Sunday, August 2, 2009

Í Lux hjá pabba


Við enduðum ferðalagið á heimsókn til pabba og fjölskyldu í Luxemburg. Þar býr hann ásamt konunni sinni, henni Liz og tveimur æðislegum dætrum, þeim Daisy og Lilian Bo. Við gerðum svo margt á þessum 9 dögum að ég verð að skrifa um það næst, en hér sést mynd af Daisy, hún er 7 ára og er alveg hreint gullfalleg og skemmtileg!!

Litla snúllan


Þarna er yngsta systirin, hún er heimsins mesta dúlla!

Sjálfur sigurboginn..


og við sigurvegararnir fyrir framan! Vantar þó Gauja sigurvegara, en einhver varð að taka myndina.

Hugmynd að innréttingu


Á þessari bílasölu fyrir ríka fólkið (við klesstum bara nefinu á gluggann..) sáum við þessa fínu lausn ef bílskúrinn er of lítill fyrir glæsivagnana. Getur bara skellt litla kellingarbílnum upp á snaga! Veit reyndar ekki hvort þetta fengi hljómgrunn á Íslandi núna, svona bílasnagi þykir líklega voðalega 2007!

Gaui lúinn..


..og hann fékk sér lúr eftir máltíð á kínverskum veitingastað í París, enda lentum við kl. 5 um morguninn og lítið sofið nóttina áður. Við sátum á borði við hurðina og þar var hrikalega gaman að sjá svipinn á fólki sem stakk nefinu inn til að athuga staðinn og hvort hann væri "safe". Gaui, rétt hangandi á stólnum, með opinn munninn og slefandi (bara pínulítið), setti aðeins hik í mannskapinn... var maðurinn meðvitundarlaus eftir matareitrun...???

París!!


Eftir stutt stopp í Madrid var það sjálf París. Þar var auðvitað Eiffel og Sigurboginn á dagskrá og við vorum ekki svikin þar. Mikið svakalega finnst okkur Eiffel flottur!!!

Og þá er það Evrópa aftur!!


Eftir alla þessa mánuði í Suður Ameríku þá var Evrópa á dagskrá 10 júlí. Það verður að viðurkennast að tilhlökkunin var mikil, við vorum orðin soldið lúin á ýmsum atriðum í Suður-Ameríku eins og ruslinu sem var ansi víða, engin virðing fyrir gangandi vegfarendum, alltaf að vera "gringo" og öðruvísi en aðrir á götunni. Nokkuð sem er líka spennandi, en svo eftir soldinn tíma, þá fór ég allavega að sakna þess að falla ekki stundum inn í hópinn og eiga t.d. von á því að hitta öðru hvoru einhvern sem ég þekkti! Það er fyndið með þessi litlu atriði sem manni finnst svo sjálfsögð, en saknar svo þegar þau eru ekki til staðar.


Þann 10 júlí áttum við að fljúga til Madrid, en fengum e-mail frá flugfyrirtækinu tveimur dögum áður (allt á spænsku!!) en Gauja tókst að krafla sig framúr bréfinu og í því stóð að ferðinni hefði verið frestað, en okkur væri velkomið að vera með í fluginu þann 11! Frekar skrítið, en lítið annað að gera en að þiggja boðið pent.


Madrid var falleg, alveg gullfalleg og flott. Steikjandi hiti og við í svaka stuði, enda gríðarkát yfir því að vera komin til Evrópu. Hér eru strákarnir að taka ketilbjölluæfingu, með innkaupapokum. Maður verður að redda sér!!

Thursday, July 9, 2009

Huaca Pucllana



Við fórum að skoða þessar frægu rústir í miðborg Lima í fyrradag en þetta er heilagur staður sem byggður var um 5-800 eftir Krist. Þetta er gegnheill pýramídi (þeir eru nokkrir í Perú) og svo torg og nokkur fleiri mannvirki. Þetta tilheyrði Lima-kúlturnum, en það er flokkur sem var sem sagt uppi milli 5-800 eftir Krist. Staðurinn var notaður sem fórnarstaður fyrir guðina, þó sjaldan sem mannlegar fórnir voru færðar, "eingöngu" gert á tuttugu ára fresti, og þá alltaf ung stúlka á aldrinum 12-25 ára, því þær þóttu svo hreinar. Svæðið var mun stærra áður, en var ekki farið að varðveita það fyrr en kringum 1980, svo það er búið að byggja yfir þó nokkuð af rústunum. Svo á tímabili (held kringum 1960) þótti voða gaman að halda mótórhjólakeppnir á pýramídanum og þar í kring. Núna er hins vegar mikið kapp lagt í að vernda svæðið og endurreisa það sem hefur hrunið. Þetta er allt gert úr steinum sem þeir bjuggu sjálfir til, úr leir og skeljum og það sem hefur hjálpað til við að vernda þetta er að það rignir eiginlega aldrei í Lima. Síðast rigndi fyrir alvöru hér 1971, en annars er þetta bara örlítill úði. Ef það yrði hins vegar alvöru íslensk rignng hér, tæki það ekki nema svona viku að eyðileggja byggingarnar! Vissuð þið að Lima er önnur þurrasta höfuðborg í heimi? Sú þurrasta er Kairó.

Við erum að pakka núna og klára síðustu kettlebells-póstana fyrir næsta ferðalag. Förum í flug í nótt/fyrramálið og eftir 12 tíma flug erum við í Madrid!! Allir orðnir spenntir og þó er ansi skrítin tilfinning að vera að fara frá Suður-Ameríku eftir þennan tíma. Það sem ég hlakka furðurlega mikið til, er að upplifa aftur að klósettpappír sé sjálfsagður á klósettum og að það megi líka setja hann í klósettið!! The little things often matter a lot... Gleymi því til dæmis aldrei hversu óstjórnlega glöð ég varð á flugvellinum í Kína þegar ég sá hvítt postulínsklósett!! Eftir að hafa notast við göt í jörðina í nokkra daga, þá er þetta hlutur sem gleður þig!!

Bókahillutæknin


Þarna sést hvernig tækni þeir notuðu við byggingu staðarins. Þeir hrúga upp ferköntuðum steinum, sem þeir bjuggu til, allir í ca sömu stærð og þeir röðuðu þeim eins og bókum í bókahillu, ekkert á milli þeirra, en alltaf eitt lag af leir milli hverrar raðar. Þetta var gert til að byggingin myndi þola jarðskjálfta og þetta hefur svínvirkað.

Mér fannst við hæfi að hafa bókaorminn okkar til að sýna bókahillu-tæknina! Drengur sem las sjö bækur í bókasafni afa Ingimundar í fjögurra daga dvöl á Hóli.

Vinnunmennirnir

Þarna er verið að búa til steinana sem notaðir voru til að byggja þennan heilaga stað. Þeir bjuggu steinana til úr skeljasandi og leir. Aumingja mennirnir voru nú ekki mikið í ergonomiunni, vinnustellingarnar eru ekki til að hrópa húrra fyrir. Svo voru þeir gríðarlega stuttir í annan endann, því þeir þurftu frá unga aldri að bera þungar byrgðar, svo þeir urðu sterkir og stuttir. Sjaldan hærri en 1.50 á hæð.

Þarna eru þeir að fórna

Það var hefð að fórna leirkerum fyrir guðina og þarna er verið að fórna einu stóru. Á því er mynd af hákarli til að sýna virðingu fyrir Móðurinni; Hafinu. Presturinn er sá sem er með málaða bláa grímu, og það eru víst mistök listamannsins sem hefur gleymt sér aðeins, því þeir höfðu eiginlega bara brúnan og rauðan lit sem þeir notuðu til skrauts. En stundum fer kreativitetið úr böndunum..

A Peruvian delicassy..


..or an Icelandic pet!

Perú-hundurinn


Þessi tegund af hundum eru "þjóðarhundurinn", varla stingandi strá á þeim og þeir hafa víst gríðarlega læknandi áhrif á asma, exem og almenna geðveiki. Sel það ekki dýrara en ég keypti það, og þessi var nú alveg ferlega "sætur". Var hluti af sýningunni á þessum forna stað, þar sem okkur var sögð hluti úr sögu Perú og svo sýnt ýmis dýr sem hafa mikið komið við sögu landsins. Hann var rosalega rólegur, leyfði okkur að klappa sér og var voða áhugasamur um að snúsa af öllum. Að klappa honum var eins og að strjúka grófu og heitu leðurbelti sem er búið að velta upp úr sandi.

Tveir grimmir!


Húsakaup í Lima


Þessi fallegi kastali er til sölu í Lima, örugglega á fínu verði. Ég sé mikla möguleika í þessari eign og góður málari gæti gert þetta að svaðalegu listaverki!! Ég þekki einn málara...

Tuesday, July 7, 2009

Komin til Lima kl. hálf sjö að morgni!


Jæja, það sígur heldur betur á seinni hluta ferðarinnar, nú erum við komin til Lima eftir ævintýralegan endi á dvölinni í Arequipa. Við vorum búin að kaupa rútumiða til Cusco, skipuleggja ferð til Machu Picchu og svo þaðan ætluðum við að fara til Lima 6 júlí til að ná fluginu til Evrópu 9 júlí. Svo voru það verkföll og vegatálmar og alls konar órói, þannig að þetta endaði nú þannig að eftir tvær tilraunir að komast til Cusco, þá afpöntuðum við miðana og keyptum bara rútumiða til Lima, því þó við hefðum kannski komist til Cusco, þá er töluvert af fólki sem er fast þar í þó nokkuð fleiri daga en það ætlaði að vera. Og það vildum við fyrir alla muni ekki hætta á, 6 mánuðir í Suður-Ameríku eru nóg í bili. Rútuferðin gekk skítsæmilega, rútan fín, en vegirnir ekki, svo þrír úr hópnum tóku upp á því að æla á leiðinni (allir ælarar tengdir mér..), og þar af einn á gólf og hurð rútunnar. Þjónustuskvísan átti nú bara bágt með sig sjálf þegar við bentum henni á skvetturnar, og hún lét þær bara vera alla ferðina! Ekki var ég með græjur í farangri til að þrífa þetta, svo þetta varð að vera. Sem betur fer var einhver dama fyrir aftan okkur með svona lyktar-eyðingar-sprey með sér í handfarangrinum, sem hún notaði óspart. Svo tókst okkur nú að sofna á endanum, og þegar við vöknuðum eftir þessa 15 tíma rútuferð, vorum við barasta komin til Lima, án nokkurra vandræða (daginn eftir hins vegar verkfall og líklega næstu þrjá daga í viðbót, svo við rétt sluppum)!! Mikið vorum við fegin að vera komin frá Arequipa, enda vikurnar orðnar 6, sem við höfum verið þar, mjög fallegur bær, mjög fallegt allt í kring, vinalegt fólk (fyrir utan sjónvarpsþjófinn) en heldur betur kominn tími til að halda áfram ferðinni. Maður setur sig í stellingar fyrir ákveðinn tíma á hverjum stað og ef sá tími styttist eða lengist án þess að maður sjálfur hafi nokkuð um það að segja, þá er það bara challenge að sætta sig við það. Æfing í sveigjanleika. Það var dálítið skondið, að um kvöldið var boðið upp á ókeypis bingó í rútunni (þeir eru spes Perúbúar!). Við tókum auðvitað þátt, voða spennt, vantar ekki keppnisskapið í okkur, bingó eða fótbolti, skiptir ekki máli. Þegar leið á spilið magnaðist nú spennan hjá okkur, því ég var alveg að fá bingó. Og ég vann!!! Ég sendi Viktor upp á efri hæðina til a sækja vinninginn, en hann kom tilbaka, og skildi ekkert hvað skvísan var að segja. Svo ég fór sjálf, að heimta vinninginn, alveg hreint gríðarlega spennt að sjá hvað ég vann. Ég var hins vegar ekki lengi að afþakka vinninginn þegar ég sá hver hann var. Ferð tilbaka til Arequipa!!

Markaður


Guttarnir mínir gerðu það nú fyrir mig einn daginn í síðustu viku að fara með mér á markaðinn í Arequipa. Þar úir og grúir af öllu, ótrúlegt úrval af öllu milli himins og jarðar til sölu, á spottprís, að sjálfsögðu. Fer stundum minna fyrir gæðunum, en hva.... Voða gaman að vera þarna. Allavega í soldinn tíma, svo fær maður overdose.

Ekki slæmt


Þegar okkur var ljóst að við kæmumst ekki til Cusco vegna vegatálma og verkfalla, þá var ekkert annað í stöðunni en að hanga nokkra daga í viðbót í Arequipa. Garðurinn var mjög sólríkur og ég ákvað því í fýlunni yfir því að þurfa að bíða svona, að taka bara sólbaðið af krafti!! Agatha Christie og hvítvín voru svo bara til að gera sólbaðið skemmtilegra!! Svo var líka gaman að fylgjast með Apríkósu í baði..

Apríkósa í baði


Hundurinn sem húseigendur eiga (sem er hvítur í 5 mín eftir þvott og svo strax orðin grá og moldug) er hér í þvotti í garðinum. Þarna er yngsta dóttirin að sinna skylduverkinu sínu, þá þurfti hún að tölta niður í garð með ca 20 lítra af vatni í flöskum og hundasjampó og svo var bara baðtími, þar sem þessi annars óhlýðni og hressi hundur stóð grafkyrr og lét þvo sér hátt og lágt. Þessa stelpu höfum við grunaða um að þykjast ekki skilja okkur, hún er oft að passa "gistihúsið" og þegar okkur vantar eitthvað, undirbúum við okkur með orðabókinni, berum orðin vandlega fram, tölum hægt og skýrt, en allt kemur fyrir ekki, hún þykist ekkert skilja, hlustar samt í nokkrar mínútur og segir svo: "no! .... ehe.." og sækir aðra systur. Hún er samt voða greindarleg stúlka... nema þegar við tölum.. þá virkar hún barasta greindarskert. En kannski erum það bara við sem erum smá skert... eða spænskan okkar í það minnsta..

Svona var maður nú lúpulegur í þvottinum..


..en svo þegar henni var sleppt og hún fékk að hrista sig, þá elti hún okkur uppi og gerði í því að reyna að gera alla jafn blauta og hún var sjálf. Ferlega skemmtilegur hundur hann Apríkósa frá Arequipa!!

Wednesday, July 1, 2009

Spennandi matur og fleira..



Við fórum út að borða síðasta laugardag, á alveg frábæran veitingastað hér nálægt. Yfirleitt höfum við nú eldað sjálf hér í Arequipa, en fyrst við vorum á þjóðlegum og góðum stað, þá ákvað Gaui að prófa enn einu sinni að panta naggrís og í þetta sinn var hann heppinn. Hann fékk hann í heilu lagi, haus, klær og alles, eins og hann hafði lesið um í bókunum. Jummíjummí!! Eða jukkíjukkí... þarna er kvikindið og bragðið: "tasted like chicken". Sumir halda að þetta sé þjóðarrétturinn, en það er ekki svo, þetta er bara algengur réttur hjá fátækari hluta þjóðarinnar, því þetta er ódýrt kjöt og auðvelt í framleiðslu. Við hin fengum okkur alpacasteikur og súpu, æðislega gott.

Það er ansi mikill órói hér í Perú núna sem við verðum svo sem ekki mikið vör við nema af því við erum að fara að ferðast, mikið um verkföll og vegatálma. Við höfum farið fram og tilbaka í ákvörðunum um hvort við getum farið til Cusco (og þaðan til Machu Picchu) eða ekki. Maður fær alls staðar mismunandi svör og fáránlega erfitt að komast að einhverju traustu í þessum málum. Það veit bara enginn neitt. Svo nú er allavega planið að fara til Cusco á morgun (miðvikudag) og treysta á að við komumst alla leið án tafa eða vegatálma. Mótmælin og verkföllin eru friðsæl, svo það eru engar áhyggjur þar. Bara frekar erfitt ef rútuferðin, sem á að taka 11 tíma, lengist mikið, þá er þetta ekkert voða gaman. En við sjáum til. Látum vita og sendið góða strauma!

Santa Catalina klaustrið


Ég fór um daginn að skoða þetta 500 ára klaustur sem er eitt það frægasta í Perú. Allir talað um að þetta sé "must see" og ég ákvað að skella mér. Ég þekki hins vegar mitt fólk og var ekkert að ýta á guttana eða Gauja að koma með, bæði erum við búin að skoða ansi margar byggingar í ferðinni og svo hefur nú bara ýmislegt í kaþólsku trúnni vakið spurningar hjá okkur. Við fáum mjög oft þá tilfinningu þegar við förum í stóru skrautlegu kirkjurnar þeirra að trúin hjá þeim snúist um svo mikla þjáningu og það vanti alla gleði. Boðskapurinn sé eiginlega að maður eigi að hafa samviskubit yfir að lifa lífinu. Í kirkjunum eru myndir og ikonar af Jesú, öllum blóðugum, þjáningarsvipur á honum, alls staðar svik, lygi og neikvæðar upplifanir á öllum málverkum. Mjög sjaldan eitthvað frá góðu stundunum í lífi Jesú. Og ég veit að hann átti margar góðar stundir. Mín skoðun er sú að maður eigi að geta leitað huggunar í trúnni, fundið gleði, traust, góðmennsku, hjálpsemi og mér finnst í raun alltaf besta reglan; að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Einfalt í raun og þarf ekki allan þennan skrautlega ramma utan um slíka lífsreglu. En kaþólska trúin er jú stór hluti menningar í Suður-Ameríku, svo við skoðum oft kirkjurnar. Þar sem hugmyndin um að ganga og skoða stórt klaustur, skála nunnanna, eldhúsið þeirra og fleira í þeim dúr (þetta er eiginelga lítið þorp sem nunnurnarnar bjuggu í, þorp í borginni innan þykkra veggja) var ekki alveg að vekja áhuga, og þar sem það var rándýrt að koma þar inn, þá fór ég bara ein í þetta sinn. Sem betur fer, þeim hefði hundleiðst... Fallegar byggingar samt! Mjög fallegar.

Tuesday, June 30, 2009

Santa Catalina klaustrið

Í þessar skálar söfnuðu nunnurnar vatni upp úr uppsprettum þarna í kring, enda dagarnir yfirleitt heitir, sólríkir og það rignir eiginlega aldrei hérna. En þær höfðu mikinn gróður í kringum sig, ofsalega mikið af blómum og fallegum trjám og þau þurfa jú vatn, eins og nunnurnar svo sem...
Klaustrið var fallegt og arkitektúrinn svakalega fallegur. Það var "gaman" að koma þarna, en ég verð að viðurkenna að ég á voðalega erfitt með að skilja hvað er á bak við þessa löngun til að loka sig frá þjóðfélaginu, eiga ekki samskipti við það nema í gengum tvöfalda hlera og telja sig svo vera að gera heiminum gríðarlegt gagn, með því að vera að biðja fyrir honum frá kl. 5 á morgnanna. Nú má ekki misskilja mig, ég trúi á mátt bænarinnar og finnst mjög gott að vita að fólk er að biðja fyrir okkur öllum, en ég gat ekki annað en pælt í því, hvort þær hefðu ekki getað gert meira gagn utan veggja klaustursins, allavega með því að fara daglega út og gera eitthvað áþreifanlegt til að hjálpa fólki. Fátæktin var og er gríðarleg í Perú, og alltaf verk að vinna alls staðar. Af hverju ekki að fara út í nokkra klukkutíma á dag og taka til hendinni? Það voru bara fáar útvaldar sem fengu að gera það. Svo voru ógurlegar hetjusögur um abbadísir fortíðarinnar, sem létu hengja sig upp á kross, föstuðu dögum saman og völdu að láta líkamann þola alls konar þjáningar til að sýna styrk trúar sinnar. Ég er á móti öfgum, svo einfalt er það. Og þetta eru öfgar. Svo mér leið ekkert voða vel eftir að hafa verið þarna og gat engan vegin skilið fólk sem gekk um gangana í klaustrinu og tók upp á video hvert einasta skref! Hvenær vill maður skella þessu í tækið og horfa aftur á 3ja tíma ferð um klaustuveggi? I don´t know, en það er nú svo margt sem ég ekki skil... og sérstaklega ekki ýmis atriði í kaþólskri trú..

Pakkinn frá mömmu


Það var nú ekkert smávegis mál að fá þennan pakka á leiðarenda. Eftir að fá skilaboð frá mömmu um að pakkinn hefði komið til Lima 12 júní og setið tíu daga í tollinum (tollfrjáls pakki),

þá fengum við stelpurnar á efri hæðinni til að hringja fyrir okkur í póstinn til að athuga hvernig á þessu stæði. þar fengum við að vita að við ættum bara að koma niðureftir, pakkinn væri hjá þeim og við auðvitað að springa af spenningi, enda vona á appolló-lakkrís OG andrés-blöðum í pakkanum!! Svo mætum við á staðinn, en hvergi fannst pakkinn, svo okkur var sagt að koma bara kl. 7 um kvöldið, þá kæmi póstburðafólkið í hús, og eitthvert þeirra væri örugglega með pakkann. Svo við fórum aftur heim, soldið svekkt, en héldum samt gleðinni, enda allt í lagi að bíða nokkra klukkutíma í viðbót. Svo leið dagurinn, og við mættum á slaginu 7 að sækja pakkann, en ekki fannst hann heldur í þetta sinn. Þá sagði manngreyið sem var voða hjálpsamur, að líklega væri pakkinn í næstu deild, sem var 20cm frá þessari deild, en lokuð. Við áttum að mæta kl. 8.30 í fyrramálið og þá yrði leitað að pakkanum fyrir okkur. Þá voru nú sumir gráti næst af vonbrigðum, ótrúlegt hvað svona sending að heiman hefur að segja fyrir mann, þegar margir mánuðir eru síðan maður var á heimaslóðum. En Gaui hélt góða skapinu, bauð sig fram í að fara snemma um morguninn að sækja pakkann og Arnór með, svo kl. 8.15 rölta þeir kátir af stað. Við hin sofum bara lengur, vöknum svo um 9-leytið, borðum morgunmat, vöskum upp, þvoum föt (ég segi þetta í fleirtölu, en í raun er þetta nú bara ég sem sé um þetta, guttarnir voru í tölvunni minnir mig... þeir sjá þó um uppvask eftir kvöldmat, alla daga) og þegar klukkan var orðin 11, var mér nú hætt að standa á sama. Þegar ég var á leiðinni að fara út á pósthús að athuga hvort ég fyndi þá, þá mættu þeir loksins!! Og tilkynntu þegar ég spurði hvernig þetta hefði getað tekið svona langan tíma "við lentum í röð!! Þriggja manna röð!!". Þeir voru um klukktíma að afgreiða eina manneskju, pælið í því! Skriffinskan er þvílík að fólk getur þurft að eyða heilum degi á pósthúsinu þegar það sækir pakka. Þeir eru voðalega hrifnir af pappírum hérna í Perú.

Förum á morgun frá Avenida Emmel


Þarna erum við að njóta ísbúðarinnar í göngugötu Arequipa, hrikalega góður ís og svo selja þeir líka bjór fyrir þá sem vilja frekar svala þorstanum í sólinni, híhí. En nú heldur ferðalagið áfram, við förum frá Arequipa annað kvöld. Við erum búin að vera hér í 5 vikur, höfum farið í stuttar ferðir frá borginni, Colca Canyon, Misti og fleira, en það sem stendur líklega uppúr hjá okkur er samveran í íbúðinni sem við höfum haft á leigu. Þar er stórt eldhús, sem við höfum eytt mörgum stundum, hlæjandi og vinnandi og svo garðurinn sem er lítill, en alveg frábær. Þegar ég vakna á morgnanna er oft það fyrsta sem ég geri að draga gardínuna frá glugganum og svo leggjast aftur í rúmið, því garðurinn iðar af fuglalífi. Þeir koma af öllum stærðum og gerðum, rótandi í laufunum, rekandi aðra fugla í burtu, étandi maurana og annað smálegt sem þeir finna, og það er ferlega næs að vakna við svona líf. Sólin er mætt í garðinn um 9-leytið, er strax hlý og góð og er svo alveg til um 3-leytið. Ýmislegt brasað í þessum litla garði!

Við höfum æft mikið..


..og allar æfingar fara fram í garðinum.

Höfum öll bætt okkur í því sem við vildum bæta okkur í. Arnór er t.d. farinn að geta staðið sjálfur á höndum og getur staðið í 40sek! Hann kemst sjálfur upp og finnst það frekar gaman, enda búinn að æfa það mikið. Næstum jafnmikið og upphífingarnar, sem eru orðnar 20!!!

..stundum soldið kalt..


..inni í eldhúsi, en þá förum við bara út í garð með matinn okkar og sólin vermir okkur á skotstundu og ekki var lengur þörf á ponsjó!

Já..


..við höfum haft það rosa gott í garðinum í Arequipa!

Thursday, June 25, 2009

Colca Canyon ferðin


Við vorum auðvitað ansi spennt að leggja í hann til Colca Canyon eftir reynsluna af guidunum í "fundum ekki fossinn og lindin lokuð"-ferðinni, en guidinn í þessari ferð var flottur! Fyndið að fara í svona skipulagða túristaferð öðru hvoru þegar maður er orðinn vanur að stýra sér svona alveg sjálfur. Stoppað á fullt af stöðum og öllum í rútunni skipað út að taka myndir, allir hlýða, og tölta svo upp í rútu aftur og setjast í sömu sæti, alla ferðina. Við stoppuðum t.d. á þessum markaði og keyptum hlýja alpaca peysu af mömmu þessa litla barns, sem var auðvitað með mömmu í vinnunni, lengst uppi á heiði. Eitthvað var litli guttinn óánægður, vældi og kvartaði, en það þýddi lítið, mamma þarf að vinna. Reglulega komu rútur fullar af túristum, þá var guttinn lagður niður og fékk litla athygli fyrr en rútan fór og túristarnir með.

Þjóðarréttur "utan-höfuðborgar-fólksins"


Gaui var auðvitað sjálfum sér samkvæmur

og pantaði sér ævintýralegan mat. Hann hafði heyrt um "guinea pig", nokkurs konar naggrís (eins og við höfum sem gæludýr heima...) sem er aðalfæða sveitafólksins. Ekki endilega vegna þess að það er svo gott á bragðið, heldur er þetta svo ódýrt kjöt og auðvelt í ræktun, eignast alltaf fullt af ungum og það oft á ári. Hann var samt soldið svekktur með þetta, því jú, það bragðaðist svo sem ágætlega, en hann hafði heyrt að sums staðar væri það borið fram í heilu lagi, haus, klær og alles, og hann hafði hlakkað svo til þess! Stundum veit ég ekki frá hvaða plánetu hann er....

Clive englendingur


Þarna er Clive, alger sprelligosi og ferlega skemmtilegur náungi sem var með okkur í ferðinni. Hann er á ferðalagi um Suður-Ameríku með frænda sínum sem er 18 ára, þeir ferðast um eins ódýrt og þeir geta, borða eins ódýrt og þeir geta (og eru því að borða á stöðum sem við viljum helst ekki borða á, ekki "bara" sóðalegt, heldur líka suddalega mikill suddamatur...) og þannig láta þeir peninginn endast lengur. Þeir hafa verið á ferðinni síðan í maí og fara heim til Englands í ágúst. Þeir voru ofsalega skemmtilegir ferðafélagar og Clive var alger barnakarl, alltaf að spjalla við Orra (þeir sátu saman í rútunni), kitla hann, leyfa honum að taka myndir á biluðu myndavélina sína og kalla hann "you cheaky monkey!!". Þarf ekki að taka það fram að Orri dýrkar hann, eins og Arnór og Viktor, því hann var stanslaust fyndinn og kátur, bauð Orra upp í dans á þessu skemmtikvöldi og þeir áttu sviðið, enda Orri ansi lítið feiminn við athygli.

Rifin upp í þjóðdans


Sjáið þetta! Það er eins og ég sé að dansa við barn!! Karlmenn í Perú munu seint teljast hávaxnir, því jú, hann er fullvaxta þessi. Og ekki bætir það útlitið á "dansparinu" að ég er í fjórum peysum, því það var soddan skítakuldi á veitingastaðnum þarna, þeir hita aldrei upp húsin sín!! Þrátt fyrir fullt af heitu vatni í jörðinni og íííííísakulda á kvöldin, nóttunni og morgnanna. Nei, nei, þau klæða sig bara meira.
Ég heyrði strákana okkar vera að spjalla saman þarna um kvöldið, þeir voru að rifja upp með nostalgískum tón "munið þið heima... þá gat maður bara farið úr rúminu á nærbuxunum og var EKKERT kalt!!".

Vaknað snemma


Við þurftum að vakna kl. 5.20 til að við myndum ná að sjá condor-fuglana. Þeir eru helst á flugi milli 7-9 á morgnanna og þar sem Chivay er í tveggja tíma fjarlægð frá Colca canyon, þá var það bara harkan sex. Guttarnir tóku því auðvitað vel, enda íslensk hörkutól, en mikið svakalega var kalt!! Og það er sko ekkert verið að splæsa í upphitun á hostelinu, svo hitastigið í herberginu í herberginu þarna á myndinni var um 5°. Huggulegt að vakna í svona.... hehe. Það gerði það reyndar aðeins auðveldara að fara á fætur, að við sváfum eiginlega í öllum fötunum. Svo fórum við í "morgunmat", þar sem boðið var upp á hvítt loftbrauð (eins og á flestum hostelum), marmelaði og te. Guttunum var svo kalt að þeir létu sig hafa það að drekka te, ég skellti smá sykri út í það og þetta var hinn besti drykkur. Sykur líka góður í háa loftinu, og Chivay í ca 3500m hæð (held ég, allavega eitthvað milli 3-4000m).

Allt í pöllum


Það var voða skrítið að keyra um á þessu svæði, því þrátt fyrir þessa hörðu náttúru, þá er alls staðar á mögulegum og ómögulegum svæðum búið að skipta svæðinu í hluta og búið að búa til "tröppur" í brekkurnar, til að nýta svæðið til ræktunar. Þessir pallar eða tröppur eru hins vegar ekki hugmynd nútímans, heldur eru þeir alveg síðan fyrir Inka-tímabilið, sem sagt frá um 1200. Svakalega fallegt að horfa yfir þetta og með ólíkindum hvað þeir hafa farið hátt upp í fjallshlíðarnar til að gera þessa palla. Alger snilld líka hvernig þeir svo nýttu vatnið til að vökva gróðurinn, það voru byggðar rennur meðfram pöllunum og vatnið rann frá efsta palli, gegnum jarðveginn og niður í næsta pall, þannig að sem minnst fór til spillis. Alger snilld og ofboðslega spes að horfa yfir þetta villta, stórbrotna en skipulagða svæði.

Fátækleg híbýlí


Eitt þorpið sem við stoppuðum í, mjög týpískt þorp á þessu svæði, lítil hús, fallegar hellulagðar götur, en svo í öllum litlum hliðarsundum allt út í ruslapokum, dýr í görðum (svín, kindur, lamadýr, ansar, hænur og beljur). Ef þið rýnið í myndina sjáið þið lögin í jarðveginum sem ég talaði um áðan, fyrir ofan þorpið. Þessir "pallar" í brekkunum voru ALLS STAÐAR.

Í gilinu


Það var stórfurðulegt að sjá þessi þrjú hús þarna leeeengst niðri í gilinu. Engin leið að komast að þeim nema að ganga eftir stíg sem lá í brattri fjallshlíðinni. Við vorum mikið að spá hvort þetta væri bóndabær, en finnst þó líklegra að þetta sé göngumanna-skáli, enda gönguferðir vinsælar í gilinu og þá gist 2-3 nætur.

Colca Canyon


Þarna sést soldið yfir gilið, það er gríðarlega djúpt og mikilfenglegt. Háir fjallgarðar allt í kring. Ekki gaman að detta þarna niður, en sumir túristarnir voru soldið í að klifra ansi nálægt brúninni til að reyna að ná góðum myndum af condorunum. Þeir búa þarna í gilinu, við sáum allt að 15 stykki, enda er þeim gefið vikulega. Einu sinni í viku er stórt dautt dýr sett í gilið til þeirra og þar sem þeir eru hræætur, eru þeir voða sáttir við þetta. Það eru þá t.d. dauðir asnar eða naut sem eru fæðan þeirra. Og kannski einn og einn fífldjarfur ferðamaður.... who knows?

Condor


Það var algerlega frábært að fylgjast með þessum stóru fuglum svífa um loftið. Þeir voru heilmargir og komu oft 2-3 metra nálægt okkur þar sem við stóðum á útsýnispalli við gilið.

Fálkinn að sýna vængina


Í einu stoppinu var maður með þennan stóra fálka. Maður mátti prófa að halda á fuglinum og það var ekki hægt að láta slíkt tækifæri fara framhjá sér. Pollrólegur, risastór og glæsilegur fugl, og greinilega vel passað upp á hann. Arnóri fannst rosalega gaman að prófa að halda á honum og fuglinn sat á hendinni hans og hoppaði svo upp á hausinn hans þegar eigandinn skellti þessum fína leðurhatti á Arnór. Svo stóð hann bara þar og horfi í kringum sig, meðan Arnór flissaði.

Viktor með fuglinn


Það var víst ansi erfitt að standa uppréttur með fuglinn á hausnum og ekki gerði það auðveldara að Clive, enski vinur okkar sagði við Viktor að fálkinn væri að skoða eyrað hans ansi vandlega, liti út fyrir að hann ætlaði að narta í það... Auðvitað haugalygi, en þegar dýrið stendur á hausnum á manni, þá fer nú fiðringur um mann við svona tilkynningu.

Orri flottur


Þetta er ekkert smá stór fugl!!

Varningur til sölu


Allstaðar er hægt að kaupa sér skrautlegar vörur, en ansi mikið af því sem er í boði er það sama aftur og aftur og aftur. Samt er alltaf gaman að skoða, og hér er það Arnór sem er að athuga hvort eitthvað gott leynist í básnum. Hann fellur ansi vel inn í umhverfið í ponsjónum sínum, en við erum búin að kaupa okkur nokkra ponsjóa, enda fátt jafn hlýtt og gott á þessum köldu kvöldum og morgnum hér.

Smalar


Alltaf öðru hvoru rekst maður á svona hópa, smali með dýrin sín á leið á eða frá beitilöndum. Oft eru það Lamadýr eða Alpaca, en stundum eru það beljur, kindur eða jafnvel asnar. Lamadýrin er nú flott, með þessar rauðu slaufur á eyrunum.

Á veitingastað..


þar sem við stoppuðum eftir gilið og condorana, voru þessir hrikalega sætu tveggja mánaða Alpaca-ungar. Þeir eru þarna eins og heimalningar, fá pela og eru bara á rölti í portinu fyrir framan veitingastaðinn. Guttarnir voru náttúrulega gríðarlega hrifinir af þeim, prófuðu að gefa þeim lauf og þeir átu aðeins hjá þeim. Sá brúni var ofsalega blíður og rólegur og það mátti klappa og knúsa hann, en sá hvíti var öllu stífari. Hann var meiri mannafæla og virkaði töluvert lítið hrifinn af fólki. Þegar Orri beygði sig yfir hann, hélt höndinni á bakinu hans og hallaði sér fram til að sjá framan í hann, þá tók kvikindið sig til og spýtti góðri slummu framan í Orra. Guttinn fékk náttúrulega vægt sjokk, kom til mín með undirskálaaugu, allur í grænum lauf-slef-slettum og sagði hátt "þetta er EKKI fyndið!!" því allir í kring misstu gersamlega stjórn á sér. Alltaf svo fyndið þegar aðrir lenda í svona. Ég vildi koma þessu slefi sem fyrst af litla stráknum mínum, hélt niðri í mér hlátrinum og sagði, nei, nei, þetta er ekkert fyndið, og í æsingnum reyndi ég að komast inn á karlaklósettið, en var þá tekin föstum tökum af "alpaca-verðinum" sem stýrði mér, þó mjúklega, að kvennaklósettinu, með snöktandi grænflekkóttan Orra á eftir mér. Hann var nú fljótur að jafna sig og getur hlegið að þessu núna.

Eins og módel


Alger krútt, og eftir spýtinguna á Orra, þá hélt fólk sig í þægilegri fjarlægð fyrir þessa Alpaca-unga.

Á hæsta punkti


Hér erum við á hæsta punkti í ferðinni, 4910m og maður fann alveg fyrir því. Ég prófaði að gera nokkrar hnébeygjur og það tekur ekki margar endurtekningar að ná mæðinni upp. Ég stillti Gauja auðvitað við steininn sem á er skrifað "Volcan Misti, 5825m" og ef vel er skoðað þá sést glitta í toppinn á El Misti í beinni línu fyrir ofan hægra eyrað á Gauja. Hann gekk á fjallið í síðustu viku, fór í tveggja daga ferð, ásamt tvítugum frakka, perúmanni, austurískri kærustu hans og svo guidinn. Fyrst var tjaldað í 4600m hæð, nístandi kuldi, farið að sofa kl. 6 og allir vaktir kl. 1 um nóttina til að hefja gönguna á toppinn í myrkrinu. Kuldinn var svakalegur, allir með bankaræningjahúfu og ljós á enninu. Ýmist gengið í möl eða stórgrýti og ferðast áfram í hænufetum, því loftið er svo þunnt að minnstu átök kosta mikla mæði. Frakkinn sem hafði verið manna hressastur daginn áður gafst upp í 5100m hæð, leið illa, en restin af hópnum barðist áfram og komst á toppinn kl. 9.10 um morguninn. Alger stórsigur, og Gaui gríðarlega ánægður með árangurinn, enda þessi ferð á fjallið fallega, eitt það erfiðasta sem hann hefur gert!!

Á einum af hærri punktum leiðarinnar


Hér erum við í ca 4500m hæð og þarna eru uppsprettur sem yfir liggur klaki stóran hluta úr árinu. Svakalega flott og auðvitað skylda að stoppa rútuna og "everybode now take pítjur". við stilltum okkur upp, minnum reynar dulítið á Álafoss-auglýsingu í Alpacapeysunum okkar...

Bakpokaliðinu..


..detta oft skrítnir hlutir í hug. Þessi gaur er frá Englandi, tölti rólegur út úr rútunni með okkur hinum til að taka myndir af ísnum. Og maður má náttúrulega ekki líta af þessu liði, þá er það búið að missa stjórn á sér, hehe, þetta var nú reyndar soldið fyndið... Gauja fannst þetta minna hressilega á nokkra félaga sína, nema þeir hefðu líklega ekki haldið fyrir...

Orri hjá ísnum..


..honum datt ekki í hug að rífa sig úr fötunum.

Condor


Þessi hafði gaman að því að fljúga yfir ferðamannahópinn, kom ansi nálgt okkur stundum, hefur líklega þótt fyndið hvernig öll andlitin á fólkinu breyttust í myndavélar, bara við það að hann blakað þessum tveggja metra vængjum. Líka spurning hvort hann væri að athuga hvort einhver ferðamannanna liti veiklulega út, Condorar eru jú hræ-ætur.
Ég sá fyrir mér góða hugmynd að auglýsingu þarna á svæðinu, þar sem fólk lagði svo mikið á sig til að ná flottri mynd, var klifrandi fram yfir kantinn sem mátti ekki klifra yfir, enda ca 1200m niður í gilið fyrir neðan: auglýsingin væri þannig að ferðamaður væri svo upptekinn við að ná myndum af Condorunum, sem stríddu honum með því að fljúga alltaf lengra og lengra út og ferðamaðurinn færi lengra og lengra út á kantinn, þar til að á endanum myndi hrynja niður. Þá myndi heyrast svona "muhahahaha" í Condurunum, þeir steypa sér að líkinu og berjast aðeins um það (ekki sýnt samt neitt ógeð, börn verða líka að njóta auglýsingarinnar..), en svo væri aftur skot á ferðamannahópinn, sem sér annan Condor nálgast, þau ætla að fara að ná góðum myndum, en þá sjá þau að Condorinn er kominn með myndavél dauða mannsins! Og hann er að taka myndir af heimsku túristunum!! Svo kæmi texti "Kodak 390, svo einföld, að allir geta notað hana!".