Tuesday, June 30, 2009

Pakkinn frá mömmu


Það var nú ekkert smávegis mál að fá þennan pakka á leiðarenda. Eftir að fá skilaboð frá mömmu um að pakkinn hefði komið til Lima 12 júní og setið tíu daga í tollinum (tollfrjáls pakki),

þá fengum við stelpurnar á efri hæðinni til að hringja fyrir okkur í póstinn til að athuga hvernig á þessu stæði. þar fengum við að vita að við ættum bara að koma niðureftir, pakkinn væri hjá þeim og við auðvitað að springa af spenningi, enda vona á appolló-lakkrís OG andrés-blöðum í pakkanum!! Svo mætum við á staðinn, en hvergi fannst pakkinn, svo okkur var sagt að koma bara kl. 7 um kvöldið, þá kæmi póstburðafólkið í hús, og eitthvert þeirra væri örugglega með pakkann. Svo við fórum aftur heim, soldið svekkt, en héldum samt gleðinni, enda allt í lagi að bíða nokkra klukkutíma í viðbót. Svo leið dagurinn, og við mættum á slaginu 7 að sækja pakkann, en ekki fannst hann heldur í þetta sinn. Þá sagði manngreyið sem var voða hjálpsamur, að líklega væri pakkinn í næstu deild, sem var 20cm frá þessari deild, en lokuð. Við áttum að mæta kl. 8.30 í fyrramálið og þá yrði leitað að pakkanum fyrir okkur. Þá voru nú sumir gráti næst af vonbrigðum, ótrúlegt hvað svona sending að heiman hefur að segja fyrir mann, þegar margir mánuðir eru síðan maður var á heimaslóðum. En Gaui hélt góða skapinu, bauð sig fram í að fara snemma um morguninn að sækja pakkann og Arnór með, svo kl. 8.15 rölta þeir kátir af stað. Við hin sofum bara lengur, vöknum svo um 9-leytið, borðum morgunmat, vöskum upp, þvoum föt (ég segi þetta í fleirtölu, en í raun er þetta nú bara ég sem sé um þetta, guttarnir voru í tölvunni minnir mig... þeir sjá þó um uppvask eftir kvöldmat, alla daga) og þegar klukkan var orðin 11, var mér nú hætt að standa á sama. Þegar ég var á leiðinni að fara út á pósthús að athuga hvort ég fyndi þá, þá mættu þeir loksins!! Og tilkynntu þegar ég spurði hvernig þetta hefði getað tekið svona langan tíma "við lentum í röð!! Þriggja manna röð!!". Þeir voru um klukktíma að afgreiða eina manneskju, pælið í því! Skriffinskan er þvílík að fólk getur þurft að eyða heilum degi á pósthúsinu þegar það sækir pakka. Þeir eru voðalega hrifnir af pappírum hérna í Perú.

No comments:

Blog Archive