Saturday, November 29, 2008

Hitt og þetta


Lífið gengur áfram hér og við njótum þess. Nú er nóvember bara að klárast og á morgun erum við búin að vera hér í 3 mánuði!! Tíminn hefur liðið alveg rosalega hratt og ég viðurkenni að ég ELSKA að geta ráðið svona hraðanum sjálf. Þegar við vöknum, (þá er ég að tala um okkur guttana, því Gaui vaknar alltaf korter í sjö á morgnanna til að byrja að vinna), þá eldar Viktor graut (yfirleitt um áttaleytið). Hann er orðinn alger snillingur í morgunmatnum okkar, eldar langbesta hafragrautinn í fjölskyldunni. Við borðum hann í rólegheitum, svo leika strákarnir sér aðeins, eða dunda sér við lestur og teikningar, áður en við byrjum að læra. Allt á okkar hraða, og ég meina það, það er ótrúlegt hvað lífið er stresslaust og þægilegt og samt náum við að gera heilmargt. Strákarnir eru mjög duglegir í skólanum, Viktor tók t.d. samræmdu prófin sem bekkurinn hans tók í október (fengum þau send) og fékk 9,7 og 9,2 í þeim. Arnór er að læra reikningaðferðir sem kenndar eru á vorönninni í 5. bekk og Orri er að margfalda og deila (veit hreinlega ekki hvort þau geri það í 1. bekk) og svo er lesturinn alveg að koma hjá honum. Og ekki bara það, enskan flýgur áfram hjá þeim, við Gaui getum alls ekki notað hana lengur til að tala um leyndarmál, Viktor skilur allt og Arnór flest allt. Það er helst þegar við erum að tala um afmælið hans Orra, sem er 1. des, að við getum notað ensku, því Orri er kominn styst og því hægt að ræða gjafirnar hans án þess að hann skilji.


Orri var annars ansi góður við pabba sinn síðustu helgi. Þá var Nottingham Forest að spila, og leikurinn sýndur beint á Setanta-stöðinni, sem við höfum hér. Gaui alveg brjálæðislega spenntur fyrir leiknum, tilkynnti hátiðlega að EKKERT myndi koma í veg fyrir að hann sæi þennan leik. Þá kom náttúrulega í ljós að fótboltinn hans Arnórs væri að halda mót, nákvæmlega á sama tíma. En það hindraði kallinn ekki, hann sá fyrri hlutann, og svo keyrði hann heim til að sjá sitt ástkæra Forest. Hann útskýrði það fyrir Arnóri, enda með smá erfiðleika að velja, Forest-leik eða Arnór í Kick start leik. En Arnór skildi það vel, sagði með innlifun við mig eftir á: "ég meina, hann hefur ekki séð þá vinna í SJÖ ár!" Svo við Arnór tókum strætó heim eftir mótið, sem er alltaf ævintýri út af fyrir sig, því strætóbílstjórarnir keyra eins og brjálæðingar. Allir gluggar opnir, strætó stútfullur, við þurftum að standa, músík á hæsta og svo klikkaðar beygjur og maður sveiflast og hendist til, vindurinn í hárinu svo ég sé ekkert út, en hreyfist svo mikið vegna akstursins að þetta kemur út eins og skrykkdans við þessa geðveiku músík sem örugglega er búin til eftir eina eða fimm jónur.


Allavega, Forest tapaði....... ekki bara tapaði, heldur gerði sjálfsmark, sem varð sigurmark leiksins...... og Gaui minn var viðkvæmur eins og unglingsstúlka í hjertesorg í nokkra klukkutíma á eftir. Strákarnir voru rosalega góðir við hann, miklu betri en ég, sem skil þetta kannski ekki alveg. Orri gerði frábært "bréf" til pabba síns í þessari sorg og í því var mynd, hann teiknaði Forest merkið, hjarta og skrifaði með barnastöfunum sínum "Forest tabar alrei meir". Hrikalega sætt og Gauja leið aðeins betur. Nokkrum dögum seinna, þegar ég sat í stólnum, djúpt sokkin í vinnu vegna kettlebells.is, þá fékk ég bréf frá Orra. Það voru innpakkaðir sokkar og í litlu bréfi stóð "Mamma, sokkar í þvott".


Þessi helgi er stór fríhelgi, því það er Indipendance day á morgun, 30. nóv. þá fagnar Barbados 42 ára sjálfstæði. Þeir eru reyndar búnir að vera að fagna allan nóvembermánuð, en hátíðahöldin ná hámarki þessa helgi. Frí í skólum á mánudaginn og allt. Okkur Gauja er boðið í einhvern rosalega fínan mat í kvöld, en þar sem við þekkjum ekki neina barnapíu fer hann líklega einn í þetta fínerí. Svo í fyrramálið ætlum við í messu, takk fyrir. Það verður messa í kirkju sem einn pabbinn í fótboltanum er prestur í, kirkjan heitir "Family church" eða eitthvað í þeim dúr, er mikið fjör, mikið sungið og klappað og börnin koma með skemmtiatriði og dansa og svona. Ég er spennt, þetta verður dálítið mikið öðruvísi en messa heima á Íslandi grunar mig, hmmm. Svo verður það afmæli Orra á mánudaginn!!!!!

Thursday, November 27, 2008

Af því það er stormur á leið til Íslands...

...þá viljum við senda ykkur góða strauma héðan úr sólinni og sýna ykkur video af guttunum í sjónum í fyrradag :) Njótið!!

Monday, November 24, 2008

Lítill froskur..


..þessi var inni hjá okkur, var alveg að deyja, því þeir þola svo illa hitann og þurrkinn inni í húsum. Þetta er sama tegund og sér um sönginn á nóttunni, þeir syngja alveg frá fimm á daginn þegar byrjar að dimma, til sex næsta morgun og eru svipað stórir og þumalfingursnögl. Arnór bjargaði lífi þessa frosks, hjálpaði honum út og vökvaði hann. Hann var fyrst alveg máttlaus, eins og skorpin rúsina (næstum því) og lá bara, svo smám saman tútnaði hann út og varð svona ljómandi kátur og hress.

Fyrir Búbba vin minn


Hér sérðu feimna skjaldböku, hún er að fela sig!

Fyrir Búbba vin minn


Hér er stór stór eðla, iguana.

Sumt er öðruvísi...


Örlítið innlegg hér, við erum að pæla í því sem er ólíkt með Íslandi og Barbados. Er skólaverkefni fyrir strákana og við erum komin með ansi langan lista hér hjá okkur. Eitt af því hressilegra er t.d. þessi hárkolluhefð hér, í búðum er algent að sjá tilboð "2 wigs for the price of 1". Daman sem þrífur hjá okkur vikulega á þessa hér. Held ég geti fullyrt að þessa sjón myndi maður ekki sjá á Íslandi: Hárkolla hengd upp á snúru, meðan verið er að skúra!

Friday, November 21, 2008

Met!!


GYLFI! Bestu kveðjur frá Orra, og takk fyrir commentið, hann saknar þín líka og hlakkar rosalega til að koma að leika við þig þegar hann kemur aftur til Íslands :)
Það er orðið opinbert. Elstu menn muna ekki eftir öðru eins rigningarhausti hér á Barbados, þótt farið sé meira en hálfa öld aftur í tímann!!! Þetta geta þeir kannski þakkað Íslendingunum á Risk Road, hver veit? Á myndinni eru guttarnir í vatnsstríði, því hvað er betra en vatnsstríð í hlýju og rigningu? :) En við erum satt að segja að verða soldið langeyg eftir því að rigningartímabilinu fari að ljúka. Bæði eru strandferðirnar svo óskaplega mikilvægur partur af dvölinni hér, og það er kalt að fara á ströndina í rigningu (kalt á mannlegan mælikvarða, ekki íslenskt-frost-mælikvarða...) og svo eru fj... mýflugurnar eiturhressar í svona bleytu. Ég vaknaði í morgun, og í stað þess að láta mitt fyrsta verk vera að spreyja repellent-spreyi á mig, eins og venjulega, fór ég út í forstofuna til Gauja, með kaffibollann minn, settist hjá honum í 5 mínútur og það var sko ekki að spyrja að því. Ég var aðalgellan í mýflugnageiminu. Þremur bitum og einum kaffibolla seinna spreyjaði ég á mig "vellyktandi" (amma Vala kallaði alltaf ilmvatn vellyktandi, nema þetta er ekki vellyktandi, heldur Deep forest (aka. repellent)) og þá vildu þær mig ekki meir. Við í fjölskyldunni þurfum að nota þetta sprey daglega, því annars erum við bitin ansi mikið. Mamma hins vegar var lítið í spreyinu þegar hún var hér, og var samt mjög lítið bitin. Hún hélt því fram að þetta væri vodka-sjússinn sem hún fékk sér á kvöldin hér, sem fældi flugurnar.... Vont er, ef satt reynist, því mér finnst vodka svo asskoti vont. Getur rauðvín ekki virkað eins....??


Á fimmtudagskvöldum er alltaf voðalega huggulegt að koma heim á Risk Road eftir æfingasíðdegið. Þá hefur Muriel verið hér og allt er hreint og fínt, nýtt á rúmum, hrein handklæði og búið að ryksuga og skúra. Við höfum ekki svona lúxusþjónustu heima, en konan sem leigir okkur, vill hafa þessa þjónustu innifalda í leigunni. Hún hefur nefninlega lent í því að fólk sem hefur verið að leigja hér, hafi þvegið sængurfötin, sett alla liti saman og allt orðið grátt. Við erum alveg sátt við að vera ekki treyst fyrir þvottinum, kvörtum ekki yfir því!! Það virðist vera nokkuð algent að fólk hafi konu að þrífa hjá sér hérna, og jafnvel heimilishjálp, eða eins og þeir segja "maid". Ég var að spjalla við eina mömmuna á æfingu í gær og sagði henni að ég væri svo hissa á því að öll þessi drulla sem kæmi í fótboltabúning strákanna á æfingum, næðist úr í þvotti. Því trúið mér, það er ekki lítið sem þeir verða drullugir, enda völlurinn eitt moldarsvað núna í rigningunum. Þá segir hún sisona: "yes, my maid washes it by hand, she just scrubbes and scrubbes till it´s white again". Ég vissi ekki hvoru ég var meira hissa á, að hún hefði maid eða að maid-in væri ennþá í því að skrúbba og skrúbba, þegar það eru hvað... fimmtíu ár síðan þvottavélin var fundin upp! Já, svona eretta. En ég er náttúrulega manneskjan sem setti lopapeysuna sína í þvottavél eftir Verslunarmannahelgi, til að ná lynginu úr henni.... þarf líklega ekki að segja frá því að út kom þykkur lopahnullungur, þakinn lyngi.


Eitt það allra skemmtilegasta við Barbados er gríðarlega fjölbreytt dýralíf. Þegar ég sest út á tröppur og sit kyrr í smástund, þá sé ég yfirleitt heilmargar eðlur töltandi á veggnum fyrir framan, litlu froskarnir hoppa í grasinu, fuglar af öllum stærðum og gerðum fjúga um og setjast rétt hjá manni, sníkjandi mat. Í götunni vagga hænur og hanar gaggandi um, beljur kíkja letilega á mann þegar maður labbar framhjá, kettir rölta um göturnar og hundar í hverjum garði. Hænurnar eru alls staðar, við getum verið að keyra niðri í miðbæ og allt í einu verður allt stopp af því tvær hænur eru að labba heim, yfir götuna. Á kvöldin höfum við verið að dást að fuglunum sem eru í trjánum í hlíðinni fyrir aftan hús. Þessir fuglar sýna rosalega kæti þegar byrjar að dimma, þá lifnar yfir þeim og þeir fljúga eins og listflugvélar, taka rosalegar beygjur og snúninga. Við höfðum lengi dáðst að þessari kæti, var svo óskaplega krúttlegt, þó ég gæti ekki alveg skilið af hverju þeir væru svona glaðir yfir því að nóttin væri að koma..... þar til okkur var sagt að þetta væru leðurblökur.

Saturday, November 15, 2008

Guttar í Kick Start


Hér sjáið þið mynd af Orra og Arnóri í búningum Kick Start. Þetta er frábært lið og guttarnir eru í tveimur flokkum hvor hjá þeim. Orri sem sjálfur er 5 ára, æfir með 6-7 ára á þriðjudögum og með 4-5 ára á fimmtudögum. Fyrri hluti æfinganna er yfirleitt stöðvar. Það eru 6 þjálfarar (allir fullorðnir) með hópinn, milli 30-40 krakka. Seinni hluta æfinganna er svo yfirleitt spilaður leikur. Þá hrúgast mömmurnar út á völlinn, vaða drulluna á háu hælunum sínum, haldandi á regnhlífinni sinni (regntímabil núna). Þar standa þær við hliðarlínuna og garga og öskra nafnið á sínu barni og "go on, finish him" eða "score.. kick it.. come on.. SCORE!!" og verða svo yfirspenntar, fagna GEÐVEIKT þegar það er skorað. Þetta finnst mér soldið skrítið, sérstaklega þar sem þetta er á æfingum (eru ekki keppnisleikir) og svo eru þetta 4 og 5 ára guttar sem verið er að öskra á! Mörkin verða yfirleitt þannig að einn guttanna nær að sparka boltanum út úr þvögunni, sem svo trillar rólega framhjá markmanninum, sem er að róla sér í þverslánni eða bora í nefið :) Held það kæmi skrítinn svipur á þjálfarana heima, ef mömmurnar létu svona á æfingum heima, hehe. En það er hvetjandi að hafa áhugasama foreldra og það vantar sko ekki hér.


Arnór, sem er 9 ára, æfir með 9-10 ára á miðvikudögum og 11-12 ára á fimmtudögum. Á laugardögum er svo aukaæfing sem Arnór fer yfirleitt á, þar er hann með 12-18 ára gaurum. Svo eru stundum leikir hjá þeim stóru á sunnudögum. Á morgun verður stórt mót, þá verða spilaðir nokkrir leikir og það er aldurshópurinn 11-12 ára sem er að spila. Það fara bara tvö lið úr öllum hópnum, sem eru um 35 gaurar, svo það komast ekki allir að úr flokknum. En okkar maður var valinn (bara 9 ára, og samt valinn!!!) svo það verður fótboltadagur á morgun. Áfram Kick Start!


Þjálfararnir tala mikið um hversu gott viðhorf strákarnir okkar hafa. Segja það frábært hvernig þeir gera alltaf eins og sett er fyrir á hverri stöð, leggi sig alla fram og kvarti aldrei. Það er víst stundum vandamál hérna, að mörg börnin kvarta mikið, nenna ekki að hlaupa, segjast vera þreytt, koma oft of seint og hlusta ekki á þjálfarann. Líklega íslenski víkingurinn í guttunum okkar. Held reyndar að þetta sé ríkt í okkur Íslendingum, að kvarta ekki, bíta á jaxlinn, halda áfram og gera sitt besta. Sjáið bara Hermann Hreiðars, Eið Smára, Brynjar Björn, Margréti Láru og fleiri góða. Þetta eru seigir einstaklingar sem gefast aldrei upp, sama hvað!! Frábærar fyrirmyndir fyrir íslenska krakka! Og við megum ekki gleyma því hvað það er mikilvægt að hafa góðar fyrirmyndir, ekki bara heima fyrir, heldur líka úti í þjóðfélaginu. Tala nú ekki um, þegar á móti blæs. Chin up!

Monday, November 10, 2008

Áhyggjur... hmm, óþarfi!


Mikið er nú gaman að sjá að fólki er ekki sama um hvernig honum Gauja líður. Eða allavega flestum, fékk nokkur "samúðarskeyti" frá vinum sínum, sem rifja upp frægðarferðir upp, en aðallega NIÐUR flaggstangir, ekki munandi eftir litla (allt í einu stóra) nabbanum sem maður festir fánareipið á. Kann ekki við að nefna nein nöfn, en veit að Gilli er búinn að feðra þrjú frábær börn, svo ekki hafa fjölskyldudjásnin skaddast mikið.


En Gaui hefur það fínt núna, sárið er batnað og hann er eiturhress og aftur farinn að horfa hlýlega til pálmatrjánna. Hann er svo mikill warrior í sér, lætur ekki svona hnjask trufla sig, fór meira að segja í sjóinn sama dag, eftir flugferðina, til að láta saltið hreinsa þessi risasár. Það er harka, my friends!


Hann setti mig í æfingu síðasta miðvikudag sem ég finn ennþá fyrir. Honum datt æfing í hug, að labba upp tröppur með þungan sandpoka á öxlunum og taka hindu armbeygjur milli umferða. Einfalt og erfitt. Ég var til í að taka þannig æfingu, hann hafði gert hana daginn áður og hún tók vel á sagði hann mér. Ég skellti ipodnum í eyrum og sandpokinn var um 25kg. Hver umferð var tíu ferðir upp á næstu hæð, niður aftur og svo tíu armbeygjur. Sú fyrsta bara létt. Önnur umferð+tíu armbeygjur, létt, þriðja umferð, ok, fjórða, ok, fimmta, soldið erfitt (búin að labba upp á fimmtugustu hæð og niður aftur með sandpokann). En ég þurfti auðvitað að gera eins og Gaui, það voru tíu umferðir af tíu ferðum. Ég kláraði það, helv.. erfitt, en mér leið ágætlega. Gaman að labba upp hundrað hæðir og niður aftur, eins og Empire States. En svo vaknaði ég daginn eftir, Oh my God!!! Ég gat ekki hreyft kálfana! Og ekki heldur næsta dag, eða þann næsta, haha. Og það er alveg hreint lygilegt hvað kálfarnir þurfa alltaf að taka þátt í daglegum hreyfingum! Ég er að byrja að jafna mig núna, finn ennþá þegar ég stend upp úr stólum, samt eru komnir fimm dagar síðan. Þetta fólk :)


Helgin var frekar róleg hjá okkur, Gaui náði sér í smá flensu og var slappur á laugardag. Við guttarnir vorum heima mestan hluta dagsins, en fórum aðeins á ströndina að busla. Voða næs. Á sunnudeginum var planið að sofa út, vel og lengi, en við vorum nú samt vakin við símtal kl. 8 um morguninn. Í alvöru, það þykir bara ekkert abnormalt að hringja í heimahús kl. 8 á sunnudagsmorgni. Og nú er ég búin að fatta eitt, þau fara nefninlega í messur hérna kl. 7 á sunnudagsmorgnum! Pælið í hvernig mætingin væri í kirkjur heima á Íslandi ef messur væru kl. 7! Held það væri hægt að telja fólkið á fingrum annarrar handar, þó svo maður teldi prest, meðhjálpara og organista með. En ekki nóg með að fólk hringi fyrir allar aldir, heldur er ísbíllinn alltaf mættur uppúr 7 um helgar. Helgar eru greinilega ice cream-time hjá Bajanbúum og líklega gildir "fyrstur kemur - fyrstur fær" því hér trillar ísbíllinn spilandi sitt skræka litla hressa lag upp og niður allar götur í hverfinu. Og það skemmtilega í þessu er að þegar hundar hverfisins heyra íslagið "góða", þá kemur yfir þá gríðarleg sönglöngun, og þetta endar allt í allsherjar góli hvar sem litli gleðibíllinn er "aúúúúúúúúÚÚÚÚ AÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚ!!!!!!!!!!!!!!!!" því allir eiga hunda hér á Barbados, nema við. Fjörið byrjar upp úr 7 á morgnanna, beautiful :) Annars eru ísbílarnir hrikalega flottir. Þið vitið þessir pínulitlu vinnubílar, sem maður veit ekki hvort eiga að kallast pallbílar eða minivörubílar því þeir eru með pall, en líta út eins og vörubílar að framan, en eru svo rosalega litlir að maður fer í algera flækju ef maður þarf að lýsa svona bílum....... allavega. Þannig eru ísbílar þessa lands, með pall og svo er bara frystikista á pallinum. Voila! Ísbíll!! Off we go! Þarf að ná mynd af svona bíl til að sýna á blogginu. Annað sem ég þarf að ná mynd af, er hárkollan sem ræstingakonan hengir upp á snúru hérna, meðan hún skúrar, en það er önnur saga. Hefur nokkrum sinnum hrætt úr mér líftóruna, þegar ég hef NÆSTUM því gengið gegnum hana...


Á myndinni er pálmatré, af því það er svo mikið af pálmatrjám hérna og þau eru bara svo hrikalega flott. Og gaman að klifra ... allavega UPP!

Friday, November 7, 2008

Bloggleiðbeiningar


Hæ, mig langar að setja aftur inn leiðbeiningarnar sem mamma setti inn fyrir nokkru, það er nefninlega svo hrikalega gaman að sjá að þið eruð að lesa þetta, sérstaklega svona hressileg komment eins og þetta í síðustu færslu, hehe :)


Gummi, takk fyrir peppið og þótt ég efist um að ég taki brekkuna á fimm mínútum þá er allt mögulegt þegar andinn er með í hlutunum!!


Erna, hrikalega gaman að heyra í þér, ég vona að þið Elmar og litla dúllan hafið það gott! Ertu nokkuð komin aftur í Þrekið..?? Hmmm..


Júlíana, æðislegt að heyra í þér og að þið Ernir lesið þetta hjá okkur :)


Bimba, þú ert æði, takk fyrir flott og hvetjandi orð til okkar allra!


Arna, hvernig gengur á Reykjalundi?? Ertu ekki að slá í gegn? :)


Guðrún, takk fyrir commentin og strákarnir biðja rosa vel að heilsa Magnúsi Kára, tala oft um hann og þegar þeir voru saman í sveitinni! Vona að þið haldið áfram að lesa!


Habbsan okkar, við leggjum ekki ennþá í kafaranámskeið, en kannski kemur þú okkur í stuðið ;)


Gilli og María, hvenær komið þið að hitta okkur, verður það í Ecuador?? Hljótum að geta fundið sumarbústað þar!


Siggi Ólafs, takk fyrir frábær orð, eruð þið ekki byrjuð að safna fyrir heimsreisu??! Þó þið séuð risafjölskylda er allt hægt :)) Biðjum að heilsa Hildi og liðinu!


Bragi, ertu kominn aftur í Rauðu ástarsögurnar, eða ertu enn að lesa bloggið okkar? Eruð þið ekki á leiðinni út í heim að hitta okkur? Ekki alltaf hægt að fara til Noregs, þótt þeir séu einu vinir okkar..! Nú er það Suður-Ameríka next!!
Halla okkar og Lói á Svanshóli, takk fyrir ykkar komment, við breytum kannski nafninu á þeim stutta :) Biðjum að heilsa öllum í firðinum og þótt víðar væri leitað. Bara búið að finna heitt vatn á Klúku!!!! Knús til Viktoríu og grísanna!

Og þið öll sem eruð að lesa, frábært að þið fylgist með okkur, gerir lífið svo skemmtilegt að heyra í ykkur og við hugsum mikið til ykkar allra og hlökkum til að sjá ykkur öll aftur! Ætlum samt að halda áfram að njóta ferðarinnar, enda búin að bíða lengi eftir henni :)))))))))

Á myndinni er mamma mín þegar hún var hér hjá okkur á Barbados. Passar vel að hafa mynd af henni núna því hún skrifaði inn þessar bloggleiðbeiningar. Sjáið kistuna við hliðina á henni, það er nú heppilegt að maður sé ekki að ferðast með svona "kuffort" lengur!! Ööörlítið þægilegra í dag.., jafnvel þannig að svona litlar konur eins og mamma mín geta ferðast með mun meiri þyngd en leyfileg er. Ég var annars að labba með Viktori í Bridgetown í gær eftir æfinguna hans. Komið smá myrkur og þá töltir til okkar maður sem ætlar að betla af okkur, kallar "hey guys!" svo þegar hann er kominn ca. 30cm að mér kemur "oh... sorry mam..". Hann hélt ég væri gaur! Og ég hef ekki einu sinni þá afsökun að hann hafi verið drukkinn.

HÉR ERU LEIÐBEININGAR:


Leiðbeiningar um bloggsvar, vegna spurninga um slíkt:Skrifa skilaboð í rammann "Leave your comment"Smella á löngu línuna: Word verification.Skrifa skrýtnu stafina þar.Merkja við Anonymous. Neðarlega.Smella á "Preview"Smella á "Publish this comment" Vinstra megin þegar skilaboðin birtast.Þá á að koma melding um að móttakandi þurfi að viðurkenna móttöku, efst á skerminum.
Svo ef það eru prívat skilaboð, eitthvað ógisslega djúsí.. þá er meillinn kettlebellsiceland@gmail.com

Klifrukettir

Við höfum aðeins verið að ná okkur sjálf í kókoshnetur. Þegar við finnum pálmatré sem ekki eru á einkalóðum. Hér á myndinni er Viktor að ná sér í hnetu, nokkuð hátt klifur en hann er nettur í þessu. Arnór náði sér líka í kókoshnetu, sem og Gaui.

Sá síðastnefndi átti reyndar ágætis flugferð á leiðinni niður, rann niður eftir öllu trénu, en ósjálfráð viðbrögðin að halda sér fast gerðu, að hann klemmdi lærunum saman alla leiðina niður. Þetta olli því að hann slapp við fótbrot, en fékk rúmlega lófastór sár innan á lærin báðu megin. Ef hann væri kona sem stundaði elstu atvinnugrein í heimi væri hann óvinnufær...

Áhorfandi á fótboltaleik


Þetta litla bjútí var á fótboltaleiknum sem Arnór var að keppa í síðasta sunnudag. Er eins árs, litli bróðir eins í liðinu og hafði nú meiri áhuga á ruslinu sem hann fann í grasinu, heldur en fótboltaleiknum. Hann á mömmu sem er frá Barbados og pabba frá Jamaica. Greinilega góð blanda!! Hann heitir Izea.

Gefa sting-rays að borða


Tveir þorskar horfast í augu


Monday, November 3, 2008

Kosningar


Nú sitjum við hérna í sófanum hjónin, að fylgjast með síðustu klukkutímunum hjá Obama og Mccain fyrir kosningar. Það er mikið fylgst með þessu hérna á eyjunni og auðvitað hefur Obama fleiri á sínu bandi hér. Þeir harðneita samt að hann sé svartur, finnst hann vera mun meira hvítur en svartur. Fyndið, því svo finnst þeim hvítu hann vera svartur. Og "spænskumælandi-fólkið" (latinos/hispanics) í USA viðurkennir hann ekki sem einn af sínum, enda með svartan föður og hvíta móður, svo hvaða hópi má maðurinn tilheyra. Og enn furðulegra að það skuli skipta máli, þegar fólk er að kjósa. Common, eru það ekki málefnin og maðurinn sjálfur sem skipta máli, ekki liturinn. En það er mikið rætt um þetta hér og við erum orðin miklir CNN áhorfendur hér á kvöldin. Á morgun verður svo kosningapartý hjá Armstrong (þetta er maðurinn sem kynnti sig sem "the loudest man in the neigbourhood, and I never make any noise, HAHAHAHAHA) hann var sem sagt að segja okkur hvað þetta væri rólegt hverfi. Svo er hann bara með standandi partý, kallinn. Hann er búinn að bjóða okkur (alltaf svo social, enda frá St. Lucia) og ætli við kíkjum ekki. Hann er með skjávarpa og svaka tjald sem hann dregur niður og gerir stofuna sína að litlu bíó (kosningabíói). Mikið vona ég líka að Obama vinni!! Bara svo það sé nú á hreinu :)


Og úr einu stórmálinu í annað.. nú var bara kominn tími til að gera eitthvað í hárinu á mér! Ég var að spá í að fara og reyna að finna einhverja stofu á hótelunum hér nálægt, því þar væri meiri möguleiki á stofu sem væri vön "hvítu hári". Er ekki orðin svona snögglega gráhærð, heldur að meina sem sagt "ekki afró hári". En Gaui hélt nú ekki, skildi ekki hvaða vesen þetta væri í mér, rándýr þessi hótel.... Ég reyndi að útskýra að ég vildi strípur og smá klippingu og þær væru örugglega ekki með neina reynslu í hári eins og mínu (hárið alltaf svo viðkvæmt hjá manni :) og Gaui svaraði að bragði: "hvað meinarðu "ekki reynslu", þær eru allar meira og minna með gular og bláar strípur hérna þessar svörtu, þær kunna þetta örugglega..". Já, mjög freistandi. En ég er líka frekar nísk með peninginn, enda krónan svo sem ekki á fljúgandi ferð upp á við, svo ég endaði í því að kaupa bara lit í súpermarkaðinum. Og er sem sagt búin að lita hárið í fyrsta sinn. Þetta er ansi ansi dökkt, stóru strákarnir horfðu á mig og spurðu svo "mamma, af hverju ertu að þessu..?" "er ekki hægt að losna við þennan lit?.." Mjög uppörvandi, en þeir vilja helst aldrei breytingar á hári. Orri, honum gæti ekki verið meira sama, enda tók hann ekki eftir neinu. Þótt ég væri búin að snoða mig, þá myndi hann kíkja á mig án þess að fatta neitt og tilkynna eins og venjulega "mamma, ég er að fara að kúka, ég fer á nýja klósettið, þetta sem var einu sinni bilað en er núna ekki bilað". Þetta er standard tilkynning, þegar þarf að sinna náttúrunni.


Við erum að farin að finna það nú að rigningartíminn er að klárast. Mun sjaldnar sem rignir núna og aðeins farið að kólna á kvöldin, samt aldrei kalt. Dæmi um það er að það eru ekki fatahengi fyrir innan útidyrahurðir í húsinum hér. Þeir eru aldrei í yfirhöfnum! Við skreppum gjarnan á ströndina seinni partinn þegar Gaui er búinn að vinna, svona um fjögur-fimm og erum fram að sólarlagi, sem er um hálfsex-sex. Hrikalega fallegt að fylgjast með sólinni setjast. Jetski gaurarnir að taka saman eftir strembinn dag með túristunum, gamall kall sem kemur alltaf á ströndina á sama tíma í kvöldsundið sitt og tekur nokkrar armbeygjur og draugakrabbarnir sem byrja að kíkja upp úr sandinum í leit að fæðu. Bara almennt ofboðslega fallegur og kyrrlátur tími svona seinni hluta dags á ströndinni. Myndin er tekin í einni svona ferð, þetta er sem sagt á litlu ströndinni sem er neðst í brekkunni hjá okkur. Gaui alltaf flottastur!!


Sunday, November 2, 2008

Ljósin og fleira


Í gær var sjálfsstæðisdagur Barbadosbúa, orðin 42 ár síðan þeir fengu sjálfstæði frá Bretum. Þeir byrja að halda upp á þetta 1. nóvember og svo er allur mánuðurinn tekinn í hátíðahöld. Þetta er einskonar ljósahátíð, það er komið ansi mikið af seríum og skreytingum út um allt hér. Ég held þetta sé laumuleg aðferð til að geta skreytt fyrr fyrir jólin. Þetta eru jólaseríur. Voða fallegt.


Nágranni okkar, hann Armstrong, kom um daginn í mat til okkar. Hann er frá St. Lucia, sem er nálæg eyja. Ég var eitthvað að spyrja út í jólin hér, foreldrar á æfingunum hafa sagt mér að Barbadosbúar fari alveg yfirum í skreytingum um jólin og þetta sé æðislegt. Armstrong var nú ekki sammála. Sagði jólin hérna vera "very boring" og hann færi alltaf til St. Lucia yfir hátíðarnar. Við urðum forvitin, bjuggumst bjuggumst ekki við þessu svari. En þá útskýrði hann, að Barbadosbúar eru álitnir "minnst vinalega þjóðin" í Karabíska hafinu, af hinum Karabíuþjóðunum. Og þetta kæmi sko allsvakalega fram um jólin! Shit, hugsuðum við bara með kvíðahnút í maganum.. Jú, sko, það eina sem Barbadosbúar vilja gera á aðfangadag og jóladag, er að vera heima, eða með fjölskyldunni, gefa pakka og borða saman!! Jáááá, við Íslendingarnir föttuðum ekki alveg.. "og..?" Jú, á St. Luciu er þetta töluvert öðruvísi. Á aðfangadag eru allir að chilla saman úti á götunum, svo á miðnætti er farið í messu. Eftir messuna fara allir heim til sín að skiptast á pökkum (kl. tvö um nóttina!!). Svo "morguninn" eftir, uppúr kl. fimm á jóladagsmorgun má búast við banki á hurðina, og allan þann dag er opið hús í öllum húsum á eyjunni og þetta er sem sagt "Súpudagurinn mikli!". Kunnugir sem ókunnugir detta inn í súpu og romm. Sem sagt, miðnæturmessa, pakkar, sofa ööööörlítið og vakna við bankið og: "hvar er rommið!!?" Þetta finnst Armstrong vera eina almennilega aðferðin við að halda jól. Samt er þetta skynsamur og penn maður, hmmm :)


Helgin var mikil hreyfingahelgi að vanda. Fótboltaæfing kl. 8 á laugardagsmorgun hjá Arnóri, Gaui æfði á meðan. Tók stigaæfingu (klifrar sem sagt öfugur upp stiga, rosa axlaæfing) og ýmislegt fleira. Svo fórum við í fjallgöngu hinum megin á eyjunni. Klifruðum í saltsteinunum, ótrúlega fallegt útsýni yfir austurströndina. Fórum svo á ströndina að busla með brettið hans Viktors (við gáfum honum bodyboard í afmælisgjöf, er svona meterslangt bretti sem gaman er að leika með í öldunum). Eftir ströndina brunuðum við heim að elda, fyrst reyndar "stutt" stopp í Jordans að kaupa í matinn. Hér eru búðir lokaðar á sunnudögum, svo maður þarf að gera svona helgarinnkaup, eins og fyrir fimmtán árum heima. Og laugardagskvöld eru sko vinsæl í Jordans, það er allt troðfullt af hrikalega hreint kátu fólki, þetta er bara social dæmi, allir að heilsa vinum og kunningjum, öskrandi yfir grænmetisboxin og dósahillurnar "hows you?!" "me good, you know, me always good darling!! ". Svo þegar ég var búin að græja kjúllann til að setja í ofninn þá kom bara í ljós að allt gas var búið hjá okkur. Eftir miklar pælingar var ákveðið að fara til Armstrong, sem var með rosa partý (okkur boðið, en þetta var afmælisveisla fyrir vinkonu hans, og við vorum ekki alveg að fíla að mæta í veislu þar sem afmælisbarnið myndi spyrja "hver ert þú?"). En ég sem sagt endaði í því að mæta samt, með ofnrétt í fanginu, tölti ég gegnum þennan hressa dansandi svarta hóp, setti matinn í ofninn hans Armstrong, nikkaði kurteislega til fólksins og laumaðist út um bakdyrnar. Sumir hafa ábyggilega haldið að þeir væru að sjá ofsjónir og hætt að drekka, hehe. Svo í morgun fórum við Viktor að hlaupa í brekkunni, ég bætti tímann minn, komin í 8.30 mín. Svo sóttum við Gaui sand í sandpokana niðri á strönd og gengum með þá upp að húsinu og tókum nokkrar pressur og svona. Algerir nördar, ég er að segja það! Næst á dagsskrá var fótboltaleikur hjá Nóra, hann að keppa aftur með 11-13 ára guttum og stóð sig vel. Eftir leikinn, voru það Gaui og Viktor (já, ferð tvö) sem tóku brekkuna, núna með sandpoka á öxlunum. Við hin náðum í skyndimat á meðan, því við fáum ekki gaskúta fyrir ofninn fyrr en á morgun. Guttarnir eru hæstánægðir með þetta gasleysi, þegar það þýðir að við kaupum skyndimat, það er uppáhaldið. Svo eini sem ekki hefur þreytu í vöðvum núna er mr. Patrick, en hann er búinn að lofa að taka extra vel á því á fótboltaæfingu á þriðjudaginn.


Ég held að kókoshnetur eru að verða uppáhaldið mitt, við fengum okkur í dag eftir hlaupin, við Viktor. Aarg, hvað fersk kókoshneta er góð, og tilfinningin eftir á, maður finnur bara hvað þetta er gott fyrir líkamann. Það er eins og maginn brosi til manns eftir slíka dýrð.
Við rekumst alltaf á hin furðulegustu dýr, höfum öðru hvoru séð ansi stóra eðlu í garðinum okkar, höfðum eina litla inni hjá okkur um helgina, var frekar fyndið að labba á ganginum meðan hún hékk í loftinu fyrir ofan. Á myndinni er páfugl sem heilsaði upp á Arnór í wildlife garðinum.