuglinn á vírnum, sem er að breiða út vængina er hrægammur, það var þó nokkuð að þeim líka.

Ballestas eyjarnar


Frá Paracas (sem við heimsóttum eftir Lima)

er hægt að fara í siglingu út í Ballestas eyjur, en það er eyjaklasi sem er friðaður og mannaferðir mjög takmarkaðar. Þannig hefur dýralíf blómstrað einstaklega vel og fjöldi dýranna er svakalegur. Eyjarnar eru stundum nefndar "Poor mans Galapagos" og vísar í það að dýralífið er svipað (þó auðvitað töluvert minna svæði) og mun ódýrara er að fara þangað í skoðunarferð en til Galapagos. Siglingin er tveir tímar, og var rosalega skemmtileg. Þarna er karl-sæljón í miðjunni, þykir víst frekar lítill karl og því ungur, en nóg var hann frekur við kellingarnar í kringum hann, gargaði og kvartaði, skipandi þeim fyrir, en þær hlustuðu lítið á hann, lágu bara í sólskininu og dormuðu.

Paracas


Gert að afla dagsins á bryggjunni í Paracas. Við vorum á leið út í bátinn til að fara í skoðunarferðina til Ballestas-eyjanna, tæplega átta um morguninn og þá eru þessir gaurar búnir að vera að í marga klukkutíma... Þegar guttarnir heyrðu fótaferðatíma margra sjómanna sögðu þeir í kór: "Vó, ég ætla sko ekki að verða sjómaður!".

Ceviche


Þetta er þjóðarréttur Perú, Ceviche, sem er hrár ferskur fiskur marineraður í limesafa og chilli, yfirleitt borið fram með hráum rauðlauk, og sætum kartöflum. Þetta er geeeeeeeðveikt gott og ég set hér með inn pöntun til Gumma hennar Maríu! Eeeeeelsku Gummi, þar sem þú ert nú einn besti kokkur sem ég þekki, viiiiltu vera svo vænn að bjóða okkur í mat eftir heimkomu þar sem við getum gert þetta saman og borðað? Væri gaman að prófa sig áfram með þennan rétt undir góðri leiðsögn eðalkokks! :) Þeir nota mismunandi fisktegundir, en þær þurfa að vera þétta, dugar ekki með ýsu og þorsk held ég. Manni líður svakalega vel eftir svona máltíð, þetta gerist varla hollara! Eina sem þarf að passa hér er að velja öruggan veitingastað til að borða þetta, maður er ekkert að taka sjénsa með hráan fisk og "The Lima welcome" eins og þeir kalla niðurganginn sem oft herjar á nýkomna túrista.... Been there, done that..

Monday, May 18, 2009

Aftur on the road


Í dag leggjum við aftur í hann, eftir tvær góðar vikur hér í Lima. Það verður að viðurkennast að ferðahugurinn er ekki mikill, þetta hostel einstaklega skemmtilegt og margt sem strákarnir hafa getað dundað við, gott net og sæmilegt eldhús. "Veeeeerððum við að fara, getum við ekki verið hér í tvær vikur í viðbót??" heyrðist mikið í gær, en við hljómum eins og sígaunar, "já, ævintýrin bíða okkar, off we go, pakka, pakka, pakka". Það verður gott að komast í íbúðina í Ariqipa, þar sem verðum í 5 vikur, ætlum að æfa vel og njóta Perú. Fram að því stoppi er planið svona: Leggjum af stað í dag til Paracas, höfum hostel þar í tvær nætur og munum fara í siglingu út í Ballestas eyjurnar, en þær eru smærri útgáfa af Galapagos-eyjunum, mikið dýralíf og sérstakt. Daginn eftir förum við til Ica og þaðan í hostel nálægt sem er í eyðimörkinni. Þar verðum við tvo daga og munum prófa "sandboarding" sem er sem sagt að renna sér á brettum í sandinum í stað snjós, og svo eru þarna toffærubílar sem taka mann í skemmtilegan toffæru-túr í eyðimörkinni, sem er bara eins og í Tinna-bókunum, sandhóll eftir sandhól. Allavega samkvæmt myndum, sjáum til hvernig þetta er í alvöru, myndir geta verið skemmtilega blekkjandi, eins og allir sem hafa skoðað hótela/hostela og jafnvel fasteignaauglýsingar... Svo eftir tvo daga í Ica er stefnan tekin á Nazca þar sem við skoðum línurnar sem voru gerðar fyrir nokkur þúsund árum og eru dýramyndir. Ýmsar tilgátur uppi um hvers vegna og hvernig, en allir eru þó sammála um að þetta eru ein dularfyllstu fyrirbæri á jörðinni. Svo við skoðum þær og hlökkum til þess. Eftir daginn í Nazca er það svo Ariqipa, í 5 vikur. Og annað hvort tökum ferð til Machu Picchu meðan við erum í Ariqipa, eða það sem er líklegra, eftir Ariqipa.

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Helsta actionið núna eru tölvupóstar að heiman, því við erum að taka við skráningum fyrir næsta vetur í kb-tímum (sem er ferlega gaman og fólk duglegt að skrá sig!!) og svo stendur Eurovision uppúr þessa helgina. Við náðum keppninni á stöð frá Spáni, þeim gekk nú ekkert allt of vel greyjunum, eftir keppnina var langur sjónvarpsþáttur þar sem þeir greindu allt í ræmur og bara skildu ekki í þessu, sýndu lagið sitt aftur og aftur og aftur "common and take me, common and shake me!!" náttúrulega eðallag og ótrúlegt að svona djúpur boðskapur skyldi ekki rata hærra. Ekki það að við höfum oft haft djúpan boðskap í okkar lögum, en mikið svakalega var hún Jóhanna okkar flott og fín!!! Syngur æðislega þessi stelpa og við fögnuðum hástöfum í hvert sinn sem við fengum stig, svo það voru læææææti í okkur hér í Lima á laugardag :)

Í gær var okkur boðið í grill í ekta "Country Club". Það var upplifun að keyra gegnum fátækrahverfin hér (með bílstjóra sem var sendur til að sækja okkur, Jeremías... hann hét það sem sagt, bílstjórinn..) og keyra svo allt í einu að háum vegg, þar sem öryggishlið með vörðum var, keyra í gegn og þá vorum við bara komin í græna fallega pardís með fallegum húsum, vel máluðum og allt snyrtilegt. Þarna voru tvær sundlaugar, golfvöllur, leiksvæði með trampólíni og hoppikastala, fótboltavöllur, squash-vellir þar sem notaðir eru tré-spaðar og stór bolti svo þeir kalla þetta eitthvað f.. sem ég man ekki en það virkaði mjög skemmtilegt og þarna var bara allt til alls. Og hvað vorum við túristarnir að gera þarna í paradís "betur-settra heimamanna", jú, maður sem við höfum kynnst hér gegnum CrossFit klúbbinn bauð okkur að koma. Þetta er blaðamaður, heitir Gustavo Corriti og er ofsalega viðkunnalegur maður. Getið googlað nafniðhans, svaka saga þarna á bakvið, er rannsóknarblaðamaður og mikill mannréttindabaráttumáður. Hefur upplifað ýmislegt um ævina. Við eyddum deginum þarna með honum, konunni hans og tveimur dætrum, heilmikið spjallað, leikið og borðað. Enn ein ástæða fyrir að strákarnir vilja vera lengur í Lima, þetta var æðislegt svæði og þeir vilja koma aftur.
Það er gaman að sjá hvað þeir sem búa hér gera, taka þátt í venjulegum sunnudegi, það var allt fullt af fjölskyldum þarna, allir að slaka á og njóta þess að vera saman. Eftir að hafa séð mikla fátækt, betlara, fólk sem bara situr á umferðareyjum, jafnvel heilu fjölskyldurnar og bara hanga allan daginn, gera ekki neitt nema að reykja, þá var gott að taka þátt í svona fallegum degi í fallegu umhverfi. Sumir myndu kannski segja "uss, þetta er tilbúinn heimur, ekki ekta", en hreysin og ruslið eru lika búin til, og ég veit ekki hvort það sé eitthvað meira ekta, bara af því þar er fátækt, uppgjöf og vonleysi... Alls ekki að segja að þetta sé meiri hluti Perú-búa sem er fátækur, en það er mikil stéttaskipting hér og fátækt er víða. Aaaaaallavega nutum við dagsins og það var gott að komast burtu úr áreitinu sem getur verið á erlenda ferðamenn hér. Þetta hljómar kannski skelfilega, en það er það ekki. Maður getur bara orðið þreyttur á að vera alltaf öðruvísi, og eftir 9 mánuði í að vera öðruvísi, var gott að fá dag þar sem við vorum bara pínkulítið öðruvísi!
Með myndina hér í þessari færslu, hún kemur til að sýna ykkur hvernig týpiskur bíll lítur út hér, alltaf einhver beygla og yfirleitt fleiri en ein, skil ekki hvernig fólk tímir að fara út í umferðina á nýjum bílum. Konan er týpísk sveitakona hér í norður hluta Suður-Ameríku, og við erum að fara úr stórborginni og út á land, þar sem þessi klæðnaður mun líklega aftur verða algengur. Mjög lítið um svona klæðnað samt í höfuðborg Perú. Hins vegar í La Paz og allri Bólivíu var allt vaðandi í svona klæddum konum, bæði í borg og í sveit líka. Er að spá í að fá mér svona dress... gott að þjálfa í þessu. We´re on the road again.....

Friday, May 15, 2009

Leikir


Dagarnir hér eru voðalega góðir, þeir byrja rólega á morgunmatnum okkar, kaffi og svo smá lærdómi og tölvupóstum vegna ketilbjallanna. Hér á hostelinu eru alls konar leikir og hljóðfæri sem öllum er frjálst að prófa og þetta fótboltaspil er mega-vinsælt hjá stráknunum. Gaui gefur ekkert eftir í keppninni, stundum kemur Orri upp með kökkinn í hálsinum eftir tap. Í dag kom hann þungstígur upp tröppurnar og fór bara að hátta sig (kl. eitt í dag). Ég spurði hvort hann hefði tapað fyrir pabba og fékk svarið "NEI!!, ég bara svaf ekki nógu mikið í nótt!!!". Hann veit nefninlega að hann á að stýra skapinu og ráða við "tapsærindi".. það er bara stundum svo erfitt.
Annars er soldið gaman hvað við erum að fá furðulegar spurningar frá guttunum stundum. "Mamma, varst þú fædd í fyrri heimsstyrjöldinni?" var ein sem ég fékk um daginn. Maður er náttúrulega hrikalega gamall eftir tvítugt í augum 6 ára gutta. Arnór er mikið að pæla í hljómsveitum og spurði um daginn: "Voru það virkilega hundruðir kvenna sem leið yfir um leið og Elvis steig fram á sviðið?". Þeir eru reyndar allir þrír í rosalegum tónlistarhugleiðinum núna, pæla mikið í hljómsveitum, bæði Bítlunum og þeim gömlu, en mest þó Kiss og Metallica. Þó er ákveðið tónlistarskeið sem ekki hefur vakið áhuga ennþá. Viktor spurði mig í gær, þungt hugsi: "mamma, var Steinn Ármann í Wham?".

Rafmagið í Lima


Mjög skrautlegar rafmagnslagnirnar hérna, þeir eru ekki mjög mikið að pæla í að hafa þetta laumulegt eða.... hmm, hvað er orðið... jamm, öruggt. Við vorum í tveggja hæða sight-seeing strætó, að sjálfsögðu uppi á annarri hæð, ekkert þak, og það var alveg svakalega spennó, því maður þurfti reglulega að dýfa sér ofan í sætið ýmist vegna trjáa eða rafmagnslína. Tréin slógu mann utanundir og rafmagnslínurnar slógu mann út.. eeen við sluppum.... með "skemmtilegan" skrekk, því það var nú þannig að Gaui prófaði raflost daginn áður. Hann fór út á stigapall hér á hostelinu til að anda að sér bensín-ilminum, og setti hendurnar á handriðið og þá fann hann bara bzzzzzzzz, náði að hugsa; ó shit! og svo bara datt hann út. Við það þá sleppti hann takinu á línunni, svo hann meiddi sig nú ekki mikið, sem betur fer. Eftir nokkrar sekúndur rankaði hann við sér, kom valtur inn í eldhúsið þar sem ég var að kúkka (slangur frá ensku, ekki klósettmál) og tilkynnti bara: "ég fékk raflost!". Mér dauðbrá auðvitað og við höfum passað okkur nokkuð vel á rafmagnslínunum hérna eftir þetta. Francis (kallinn sem stýrir hér á hostelinu) sagði mér svo eftir að við höfðum verið hér í viku: Oh, yes, watch out for the electicity-cords here, they are about 9000 volts, very dangerous". Þetta eru nú upplýsingar sem manni fyndist mætti koma fram við skráningu. En eina svarið sem mér datt í hug var "yes, we know..".

Vinir frá Hollandi


Við erum auðvitað að kynnast allra þjóða kvikindum í ferðinni og hér á hostelinu í síðustu viku voru Hollendingar, tvö pör sem eru vinir og eru hvor í sínu lagi á ferðalagi um Suður-Ameríku og hittust hér í Lima. Strákarnir tóku þau með trompi og settust oft með þeim á kvöldin og lærðu hollensku og spiluðu domino. Sá sem heldur þarna á Orra er fótboltaáhugamaður og fyrrverandi fótboltaspilari, ólst upp með Ruud Van Nistelroy og hann ætlar glaður að taka á móti Arnóri og Orra ef þeir vilja spila í Hollandi í atvinnumennskunni...í fótbolta.. ekki dóminó. Gott að plana la futura!

Orri að læra


Á ferðalaginu hefur ýmisleg verið stúderað. Það nýjasta er listin að reima skóna sína... Getur verið flókið og það kemur fyrir að skór fljúga yfir herbergið með tilheyrandi öskri. Skapstór eins og pabbi!!

Viktor á hækjum og fleira


Alltaf eitthvað að gerast og nú er það Viktor sem sér um spennuna. Hann var að leika sér í upphífingastönginni niður í CrossFit Peru stöðinni í gær og Orra datt í hug að skella stóru boxi undir stöngina til að komast sjálfur upp, án þess að pæla í að það væri sniðugt að leyfa Viktori að klára. Allavega, Viktor var á svakasveiflu og dúndraði hægri fæti í boxið oooooog "baug-táin" er núna blá, falleg og mjööööög aum. Vitum ekki hvort hún er brotin, í raun lítið sem er gert við brotna tá, en ætli það komi ekki í ljós á næstu dögum. Ef óþægindin fara ekki að hjaðna, getur verið að við verðum grand á því og splæsum í rönten. Svo þegar við komum heim á hostelið eftir tásu-slysið, Viktor hoppandi á einum fæti með tilheyrandi stunum og látum, því það fer ekki mikið fyrir nettleikanum hjá elsku guttanum, þá kíkir ein stelpan sem vinnur hér fram, spyr hvað sé að, og vippar sér svo inn í geymslu og kemur fram með tvær hækjur. Eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég meina það, það er allt til hérna!! Þetta er frábært hostel. Þegar okkur vantar smá upplýsingar um einhvern stað eða hvert væri sniðugt að fara eftir Lima, þá fáum við svakalegan fyrirlestur, með milljón hugmyndum, svo er síminn gripinn á lofti og öllu reddað fyrir okkur. Við höllum okkur aftur og chillum, and don´t have to worry our little heads about it! Very lovely.

Thursday, May 14, 2009

Erum í Lima


Allt komið í gott horf núna, allir frískir og námskeiðið gekk vel. Fyrstu vikuna hér vorum við eins og í helli hér á herberginu. Það að veggirnir og loftið eru dökkgræn á lit gerði þetta enn meiri hellistilfinningu, plús að það er enginn gluggi á herberginu. Eða jú, það er gluggi, en hann er út á ganginn, sem er grænn á lit. Heilsan kom sem betur fer frekar fljótlega og ég var tilbúin í CrossFit námskeiðið. Það var gaman á því, ég lærði eitthvað nýtt, sem er alltaf gaman. Hæst stendur uppúr að ég lærði góð aðferð til að gera hnébeygju með stöng fyrir ofan höfuð overhead-squat), muscle-ups og kipp-upphífingar (ekki komin með muscle-ups sjálf, en veit hvernig á að kenna það og næ því einhverntíma sjálf, þó það sé freeeeeekar mikið erfitt). Það var soldið fyndið að vera á þessu námskeiði, því þar sem ég er ketilbjöllu-kennari, þá leit sumt fólkið á námskeiðinu á mig sem "óvininn" (voða fáir, og bara CF-nördarir). CrossFit getur nefninlega verið pínulítið eins og söfnuður, fólk bara trúir á þessa aðferð og EKKERT annað getur verið godt nok. Það eru nú alls ekki margir sem eru þannig, en það er alltaf gaman að þeim fáu sem láta svona, hehe. Það sem CrossFit snýst um er að gera erfiðar, fjölbreyttar og hraðar æfingar, alltaf pælt í notagildi æfingarinnar, ef hún hefur ekki notagildi í daglegu lífi, þá er hún ekki sniðug (eins og biceps-curl, EKKI functional!). Margt mjög gott á námskeiðinu, kennararnir góðir og bara gaman að kynnast þessu. Ég á líka pottþétt eftir að nota þetta í ketilbjöllutímunum, því ketilbjöllurnar eru frábærlega funcional og CrossFit smellur eins og flís við rass inn í bjöllutímana.

Lima kemur okkur soldið á óvart, hún er í raun mjög vestræn og hverfið sem við erum í er rosalega þægilegt, breiðar götur, snyrtilegt og falleg hús. Hér er reyndar allt vaðandi í amerískum merkjum, Starbucks, TGI Fridays, KFC, MacD og fleira í þeim dúr, og það getur bara verið nokkuð gott að grípa í þetta þegar maður er hræddur við magakveisur. Við erum samt dugleg að elda hér sjálf, miklu betra að gera það, þá þorir maður líka að borða salatið, veit að það er skolað í flöskuvatni en ekki kranavatni. Stundum á veitingastöðum lítum við út eins og ein stór matvönd fjölskylda, allir búnir að fjarlægja salat, tómata og annað hollt til hliðar, en búin að borða kjötið eintómt, hihi. Perúanskur matur þykir einstaklega góður, og við stefnum nú á að fara á vandaðan veitingastað áður en við förum héðan til að prófa þjóðarréttinn þeirra, Cerviche (veit ekki hvernig skrifað) en það er hrár fiskur, með lime og einhverju góðu. Spennandi, en ekki eitthvað sem maður vill smakka hvar sem er.. því miður, því maturinn á götuhornunum er oft hrikalega vellyktandi, girnilegur og ódýr! Buhú.

Við fórum niður í miðbæ Lima í gær í fyrsta sinn, höfum annars haldið okkur mest í Miraflores og Surco hverfunum. Miðbærinn er mjög flottur, risa hús, skrautleg og allt mjög snyrtilegt. Svo eins og aðrar stórborgir, ef maður fer aðeins út fyrir "túrista-hlutann" þá minnka snyrtilegheitin, maður verður eini gringóinn, starað á mann, götur þrengjast og allt út í litlum búllum. Ekki endilega drykkjubúllum, í gær lentum við í prentarahverfinu, þá var bara prentarabúlla við prentarabúllu, kallar sveittir og berir að ofan að hreinsa prentrúlluvélarnar, allt á fullu, blað eftir blað að koma út, konur að taka við, stafla og sortera. Allt í gangi á ca. 10 fermetrum, og við hliðaná nákvæmlega það sama að gerast líka á 10 fermetrum, og þar við hliðiná og því næsta. Fyndið svona, það er allt í kös á sama stað. Líka með föndurbúðir, við höfum ekki séð neina föndurbúð hér, en í gær gengum við eina götu, og þá voru þær ca fimmtíu!! Í röð.
Og ef þið hafið verið að leita að bjöllum (bílunum), og ekki fundið, þá skil ég það vel, þær eru allar hér í Perú, þeim líður vel, eru mikið keyrðar og þær biðja að heilsa!! Umferðin hér.... úff... er kafli út af fyrir sig, sem bíður betri tíma.

Leiksvæði í Lima


Wednesday, May 13, 2009

Leiksvæði í La Paz


Það eru ótrúlega skemmtilegt að fara á leiksvæði hér í Suður-Ameríku, þeir eru snillingar í skemmtilegum leiksvæðum og við notum þau bæði til að sitja pen á bekk og horfa á strákana leika, leika með þeim og svo auðvitað taka æfingar í öllum klifrugrindunum og þrautabrautunum. Þarna er Orri í kjafti krókódíls sem er mósaiklagður. Svæðið er á hárri hæð sem við þrömmuðum upp, andstutt og hress :)

Í La Paz


Þarna vorum við á rölti í miðbæ La Paz, alls staðar brekkur og það er ótrúlegt hversu móður maður verður í þessari hæð, um 4000m yfir sjávarmáli. Engin þörf (eða orka) fyrir æfingu þarna, því æfingin felst hreinlega í að hreyfa sig út úr hótelherberginu!! Við sáum auglýsingu um Gym, hægt að fara í spinningtíma. Ye, right!!

Tuesday, May 5, 2009

Uyuni - La Paz


Best að byrja aftast í fæslum dagsins í dag (byrja á póstinum á undan "markaðir", því ég hef skrifað þetta "löbende" yfir þessa daga sem við vorum í Bólivíu (gerði dagbók í tölvunni, því netið var bara ekki available í Bólivíu, nema einstaka einstaka sinnum) og setti þetta inn í dag, en auðvitað í "afturábakröð". Veit ekki hvort löng ferðalög séu að spila með gráu sellurnar eða hvort það sé hæðin yfir sjávarmáli sem taki nokkrar blaðsíður eða hvort síðasta nótt hafi haft þessi áhrif, en Anrór og Orri fengu þá svakalegustu magakveisu sem komið hefur í ferðinni. Við Gaui vorum á vakt í alla nótt, ábyrgðinni var dreift þannig að Gaui sá um það sem kom út um munninn, meðan ég sá um það sem kom út um bossann, allt í vökvaformi og aumingja drengirnir sátu á klósettinu til skiptis, með bala í fanginu og Orri litli þurfti tvisvar að fara í sturtu í nótt, því hann bara fann ekki þegar niðarinn kom... mm mm mm, hressandi nótt sem sagt. Sem betur fer eru þeir á batavegi núna, sofa inni í herbergi, alveg búnir á því, en sterió-útsendingar eru hættar í bili... Erum komin til Lima í Perú, og ég skrifa um það á næstu dögum :) Líst rosa vel á Lima!!

Að ferðalaginu til La Paz, hæstu höfuðborgar í heimi:

Fína rútuferðin til La Paz var svo næst á dagskrá, við vorum mætt tímanlega og meðan við guttarnir fórum í súkkulaðiferð (alltaf gott að hafa smá súkkulaði í langri rútuferð, og eiginlega pottþétt að maginn þoli það!) þá fylgdist Gaui með töskunum. Þegar við komum svo tilbaka benti hann okkur á lítinn gutta, sem stóð aleinn á upphækkun á miðri götunni. Í Bólivíu er sko ekkert um tillitsama umferð, og bílarnir og rúturnar keyrðu bara á fullri ferð framhjá þessum gutta, sem hágrét. Eftir nokkrar mínútur voru ansi margir farnir að fylgjast með honum, hann hágrét bara en enginn gerði neitt. Fyrst datt okkur í hug að hann væri settur í skammakrókinn, því konur í sölubás voru mikið að fylgjast með honum, þar sem hann reyndi að klifra niður en hætti alltaf við. Við vildum ekki blanda okkur, töldum þetta uppeldisaðferð, en svo var þetta bara of mikið. Gaui sagði þá við mig „farðu að tala við hann“ eins og ég væri fluent í spænskunni, ég hikaði, en þá sagði Orri „jú, mamma, við verðum, ég skal koma með þér, ég þori!“. Svo við fórum og ég spurði hann „donde esta mama?“, hann hætti að gráta og horfði hissa á þessa skrítnu konu og sagði ekki neitt. Þá kom konan úr sölubásnum, ég spurði hana, en hún þekkti þá guttann ekki neitt. Þá var ekkert annað í stöðunni en að taka litla strákinn upp og forða honum allavega út af götunni. Hann var ekkert á móti því að ég tæki hann upp, ég notaði rosalega rólega rödd, talaði bara við hann á íslensku á milli þess sem ég sagði „donde esta mama?“ og hann varð rólegur og hætti alveg að gráta. Þetta var svona tveggja ára gutti, klæddur í ponsjó, með hatt, dökkbrún augu og svart hár, Alger dúlla, en táraslóð niður bústnar kinnarnar. Ég spurði leigubílstjóra sem höfðu verið að fylgjast með honum, þeir vissu hvar hann ætti heima, en vildu ekki hjálpa. Bentu mér bara í átt að heimilinu og þá kom maður á hjóli að okkur og bauðst til að fylgja mér með hann. Ég byrjaði að elta kallinn, en þá fór guttinn bara aftur að gráta og ég sagði að þetta væri ekki sniðugt, hann vildi ekki fara. Þá bauðst kallinn til að taka guttann, en sá stutti varð alveg vitlaus þegar ég ætlaði að rétta hann yfir. Þá hlustaði ég bara á instinct og sá að guttinn byrjaði að benta í átt að einni sölugötunni. Ég elti þá áttina sem hann benti, aftur orðinn rólegur, en horfi svakalega hissa á mig öðru hvoru, líklega aldrei séð gringóa svona nálægt. Arnór og Orri eltu mig og voru mín stoð og stytta í þessu, meðan Viktor og Gaui vöktuðu töskurnar og við enduðum á að finna mömmu hans. Þá var hún að spjalla við eina konuna í sölubásum í götunni og hún fékk bara hláturskast þegar hún sá mig með Rico litla!! Það voru nú ekki miklar áhyggjur yfir að tveggja ára barn væri eitt að rölta um bæinn, og þegar ég sagði henni frá hvar ég fann hann, á miðri umferðareyju, þá bara brosti hún og tók hann. Harður heimur hér og nokkuð ljóst að við erum dulítið meiri hænsnamömmur með börnin okkar en þær hér. En hún þakkaði mér fyrir og við kvöddum Rico litla og töltum tilbaka að rútustöðinni þar sem beið okkar 11 tíma rútuferð.
Rútan var svo sem ágæt, ekki mikið pláss og engin fótpallur, þannig að maður hallaði sætinu aftur og reyndi að láta fara vel um sig. Það sem Andrea, sú sem reddaði ferðinni, hafði lýst sem "a little bumby the first part of the journey" reyndist vera um 7 klukkutímar á mesta þvottabrettisvegi sem ég hef prófað. Hristingurinn var slíkur að ég er illa svikin ef appelsínuhúðin sem ég hef auðvitað ekki, sé ekki öll horfin. Nýrnabelti eins og mótorhjólamenn nota hefði komið sér vel og gott ef nýrun eru ekki bara komin niður í leggi eftir þessa ferð. Eeen, þrátt fyrir hristing gekk þetta nokkuð vel, engin bílveiki (sem er gersamlega yfirnáttúrulegt!!) og þar sem ekkert klósett var í rútunni í þessari 11 tíma ferð, þá var stoppað kl. tvö um nótt við lítið joint í litlu þropi og allir stilltu sér í röð við kamar í bakgarðinum, með vatnskönnu í hendinni til að renna afurðunum neðar í rörið sem miða átti í.... ýmislegt skemmtilegt hægt að gera sér til dundurs á nóttunni, en þetta var ekki á vinsældarlistanum mínum.

Salthótelið


Í miðju Salar, er svo þetta hótel, sem er auðvitað allt gert úr salti.

Saltvatnið


Svo var það Saltvatnið!! Svakalegt landsvæði, hvítt svo langt sem augað eygir!! Reynslubankinn segir manni að þetta sé snjór, en svo er sko ekki. Þorpsbúar vinna saltið og selja það um alla Bólivíu, en svo gera þeir sér líka hús úr saltinu. Þetta er magnaður staður og ótrúlegt að vera þarna. Við prófuðum að smakka allt, jörðina, húsin, listaverkin sem eru gerð úr þessu. Allt brimsalt!!

Uyuni og rútuferð og hrrrotel


Stefnan var svo tekin á Uyuni, þar sem bærinn liggur við Salar, en það er eitt stærsta undur Bólivíu. Stórt uppþornað saltvatn, 12þús ferkílómetrar að stærð, sem sagt stærra en Barbados, og 1/10 af stærð Íslands. Uyuni (borið fram Újúní) er hins vegar bær sem er á barmi örvæntingar. Um leið og við stigum útu úr rútunni var fullt af fólki sem stökk að okkur með tilboð um gistingu, ferð að Saltvatninu og aðra túra. Það var rifist um okkur, allir að gera lítið úr tilboði hinna, og á endanum fór Gaui með einum kalli sem hafði hostel þarna alveg við, til að kíkja á herbergin. Hann kom tilbaka og var eitthvað skrítinn á svipinn, spurði mig svo „langar þig að prófa að sofa í fangelsi?“, þá voru herbergin víst alveg eins og klefi. „Fjölskylduherbergið“ var örmjótt, með fjórum rúmum og ekkert annað komst inn, NEMA sjónvarp sem hékk á veggnum. Kallinn gerði mikið úr því „you see, television!!“. Þegar Gaui spurði um klósettið, þá var það bara hinum megin við hornið, sem þýddi ca. tveggja mínútu labb gegnum ranghala hússins. Við erum svo sem engin lúxusdýr, en þetta var aðeins of mikið, þegar maður er með þrjá gutta með sér, mismyrkfælna. Þá fylgdum við stelpu sem var að „headhunta“ á vegum hótels þarna í bænum. Hún lagði mikla áherslu á að þetta væri „hhrrótell, nott a hhrrrostel!“, sagði það ca. þúsund sinnum , þar til Arnór sagði bara „YES, WE KNOW, HHRROTEL!!“. Við vorum ánægð með það sem við sáum þar, tvö samliggjandi herbergi og heit sturta og klósett í herbergjunum. Tókum tilboðinu og einnig tilboði stelpunnar, sem ætlaði að sjá um allt fyrir okkur, hótel, dagsferð í Saltvatnið með „english speaking guide“ og svo rútan til La Paz. Hún sagði okkur að það væri óþarfi að vera tvær nætur í Uyuni, hægt væri að taka þessa fínu næturrútu til La Paz, semi-cama, sem þýðir minni sæti, sem þó er hægt að halla aðeins aftur. 11 tímar, piece of cake! Við stukkum á það. Daginn eftir vorum við hress og kát, þrátt fyrir næturgest á herbergið, sem kom ekki einu sinni, heldur fjórum sinnum! Við vöknuðum sem sagt við skrjáf í pappír sem var í rúslinu og í var ávaxtabörkur, en í hvert sinn sem við kveiktum ljósið skaust kvikinið út undir hurðina. Við giskum á að það hafi verið lítil mús eða eðla, mjög þrjósk og hún hætti ekki fyrr en við settum ruslafötuna út. Hinn fíni enskumælandi guide reyndist nú vera grautfúll bólíviani, sem sagði varla stakt orð, fyrr en hann var búinn að tyggja hér um bil fullan poka af kóka-laufum, en þau eru alls staðar! Þetta er sem sagt lauf af kókajurtinni, þeirri sömu og kókaín er gert úr, þetta er selt alls staðar og svei mér þá ef þú bara missir ekki ríkisborgararétt í Bólivíu ef þú tyggur þetta ekki daginn út og inn. Hann fór með okkur á þetta gríðarstóra svæði sem Salar de Uyuni er, Saltvatnið (og hann var eins og hrossin í sveitinni, hundfúll á leiðinni þangað, en svínhress á leiðinni heim!). Fyrst fórum við í kirkjugarð lestanna. Þetta hlýtur að vera eitt skrítnasta „túrist-attraction“ sem við höfum farið á, fullt af lestum, allt að 90 ára gömlum, sem má klifra á og leika sér í.

Æfingar yfir sjávarmáli

Við vorum komin upp í 3000m hæð í Tupiza, fundum vel fyrir því og vorum mjög sátt við að vera þarna í tvo daga, meðan við vorum að venjast hæðinni. Við prófuðum á öðrum degi að taka smá æfingu (hindu push ups á videoi), og það var freeekar erfitt. Eftir 1 mínútu vorum við farin að blása eins og offitusjúkir stórreykingarmenn á kvennafari og þurftum pásu, hehe. Skil vel að Bólivíska landsliðið hafi unnið það Argentínska 6-1 á vellinum í La Paz í síðasta mánuði, en þar eru þeir um 4500m yfir sjávarmáli. Bólivíu-búar voru að vonum ánægðir, Maradonna ekki sáttur og Argentína í sárum. En hvað er hægt að gera í þessari hæð!!! Þetta er svakalega ólíkt því að hlaupa við sjávarmál.

Tupiza - Uyuni í Bólivíu


Vid tókum bus frá Tupiza til Uyuni. Tupiza var litill og hrar bær, eins og felst er í sveitum Bolivíu, litid um liti hér. En fólkid í Tupiza var glaðlegt, þó það væri alvarlegt og maður fann hjálpsemina og umhyggjuna fyrir sér og sínum. Ferðalagid til Uyuni var gegnum gríðarlega fallega náttúru og um leid svakalega þurra náttúru og óblíða. Þetta var þokkalega hressandi vegur, miklar sveigjur og ef það var ekki gil hægra megin, þá mátti bóka að það væri vinstra megin! Bílstjórinn keyrði eins og herforingi. Við keyrðum yfir sléttur og fjöll, en vegurinn var í ágætis standi, mun betri en við í raun bjuggumst við, eftir það sem við höfðum lesið. Það er líklega góður tími núna að ferðast á vegunum, regntíminn liðinn og vegurinn því nokkuð heill, eftir viðgerðir. Alls staðar á sléttunni eru litlir harðgerðir runnar og kaktusar, brúnn sandur á milli þeirra og svo hér og þar liggja naut eða asnar í leti. Dýrin eru vísan á mannabústaði í nánd, sem þegar þeir koma í ljós, eru leirkofar, yfirleitt vatns- og rafmagnslausir. Alveg ótrúlegt stundum að fólk búi í þessum kofum, en oft hanga föt á snúru fyrir utan, sem ég myndi taka sem tákn um stolt og dugnað, því það er sko ekki auðvelt að lifa þarna. Við erum einu „gringó-arnir“ í rútunni, aðrir innfæddir og öðru hvoru kemur einhver röltandi fram í rútu, bankar á gluggann hjá bílstjóranum og það er þá merki um að eigi að stoppa. Eiginlega „in the middle of nowhere“. Furðulegt að hugsa til þess að meiri hluti Bólivíu-búa hafi í raun lifað á þessum sléttum og fjalllendi.

Friday, May 1, 2009

Markadir


I Tupiza (sja frasogn fyrir nedan, allt i vitlausri rod hja mer, sorry, bara svo glod ad komast a netid og geta bloggad, hefur ekki verid mogulegt hingad til i Boliviu, komin med frahvarfseinkenni, svei mer ta, tvi Bolivia er svakalega serstok og mikil upplifun sem eg verd ad koma a bloggid, til ad deila med ykkur heima!). Allavega, her er flest haegt ad kaupa a morkudum, og eg hef ekki enn sed eina einustu "venjulegu bud" her, allt i Kolaport-stil eda bara ad folk situr uti a gangstett med tad sem tad er ad selja, farsimahulstur, supu, koka-lauf og hvad sem er. En svo sjaum vid stundum svona bása, tetta eru solubasar tar sem seld eru galdralyf og alls konar "alternative" laekningar. Medal annars haegt ad kaupa turrkada lambaskrokka.. Anyone?? Bara ad lata vita ef ykkur vantar, hef reyndar ekki hugmynd um hvad turrkadur lambaskrokkur aetti ad laekna, en tad hlytur ad vera eitthvad magnad... Svo sa eg auglysingu um "exotiska drykki" sem haegt var ad kaupa ser. Lama-dyrs-saedi!!! Anyone?

Kosningavakan :)


Klaednadur


Folkid herna klaedist toluvert odruvisi fotum

en vid erum von. Allavega eldri kynslodin. Konurnar eru i tessum tykku peysum, oft med tykk teppi yfir ser, nokkrum pilsum, tykkum sokkabuxum og flatbotna skom. Svo eru taer med tessa svakalegu pipuhatta, grafalvarlegar og tungt hugsi. Yngri konurnar eru svo oftast med eitt barn eda svo a bakinu og nokkur i kringum sig. Tad sem er svo ahugavert, er ad unglingarnir eru i gallabuxum og bol, stelpurnar gellulegar og bara mjog evropst utlit. Tad er tvi skritid ad sja foreldra og born ganga saman nidur goturnar, eins og ad sja nitjandu old og tuttugustu old ganga hond i hond.

Komin til Boliviu


Vid erum komin til tessa serkennilega lands, eftir 8 manudi a ferdalagi, 4 i karabiska hafinu (hljomar voda eksotisk, en mest af timanum vorum vid nu a pinkuponku litilli eyju, Barbados :) og 4 i Sudur-Ameriku. Eg

get ekki notad mina eigin tolvu her (tess vegna engir isl stafir nuna) og mjog erfitt er ad komast a netid her i Boliviu, enda flest i landinu moprgum arum a eftir i tima. Tad er eiginlega tad serkennilegasta vid tetta land og stundum erfitt ad kyngja tvi sem madur ser. Serstaklega tegar svinaflensan er ad ganga yfir, tvi tad er svo sannarlega otrifnadur og mikil fataekt her, og eg get eiginlega ekki imyndad mer hvernig aetti ad dila vid svo slaema veiki i teim adstaedum sem eru her. En nog um tad, flensan er ekki ennta komin hingad, fleiri tilvik a Spani i eftirliti en herna.

Vid komum inn i Boliviu gegnum landamaeri vid Argentinu eftir naeturferdalag i rutu. Hofdum hangid i hotellobbyi fram a midja nott, horfandi a kosningasjonvarpid i tolvunni a medan vid bidum eftir ad rutan aetti ad fara. Svo kom loks timi til ad koma ser af stad, kvedja Argentinu, sem er yndislegt land. Tegar i rutuna kom, vorum vid oll alveg utvinda, hlokkudum bara til ad fa teppid og koddann sem alltaf er lanad og fara ad sofa. En, nei, engin slik tjonusta tann daginn, svo vid vorum half eymdarleg, oll aukafot i toskunum nidri og vid reyndandi ad gera teppi ur stuttermabolum og peysum. Tetta reddadist og vid voknudum vid landamaerin naesta morgun, half myglud enda vaknar madur toluvert oft a tessum ferdum, allavega vid Gaui. Orri sefur eins og engill i rutunum og er alltaf tvilikt katur og hress, svo vid gomlu fyllum vel upp i hlutverkid "tau gomlu!". En baerinn vid landamaerin, het eitthvad Q, man ekki i bili, vid stoppudum bara 10min, var toluvert olikur restinni ad Argentinu. Hrar, kaldur, engir litir og vid bara fegin ad drifa okkur yfir til Villazon. Vissum litid um ad tetta var tad umhverfi sem koma skyldi naestu daga, hratt, kalt og brunt! Tad gekk rosalega vel ad fara yfir landamaerin og vid forum beint i ad leita ad lestinni, tvi vid hofdum lesid ad tad vaeri ekki snidugt ad ferdast med rutum i Boliviu, mun oruggara med rutu, tvi bilstjorar sjaldnast edru. Vid spyrjum eina logguna hvar lestarstodin vaeri, en hann sagdi okkur ad von vaeri a naestu lest eftir tvo daga! Vid aettum bara ad taka microbussinn!! Ok, rutur slaemar, hvernig eru ta microbussar! Vid druslumst af stad med toskurnar yfir rykugar gotur i att ad rutustodinni, faranlega mikill farangur midad vid bakpokalidid, sem roltir lett a faeti i mussunum sinum med allt sem tad a, a bakinu. Tegar vid komum tangad, stekkur Gaui inn medan vid guttarnir bidum med toskurnar og skodum mannlifid. Eg stod og horfdi a gamla rutu sem var full af folki, varla haegt ad kalla rutu, hugsadi eg og nefndi hana "rydhrugu" i huganum. Ta kemur Gaui katur ut, bendi a rydhruguna og tilkynnir "tetta er okkar ruta, forum eftir 10 min! Heppin!!". Eg gat svo sem litid motmaelt, vildi komast af stad, og undirbjo mig undir ad byrja ad lifa eins og innfaeddir, treysta a Gud og lukkuna. Rutan var vel full, gerd fyrir um 50 manns, en ca 60 inni i henni, sem er vist ekki svo slaemt, tvi enginn hekk utan a, og farangurinn var geymdur inni i farangursholfi, en ekki uppi a taki. Ferdinni var heitid til Tupiza, sem er i 3000 m haed og tar var meiningin ad vera i tvaer naetur til ad venjast haedinni. Ferdin gekk nokkud vel, an hremminga, tetta voru 92km, sem tok adeins um 4 tima ad keyra, tvi rutan biladi bara tvisvar. Hjon sem satu fyrir aftan okkur, a okkar aldri med tvo born (og bara tvo saeti, tad hefur vakid nokkra athygli ad Orri fekk sersaeti, krakkar sitja i fanginu, til ad spara aurinn) og eftir tveggja tima ferd for kallinn ad forvitnast um hvad tetta fyrirbaeri vaeri sem Viktor var med i eyrunum. Ipod. Hann fekk ad profa, og tad var hrikalega gaman ad sja hann lifna vid, byrja ad flissa og dilla ser! Sjaid hann a myndinni.