Sunday, August 2, 2009

Í Lux hjá pabba


Við enduðum ferðalagið á heimsókn til pabba og fjölskyldu í Luxemburg. Þar býr hann ásamt konunni sinni, henni Liz og tveimur æðislegum dætrum, þeim Daisy og Lilian Bo. Við gerðum svo margt á þessum 9 dögum að ég verð að skrifa um það næst, en hér sést mynd af Daisy, hún er 7 ára og er alveg hreint gullfalleg og skemmtileg!!

Litla snúllan


Þarna er yngsta systirin, hún er heimsins mesta dúlla!

Sjálfur sigurboginn..


og við sigurvegararnir fyrir framan! Vantar þó Gauja sigurvegara, en einhver varð að taka myndina.

Hugmynd að innréttingu


Á þessari bílasölu fyrir ríka fólkið (við klesstum bara nefinu á gluggann..) sáum við þessa fínu lausn ef bílskúrinn er of lítill fyrir glæsivagnana. Getur bara skellt litla kellingarbílnum upp á snaga! Veit reyndar ekki hvort þetta fengi hljómgrunn á Íslandi núna, svona bílasnagi þykir líklega voðalega 2007!

Gaui lúinn..


..og hann fékk sér lúr eftir máltíð á kínverskum veitingastað í París, enda lentum við kl. 5 um morguninn og lítið sofið nóttina áður. Við sátum á borði við hurðina og þar var hrikalega gaman að sjá svipinn á fólki sem stakk nefinu inn til að athuga staðinn og hvort hann væri "safe". Gaui, rétt hangandi á stólnum, með opinn munninn og slefandi (bara pínulítið), setti aðeins hik í mannskapinn... var maðurinn meðvitundarlaus eftir matareitrun...???

París!!


Eftir stutt stopp í Madrid var það sjálf París. Þar var auðvitað Eiffel og Sigurboginn á dagskrá og við vorum ekki svikin þar. Mikið svakalega finnst okkur Eiffel flottur!!!

Og þá er það Evrópa aftur!!


Eftir alla þessa mánuði í Suður Ameríku þá var Evrópa á dagskrá 10 júlí. Það verður að viðurkennast að tilhlökkunin var mikil, við vorum orðin soldið lúin á ýmsum atriðum í Suður-Ameríku eins og ruslinu sem var ansi víða, engin virðing fyrir gangandi vegfarendum, alltaf að vera "gringo" og öðruvísi en aðrir á götunni. Nokkuð sem er líka spennandi, en svo eftir soldinn tíma, þá fór ég allavega að sakna þess að falla ekki stundum inn í hópinn og eiga t.d. von á því að hitta öðru hvoru einhvern sem ég þekkti! Það er fyndið með þessi litlu atriði sem manni finnst svo sjálfsögð, en saknar svo þegar þau eru ekki til staðar.


Þann 10 júlí áttum við að fljúga til Madrid, en fengum e-mail frá flugfyrirtækinu tveimur dögum áður (allt á spænsku!!) en Gauja tókst að krafla sig framúr bréfinu og í því stóð að ferðinni hefði verið frestað, en okkur væri velkomið að vera með í fluginu þann 11! Frekar skrítið, en lítið annað að gera en að þiggja boðið pent.


Madrid var falleg, alveg gullfalleg og flott. Steikjandi hiti og við í svaka stuði, enda gríðarkát yfir því að vera komin til Evrópu. Hér eru strákarnir að taka ketilbjölluæfingu, með innkaupapokum. Maður verður að redda sér!!