Tuesday, April 21, 2009

Santiago, Chile


Við stoppuðum tvo daga í Santiago, höfuðborg Chile. Við komum frá suðurhluta Chile, Frutillar. Við höfðum í raun lítið heyrt um Santiago annað en að hún væri ein mengaðasta höfuðborg í heimi og einnig ein auðveldasta höfuðborg í heimi fyrir ferðamenn, því það er svo auðvelt að rata í henni.

Eftir þessa tveggja dvöl í borginni var einstaklega skemmtilegur litur á eyrnapinnunum sem við notuðum, augun orðin rauðþrútin og mikið hnerrað. Alger synd að þetta skuli vera svona og heldur betur tími til að gera eitthvað róttækt í mengunarmálum!!

Orri að klifra


Við löbbuðum heilmikið í almenningsgörðunum í Santiago. Mikið af grænum svæðum og borgin kom á óvart með hversu falleg hún er þrátt fyrir mengunina. Hún var endurgerð eftir risastóran jarðskjálfta sem ég veit ekki alveg hvenær gerðist og í endurbyggingunni var passað að byggja strætin og götum mun breiðari en þau höfðu áður verið. Þetta gerir að borgin er ofsalega falleg og þægileg að vera í, manni finnst ekki þrengt að manni. Þetta er líka ofsalega lifandi borg og sérstaklega seinnipartinn verður allt morandi í fólki og götusalarnir taka við sér. Gaui fylgdist einu sinni með fjölskyldu sem var að setja upp standinn sinn, hjón með þrjá gutta, einn ca. 7-8 ára, einn 2-3 ára og svo einn í vöggu. Þetta var niður í miðbæ og eldri strákarnir voru að skottast eitthvað kringum pabba sinn. Eitthvað voru þeir fyrir honum og allt í einu gargar hann á elsta strákinn (þennan 7 ára) "hvað er þetta, taktu bróður þinn og farið að gera eitthvað, komið ykkur í burtu, við erum að vinna!!". Soldið slakari í barnagæslunni en við ;-)

Litlir kláfar


Í Santiago eru þessir litlu kláfar sem við fórum í. Þeir líta út fyrir að vera tveggja manna, en kláfakallinn (hvaða starfsheiti hafa þessir menn..??) hann tróð okkur öllum fimm blákalt inn í einn pínulítinn klefa og renndi okkur af stað. Rétt áður en kláfurinn fór út af pallinum stoppaði maðurinn hann aðeins og horfði efins upp á vírinn sem heldur draslinu upp, virtist vera í rökræðum við sjálfan sig í nokkrar sekúndur áður en hann skutlaði okkur af stað meðan hann horfði spenntur á vírinn. I was not amused!!.. allavegar fyrr en ég var komin út á þetta og ákvað að það væri ekkert annað að gera í stöðunni en að njóta útsýnisins. Sá einhvern tíma spakmæli sem segir: "worrying is lika sitting in a rockingchair, it gives you something to do, but dosn´t get you anywhere". Ansi gott.

Mr. Bean


Viktor er orðinn svo góður í enskunni og uppgvötaði allt í einu að hann skildi bara allt á dvd diski sem við tókum með okkur, þar sem Rowan Atkinson er með uppistand. Maðurinn er náttúrulega snillingur á sínu sviði og Viktor var ekki lengi að sjá hversu lík þessi stytta er honum Mr. Bean sjálfum.

Vaktaskipti


Það er heilmikið af fallegum byggingum í Santiago. Hér er það forsetahöllin og við vorum svo heppin að hitta á vaktaskipti varðmannanna, en það er heilmikil athöfn sem fer fram annan hvern dag. Ekki veit ég hvort aumingja vaktmennirnir séu á vakt í tvo sólarhringa í þessum fínu fötum, þykku fötum í hitanum. Meðan vaktaskiptin fara fram spilar hljómsveitin skemmtileg og létt lög undir, svo maður gleymir því að þetta eru í raun hermenn og hvert þeirra hlutverk er, annað en að vera flottir. Þarna í forsetahöllinni dó Salvador Allende, lýðræðislega kjörinn forseti Chile í valdaráni hersins 11 sptember 1973 og við tók Pinochet, einræðisherra sem hélt völdum til 1989.

Sunday, April 19, 2009

Á ferðinni..


..og voðalega lítið bloggað þessa dagana. Erum búin að vera í Santiago, höfuðborg Chile, sem er víst ein mengaðasta borg í heimi. Voðalega falleg borg til svona 11 á morgnanna, þá byrjar að leggjast yfir hana gul þoka, sem er bara mengun og þessari þoku léttir ekki fyrr en næstu nótt þegar bílunum fækkar. Borgin liggur milli fjallanna sem loka mengunina inni, því miður, svo þokan hindrar mann í að sjá þetta fallega umhverfi sem er í kringum borgina. En við höfðum það gott í Santiago, fólkið einstaklega vinalegt og lífleg borg og skemmtileg. Eftir Santiago var stefnan tekin á Mendoza í Argentínu, þar sem við keyrðum yfir Andesfjöllin, magnað að ferðast svona yfir fjallgarða. Kíkið á myndina, þetta voru svona tuttugu beygjur á brattasta kaflanum og öðru hvoru gegnum yfirbyggða kafla vegna hættu á steinhruni.
Erum svo búin að vera í 3 daga í Mendoza, núna búin að pakka og ætlum að dóla okkur hér fram á kvöld þegar rútan okkar fer af stað, til Tucuman. Eina sem við eiginlega vitum um þann stað er að það er mælt með að hafa með sér mýflugnafælu-sprey... hmmm.

Sunday, April 12, 2009

Gleðilega páska!!


Við fengum nú ekki að sofa mikið út þennan morguninn, frekar en líklega aðrir foreldrar súkkulaðigrísa. Hérna í Chile eru það ekki bara eggin sem eru í aðalhlutverki, það eru líka súkkulaði páskakanínur sem eru voðalega vinsælar. Við völdum okkur svona sitt lítið af hverju og fylgdum hefðinni að heiman með að fela eggin fyrir hvert öðru. Eggin bragðast vel, en þau eru nú í nettari kantinum hér heldur en heima og mjög lítið innan í þeim. Við njótum þeirra nú samt og mikið smjattað og kjamsað.
Við ákváðum að taka smá forskot á páskamatinn og hafa hann í gærkvöldi. Það er vegna þess að okkur langaði í kalkún þegar við rákum augun í ferlíkin í búðinni hér. Við keyptum 7kg kvikindi (lásum seinna á leiðbeiningunum að þetta væri miðað við 16-19 manna hóp..) segir kannski smá um matarlystina á þessum bæ. Við erum í fínum bústað og öll tæki sem til þarf til að elda fína máltíð.. nema kannski kröftugur ofn. Kalkúninum fylgdi kjötmælir, svona voða sniðugt lítið dims sem poppar út þegar kjötið er tilbúið. Við settum hann inn um þrjúleytið, leiðbeiningar sögðu 5 tímar og matur kl. 8 var takmarkið. Við gerðum æðislega fyllingu, fulla af eplum því hér er allt morandi í eplatrjám. Um sexleytið var kominn frábær litur á kalkúninn og kartöflur settar upp og forréttur tekinn fram, kex og ostar, rauðvínsflaskan opnuð, pepsíglös leyfð og eggjaleitarleikurinn hafinn. Um sjöleytið farið að skræla kartöflurnar og undirbúa "brúningu" og auðvitað sósuna. Mmmmm, lyktin var æðisleg og voða matarstemmning. Um átta voru kartöflur komnar á borðið, brúnaðar og girnilegar, sósan tilbúin í pottinum, rauðvínsflaskan hálfnuð, pepsíflaskan líka og allir spenntir, nema pinninn. Hann kúrði í bringunni og lét ekki á sér kræla. Þá var gripið í spil, um níuleytið.. enginn pinni og kveikt á sjónvarpi til að yfirgnæfa sultarhljóðin í maganum, um tíuleytið.. enginn pinni, byrjum að horfa á Mission impossible (viðeigandi). Klukkan ellefu, rauðvínsflaskan tóm og helv.. pinninn rifinn úr, helv.. kalkúnninn skorinn í bita og helv.. skásti hlutinn af honum steiktur á pönnu, helv.. sósan hituð upp oooooog eftir fyrstu bitana var aftur komið bros á alla :) Maturinn sem sagt klukkan hálftólf og ísinn á miðnætti. Ekki alveg eftir forskriftinni hennar tengdó, en dulítið í Latin-america stílnum :) og voða góður matur. Snilldin í þessu plani er svo, að í dag borðum við afgangana.. og kannski líka á morgun... hver veit!? Ég er þó ekki bjartsýn á það, þrátt fyrir slíkt eðli. Strákarnir eru farnir að koma ansi oft á óvart með "borðað magn í hverri máltíð". Minnir mig á sjálfa mig þegar ég var unglingur. Ég smurði mér alltaf fjórar samlokur (já, í allt 8 brauðsneiðar) með grænmeti og osti og borðaði þær ALLAR. Svo einu sinni þá gat ég borðað svo lítið, fór til mömmu og sagði áhyggjufull: "mamma, ég held ég sé að verða veik, ég er eitthvað lystarlaus, gat bara borðið tvær og hálfa samloku..". Mamma, sem borðar tvær snittur og tilkynnir svo "úff, ég er PAKKsödd" og er ekki að grínast, hafði nú ekki miklar áhyggjur af þessu. Þegar ég sagði guttunum þessa sögu, þá hlógu Orri og Arnór, Viktor hins vegar spurði: "og hvaða veiki varstu með..??"

Eggjaleit


Hér í búðum er mjög mikið selt af svona litlum súkkulaðieggjum yfir páskana. Ég greip því tækifærið, keypti soldið af þeim og bjó til smá fjársjóðsleit til að stytta biðina eftir páskamatnum. Það reyndist nú stærra verk en ég hafði búist við (að stytta biðina það er að segja) en þetta var ferlega gaman og strákarnir voru eins og blóðhundar á slóð eggjanna. Keppnisskapið!! Vá! Veit ekki hvaðan þeir hafa þetta, við foreldrarnir svona pollróleg og yfirveguð..

Eftir eggjaleit


Allir guttarnir fundu fullt af súkkulaðieggjum og þetta var auðvitað borðað í forrétt fyrir kalkúninn. Veitti ekki af í allri biðinni :)

Petrohué

Guttunum fannst þessir fossar minna á Barnafossa heima og fóru að rifja upp söguna um hvernig þeir fengu nafnið. Sorgarsaga, sem þeir greinilega hafa hugsað þó nokkuð um. Á svæðinu þarna í kring og við vatnið sem áin rennur úr (Lago de todos los Santos) eru litlir hraunmolar sem minntu mig síðan á þegar við gengum upp að eldstöðvunum í Vestmannaeyjum. Alveg sömu litir og sami hiti í jörðinni. Er lífið ekki alltaf svona, upplifanir minna mann á eitthvað sem maður tengir svo minninguna við og þegar maður man svo eftir þessu, þá man maður ósjálfrátt eftir hinu líka. Eða er ég kannski bara að lesa of mikið af Miss Marple..? I wonder...

Kringum ánna..


.. sem Petrohué fossarnir falla í. Í ánni er farið í river rafting og umhverfið er svakalega fallegt. Öðru megin við ánna er yfirleitt þverhnípt klettahlíð þar sem einungis þrjóskustu trén hanga ennþá uppi.

Lamaullin


Titillinn er lama-ullin, ekki lamAUlinnn, en mynstrin á peysum og sjölum hér minna ótrúlega oft á ullarpeysurnar heima. Lamaullin er samt mun mýkri og fíngerðari þræðir.. held ég allavega (prjónareynslan svo sem engin, hvorki hér né heima). Þessi sölukofi var hjá fossum sem við fórum að skoða, fossar sem heita Petrohué (sem þýðir víst land mistursins), en mynd af þeim er hér fyrir ofan. Vörurnar sem þeir gera hér úr ullinni eru rosalega flottar og lamadýrin bæði húsdýr og svo líka villt úti á sléttunni. Þegar við keyrðum yfir slétturnar á leiðinni suður Argrentínu sá maður þau út um gluggann, eins og kindurnar heima. Heima eru það beljur og kindur sem sjást út um bílrúðuna, hér eru það lamadýr og strútar :)

Útsýnið


Ég þreytist seint á þessu útsýni hér í bústaðnum og það fer að slaga í milljónustu myndina svei mér þá. Þessi tvö eldfjöll sem sjást á myndinni sáum við "up close" í smá skoðunarferð sem við fórum í á föstudag. Þetta vinstra megin gaus síðast á nítjándu öld, en þetta hægra megin gaus 1949 síðast. Bæði eru ennþá virk og eins og bílstjórinn útskýrði fyrir mér, þá er þetta mjög spennandi því þau gætu gosið á hverri stundu!! Dammdammdaramm!! Þetta hægra megin var fram að síðasta gosi einni keilulaga, en toppurinn hrundi þá. Ég veit ekki hvað nágrennið hér gerði ef Vulcan Osorno hryndi svona, þetta keilulaga listaverk náttúrunnar er aðal tákn sýslunnar og er á öllum varningi sem er beindur að túristum.

Og enn ein..


Thursday, April 9, 2009

Eftir æfingu gærdagsins..


..var ég drifin undireins í rommý!! Spilagleðin er sko ekkert að minnka hjá þeim yngsta í fjölskyldunni, og það var nú bara lúxus í þetta sinn að hafa borð við spilið. Við erum orðin ansi glúrin í að spila í rútum skal ég segja ykkur!!

Ætli það sé ekki nokkuð augljóst hver var að segja "ROMMÝ" hér.

Hér er kominn kisi


Þessi litli krúttbolti heilsaði upp á okkur í gær og aftur í dag, og hefur heldur betur gert sig heimakominn. Þetta er kettlingur, mikill malari og ferlega skemmtilegur.

Kisulóra..


..það er nú ekki hægt að segja að kisinn sé neitt óvelkominn hér. Hann fær svo mikið knúserí, að hann harðneitar að fara út!! Heima hjá honum eru fleiri kettlingar, ennþá minni en hann, svo hann er ekta svona stóra systkyni að flýja lætin og fá smá athygli. Og það fær hann sko!!

Litirnir hér


Sumarið er að klárast hér, laufin aðeins farin að gulna en blómin eru gullfalleg ennþá!!!

Blómin og blómarósin :)

..hvor er með stærri haus??

Vulcan Osorno


Þetta er eitt af eldfjöllunum sem við höfum í útsýni út úr glugganum í bústaðnum hér. Kringum vatnið eru 4 eldfjöll sjáanleg, en í Chlie allri eru 600 eldfjöll!! Osorno er algert málverka-fjall, ekki satt?

Eftir æfingu í dag..


.. við erum að taka okkur á í upphífingum meðan við erum hér og það er ekkert smávegis sem hann Viktor er að sýna framfarir og styrk í þessu. Guttinn náði upphífingu með 8kg vatnsbrúsa hangandi í beltinu!! Arnór og Orri er líka hrikalega duglegir, tóku 20 upphífingar í dag!!

Klipping


Það er mitt hlutverk hér í ferðinni að sjá um klippingu á herrunum, allavega þeim sem þora :) yfirleitt er þetta nú bara snoðun, og Gaui pantaði eina snoðun í dag fyrst við erum komin út úr Argentínu. Snoðun er voða auðveld, sem í raun er erfitt fyrir svona skapandi einstaklinga eins og moi, svo ég hafði gaman af því að æfa mig í dag, hér er ég búin að búa til stall!! Mín persónulega skoðun, eftir að ég var búin að hlæja töluvert, svo ég átti erfitt með andardrátt, er að ég hafi tekið mööörg ár af Gauja með þessum stíl...

Sunday, April 5, 2009

Chile


Þá erum við komin til Chile, á lítinn stað sem heitir Frutillar, og verðum hér í 5 nætur. Yndislegt að stoppa hér og hvílast aðeins eftir ferðalög síðustu vikna. Erum í þessum fallega bjálkakofa sem þið sjáið á myndinn! Ekki slæmt, tók hana áðan :) Netsamband hér og því hef ég tekið góða rispu í blogginu, en þetta er nú ekki alveg í réttri röð, orðin kolrugluð af rútuferðum. Ferðalagið hingað til eftir Buenos Aires, er Puerto Madryn-El Calafate-Ushuaia-El Calafate-Bariloche-Chile (Frutillar). Kær kveðja til Íslands!!

Gumsígums og súkkulaði


Vorum eina nótt í viðbót í El Calafate, fallega bjálkabænum, og svo var það lengsta rútuferð sem við höfum farið í til þessa. Frá El Calafate til Bariloche, 28 klukkutímar. Lagt af stað hálfsex að kveldi og komið á áfangastað kl. 22 næsta dag. Og þetta gekk ótrúlega vel. Cirka about 8 DVD myndir, bollur með kæfu, rommý (ekki romm) og svefn, svefn, svefn og det var det. Komin til Bariloche! Þar hittum við á æðislegt hostel, þar sem við fengum heilt hús fyrir okkur, gamalt, lítið timburhús sem minnti á Ásbjarnastaði og vatnshljóð í pípunum sem minnti á Svanshól. Þegar við komum þangað, um hálftólf um kvöldið sögðu þau okkur að við þyrftum að vera mætt kl. hálfátta næsta morgun á lestarstöðina til að fá miða til Chile, önnur rútuferð, ca 5 tímar. Oooog við gubbuðum næstum. Vorum ekki lengi að panta aðra nótt hjá þeim og það var frábært í Bariloche. Rigning reyndar, en svakalega fallegur bær þar sem allt gengur út á essin tvö, skíði og súkkulaði! Ekki nægur snjór ennþá til að skíða, svo við fórum bara í súkkulaðið. Fórum í stærstu súkkulaðibúð sem ég hef komið í, pöntuðum hnallþórur og heitt súkkulaði, og hreinlega ultum út! Enginn gat klárað sinn skammt þrátt fyrir mikla baráttu og það var lítið rætt um súkkulaði meira þann daginn. En bærinn er fallegur og hostelið frábært! Það var byggt við gamalt hús, þar sem eldgömul kona býr, hálfblind með liðagigt og staf. Hún var á rölti þarna um, kom að heilsa upp á okkur tvisvar að spjalla um svæðið og sagði okkur aðeins frá sér. Hún á fjóra gutta sem eru aldir upp í garðinum þar sem hostelið er núna og þetta var eins og að tala við ömmu hennar Heiðu í fjöllunum (veit hún átti afa, en work with me here!). Einn af sonum hennar rekur hostelið núna, stór og þrekinn maður sem talar spænsku með þýskum hreim.
Gaui elskaði að vera þarna, enda sveitastrákur innst inni, þó með smá hommafóbíu! Hann sem alltaf hefur böggað mig um að burstaklippa hárið á sér, ef það er orðið lengra en 3mm, hefur ákveðið að láta ekki klippa sig í bili. Af hverju? Því hann tók eftir mynstri í Buenos Aires, hommapörin voru öll burstaklippt!! Það er frekar afslappað viðhorf gagnvart samkynhneigðum hér í Suður-Ameríku og mikið af auglýsingum í sjónvarpinu um stuðningshópa og slíkt. Allavega, Gaui vill ekki taka neina sjénsa, maður sem gengur um með eiginkonu og þrjá syni á eftir sér, ALLTAF!
Í rútunni að jöklinum var lesbíu-par við hliðiná okkur, að ferðast með mömmu annarrar sem sat fyrir framan þær. Það stoppaði þær nú ekki í að kyssast og kela alla ferðina. Eftir hálftíma tungukossa og kelerí hvíslaði einn guttanna að mér: „mamma, ég held þær séu samkynhneigðar!“. Eftir 3ja tíma rútuferð með keleríinu, hvíslaði annar guttanna að mér: „mamma, helduru að þær séu systur?“.

Sólarupprás í Bariloche!


Þurftum að vakna snemma til að fara í rútuferðina til Chile. Það er nú ekki alslæmt að vakna snemma

og sjá svona sólarupprás!

Olaf!


Í fjallabæjum eru St. Berhardshundar mikilvægir, segja sögur allavega. Eru til að bjarga fólki og gefa þeim vökva þegar þeir villast á fjöllum. Hann Olaf var soldið lúinn á allri þessari ábyrgð, en hrikalega flottur! Hann minnir mig einhvernvegin á Gumma hennar Maríu, stór, traustur, vinalegur bangsi! Erþakki, María?? :)

Ushuaia


Ushuaia var skemmtilega lík byggð á Íslandi, hefði getað verið Hafnafjörður, húsin svipuð og ferlega kalt. Bærinn er hafnarbær, byggður í brekku og húsin flest timburhús. Bærinn er auðvitað frægur fyrir að vera syðsti bær jarðar og gerir auðvitað mikið út á það. Þarna gengum við um og skoðuðum umhverfið, ekki þó lengi því kuldinn og vindurinn var bítandi og við búin að vera í hitanum svo lengi að við erum orðnir sottlir kettlingar í þessum kulda :þ Það er þarna fangelsi, sem er nokkuð frægt, enda syðsta fangelsi í heimi og þangað voru eingöngu sendir glæpamenn sem voru að fá dóm nr. tvö eða meira og þeir urðu að vera sterkbyggðir, því þetta var ekki fyrir vesalinga að lifa af þarna. Fangarnir voru nefninlega í vinnu (allavega þeir sem höguðu sér vel) við að höggva tré, byggja lestarteina og moka snjó. Þeir byggðu og notuðu svo syðstu lest í heimi, hún var tæplega 30km löng, var frá fangelsinu og út úr bænum, að skógarsvæði þarna nálægt. Lestin er kölluð „El tran del fin del monde“ eða lestin til enda heimsins og núna er hún túristattraction, gömul kolalest sem hægt er að fara með síðasta spottann af leiðinni, um 7km. Við gerðum þetta auðvitað, ekki oft sem manni býðst að taka lest á heimsenda, fannst 7km ekki mikið, en þegar við vorum lögð af stað urðum við nú fengin að þetta væri ekki lengra, því lestin fór lúshægt. Guttarnir urðu soldið skrítnir á svipinn þegar við lögðum af stað, hæægt og rólega.. og svo héldum við bara áfram að fara hææææægt og rólega. Viktor bað um að fá að ganga með, fékk það nú ekki, því hann hefði stungið okkur af ef honum hefði dottið í hug að skokka. Lestin fór með okkur um svæði þar sem trjástubbar stóðu eins og kirkjugarður liðinna tíma, tré sem höfðu verið hoggin af föngunum til að hita húsin í bænum. Það voru myndir af föngunum á lestinni, myndir af þeim að vinna í snjónum í röndóttum búningum (eins og Dalton-bræður), með vopnaða verði standandi yfir þeim. Fangelsinu sjálfu var lokað 1947 af Peron, vegna mannúðarstefnu, en er núna safn, bæði um sjálft fangelsisstarfið og svo líka sögu bæjarins. Við guttarnir fórum að skoða fangelsið, Gaui vildi sleppa því, hefur farið í tvö fangelsi áður, m.a. þar sem Nelson Mandela var og fannst lestarferðin alveg nóg sögustund um erfiða og drungalega liðna tíma. Fór í plötubúð í staðinn og skemmti sér vel. Við skoðuðum fangaklefana og þar voru t.d. endurgerðar pappadúkkur af nokkrum föngum, og rituð á vegginn í klefanum saga þeirra og glæpir. Nokkuð ógeðslegt og strákarnir hættu fljótlega að lesa þetta, enda neitaði ég sjálf að lesa þetta. Hrikalegar sögur um barnamorðingja, fjöldamorðingja og inn á milli pólistíska fanga. Úff, þetta var „haaard-core!“ eins og Arnold segir.
Svo voru dagarnir í Ushuaia búnir, og við flugum tilbaka til El Calafate. Ég var að tala um hversu gaman það væri að vera í flugvél og hvetja Orra til að horfa nú út um gluggann og njóta útsýnisins (það er mikil barátta alltaf um gluggasæti og Orri tekur fullan þátt í þeirri baráttu, þó hann fatti ekki alveg akkúru.. J) þegar hann horfði á mig og sagði: Tja, mamma, sko mér finnst þetta nú ekki ævintýri, sko. Ég meina, að fara að leita að gulli og finna, ÞAÐ er ævintýri, eða að týnast í eyðimörk og vera bjargað, ÞAÐ er ævintýri.. EF manni er bjargað. En að vera í einn klukkutíma í flugvél, sorry, en mér finnst það nú ekki vera ævintýri mamma mín, hehe“. Ég átti lítið svar við þessu, nema að biðja um gluggasætið næst J Litli stubburinn orðinn heimsmaður!!

Lestin og trjástubbar


Útsýnið úr lestinni á enda heimsins


Þarna í fjalladalnum er búið að endurgera strákofana sem indjánarnir bjuggu í.

Indjánar


Hér bjuggu indjánar áður en hvíti maðurinn kom og frekjaðist yfir landsvæðin. Eitt af því sem mér finnst alveg stórmerkilegt, er að þeir notuðu bara lítil sem engin föt, þrátt fyrir hrikalegan kulda hérna. Skýrist kannski með því sem þeir borðuðu, sæljón, sjávarfang og villta sveppi kallaða "indian bread". Bjuggu í litlum strákofum.

Lestarferðin rólega..


...þrátt fyrir svipi, þá var þetta nú ágætis ferð hihi. En þetta var ekki alveg "Patagonía express!"

Skólabúningar


Hérna eru krakkar alltaf í skólabúningum og okkur þykja þessir laaaangsamlega furðulegastir. Læknasloppar!! Þetta er til sölu í Hagkaup í Ushuaia :) var nú næstum búin að biðja Gauja að kaupa einn... úúúúúííí.

Jöklapáskaegg!


Argentína þykir mikið súkkulaði-land, enda sterkar rætur til Þýskalands, Austurríki og Ítalíu. Stundum er þetta bara eins og að ganga um fjallaþrop í Austurríki. Og súkkulaðilistaverkin! Ýmislegt hægt að dunda sér við.

Stór klumpur hruninn!!


El Calafate


Í El Calafate, sem er ofsalega fallegur bær, húsin mörg hver bjálkahús og miðbærinn minnir eiginlega á jólaþorp, enda kuldinn eftir því. Dálítil viðbrigði við hitann í Buenos Aires, að maður tali nú ekki um Brasilíu! Heimsóknin að jöklinum var hápunkturinn okkar í þessu stoppi, fórum að honum í gær og það svoleiðis pissringdi á okkur! Rútuferð að jöklinum (sem kallast Perito Moreno og er vinsælasti ferðastaður heimamanna og einn stærsti jökull Suður-Ameríku) og bátsferð að jöklinum fyrst. Þar urðum við gegnblaut, en svo gönguferð á „boardwalk“ til að komast ansi nálægt jöklinum. Hann er svakalega fallegur og hljóðin sem hann gefur frá sér eru rosalegar drunur, þegar stórir klumpar hrynja úr honum í Lago Argentína, stærsta vatn Argentínu. Jökullinn skríður fram 2 metra á hverjum degi og er alltaf að stækka, einn af fáum skriðjöklum í heimi sem er að stækka. Við sáum stóran ísklump hrynja í vatnið með svakalegum skvettum og vorum ansi sátt!! Svo fórum við að fá okkur heitt kakó, enda ÓGEÐSLEGA kalt!!

El Calafate


Hótelið sem við vorum á þarna er byggt við gamla flugvöllinn og flugbrautin því gatan. Engin smá-gata.

Háhyrningar


Á Peninsula Valdes svæðinu eru háhyrningar sem haga sér á annan hátt en nokkurstaðar fyrirfinnst í heiminum. Þeir koma upp á ströndina 3-4 karldýr saman og veiða sæljónsunga í matinn fyrir hópinn sinn. Þeir koma allt í einu upp úr sjónum, henda sér í flæðamálið og ná unga í ca 4 skipti af 10 tilraunum sem þeir gera í hverri fjöruferð. Þetta eru engin smálæti þegar þeir koma og þeir gera þetta bara ákveðinn hluta út ári, meðan sæljónsungarnir eru ekki búnir að læra á þessa hegðun háhyrninganna. Maður myndi halda að þessi flykki eigi það á hættu að komast ekki útí aftur, en þeir einhvernvegin mjaka sér í ölduna og komast alltaf út aftur. Þetta er víst algerlega magnað að sjá og ferðamenn koma í búntum í von um að vera svo heppnir að sjá þetta gerast. Við fórum ekki þarna (þetta er mynd af mynd :), vildum frekar fara í mörgæsanýlenduna, enda engar mörgæsir að sjá á Íslandi OG alls ekki líklegt að hitta á að sjá þetta gerast. Það þarf að keyra um 450 km rúnt til að skoða þetta og þar sem við vorum "milli" tveggja 17 tíma rútuferða, var laaangur bíltúr á malarvegi ekki freistandi. Hópur frá hostelinu fór að reyna að sjá svona árás, en voru ekki nógu heppin, háhyrningarnir voru ekki í fjöruveiði þann daginn.

Puerto Madryn


Við fórum frá Buenos Aires þann 21 mars, 17 tíma rútuferð til Puerto Madryn í Patagoníu. Patagonía hefur verið óskastaðurinn minn lengi, enda lesið mikið um þetta landsvæði, sem þykir mjög fallegt og er á heimsminjaskrá UNESCO. Hér eru gríðarlega þurrar og flatar sléttur sem við keyrðum yfir á leiðinni til Puerto Madryn, fyrsta áfangastaðar eftir Buenos Aires. Bærinn er eins og vin í eyðimörkinni, allt þurrt og rykugt í kringum bæinn, sem liggur við strönd Gulfo Nueve, en sá flói er frægur fyrir að vera „fæðingastaður hvalanna“. Þangað koma hvalirnir í september til að fjölga sér, fæða og ala upp ungana sína á svæði sem þeir eru friðaðir. Ströndin í bænum er frábær göngutúraströnd og við tókum auðvitað hrikalega æfingu þarna einn daginn. Alls staðar í bænum er að finna einkennismerki Puerto Madryn, hvalasporðinn upp úr vatninu.
Það var þó ekki eina ástæðan fyrir okkar heimsókn þangað, en við höfðum mestan áhuga á að koma til Punta Tombo að heimsækja stærsu mörgæsanýlendu Suður-Ameríku.
Við vorum á Hi Patagonia-hostelinu, þar sem Gaston ræður ríkjum. Okkur fannst það alveg frábær staður, vinalegt hostel og þægilegt, sanngjarnt verð og það sem var einna skemmtilegast var að tvö af þessum þremur kvöldum sem við vorum þarna, voru grillkvöld þar sem gestir hostelsins sátu saman og voru dekraðir af góðum mat og skemmtilegum sögum. Það var frábært að skiptast á ferðasögum með hinum gestunum, t.d. strákarnir frá Frakklandi, en annar þeirra hafði verið 6 mánuði í vinnu í Mexico borg. Þar sagði hann Mexicana alveg dýrvitlausa í alls konar Power Point forwardaða meila, og öðru hvoru heyrist skelfingaröskur úr einhverjum básnum, þegar sá hinn sami fær sendan Power Point mail frá galdranorn. Það er trú í Mexico að galdranornir geti lagt bölvun á mann, en eitthvað fannst vini okkar þetta ólíklegt og reyndi að spyrja Mexicanana með sínum frábæra ensk/franska hreimi: „do you really sink, sat if sere was a wítsh, sat she would use a power point..??“.
Svo var þarna Þjóðverji á ferðalagi um heiminn, bankastarfsmaður sem tók sér launalaust árs leyfi, mjög ótýpískt fyrir Þjóðverja. Hann hefur átt soldið erfitt hér í Suður-Ameríku, því verandi Þjóðverji, þá er hann gríðar-stundvís, en hér snýst allt um „mas o ménos“ sem þýðir „meira eða minna“, og t.d. þegar sagt er klukkan hvað að hittast? „ehh, klukkan tvö... mas o ménos“ og það getur þýtt svona hálf þrjú-þrjú, en Þjóðverjinn er auðvitað mættur korter í tvö!
Svo var það gaurinn frá Israel, 22 ára, búinn að vera 3 ár í hernum og berjast í tveimur stríðum. Skrítið að hlusta á hans lífssögur og lýsingar á baráttunni við Hamas. Hann sagði að það væru alltaf tvær hliðar á öllum þessum stríðslýsingum og yfirleitt væri hann ósáttur við báðar. Hann er sem sagt á móti stríðinu, eins og líklega flest venjulegt fólk í Israel og Gasa, sem vill bara fá að lifa í friði, eðlilegu lífi. Svo var par frá Englandi þarna, eða þau búa í Englandi, en hún er frá Suður-Afríku og hann frá Ástralíu. Þau voru mjög skemmtileg og hafa ferðast mikið um ævina. Ætla í þessari ferð að fara bæði til Páskaeyju og Galapagos! Það eru ansi dýrar ferðir, svo vonandi verða þær góðar :) Hittum einnig stelpu sem er frá Buenos Aires, en er að vinna á Peninsula Valdes Estansia, sem er kindabúgarður á Peninsulasvæðinu sem er heimsfrægt fyrir dýralíf og þá sérstaklega vegna háhyrninganna. Stelpan er guide í mörgæsa-svæðinu þar nálægt. Hún sagði okkur heilmikið um sögu Argentínu og útskýrði t.d. hvers vegna þessi litlu altari eru við vegina alls staðar. Eru til minningar um fólk sem hefur lagt sitt af mörkunum fyrir landið sitt. Svo eru mörg altari til minningar um konu sem lést í eyðimörkinni eftir að hún gekk af stað, með nýfætt barnið sitt til að fara til eiginmannsins, sem var að berjast fyrir Argentínu gegn Spánverjum. Hún lést úr vatnsskorti á leiðinni, en barnið lifði með því að drekka brjóstamjólk úr látnum líkama móður sinnar, þar til því var bjargað. Atvinnubílstjórar stoppa við þessi altari og leggja fullar vatnsflöskur hjá því, til minningar um þessa konu og í von um að hún veiti þeim vernd á vegum landsins í staðinn.
Ef þið rýnið í myndina, þá sjáið þið stóran hund ganga með okkur, hann ákvað í smá stund þarna á ströndinni að eiga okkur, gekk með okkur nokkra kílómetra, stór og skítugur en voðalega vinalegur. Við skírðum hann Björn, því hann var eins og björn. Fyndið með svona atvik, að þegar hann gekk þvert yfir teppi hjá fólki sem var í huggulegu picnic á ströndinni eða terroriseraði litla púðluhunda í bleiku og tölti svo til okkar aftur, þá fengum við þvílík augnaráð frá fólki. Og það fyndna var, að við fengum samviskubit! Eins og við bærum ábyrgð á þessum flökkurisa!!

Poppkorn..


..í Suður Ameríku er aldrei með salti, heldur með ýmist sykri, karamellu, jarðaberjabragði eða einhverju gumsigumsi. Hér er þessi fína poppkornabúð í Puerto Madryn og við keyptum jarðaberjapopp.

Mörgæsadans

Þessi litla mörgæs var mjög forvitin um hvað ég væri að gera og þar sem mörgæsir hafa augun sitthvoru megin á hausnum, þá þurfa þær að horfa með augunum til skiptis, sem sagt fyrst hægra auga, svo vinstra, svo aftur hægra o.s.frv. Ég komst að því seinna sama dag, að þegar þær vagga hausnum mikið fram og tilbaka, þá er það vegna þess að maður er að pirra þær. Sama hversu krúttlegar þær eru í þessu vaggi, þá eru þær bara pirraðar. Things ain´t always what they seem...