Monday, January 26, 2009

Heimilsfangið hér!!

þar sem svona margir eru að spyrja um heimilisfangið hérna þá viljum við segja ykkur að það er í commentum sem eru við póstana á undan, bara að leita :) Veit ekki hvort Mjölnismennirnir hafa fattað að gellan sem þeir eru með á plakati í kvennaklefanum og afgreiðslunni kemur stundum á æfingar í klúbbnum sem við æfum í, hehe, eruð þið allir á leiðinni hingað??? Nóg pláss á gólfinu hér í íbúðinni (ef manni er ekki illa við maura!). Gaman að fá comment frá ykkur, lesum þau alltaf og brosum og hlýnar að innan!!!!!!! Kveðjur til Íslands, áfram Mjölnir!

Helgin - Ekki fáir þarna!


Svo sunnudag, var smá vinnutörn hjá Gauja fyrir hádegi. Hann tölvustússaðist og ég og guttarnir fórum í sund á meðan. Það er laug hér í húsinu, rosa fín lítil laug með vatni sem er reyndar við frostmark, og svo er heitur pottur, en það finnst mér ALGER LÚXUS!! Eftir hádegi fórum við svo á fótboltaleik hjá Flamengo á sjálfum Maracana, en það er víst stærsti fótboltavöllur í heimi, tekur milli 150-200þús áhorfendur. Flamengo var að keppa við Friburguense og á leikinn mættu um 36þús manns. Þetta var rosaleg upplifun, bæði leikurinn sjálfur, en ekki síst umgjörðin. Það var gríðarlega mikið af fólki og langflestir í Flamengo-treyjum og langar biðraðir við miðasöluna. Biðraðirnar pössuðu vopnaðir verðir, og allir sem reyndu af svindla sér í röðina voru umsvifalaust sendir aftast. Ég skil bara ekki í fólki sem þorir að reyna að svindla á þessum mönnum með skammbyssuna. Reyndar eiga strákarnir frekar erfitt með að taka þessar löggur alvarlega, Arnór stóð við hlið einnar löggunnar og var með andilitið í sömu hæð og byssubeltið. Þá horfði hann upp á mig, með stríðnissvipinn sin og hvíslaði: „ég ætla að koma við byssuna!...“ eins og ekkert væri eðlilegra. Ég rétt náði að stoppa hann, en hvernig eiga krakkar frá Íslandi að þekkja þetta, þeim finnst þetta bara spennó og fatta ekki hverju löggurnar hérna lenda stundum í. Reyndar eru okkar íslensku löggur að lenda í frekar óskemmtilegum hlutum núna heyrist mér á fréttum heima, en ég vona svo sannarlega að fólk átti sig á því að löggurnar okkar eru lágt launaðar og þeirra fjárhagsstaða jafnvel verri en margra mótmælendanna í þessu ástandi sem er núna. Þær eru að vinna vinnuna sína og vilja gera hana vel. Stuðningskveðja til lögganna heima, Jón Viðar, Kjarri, Helga, Baddý og þið öll!!!!
En aftur að Maracana: Þegar kom að okkur í miðasölunni þurfti Gaui að krjúpa niður að litlu gati ca. 20cmx20cm stóru og í 1m hæð. Það er á sko heldur betur ekki að vera hægt að stela úr kössunum þarna. Við fengum miða og þá hófst ganga kringum hálfan völlinn til að fara að innganginum sem okkar sæti voru nálægt. Þetta er STÓÓÓÓR völlur! Við komum um hálftíma fyrir leik, fundum okkur sæti og nutum þess að horfa í kringum okkur. Gaui táraðist. Draumur að uppfyllast hjá honum og fátt sem gefur honum jafnmikla gæsahúð og mörg þúsund fótboltabullur syngjandi og hoppandi í takt. Það var einungis hægt að kaupa gos eða vatn í sjoppunni og okkur varð hugsað til síðasta leiks sem við fórum á, en hann var á Barbados. Tvo sterkustu lið Barbados að keppa, um 150 manns mættu, ca. 5 sem horfðu á, hinir voru meira í að drekka vodkað sem hægt var að kaupa í lítraflöskum í sjoppunni og kjafta. Völlurinn þar var líka skemmtilega hæðóttur, við vorum á „vinstri væng“ og þegar spilið barst yfir á þann hægri, þá sáum við ekki leikmennina því það var nokkuð há brekka á miðjum vellinum. En á leiknum í gær var yndislegt að fylgjast með fótboltanum, þeir eru svo léttspilandi og snöggir og alltaf eitthvað að gerast á vellinum, enda liðu þessar 90 mín hratt. Flamengo vann leikinn 1-0 en samt var púað á þá, hér eru áhorfendur kröfuharðir, þeir vilja fullt af mörkum og 1-0 sigur ekki nóg. Gaui ætlar kannski að taka eitt gott fótboltablogg hérna á næstu dögum, langar eflaust að bæta við hérna.

Heimleiðin var skrautleg. Við tókum leigubíl með hrikalegasta bílstjóra sem ég hef hitt. Bíllinn var alger dós, átti erfitt með að komast í gang í byrjun, og svo keyrði hann á 150 alla leiðina. Hann keyrði yfir rauð ljós og ef einhver var rólegur og á löglegum hraða fyrir framan hann lá hann á flautinni og bilkkaði ljósunum til að komast framhjá. Ég er viss um að hann hafi verið helming leiðarinnar á tveimur dekkjum og ég var virkilega með hjartað í brókunum í þessari ferð. Við vorum viss um að ef ömmurnar okkar hefðu verið í bíl með þessum manni hefðu þær hent sér út á ferð, bara til að losna burt, hehe. Svo þegar við vorum komin heim, þá borguðum við og fengum þetta blíða sólskinsbros frá honum, pollrólegur og kátur. Svo tætti hann af stað aftur. Við vorum öll frekar „hrist“ eftir þetta, nema Viktor sem sagði: „vá, ég ætla að ráða þennan sem einkabílstjóra þegar ég verð stór“.
Góð helgi að baki og nú er mánudagur og við búin á einni tveggja tíma BJJ æfingu og þrír tímar í þá næstu, sem er þrír tímar! So tudo bem! Ciao!! J

Og svo helgin


25 janúar 2009-01-25
Við höfum átt fína helgi hér, á laugardag fórum við í miðbæinn, því ég var svo ákveðin í að það væri alger skylda að sjá miðbæ í þeim borgum sem maður er í, til að fá mynd af lífinu í landinu. Við þurftum þó fyrst að fara í innkaupaleiðangur, það er göngutúr sem tekur um tíu mínútur í búðina og svo aðeins lengri tíma heim, því við erum stór fjölskylda sem þarf mikinn mat. Alveg er það greinilegt að guttarnir eru farnir að borða meira, mér hefur oft verið sagt gegnum árin, „jáhá, ÞRÍR strákar... það mun eitthvað kosta maturinn í þá!! Hehe“ og ég hef bara brosað með. En núna er ég farin að finna þetta vel, ég næ varla að vakna stundum á morgnanna áður en sá elsti er kominn: „mamma, hvað verður í matinn í kvöld?“ „má ég fá mér eitthvað núna...?“ og hálftíma seinna: „má ég fá að borða, oh, það er ekkert til....!“. Auðvitað er ekkert til, þið eruð búnir að borða allt!!! En semsagt, við berum annan hvern dag ansi þunga poka heim, allir hjálpast að, enda vatn, mjólk, ávextir og bara allt sem heimilið þarf borið heim. Það er nú lúxus að geta bara skellt pokunum inn í skottið á bílnum, þið þarna heima!! Gleðin samt við að fara í búðina er mikil, kjötið, fiskurinn og ávextirnir eru svo fersk og flott að það er eftitt að stýra sér í valinu. Mann langar að kaupa allt. Eitt hérna er þó skrítið, það er mjólkin, en hún er eins og á St. Lucia g-mjólk,. Það er, hún stendur bara úti á gólfi í búðinum, og endist volg í 6-10 mánuði. Ojojoj, hvað hún er vond á bragðið ef maður tekur hana í mjólkurglasi eins og heima, og það er sko EKKERT suðað um morgunkorn hérna, náttúrulega vita vonlaust að borða kornflexið með g-mjólk. Við kaupum samt örlítið af mjólk til að setja út í „vitaminas“ drykkina sem við gerum hérna, en það er einn aðaleinkennisdrykkur Brasilíubúa, ávextir í blandara og mjólk útí. Rosa gott, enda mangó, jarðaber, melónur og bananar GLÆNÝ og vel þroskuð. Talandi um jarðaber, hér kostar bakkinn af jarðaberjum um 2 real, sem er tæpur hundrað kall, svo við kaupum óspart af þeim. Allavega, svo þegar innkaupaferðin var búin var kominn tími á bæjarferð og við tókum leigubíl. Hér er einungis örlítið dýrara fyrir okkur að taka leigubíl heldur en strætó þar sem við erum svona mörg. Gaman að ferðast í leigubíl, og þetta var fyrsta alvöru ferðin okkar út fyrir hverfið okkar J svo við vorum spennt. Við Gaui búin að liggja yfir Brasilíubókinni „rough guide to brazil“ og lesa um centrum í Ríó, en það reyndist nú örlítið erfiðara en við héldum að finna góða nálgun á þetta allt saman. Eftir miklar pælingar ákváðum við að byrja centrumferðina á Placa XV nóvembré, átti að vera glæsilegt torg með mikla sögu og góður fallegur göngutúr þaðan að National Museum sem er víst byggt að fyrirmynd Louvre!! Ekki amalegt. Við skellum okkur í leigarann, við erum alltaf fjögur afturí venjulegum bílum, þeir eru nú ekki mikið að pæla í beltum hérna og maður sér krakkana ýmist hanga út um gluggann eða á milli framsætanna í bílunum við hliðaná. Ég reyni yfirleitt að setja guttana í belti, og sit svo einhvernvegin í klessu sjálf, en stundum sitjum við Viktor saman í belti í miðjunni. Leigubílstjórar eru svo öruggir bílstjórar :Þ Nú kallinn var svolitla stund að skilja portúgölskuna hans Gauja, en skildi loks og sagði „ah, plasasenk!!“ Við brostum bara. Þegar við svo vorum komin á staðinn blasa við okkur ca. tuttugu heimilislausir að kveikja sér bál og kúra sig við húsveggi, einhverjir að tína rusl og skoða hvort það væri ætilegt og hér og þar á stjái lögreglumenn. Engir venjulegir lögreglumenn þó, heldur brynvarðir sérsveitarmenn með vélbyssur og kylfur. Hmmmm, við spyrjum „placa nóvembré fimmtán..?“ og bendum á kortið, jújú, þetta var réttur staður, bara labba til hægri. Svo við fórum út, Gaui tilkynnti dimmri röddu: „strákar hér löbbum við þétt!“ því Viktor á það til að draga sig aðeins út úr hópnum, svona „ég er sko ekki með þessum túristum...“. En tilfinningin var skrítin og torgið frekar eyðilegt. Við löbbuðum hratt yfir þarna og beygðum inn á stóra götu þar sem virtist allavega vera fólk sem hefði heimilisfang, en það var merkilegt hversu fátt var í bænum. Allt bara tómt. Svo við vorum frekar stutt þarna, óþægileg tilfinning, og stukkum upp í leigubíl aftur og létum keyra okkur niður á Cobacabana. Þar var mun meira af fólki, miklu meira líf og allt önnur stemmning. Okkur var létt, en nú erum við líka búin að sjá miðbæinn. Við löbbuðum aðeins við ströndina, fengum okkur kókoshnetu, horfðum á strandfótboltaleik og skoðum handverksmarkað sem var þarna. Æðislegt. Strákarnir voru dolfallnir yfir steinunum sem voru þarna til sölu, og svo var líka myntsölukall þarna, með gamla peninga allt frá 1800 og eitthvað. Orri vildi finna pening með mín fæðingarári og spurði: „mamma, hvenær ertu fædd, sautjánhundruð og hvað..??“. Eftir smá labb við Cobacabana fórum við ánægð upp í leigara aftur og brunuðum „heim“ í okkar hverfi. Gaman við þetta er að við erum bara ennþá ánægðari með okkar hverfi og okkar strönd eftir svona túr. Okkar Barra beach er sko alveg jafn flott og Cobacabana, og jafnvel eh, dear I say... BETTER..?! Mér finnst frábært hvað Brasilíumenn hugsa vel um strandirnar hérna, þetta er geinilega svo stór partur af þeirra kúltur að vera á ströndinni, að þær eru jafn vel hirtar og flottu miðbæirnir í V-Evrópu. Ströndin og stígarnir við þær er þeirra miðbær.
Eftir miðbæjartúrinn fórum við á kjúklingastaðinn okkar, en við erum búin að finna þennan fína stað þar sem við fáum fullt af mat fyrir ekki alltof mikinn pening. Þetta er staður sem við löbbum alltaf framhjá þegar við förum á æfingu og erum farin að fá vink og kveðjur frá þjónunum þegar þeir sjá okkur skunda framhjá. Gaman. Við ákváðum að vera ævintýragjörn í drykkjavali gærkvöldi öll sömul (eða gaurarnir voru kannski pínulítið þvingaðir í það..) og þeir pöntuðu Guyrana gos, en það er rosalega vinsælt hér, og við pöntuðum rauðvínsglas með matnum. Ekki það að við séum svo saklaus að panta aldrei rauðvín með mat, heldur er það bara ekki svo algent hérna að fólk sé að drekka vín með mat. Það er alltaf bjór, bjór, bjór. Og við fengum ekki venjulegan vínlista að panta eftir, heldur spurði þjónninn bara: „sætt eða súrt..?“. Við áttum eiginlega ekkert svar, svo hann kom með smagspröve í pínuponkulitlum glösum, annað var eins og epladjús og hitt var eins og eplaedik. Við völdum epladjúsinn, og viti menn, fengum þau stærstu vínglös sem ég hef séð, hafa ábyggilega vegið um 2 kíló hvort, full af þessu epladjús-sæta-rauðvíni. Úff, það var nú bara erfitt að klára þetta, en það tókst, hehe.
Myndin sýnir Gauja og Arnór á sunnudeginum á leiknum.

22 jan - smá úr dagbók :)


22. janúar, Ríó
Nú eru Viktor og Gaui á BJJ æfingu, en Gaui er búinn að jafna sig eftir flensu í gær, var slappur og svaf eiginlega allan daginn. Dagurinn í gær varð því frídagur frá æfingu, enda veitti mér svo sem ekkert af, frekar miklar harðsperrur í hálsinum. Það er eini staðurinn sem ég finn eitthvað fyrir harðsperrum eftir BJJ æfingarnar, við höfum verið frekar dugleg að æfa á Barbados, en hálsinn er ekki vel æfður hjá mér greinilega. Ég og Gaui ætlum að prófa kvöldæfinguna í kvöld og strákarnir fara á sína fyrstu barnaæfingu á sama tíma. Gaui er sem sagt að taka sinn fyrsta „tvær æfingar á dag-dag“ en það er nú meira en að segja það að fara á tvær tveggja tíma æfingar, þar sem meiri hluti tímans fer í að glíma, en þannig er Gracie-BJJ-kennsluaðferðin. Við hitum upp, er kennt 1-2 brögð sem eru æfð, og svo er bara glímt restina af tímanum, þannig að maður er í svaka átökum stóran hluta tímans. Mér finnst það rosalega gaman, það eru mikil átök í því, sem þýðir fantaæfing fyrir líkamann og ég svitna vel. Kallinn á myndinni er frekar slakur og lítið að svitna allavega þarna!! Algeng sjón að sjá fólkið svona í gluggum að fylgjast með mannlífinu.

Saturday, January 24, 2009

Rigning í Ríó


Hér er bara íslenskt veður, þoka, rigning og rok... nema það er um 25 stiga hiti svo þetta er alveg viðunnandi :) Skrítið samt, vegna þess hversu mikið mannlífið hérna snýst um ströndina, þeir nota ströndina eins og Evrópubúar nota stóru almenningsgarðana, fara í picnic, leika sér og slaka á, en þegar veðrið er svona þá sér maður ekki marga af þessum tíu milljónum sem búa í Ríó.

Við ætlum að nota daginn í að fara niður í miðbæ, það er ekki svona "Strik" hérna, en við ætlum á torg sem kallast nóvember 15 torgið og erum búin að finna götu á kortinu sem gæti verið gaman að tölta. Verðum flott með nefið ofan í bókinni að reyna að fatta hvert við eigum að fara um leið og við höldum í börnin og töskuna og myndavélina og..... hmmmm. Kannski sitjum við bara heima... neinei. Á myndinni sjáið þið útsýnið af svölunum okkar á góðum sólardegi.


Það er annars óhætt að segja að við Gaui erum lurkum lamin eftir æfingar vikunnar. Gaui náði 5 æfingum og ég 4. Þar með hef ég eiginlega tvöfaldað fjölda BJJ æfinga sem ég hef farið á um ævina, hehe. Núna er ég með svo miklar harðsperrur í hálsinum að ég hreyfi mig eins og Frankenstein. Engar harðsperrur annars staðar, en hálsinn tekur eiginlega þátt í öllum hreyfingum líkamans, svo ég er ekki það sem kalla skyldi "hot mama" núna, er meira eins og kall í kraga, en slíkir menn verða seint sakaðir um að vera OF sexy. Æfingarnar hafa annars verið skemmtilegar. Ég fór á fyrstu kvöldæfinguna á fimmtudaginn, það er þriggja tíma æfing og margir svartbeltingar að æfa á kvöldin. Allir ansi sterklegir, en ég tók eftir einum í byrjun tímans sem var í grútskítugum galla, soldið feitur, svaka sveittur strax í byrjun og þegar hann glímdi þá var alltaf ca. 5 cm rassaskora upp úr buxunum hans. Ég reyndi bara að horfa í aðra átt, annars hefði ég flissað of mikið, nógu erfitt að vera eina stelpan og kunna minnst, þó maður sé ekki líka flissandi eins og kjáni. En allavega, svo er ég sett í glímu og hver er valinn til að glíma við mig, nema rassmann sjálfur. Og rassmann var með svarta beltið!! Svo náttúrulega ég fer að spjalla aðeins við hann meðan Jefferson yfirþjálfari var að raða fólki niður sem átti að glíma saman, og auðvitað reyndist þetta vera hinn besti gaur. Og við glímdum og ég gleymdi öllu um skítuga gallann, svitann og rassinn, því þegar maður er að æfa sig í að verjast og láta ekki ná sér í slæma stöðu eins og choke, þá hugsar maður bara um það og ekkert annað. Og vá hvað þetta tekur á, og vá hvað þetta er gaman!! Og svo váááááááááá, hvað ég kann lítið!

Wednesday, January 21, 2009

Glímið!


Nú sitja feðgarnir fjórir við Brasilíu-Kanann sem þeir byrjuðu á hérna. Gaui sagði guttunum frá Kana sem iðnaðarmenn sem unnu með Svanka tengdapabba spiluðu dag eftir dag í öllum pásum, og voru komnir með stig sem skiptu þúsundum. Þetta fannst strákunum aldeilis sneðugt og nú er keppst við að ná sem hæstu skori. Þeir eru komnir eitthvað í kringum hundrað eftir nokkur kvöld, og mér þykir þeir oft tefla ansi djarft. Þeir hika ekki við að segja „Kani!“ ef þeim þykja spilin góð, svo það er ekki sama varkárnin í þeim og mér, sem svitna ef ég segi meira en níu.

En við vorum nú að skrá í sögubækurnar okkar í dag, fórum í okkar fyrsta BJJ tíma hér í hverfinu. Hann var í stöð sem heitir ByFit og á efstu hæðinni í stöðinni er dýnulögð hæð þar sem BJJ tímarnir fara fram. Á veggnum er svo máluð mynd af einhverju grimmu dýri og í kringum dýrið stendur „Gracie Barra“ en Barra er hverfið sem við erum í. Í stuttu máli var þetta frábær tími, góður kennari og okkur var vel tekið. Við mættum þarna kl. 10 eins og stundataflan sagði til um (tími frá 10-12). Það stóð ekkert hvernig tími þetta yrði og Gaui sagði íbygginn í morgun þegar ég drakk örvæntingafull þennan hálfa kaffibolla sem ég hafði tíma fyrir (erfitt að vakna): „ég hef á tilfinningunni að þetta sé barna-BJJ-tími, ég held það séu nefninlega sumarfrí núna..“. Svo ég var bara róleg og tölti af stað, tilbúin að hvetja guttana áfram, segja þeim að tala við hin börnin og vera óhræddir við að prófa að glíma við hvern sem er. Nú svo mætum við á staðinn, þar eru cirka tíu misþungir, misbrúnir, vel þjálfaðir karlmenn með hina ýmsu beltaliti og okkur er umsvifalaust sagt að skella okkur í gallann. Okkur fullorðnu sem sagt.... Ég fór í gallann, sem ég hef einu sinni áður farið í og þá var hann svo nýkominn úr pakkanum að Bjarki gerði grín að mér, svo ég þvoði hann einu sinni. Síðan hef ég nú ekki farið í tíma, en þetta eru líklega hundrað ár síðan eða svo. Ok, ég í gallann og kalla mjóróma á Gauja: „ég vil bara glíma við þig!“ og gleymi öllu um hlutverkið að vera fyrirmynd barnanna. Eftir upphitun og tvö brögð var okkur raðað saman, ég hélt að við værum að fara í einhvern skemmtilegan leik, var stillt upp á móti stórum brúnum gaur. Svo bara kallað: „Seven minutes!! Go!!!“ og gaurinn gefur mér five og hnefa og svo bara glíma takk fyrir. Hehe. Þeir voru nú góðir við mig, í einu rúllinu reyndi ég að stynja upp „very much beginner...“ en þeir skilja náttúrulega enga ensku hérna. Svo ég glímdi þrjár glímur, við þrjá mismunandi menn, og enginn þeirra Gaui. En þetta var gaman og ég fer aftur á morgun.

Þeir eru með æfingar alla virka morgna frá 10-12 sem við ætlum að mæta á, og svo kl. 18-21 á kvöldin. Við ætlum nú ekki að byrja á kvöldæfingum alveg strax, Gaui er til í að bíða fram á miðvikudag, sem sagt ekki á morgun heldur hinn.

Þjálfarinn sýndi guttunum líka áhuga, greinilega mikill kennari í sér og fór aðeins að sýna þeim brögð sem þeir gætu æft. Planið hjá okkur er svo að fá guttana með á okkar æfingar og jafnvel fá kennara fyrir þá öðru hvoru, meðan við æfum. Svo mæta þeir á barnaæfingarnar sem eru kl. 18 á þriðjudögum og fimmtudögum. Í dag hef ég verið þjökuð af þessari sérkennilegu þreytu sem kemur í mann eftir svona BJJ tíma þegar maður er byrjandi. Þetta reynir svo á allan líkamann (ekki farið að reyna á heilann ennþá, hann fer bara í baklás þegar ég ætla að reyna að ná einhverjum lásum... hugsa bara „og hvað svo?..“ og heilinn svarar: ehhh tjah, ég bara veit ekki!!“). En við vorum róleg í dag, borðuðum, náðum í tölvupóstinn, löbbuðum í búðina, svo strönd og svo heim að elda. Við ætluðum að fara í Kringlu hérna í hverfinu sem við héldum að væri nálægt, því þar er víst eina búðin sem selur orðabækur. En þegar við fengum að vita að það tæki 20 mínútur í strætó aðra leið, þá nenntum við ekki. En að vera svona mállaus!! Það er alger undantekning að einhver skilji ensku hér og ekki sjens að finna nein blöð eða bækur á ensku. Þeir hafa bara ekki þörf fyrir þetta mál. Eina sem er í boði annað en portúgalska er spænska, og ekki er ég betri þar. Það getur líklega verið soldið fyndið að fylgjast með okkur þegar við reynum að gera okkur skiljanleg, ég vildi panta sódavatn um daginn á veitingastað, veit að vatn er aqua, og þá sagði ég: „Aqua... emm skvisssssshhh? Eh?“ Þetta virkaði, en stefnan er nú samt tekin á orðabók og við erum komin með símanúmer í málaskóla. Við ætlum að tjékka á því hvort við komumst í smá málakennslu þessar fimm vikur sem við verðum hér. Væri gaman.

Friday, January 16, 2009

Dagur tvö í Ríó, betri líðan, meiri svefn :)



Þá er fyrsti heili dagurinn okkar í Ríó að klárast og við erum kát og glöð. Við sváfum alveg svakalega vel, 12 tíma straight án þess að rumska, enda mjög lúin eftir langt ferðalag. Við vöknuðum um ellefu, og þá var mjög sérstakt að koma út á svalirnar okkar og horfa yfir Atlandshafið og iðandi mannlífið á ströndinni hér fyrir framan. Glæsilegt útsýni og í raun alveg eins og við höfðum óskað okkur þegar við hugsuðum til Brasilíu meðan við vorum á litla Barbados. Ég segi litla Barbados, því það er MJÖG ljóst hversu lítið samfélag er þar, þegar maður er komin í þessa tíu milljón manna borg. Við erum þó í úthverfi við borgina, kallast Barra (borið fram Baha) og hér er mjög lítil um betlara eða heimilislausa. Þetta er millistéttahverfi og það iðar af heilbrigðu lífi. Við búum í 12 hæða íbúðahóteli með tveimur svefnherbergjum, tveimur litlum baðherbergjum, stofu og eldhúskróki. Svalirnar eru besti hluti íbúðarinnar, þær eru í L, meðfram allri íbúðinni með flottasta útsýni sem ég hef nokkurntíma haft. Við erum alveg við ströndina, ein gata á milli og svo bara breið, skjannahvít strönd. Og við snúum í vestur og suður, svo við sjáum sólarlagið á hverju kvöldi meðan við sötrum brasilískt rauðvín. Está legal!!


Það er gríðarlega mikill áhugi á líkamsrækt hér, ströndin og hreyfing er greinilega lífsstíll hjá fólki. Við fylgjumst með heilu fjölsyldunum stíga út úr bílunum hér á stæðinu fyrir framan, allir í sundfötum (efnislitlum) eins og ekkert sé eðlilegra. Svo töltir fólk bara yfir götuna og niður á strönd. Meðfram strandlengjunni er hjóla/skokkstígur og þar er alltaf fólk að æfa. Ég flissa ennþá þegar ég sé menn í sundskýlu og strigaskóm að skokka, en það venst líklega. Bíkíníin eru líka kapituli út af fyrir sig, þetta er eins og hárbönd í misnotkun, og það skiptir engu hvernig vöxturinn er. Strengur skal það vera. Ég hins vegar er ennþá í bíkíní með góðri brók, eins og vinkona mín hún Billa kallar það. Ég var einu sinni með henni í bíkíníleiðangri á Portúgal, þar sem við hittumst, og þetta var skilyrðið hjá henni: „ég vil bara bíkíní með góðri brók!“ haha, en ég er svo innilega sammála henni. Allavega ennþá J Svo eru blakvellir, upphífingastangir, dýfustangir og fótboltavellir hér á ströndinni, og allt í notkun, iðandi af lífi. Þetta er æðislegt!!


Við höfum haft smá byrjunarvesen hérna með íbúðina, hún er svakalega flott á myndum, en sumt af henni er svona „fjarskafagurt“ eins og sagt er. Það er dálítið af maurum hér, við erum nú vön því frá Barb, og sem betur fer eru þeir mjög litlir, þó þeir séu margir. Fúgan í flísunum hér og þar er farin, og eftir standa líka þessi fínu göng fyrir þá. Svo er vaskurinn í eldhúsinu saga út af fyrir sig. Hann freyðir alveg svakalega þegar kellan í næstu íbúð vaskar upp, og svo leggur dauninn upp úr niðurfallinu öðru hvoru. Í dag ætlaði ég að vinna á fýlunni af íslenskri röggsemi, skrúfaði af fullum krafti frá krananum, en þá þaut bara kraninn af og ég var með svaka flottan gosbrunn í eldhúsinu. Strákarnir sprungu úr hlátri.


Við fórum í súpermarkað í gær og í dag til að koma okkur í gang með birgðirnar. Við þurftum að kaupa flestar almennar heimilisvörur eins og tuskur, uppþvottalög, sápu, svamp (nota ekki uppþvottabursta hér), þvottaefni, Ajax (því ég þreif skápana, voru frekar illa lyktandi, svo jafnvel mér ofbauð og þreif þrátt fyrir 40 tíma svefnleysi, hehe, þá er fýlan vond!). Brasilíumenn tala mjög fáir ensku og það var gaman að skottast í búðinni og giska á hvað væri í hverjum pakka, því við skiljum ennþá sama og ekkert. En ávaxtaborðið og kjötborðið eru frábær og það Gaui er eins og barn í dótabúð, hann elskar þetta. Við erum ennþá að æfa portúgölsku, en erum komin ansi stutt. Höfum verið að spá í að fara í portúgölskutíma meðan við erum hér, Orri tilkynnti alvarlegur á leiðinni úr búðinni í dag: „við VERÐUM að læra fleiri orð hérna!“. Svo á leiðinni úr búðinni stoppuðum við í lítilli búllu og strákarnir fengu gos og við fengum okkur lokal bjór, sem heitir SKOL. Hmmm. Hann var ágætur, en bjórinn hérna er víst uppfullur af rotvarnarefnum, svo við ætlum nú ekki að leggjast í hann (það er ekki eina ástæðan, no worries my brother!). Strákarni fengu rör með dósunum, og ég reyndi að spyrja „þjóninn“ líklega fastakúnninn, settur í vinnu (ca sjötugur hrukkóttur, dökkbrúnn kall með svuntu) hvað „rör“ væri á portúgölsku, því hann hafði notað orðið áður, þegar hann var að spyrja okkur hvort við vildum rör. En hann misskildi mig allsvakalega, hélt að ég vissi ekki hvað þetta væri, svo hann tók rörið af Arnóri, horfði alvarlegur á mig og tók svo hægt utan af því, tók dósina af Arnóri, opnaði hana og stakk því ofaní. Ég náði nú að stoppa hann áður en hann fékk sér sopa, brosti og sagði: „Aha, obrigada!“ (sem þýðir takk).

Thursday, January 15, 2009

Rio de Janeiro!!!


Þá erum við komin til Rio og það er nú lifandi borg!! Við flugum í nótt frá Miami, 8 tíma flug, lentum í Sao Paolo eldsnemma og biðum þar í fjóra tíma, svo var það klukkutíma flug til Rió. Núna er ég alveg hrikalega skrítin, eins og ég sé hálf sjóveik, er utan við mig, óþolinmóð og þegar ég sá maurarna í íbúðinni fínu sem við erum í, varð mín FREKAR fúl. Auðvitað sleppur maður ekki við þessi kvikindi og þau eru betri en kakkalakkarnir, það er á hreinu, en þegar ég, þessi mikla svefnpurrka sleppi út heilli nóttu, því ég GAAAT ekki sofnað í vélinni, þá er ég ekki sonna alveg upp á mitt besta. Og eiginlega mjög langt frá því.


En Rió er falleg, funheit og fatalítil, og fátækrahverfin séu stór. Við ætlum að halda okkur alveg frá þeim, búum í íbúð tengda hóteli í Barra, erum á 3ju hæð. Barra er millistéttarhverfi og töluvert frá miðbænum og Cobacobanaströndinni. Ég set inn mynd af útsýninu seinna, ekki komið mér í að taka sjálf myndir, er eins og zombie í dag. En myndin sem fylgir er tekin á Barbados þegar ég reyndi að kasta Gauja fram af kletti.... :Þ

Tuesday, January 13, 2009

Komin til Miami!!!!!!!!!!!!!!!!!


Þá erum við komin til Bandaríkjanna og erum spennt yfir því. Við vöknuðum um fjögur í nótt til að mæta í morgunflug frá Barbados, og það var barasta ansi skrítin tilfinning að keyra þessa blessuðu vegi á Barbados í síðasta sinn. Allavega í bili, því eins og við segjum strákunum okkar "aldrei að segja aldrei". Hver veit hvort við komum aftur þangað. Þeir eru sáttir við dvölina og við eyddum kvöldinu í gær í að fara yfir heilmörg atriði sem standa upp úr eftir svona langa dvöl í landi sem við þekktum ekki neitt þegar við komum, en sem við lítum á sem semi-heimili þegar við förum þaðan. Gott land sem við getum alveg mælt með. Hins vegar sjáum við það mjög vel, hversu ofboðslega lítið þetta land er, þegar við komum svo beint í faðm risaveldisins US of A!!

Erum glöð!!

Skýjakljúfar...


..long time no see! Ekki hægt að segja að það sé allt vaðandi í skýjakljúfum á Barbados. Mér finnst þetta voðalega furðuleg hús og er alveg steinshissa á að nokkur skuli hreinlega nenna að byrja að byggja svona stórt hús. Hlýtur að taka heila eilífð!!! Fallegir feðgar hins vegar þarna í forgrunni!! :)

Það eru ýmsar kynjaverur hér!!


Mikið er nú Barbados eitthvað lítið miðað við þetta svakalega stóra land, Bandaríkin. Miami er eins og aðrar Bandarískar borgir, milljón vegir og götur sem liggja í endalaustum risaslaufum og umferðateppur hér og þar. Við höfum samt verið í Bayside í kvöld og það er rosalega huggulegt hverfi við höfnina, veitingastaðir og skemmtilegt. Meðal annars þessir flottu páfagaukar sem ég fékk að heilsa upp á.

Spjallað við stelpu frá Equador..


.. en hún náði að lokka Viktor til sín til að sýna honum hvernig hún skrifaði nafnið hans á hrísgrjón. Þetta er náttúrulega frekar undarlegt hvernig farið er að þessu, og drengirnir enduðu allir með því að fá sér hálsmen með nafni og völdu sér skrautið í kringum grjónið. Viktor varð strax mjög hrifinn af einhverri grænni og brúnni perlu, ég líka, þar til stelpan hvíslaði vandræðaleg: "You know.. this is a picture of the the mariuana plant.. ehe?". Hann fékk að velja annað.

Og eftir langan dag!!!


Meira að segja spenntustu og hressustu menn gefa eftir í róandi leigubílatúr á hótelið, eftir 20 tíma dag :)

Thursday, January 8, 2009

Á leið frá Barbados


Í dag er fimmtudagur og við erum byrjuð að tína niður af veggjunum og pakka fötum og bókum í töskurnar, því á mánudagsmorguninn förum við til Miami. Þá verður okkar rúmlega fjögurra mánaða dvöl á þessari litlu eyju í Karabíska hafinu lokið og við tekur ferð um Suður-Ameríku. Eins og það er nú skrítið, þá þurfum við að fljúga fyrst norður, til að komast suður, því það er ekkert flug milli Barbados og Suður-Ameríku, nema til Trinidad. Og þaðan þyrftum við að fljúga til Venezuela og þaðan til Rio og þaðan til Florianapolis, en það er næsti áfangastaður. Þannig að við tökum ódýrari leið Barbados-Miami-Sao Poulo-Florianapolis. Við ætlum að vera í Miami í tvo daga, ætlum að kíkja í dýragarð sem er þar og þykir einstakur. Svo eru nú einhverjar ketilbjöllur í Miami, svo kannski er maður nógu klikk til að leita þær uppi :)


Þegar við erum búin að vera hérna á Barb svona lengi, er þetta væg útgáfa af því að fara aftur af stað úr "öryggis-zoninum". Við erum farin að kunna nokkuð vel á flesta hluti hér, og hoppum aftur út í það óþekkta. Skrítið hversu þægindaþörfin getur verið sterk í manni og jafnvel skyggt á ævintýralöngunina. Nú höfum við verið hér, allt verið mjög spennandi og gaman að upplifa hvernig við höfum smátt og smátt komist inn í þjóðfélagið hér. Barbadosbúar er nefninlega lengi að samþykkja mann sem eitthvað meira en bara venjulegan túrista. Núna er fólk farið að kjafta við okkur, heilsar alltaf, hætt að bjóða okkur endalaust jet-ski, snorklferð, bátsferð og ég veit ekki hvað og hvað sem túristar eru endalaust bombardaðir með, og þetta er bara ferlega næs og auðvelt. Jafnvel varðhundarnir í húsunum í kring eru farnir að dilla rófunni þegar þeir sjá okkur og strákarnir eru búnir að eignast einlægan aðdáanda. Það er einn hundur í götunni sem heitir Tiger, látið ekki blekkjast af nafninu, hann er pínulítill og rosa sætur. Þessi hundur geltir á allt og alla, en þegar hann sér Viktor, Arnór og Orra leggur hann eyrun aftur, dillar litlu rófunni, sest niður, lyftir annarri framloppunni og ýlfrar eftir klappi. Hann slapp einu sinni út úr girðingunni sinni og eigandinn var einhvers staðar í burtu, svo Tiger litli settist bara að hérna á tröppunum okkar í sólarhring. Var náttúrulega klappað í hel og knúsaður í rusl, svo hann ELSKAR þegar strákarnir hlaupa yfir til hans og klappa honum í gegnum girðinguna. Og þeir gera það mörgum sinnum á dag og fá algera útrás fyrir dýraástina. Þeir sakna nefninlega kattanna okkar ansi mikið, Kristins og Dimmu, en eru um leið rosalega glaðir yfir því að amma Dóra passi þær svona vel. En ekki þar með sagt að við séum ekki spennt fyrir framhaldinu, það erum við svo sannarlega, það er bara þessi sterka þægindaþörf í manni, sem verður ofsalega greinileg núna. Það krefst átaks að rífa sig upp og framkvæma það sem maður hefur látið sig dreyma um að gera. Og málið er að þegar maður er að láta sig dreyma, situr maður heima í kósí sófanum sínum í hlýjunni og örygginu, og þá er ekkert mál að laaaaaaaaaaaanga svo mikið að gera hitt og þetta. Svo er bara að drífa í því!! Og það getur verið hunderfitt, en vá, það er sko þess virði. Ég hvet alla til að framkvæma það sem þá langar mest af öllu til að gera, það er allt í lagi að það taki langan tíma í undirbúningi, við byrjuðum að safna fyrir þessar ferð fyrir meira en þremur árum síðan. Keyptum okkur stórt alheimskort, hengdum það fyrir ofan borðstofuborðið og í þessi þrjú ár töluðum við um ferðina, löndin sem væri gaman að sjá, vorum líka með "heimsreisubauk" sem guttarnir settu í, í staðinn fyrir að kaupa sér nammi eða dót (stundum.. stundum vann dótalöngunin, eðlilega). Og fyrir tveimur árum ákváðum við HAUSTIÐ 2008!! Það skyldi verða tíminn til að fara af stað. Og allt í einu var bara komið að því og við létum rætast það sem við höfðum talað um að gera. Og ég er bara asskoti stolt af því, að láta það rætast sem ég talaði um að gera og þegar hindranir komu upp, þá fundum við lausnir. Einfalt, og stundum ansi erfitt. En alltaf þess virði.


Eitt af því sem við höfum notið einna mest hérna er að fylgjast með litunum á himninum þegar sólin er að setjast. Hún sest alveg svakalega hratt, tekur bara 3-4 mín frá því að hún "snerti" hafflötinn í að hún er horfin. Og litirnir!!!


Strákarnir er orðnir mjög spenntir fyrir áframhaldandi ferðalagi og hlakka sérstaklega mikið til Miami þar sem það er víst sundlaug á hótelinu. Þeir hafa auðvitað verið langmest í sjónum hér, við höfum ekki komist í sundlaug nema á hótelinu í St. Lucia. En þessi vera í sjónum hefur kennt þeim svakalega mikið. Þeir hafa allir verið með bodyboard, í fyrstu voru þau notuð að mestu leyti eins og vindsængur og við Gaui fengum þau óspart lánuð, hehe. Svo fórum við að prófa okkur áfram með að surfa á þeim, og eftir að Habba frænka var hérna að kenna okkur aðeins, þá eru þeir farnir að svífa á öldu eftir öldu og það er geggjað að sjá þá. Auðvitað skella þær þeim stundum, þeir fá sjó í eyru og nef og við fáum öll smá rispur eftir smásteinana í öldunum, en þeir fara bara aftur út, mislangt, Orri fer bara stutt útí ennþá, og ná í næstu öldu. Öryggið uppmálað! Og það er heldur betur gaman að sjá. Hér á myndinni sjáið þið sólarlagið og eina góða öldu. Við erum þó ekki að leika okkur í sjónum þarna, ekki í svona steinafjöru.
Svo er bara Brasilía næst og við byrjuð að æfa okkur í portúgölsku. Nú getum við sagt "góðan daginn", "takk" og "geturu sagt mér var klósettið er?". Sem sagt, öll grundvallaratriðin komin!!

Wednesday, January 7, 2009

Crane beach

Við höfum haft Steinu tengdamömmu, Eirík og Höbbu hjá okkur yfir jólin og ármótin. Þau fóru heim í gær og það er heldur betur tómlegt í kotinu. Hér er mynd af Crane ströndinni sem við fórum að skoða með þeim. Þetta er ein flottasta strönd í heimi og hótelið sem er uppi á klettunum er mjög dýrt og fínt hótel, mikið notað í Módelblöðunum, enda gríðarflott aðstaða þarna í kring. Hér er kletturinn sem við komumst að of seint, að er hægt að hoppa af honum og út í sjó. Ég myndi reyndar held ég ekki þora því, því öldurnar koma af þvílíkum krafti í klettana þarna.

Tuesday, January 6, 2009

Gaui að sippa!


Ólin sem hann er með um bringuna er púlsólin sem tengist púlsmælinum. Hann hefur svo gaman að því að skrá niður allar tölur sem koma út úr þessum æfingum :), segir mér spenntur "ég var í 90% meðalpúlsi". Hann er svaka duglegur að skrifa niður æfingar, hugsa um æfingar, surfa á netinu að finna eitthvað nýtt og kemur alltaf með eitthvað skemmtilegt að gera. Ég er á annarri bylgjulengd með þetta, hef gaman að erfiðum æfingum, og hugsa meira bara "úff, þetta var erfitt" og byrja kannski aðeins að pæla í hvað væri gaman að taka í næstu æfingu. Ég er bara ekki flókin. Þetta Excel-gen sem Gaui erfði frá mömmu sinni er helv.. ráðandi!!


Æfingin sem við Gaui og Habba (við höfum nú verið heppin með gestina, þau voru bara oft og tíðum til í að púla með okkur) tókum á nýársdag var sem sagt svakaleg. Hún kom frá Maxwell sem setti þessa skemmtilegu áskorun upp. Hún er svona:


Sippa 100x ef þú ert með 1kg sippuband, 200x ef þú ert með venjulegt sippuband (við gerum 200)

10x 6-count burpees með armbeygju (djúp knébeygja, hoppa í armbeygju, gera armbeygju, hoppa fram og svo hátt hopp upp)

5 upphífingar


Þessar þrjár æfingar gerirðu í 12 umferðir, eina fyrir hvern mánuð á árinu sem er að ganga í garð. Mjög erfitt, en mjööööög gaman..... þegar maður er búinn :)))

Vala að púla við nýársæfinguna


Armbeygjur í gangi þarna, gaman gaman!!

Eðla


Þessi litla eðla fylgdist alltaf með okkur þegar við tókum upphífingarnar í tréinu. Hún var mjög spennt fyrir þessu og gaf alltaf smá pepp ef við áttum erfitt.

Flugeldar

Hér er bannað að skjóta upp nema með sérstakt leyfi frá yfirvöldum. Hótel hérna taka þá að sér að halda sýningar, svo við fengum að sjá smá flugelda. En það er nú ekki hægt að byrja að líkja þessu við flugeldana heima! Mikið svakalega hlýtur það að vera súrrealístisk upplifun fyrir útlendinga að koma til Íslands á Gamlárskvöld. Í alvöru, það ætti að verða miklu stærri túrista hugmynd; norðurljós, snjór, ferskt loft, ódýrt að lifa (allavega meðan krónan er á hafsbotni) og svo bilað margir flugeldar, allir að skjóta upp!!!! Náttúrulega baaaara skemmtilegt ferðalag!!

Gamlárskvöld

Það var rosalega gaman að undirbúa kalkúninn á Gamlársdag, og OMG hvað hann var góður. Meira að segja Arnór talaði um það í dag, heilli viku seinna sagði hann "þessi kalkúnn á Gamlárs. hann var klikkað góður, það var bara ekki eðlilegt!!" og ég er alveg sammála :)

Elsta tré á Barbados


Hér eru tengdamamma og Eiríkur fyrir framan elsta tré Barbados. Það er af tegundinni Boabab tré, og þetta er talið vera yfir eitt þúsund ára gamalt. Þeir segja að fræið hafi líklega flotið yfir Atlandshafið frá Gineu í Vestur Afríku og tekið sér bólfestu við bakka á lóni sem var þarna. Núna er svæðið stór garður (soldið eins og Hljómskálagarðurinn), með stóru leiksvæði, gosbrunni og krikketvelli. Tréð er 25 metra í þvermál!!!!

Elsta tré á Barbados, ein enn

Þetta er svo langsamlegasta breiðasta tré sem ég hef nokkurn tíma séð!!

Sjóstangveiði, jeijeijei!!!


Þegar við vorum á gangi í bænum einn daginn með gestina á rölti við höfnina, þá leit ég eitt augnablik af honum Gauja, og nema hvað, hann var farinn að spjalla við kallana á höfninni. Þeir voru að selja ferðir í fiskerí, voru með þessa fínu bæklinga með myndum af ofsakátu fólki að skála með bjórinn í einni hendi og sjóstöngina og 2 metra fisk á önglinum í hinni. Í bakgrunninum eru svo auðvitað megagellur í sólbaði uppi á dekki í g-strengsbíkíní. Þetta leit sem sagt rosalega skemmtilega út, og þegar Gaui tilkynnti köllunum honum litist vel á þetta en að hann þyrfti að ræða þetta við betri helminginn. Þeir svöruðu: "Yes of cource, we all have our ministers of finance and home affairs". Við tókum fund (öll sömul) og þetta var rosalega freistandi, það verður að segjast. Við Gaui höfum prófað að fara á sjóstangveiði heima á Íslandi. Fórum með Ásbirni út frá Drangsnesi, hann fór með okkur á galdramið þar sem við MOKUÐUM upp þorski, ég meina það, það var bitið á í hverju kasti og veiðieðlið vaknaði heldur betur hjá mér, annars þessari mjúku sál. Það var rosalega gaman, og mig hefur langað lengi til að fara í bátsferð hér á Barbados, til að upplifa útsýnið frá sjó. Allur aflinn yrði síðan skemmtilegur bónus, og við sáum þetta sem fínt tækifæri til að spara soldið og veiða sjálf í matinn!! Jamm jamm, mega hugmynd. Svo það var lagt af stað, allir eiturhressir og kátir, og við Gaui heldur betur klár í að nota bara þessa ferð sem æfingu, því það er jú soldið átak að hala inn 2ja og 3ja metra sverðfiska, ekki satt??

Svo er siglt út úr höfninni og það kom nú aðeins á óvart að það var bara soldið hart í sjóinn, hmmm. Eftir tíu mínútur veiddist svo fyrsti fiskurinn!! Við höfum verið mjög spennt fyrir að smakka Barracuda fisk hérna, en það er nokkuð erfitt að fá hann á fiskmörkuðum þar sem hann veiðist ekki oft, svo gleðin varð þeim mun meiri þegar við sáum að fiskurinn á línunni var einmitt barracuda. Hann var ekki stór, svo Gaui halaði hann inn án erfiðleika, en þetta var sko flott byrjun. Fimm mínútum seinna var svo fyrsta ælan komin í sjóinn. Öðrum fimm mínútum seinna var æla tvö komin í sjóinn. Skipstjórinn hélt hins vegar ótrauður áfram út á úthaf og öldurnar urðu bara stærri og stærri. Þegar við vorum með Ásbirni á Drangsnesi, þá voru frekar þægilegar öldur og hann stoppaði bátinn og við vorum bara í kyrrðinni að veiða. Aðferðin hér er heldur betur öðruvísi, hér er beitan sett út, og svo er bara brunað, brrrrrrrrrr, leeeengst út, meðfram landi, lengra út eða bara eitthvað, brrrrrrrrrrr, ógeðslega hávært svo enginn gat talað saman, nema rétt með augnaráði sem við Gaui sendum okkar á milli með bendingum um hver drengjanna væri að æla. BRRRRRRRRRR sagði báturinn, beitan skutlaðist í sjónum, kominn einn fiskur og tvær ælur og farnar að renna á okkur tvær og jafnvel þrjár grímur.. á tuttugu mínútum. Og við höfðum keypt 4 tíma túr, takk fyrir. Höfðum verið að spá í 8 tímum, svona til að fá meiri fisk, en Guði sé lof fyrir að við gerðum það ekki.


Það vildi svo þannig til að þessi FYRSTI fiskur okkar reyndist síðan vera okkar EINI fiskur, svo þessi "skemmtilega" sjóstangveiðiferð var ekki alveg eins og við höfðum ímyndað okkur, út frá bæklingnum. Ég er samt fegin að við fórum, því annars hefðum við haldið að við hefðum kannski misst af einhverju. Mig langað alltaf að fara í bátsferð... og ég fékk sko bátsferð. Og svona í minningunni er þetta bara eitthvað sem við getum heldur betur hlegið að núna. Fiskurinn var síðan að sjálfsögðu verkaður (kom sér nú aldeilis vel reynslan af blóðguninni á silungunum sem ég veiddi með pabba (sem á nú einmitt afmæli í dag!! Til hamingju með daginn pabbi!) og við grilluðum hann. Barracuda smages godt, kan jeg lige hils og sige!!

Svona fór um sjóferð þá..


..þeir voru nokkrir (flestir yngir en 13 ára, án þess að nefna nein nöfn) sem enduðu barasta spúandi yfir borðstokkinn. Litlu greyin, svo sem ekki skrítið, öldurnar voru ferlega leiðinlegar, háar og óreglulegar. En þrátt fyrir slæma líðan, þá var mjög lítið um eitthvað væl, þetta eru naglar to be, það mega þeir eiga!!!

Ekki voru þó allir slappir, því..


.. svo voru sumir bara svaka hressir þrátt fyrir óróa í sjónum og lítið fiskerí. Enda eina af viti að gera í þessari stöðu, nema að éta og drekka eins mikið og hægt var, til að mæta peningatapinu :) It´s a question of reputation!!

Ströndin ströndin ströndin


Þá er orðið tómlegt í húsinu, síðustu gestirnir farnir og það er bara svaðalegt hversu vel þetta gekk og hversu gaman var að hafa gesti í heilan mánuð. Þannig að nú eftir mánuð þar sem við höfum verið 8 manns yfirleitt, þá eru 5 í húsi allt í einu voða fáir :) en það venst auðvitað aftur og það sem gerir þetta allt auðveldara er að við erum sjálf að fara héðan eftir 5 daga. Fjórir mánuðir búnir og aðeins meira en það á þessari litlu, dýru og öruggu eyju, svo við erum heldur betur farin að hlakka til að halda ferðinni áfram. Á vit ævintýra í suður-Ameríku.


Nú erum við á leið á ströndina að ná okkur í smá vítamín úr sólinni, svo ég skrifa meira á eftir þegar við komum tilbaka. Vildi bara láta vita að við erum spræk!!