Sunday, September 28, 2008

Heimsókn á ströndina okkar


Við fórum í smá göngutúr seinnipartinn eftir að dagurinn hafði liðið í rólegheitum við að guttarnir léku sér og horfðu á Cartoon, ég setti inn myndir á bloggið, Gaui vann inni á skrifstofu og svo fóru hann og Viktor að hlaupa í brekkunni meðan ég og Arnór og Orri bökuðum gulrótarköku, bananabrauð og bollur. Rosa huggó, en þrátt fyrir gífurlega framleiðslu skuluð þið ekki halda að Gaui og Viktor hafi verið svona lengi upp brekkuna, þeir bættu reyndar báðir tímann sinn. Eftir að þeir komu heim, fór ég út í mangótré og tók upphífingar- og hinduarmbeygjuæfingu. Svo var etið!! Og eftir át sem sagt farið í göngutúr. Og sá göngutúr endaði á ströndinni, enda stutt milli stranda á þessari pínulitlu eyju. Og myndirnar sem náðust eru barasta listaverk til að setja upp á vegg eða veggfóður í tölvu, að minnsta kosti :) Hér er ein, ég, Arnór og Orri í sólarlaginu og sjónum.

Animal Flower cave

Við fórum í gær í smá túr norður í land. Þar á nyrsta hluta eyjunnar er stór hellir sem kallast Animal flower cave. Það er ótrúlega fallegur hellir og er sérstakur fyrir þessi sérkennilegu blóm sem eru í honum. Þetta eru í raun ekki blóm, heldur "sæ-ormar" sem setja út þessa anga til að sækja sér fæði í sjónum. Þegar þessir angar eru úti eru þetta eins og blóm í vatninu. Ef það er eitthvað sem snertir angana dregur ormurinn þá inn til að verja sig. Það eru víst mjög fá svona dýr eftir í heiminum, en þetta er sem sagt einn staðurinn þar sem maður getur séð þau. Hellirinn var líka flottur, gerður (eins og rúm 80% af eyjunni) úr limestone eða kalksteini. Sjórinn er búinn að sverfa inn í bergið þennan svakalega helli og í hellinum eru litlar laugar og ein stór (sem var reyndar gufuð upp í gær vegna hita, en venjulega er hægt að fá sér smá dýfu í þessari hellalaug!). Við fengum leiðsögumann með okkur niður, hvort sem okkur líkaði betur eða verr, og hann sagði okkur heilmargt um þetta náttúrufyrirbæri. Þetta er frábær staður og ég hlakka til að fara með ykkur sem komið til okkar að skoða þetta aftur. Og þá tökum við sundföt og dýfum okkur í laugina sem verður ekki gufuð upp, og svo hoppar Habba fram af klettunum fyrir ofan, eins og allir ofurhugarnir sem hann sagði okkur frá, leiðsögumaðurinn. Viktor varð alveg óður þegar hann heyrði að það væri hægt að hoppa fram af klettunum (leiðsögumaðurinn voða hress "Yes, yes, I take your picture when you jump!" og fékk kalt augnaráð frá mömmunni um hæl! Þetta eru ca tuttugu metrar, takk fyrir, klettahoppið mitt í Jökulsá Austari bliknar í samanburði við þetta. En kíkið á videóið af blómunum:

Á leið ofan í hellinn, það eru hoggnar tröppur niður í gegnum bergið, því hellirinn sjálfur er í klettabjargi sem ansi erfitt er að komast að frá sjónum.

Inni í Animal flower cave


Sjórinn hefur myndað ýmsar myndir og form í hellinum, þessi er einna flottust, hendi í loftinu. Eyjaskeggjar kalla þetta "hönd Guðs" og segja að hendin haldi uppi hellisopinu.

Hér sést Atlandshafið út um eitt hellisopið.

Árásin og sigurinn


Eldgömlu, þeldökku, Bajan-hjónin sátu á bekknum sínum, nutu samverunnar og spjölluðu um framtíðina og hvað hún væri spennandi og hversu mikið þau hlökkuðu til næstu 50 ára....

Hvað er þetta þarna lengst..?


...og allt í einu sáu þau skip... það var ekkert að sjón gamla mannsins.. konan sá ekki neitt, var bara glöð og kát.. hann sá að þetta var hættulegt óvinaskip.... frá barbörum úr norðri.... örugglega Víkingar, mestu villimenn sem náttúran hefur alið..

Vaktturninn


Þau létu vaktmennina vita af því sem þau sáu...

Óvinir að nálgast úr norðri!!


Ship a-hoy!!

Fallbyssuskot!!


Hér senda fallbyssusérfræðingar Barbados af stað fallbyssuskot til að verja nysta odda eyjunnar sinnar.
Víkingarnir urðu skíthræddir, því fallbyssuskotið lenti akkúrat þar sem það átti að lenda, rétt fyrir framan víkingaskipið. Þetta var viðvörum sem Víkingarnir tóku alvarlega og þeir hundskuðust heim á leið, þökk sé vöskum eyjamönnum!!

Pínkulítil strönd við pínkulítið fiskiþorp


Í gær eftir hellaferðina okkar stoppuðum við í litlu fiskiþorpi og sátum á obbolítilli strönd og borðuðum nestið okkar. Og þótt ströndin væri eins og ég segi obbolítil, þá var alveg hreint ótrúlegt hvað það var mikið af skemmtilegu að finna. Svakalega fallegir kóralsteinar, stórt hrunið tré og fiskibútar (minna skemmtilegt kannski..). Svo meðan við erum þarna að maula nestið í rólegheitunum, sjáum við svona útundan okkar hreyfingu á sandinum og upp skýst gulur krabbi sem byrjar að labba út á hlið eins og þeir gera. Svo sér hann okkur og snarstansar. Augun eru svona eins og tvær svartar sjónpípur (á kafbátum) uppúr líkamanum og hreyfast í takt. Hann snéri sjónpípunum sínum sem sagt og sá okkur, gekk þá tilbaka að holunni sinni og stóð þar. Svo bara byrjar sandurinn að hreyfast hér og þar í kringum okkur og litlir og stórir krabbar að kíkja upp og allir snarstoppa þeir þegar þeir sjá okkur. Og ef þeir sáu hreyfingu þá voru þeir eins og elding aftur niður í holuna og ekki sjéns að sjá þá. Ef við reyndum að vera alveg kyrr, sjáum við stundum sandi skultað hryssingslega upp og þetta var svona eins og þeir væru þreyttar húsmæður að taka til.. "alltaf þessi endalausi sandur út um allt!", kíktu upp öðru hvoru en voru fljótir aftur niður ef við nálguðumst.


Hér á myndinni er Orri litli að leika sér í fjörunni, gekk ekki alveg nógu vel að vera lengi kyrr til að lokka krabbana upp... "All I want for christmas is my two front-teeth"

Þarna liggja fiskibátarnir og bíða þess að sigla út í býtið næsta morgun. Barbados búar borða mikið af fiski, og það er mjög algeng sjón að sjá borð við veginn, fullt af fiski, sem er síðan seldur í bílana sem keyra framhjá. Við höfum ekki enn lagt í að kaupa fisk svoleiðis, erum smá hikandi við það vegna hitans, enda ekki hægt að vita hvort fiskurinn hafi verið á borðinu í 30°hita í hálftíma eða 8 klukkutíma. Flugfiskur er "þjóðarréttur" hér, og á ströndunum við fiskiþorpin er asni oft allt út í afskornum vængjum, af þessum fiskum, því sjómennirnir gera að fiskinum í fjörunni og henda afgöngunum aftur út í sjó og það skolast svo eitthvað af því aftur á land.

Fallegt umhverfi á þessari litlu strönd, og meðal annars þetta risatré sem er hrunið og brotið, en alveg svakalega reisulegt samt!

Einn af kröbbunum sem kíktu á okkur upp úr sandinum.

Hér er mynd frá æfingu í bardagaklúbbnum sem Viktor er að æfa í. Hann tók góða glímu við þjálfarann og það var sko rúllað!! Þetta eru æfingar þar sem ýmist er verið að glíma, sparka/kýla og svo æfa með prikum (sem eru þá eins og sverð eða kylfur). Mjög góðir kennarar og góð stemning á æfingum.

Viktor biður að heilsa öllum vinunum og minnir á að hann fer á msn-ið kl. 9 á mánudagskvöldum á íslenskum tíma, vill hitta sem flesta þar!

Sniglar hér eru ekkert að grínast!


Barbados er að berjast við Afríku-snigilinn og fleiri sniglategundir sem eru að éta upp blómin þeirra. Og þetta eru engar smá skepnur!! Verða sumir jafnstórir og lófinn á Andrési, pabba Axels! :)


Arnór biður að heilsa öllum vinum sínum og vill endilega fá comment frá þeim á bloggsíðuna. Hann er að æfa fótbolta hér, þriðja æfing vikunnar var að bætast við, því Arnór er að standa sig svo vel að þjálfararnir vilja fá hann sem oftast. "He´s already a professional" segja þeir um hann, og dást að viðhorfi Arnórs gangvart öllu sem hann tekur sér fyrir hendur á æfingu, því hann leggur sig ALLTAF 150% fram og er gríðarlega einbeittur. Enda góður grunnur frá Ása þjálfara í Aftureldingu. Við vorum í leik að nefna uppáhalds þetta og hitt einn daginn við matarborðið, og þegar við áttum að segja uppáhaldskennarann okkar sagði Arnór einmitt: "Ási!"



Hér er Gaui búinn að drekka kókoshnetusafann og er að borða kjötið úr hnetunni. Hrikalega gott á bragðið og hollt. Eini gallinn er að blettir frá kókoshnetunni nást ekki úr fötum, og við erum búin að bletta nokkra hvíta boli illilega. En það stoppar okkur ekki frá þessari dásemdar máltíð!

Húsin á Barbados


Hér kemur smá sería af húsunum hér. Flest húsin er mjög lítil og liggja mjög þétt og hér á myndinni er mjög dæmigert hús fyrir Barbados. Oftast sér maður andlit í glugga, einhver að fylgjast með mannlífinu og hjá húsunum eru eiginlega alltaf stólar. Fólk situr svo ýmist í glugganum eða í stólunum fyrir utan og bara situr. Það er ekkert að lesa eða gera eitthvað, það bara situr og horfir. Svo er heilsast, spjallað og svo bara setið aðeins meira. Rosalega afslappað og það er svo sannarlega lifað eftir orðunum "maður er manns gaman". Jafnvel strætóbílstjórarnir á vakt, ef þeir sjá einhvern á götunni sem þeir þekkja, þá bara stoppa þeir vagninn, þó þeir séu á miðri götunni og bara ein akgrein, heilsa viðkomandi, spjalla pínu og keyra svo áfram. Og enginn kippir sér upp við þetta, enginn flautar eða neitt, þetta er bara normal, auðvitað stoppar maður ef maður sér einhvern sem maður þekkir... Málið er svo hitt, að hér þekkjast eiginlega allir, hehe.

Þetta hús finnst okkur soldið fyndið, því það stendur á þessum stólpum og þeir virðast svo máttlitlir, að með einu góðu HÆÆÆJJJJA-sparki gæti maður rústað húsinu. Höfum samt ekki prófað, væri dálítið erfitt að útskýra eftir á, ef það tækist :) En þau eru ansi mörg húsin sem eru byggð svona á múrsteinastólpum (kannski út af skordýrum), en þetta er óvenju snyrtilegt hús, vel málað og dúllað svolítið við það. Svo eru snúrurnar fullar af fötum, mjög týpískt fyrir Barbados, það eru svona fatasnúrur fullar af fötum hér um bil við öll hús! Ég mæli hins vegar allsvakalega með því að eiga lítið af fötum, búin að fatta það núna. Við erum með frekar lítið af fötum með okkur, og ég sem er vön því heima að vera eiginlega alltaf með þvottavélina í gangi, er að njóta þess hér, að ég þvæ tvær vélar og þá er ég búin að þvo öll okkar föt! Snilld!

Þetta er meira nútímalegt og kannski helst að maður sjái svona hús í fínni hverfum og í kringum hótelin. Þetta hús er hjá brekkunni sem við hlaupum upp á sunnudögum, en þaðan er ansi flott útsýni yfir miðbæ Brigdetown.

Tuesday, September 23, 2008

Elli eðluungi og margfætlan

Sjáið litla eðluungann sem við björguðum úr rigningunni um daginn. Hann leitaði skjóls hér í andyrinu og við settum hann í plasthylki með gróðri og Viktor skellti margfætlu til að gefa honum fæðu. Það kom nú á daginn að Elli eðluungi var meira hræddur við margfætluna og sá sig ekki færan um að éta hana. Þau voru bæði glöð að komast í frelsið þegar rigningin hætti. Kíkið á videoið :)


Þá er busy íþróttadagur að baki, Viktor að prófa bardagaæfingu og Orri á fótboltaæfingu fyrir 6-7 ára. Arnór tók þátt í æfingu Orra á þann hátt að aðstoða Orra þegar þurfti að þýða, en Orri er ekki alveg kominn með enskuna á hreint enn :)


Viktor er að æfa í klúbbi sem heitir Martial Arts Akademy, þar er hann að læra íþrótt sem heitir Jeet kun do og byggist á fræðum Bruce Lee!! Margt er nú til, og aðalmálið að guttinn er HIMINLIFANDI. Þetta er blanda af flottum spörkum og kýlingum, en í bland við gólfglímur og lása og blandan af þessu öllu á að gefa útkomu sem virkar, ef maður lendir í því að þurfa að verja sig úti á götu. Viktor glímdi við bæði við aðstoðarþjálfarann og aðalþjálfarann í dag og stóð sig vel, enda nautsterkur strákurinn og eitthvað búinn að læra af öllu þessu gamnituski með pabbanum. Svo þetta er það sem hann ætlar að æfa á Barbados. Tvisvar í viku.


Orri tók skemmtilega byrjun á æfingu í dag, tók upp á því að missa framtönn. Er því með ansi stórt op í munni núna, enda á þessum fallega tannlausa aldri. Hann var greyið alveg að leka niður á æfingu í dag, sólin skein, enginn vindur og þáááá er heitt. Svo hann fékk svona "hetjutreatment" hjá mér, fékk reglulega væna gusu af vatni yfir hausinn og smá slettu upp í munn og þá tórði hann næstu fimm mínútur. Hehe, held að hann þyki nú dálítið dekstraður, en þegar maður kemur frá landi ísa, þá finnst mömmunni það í augum uppi að maður er ekki að höndla það að hlaupa og sýna listir í 35°hita.


Það er búið að vera gaman að skoða íþróttalífið hér. Á afmæli Gauja hlupum við náttúrulega brekkuna góðu, 1.5km löng og við hlupum öll.... eða Viktor, Arnór og Gaui hlupu, ég og Orri hlupum ca. 30m og þá vildi Orri koma á hestbak. Svo þannig tók ég þetta, ekki hlaupandi, en gekk rösklega. Svo þegar þeir voru búnir að bíða eftir mér meðan ég gekk með Orra, sleppti honum svo þegar ca 50m voru eftir og við hlupum saman glæsileg í mark, þá langaði mig nú til að prófa að hlaupa þetta. Svo þeir biðu uppi, ég skokkaði niður og aftur upp. Fór hress af stað, eftir 4 mín þegar ég var enn að hlaupa niður, fór ég aðeins að hugsa hvern andsk.. ég væri að hugsa, en svo þýðir lítið að gefast upp. Svo ég lét mig hafa þetta, hljóp á mínútu lengur en Gaui, hann tók brekkuna á 8.15 og ég 9.15. Ég á eftir að bæta þetta, eins og hann reyndar líka. Á myndinni eru feðgarnir eftir hlaupin upp, misþreyttir, en allir jafnkátir. Þetta var rosalega gaman, Gaui hugmyndaríkur í svona skemmtunum og þetta gaf góða samverustund sem strákarnir tóku mjög alvarlega og stóðu sig frábærlega.


Svo fórum við bara á gullna strönd, kældum okkur niður og lékum okkur í öldunum. Viktor kramdi vespu með hnéinu í sandinum og fékk stungu, en það er sem betur fer lítið núna. Svo keyrðum við aðeins og fundum strand"chillout" stað, þar sem hægt var að fá mat og drykk um leið og maður sat og horfði á lífið á ströndinni. Voða næs. Ég fylgdist með hvítu kjánunum á ströndinni sem allir voru meira og minna brunnir, maður náttúrulega búinn að vera hér í 20 daga, næstum orðinn eins og innfæddur.. en um kvöldið fattaði ég að þessi þrjóska mín í brekkunni kom mér í koll. Ég var orðinn hvítur kjáni, brunnin eins og hinir.


Í gær prófaði ég mína fyrstu læknisheimsókn hér, ekki vegna brunans, heldur vegna bits sem kom á upphandlegginn minn. Það stækkaði og stækkaði, þar til biceppinn var orðinn ca. 40cm í ummál. Það væri kannski ekki slæmt hér, því vaxtarækt rosalega inn hér á Barbados, en þó gætti töluverðs ósamræmis í hlutföllum, hinn biceppinn er nebblega bara 25cm ca. Þannig að það var lítið nothæft í þessu og ég dreif mig til doksa. Fór á "Sandy Crest Medical center", hafði tekið eftir því þegar ég hef keyrt gegnum Holetown (bærinn sem Tiger Woods gistir í þegar hann er hér). Hugsaði sem svo, þar hljóta að vera vel menntaðir laakknar, sem stólandi er á. Vel tekið á móti mér, er látin fylla út blað með alls konar upplýsingum, ma. hæð og þyngd, marital status og fleira. Svo beið ég á biðstofunni, voða spennt, er kölluð inn til hjúkku sem mælir blóðþrýsting, tekur púlsinn, vigtaði mig (trúði mér ekki að ég væri svona fislétt, enda muskulös með þennan bícepp) og ég fékk svaka fína meðferð, biður mig svo að bíða, læknir komi fljótlega að skoða mig. Svo meðan ég sit róleg, læt ég augun reika um svæðið og sé þarna bréf frá Tony og Cherie Blair þar sem þau þakka hjálpina þennan örlagaríka þriðjudag, noh, noh, annað frá Tigernum sjálfum og svo nálægt því tilkynningu "NO CREDIT, PLEASE FEEL FREE TO ASK IN ADVANCE THE ESTIMATED COST OF YOUR CONSULTATION". Þá kom nú smá hik á mína, hafði verið svo ljómandi ánægð með þjónustuna hingað til, en sá nú fyrir mér 50þús dollara reiking. Ákvað að halda þetta út, örugglega líka myndavélar á svona fínum stöðum og ég hefði náðst ef ég hefði reynt að troða mér út um gluggann. Líka fest bíceppinn í þessum mjóu gluggum. Allavega, ég hitti doksa, og komin á bólgueyðandi og krem og er að ná fyrri hlutföllum á ný. Og reikningurinn ekkert svakalegur, ekki skemmtilegur, en yfirstíganlegur. Hjúkk.


En það var íþróttalífið.. við höfum kíkt á nokkrar stöðvar. Þær eru misjafnar auðvitað, eins og heima, sumar mjög hráar og flottar, og aðrar meira fancy. Mér finnst skrítnast að þær opna yfirleitt milli 4 og 5 á morgnanna! Morguntímar í spinning eru t.d. kl. 5.15! Mér fannst nú 6.15 alveg nógu snemmt þegar ég var að kenna. En spinning er greinilega nokkuð vinsælt hér og salirnir eru skemmtilegir. Ein stöðin er með diskókúlur og ljósaseríur í notkun meðan tíminn er, og í annarri stöð er risaskjár á bak við kennarann þar sem birtast myndir af vegum og flottu umvherfi meðan tíminn er í gangi. Rosa kúl. Fleira sem er í boði í stöðvunum er t.d. "Bridal bootcamp", sem sagt bootcamp bara fyrir verðandi brúðir. Við erum samt mög dugleg að æfa hér heima. Erum komin í 350 hindusquats og 100 (5x20) hinduarmbeygjur. Ég gerði þetta í dag og Gaui mun eflaust bæta þetta á morgun því það er komin smá keppni í þetta. Arnór prófaði líka Power Wheelið í gær og fékk harðsperrur í fyrsta skipti í magavöðana í dag, frekar fyndið.


Hann Arnór fékk annars frábærar fréttir hér í síðustu viku. Hann var á fótboltaæfingunni sinni, sem er fyrir 8,9 og 10 ára með 50 öðrum guttum. Eftir æfinguna kom þjálfarinn til okkar og bauð honum að koma líka á æfingu fyrir 11 og 12 ára. Þeir velja 5 efnilegustu strákana úr hópnum og bjóða þeim á þessar aukaæfingar og Arnór var sem sagt valinn. Við alveg perustolt og hann auðvitað líka. Svo nú er ég aldeilis komin í keyra og sækja á æfingar-gírinn aftur, híhí. Nema að ég bíð alltaf meðan æfingin er (og þær eru 2 tímar) því ég vil ekki skilja þá eftir eina, svo þetta er ágætis hlutavinna, og mjög skemmtileg. Hver veit nema ég verði bara betri í fótbolta eftir þetta, það væri þá aldrei!!


Takk fyrir góðar kveðjur á afmælisdaginn hans Gauja og commentin ykkar eru æðisleg!!!! Endilega haldið áfram að senda okkur comment, eru ómetanleg! Hafið það sem allra best öll sömul á Íslandinu okkar. Hér er laust gestaherbergi... anyone??!? :)






Saturday, September 20, 2008

Afmæli Gauja í dag!!!


Þann 21. sept (sett inn hálftólf þann 20 sept, þess vegna vitlaus dagsetning efst) á þessi svakalegi maður afmæli og auðvitað verður ýmislegt gert honum til heiðurs. Hans óskir eru að vakna kl. 8 til að horfa á beina útsendingu Chelsea-Man. United og svo vill hann hlaupa upp góða brekku sem við keyrum upp þegar við förum á fótboltaæfingu með guttana. Þessi brekka er 1.5km löng, og hann veit það, svo það mætti halda að afmælisbarnið hafi einhvers konar áhuga á hreyfingu á sjálfan afmælisdaginn. Strákarnir ætla að hlaupa með honum, alveg hreint galvaskir á því, en Orri sló smá varnagla á þetta, sagði "ég skal samt hlaupa þetta með mömmu (í svona "ég sé um kellinguna-tóni)", held hann hafi eitthvað minni trú á mér en pabbanum og sér meiri möguleika á hvíldarpásum....
Allt gott héðan að frétta, við erum ýmis rennandi blaut af rigningu eða rennandi blaut af svita og það er nú svo skrítið að þetta venst bara allt saman. En þið getið hugsað til folanna fjögurra og kerlingarinnar í dag (ef þið lesið þetta þann 21.), hlaupandi upp brekkuna sem allir aðrir keyra upp, blaut þá BÆÐI af rigningu og svita. Have a nice day!

Wednesday, September 17, 2008

Barbados fólkið og kennaratyggjó





Alveg er það merkilegt þegar maður fattar að hlutir sem maður telur svo sjálfsagða að ekki er vert að hugsa um þá einu sinni, taka bara allt í einu upp á því, þegar maður er staddur fjarri heimahögum, að vera bara langt frá því sjálfsagðir!!



Þessu höfum við "lent í" í leit okkar að kennaratyggjói. Við erum í svona nokkuð ágætri íbúð með nokkrum herbergjum og stóru eldhúsi. Allir veggir hvítir og þar sem Barbadosbúar eru ansi trúaðir flestir og okkar leigendur ekki síst, þá eru einstaka myndir með boðorðunum tíu á veggjum. Annað ekki.



Ég fékk hjá mér þessa rosalega þörf að gera íbúðina að "heimili", með því t.d. að setja einhverjar myndir upp á veggina. Keypti t.d. plakat af heiminum, því við erum alltaf að pæla í heiminum, Orri búinn að teikna nokkrar litríkar myndir og einnig hefur Arnór óskir um að setja upp nokkrar fótboltamyndir. Allt flott og gott, þá vantar bara kennaratyggjó, því límbandið heldur engu uppi. Við í allar bókabúðir sem við finnum, súpermarkaði og túristabúðir, og ég byrja: "Excuse me, I don´t know what it´s called exactly, we have it where I come from, it´s used to put up posters" (ekki get ég beðið um teachers gum!!) og það eru alltaf sömu viðbrögðin "don´t know it, we use double sided tape". Ok, segi ég þá, "dosn´t two sided tape make the paint come off?" "Yeeees, the paint, and sometimes some of the wall.." Hmmm, þar sem slíkt væri ekki vel séð hjá henni Sheilu minni sem leigir okkur, hef ég ekki fjárfest í two sided tape. En common, kennaratyggjó, hver vissi að það væri svona sjaldgjæft!?!





Það er ansi fyndið hvernig mállýskan er hérna, en eins og í flestum löndum, því sterkari mállýsku sem þú talar, því minni menntun. Kannski ekki ALLTAF satt, en þetta er þumalputtaregla. Og samt er þessi enska, "bajan" eins og hún er kölluð heilmikið notuð í auglýsingum og á skiltum fyrir ofan búðir, því þetta er svona sérkenni sem þeir eru greinilega stoltir af. Við sjáum t.d. á skilti hjá hárgreiðslustofum "Hair dat moves" og yfir veitingastöðum "eat da best, forget da rest". Soldið sjarmerandi, en vá hvað er erfitt að skilja suma. Maður er eins og mállaus og segir bara "sorry.. what.. one more time.. excuse me... one more time" og brosir sveittu aulabrosi.





Það er mikil umræða hér í þjóðfélaginu um gildi fjölskyldunnar og trúnaði við ættingja. Hér er mikið lagt upp úr fjölskyldusamkomum á sunnudögum. Sunnudaga má sjá prúðbúnar fjölskyldur ganga til kirkju, og það er sko mikið af kirkjum hér. Stundum eru messurnar haldnar í stórum hvítum tjöldum, enda ansi heitt, en alltaf er fólkið í sínu fínasta pússi, jakkaföt, bindi, sokkar og svartir skór og dömurnar í drögtum með hatta og hanska. Rosa flott og heilmikill sjarmi yfir þessu. Allavega á meðan ég er ekki í dragt með hatt. Eftir messu er hjá mjög mörgum "fjölskyldu-gathering", þá má sjá heilu ættbálkana sitjandi fyrir utan eitthvert húsið, allir að chilla og greinilega svaka róleg "bonding" stemmning í gangi. En auðvitað er svo skrifað í blöðin (við lesum helst "the nation", stærsta blaðið hér), því þessi hefð er á undanhaldi eins og búast má við hjá landi sem er og vill verða vestrænna. Áhyggjur af því að fólk sem flytji til höfuðborgarinnar sé hætt að heimsækja fjölskylduna úti á landi um helgar. Jafnvel skrifar þetta yngra fólk og viðurkennir að það skammist sín fyrir rætur sínar. Flest hús fyrir utan borgina eru nefninlega mjög lítil og hrörleg, með smá skika og geit og/eða hænum úti í garði. Og yfirleitt má finna andlit í glugga, að fylgjast með því sem er að gerast í kring. Heilmikil fátækt, allavega á okkar mælikvarða. Hversu góður hann er, veit ég ekki, og hversu góð þessi þróun er veit ég heldur ekki.



En, Barbadosbúar er allavega duglegir að finna sér alls konar tekjumöguleika. Á flestum húsum má sjá alls konar skilti "buy fresh fish here", "rooms for rent", "stress relief massage" og "water for sale, even cold" allt stundum á sama húsinu. Svo er náttúrulega old folks day care húsið hér í hverfinu sem ég er svo hrifin af, sjáið það á myndinni fyrir ofan.

Gamla fólkið sem kemur að heimsækja okkur þarf aldeilis ekki að hafa áhyggjur af því að þeim muni leiðast með okkur, þeir verða bara í short term day care!!! Og ef fjörið verður of mikið þar, geta þau farið í næsta hús í "stess relief massage" og eftir það, þá skella þau sér á "pöbbinn" með stólunum þremur!

Monday, September 15, 2008

Orri stýrir deginum í dag


Hann náði sér í einhverja gubbupest, svo skóladagurinn er stuttur í dag og við heima í rólegheitum. Þess vegna hef ég tekið smá törn á blogginu, og sett inn nokkrar myndir til að deila með ykkur.
Hér er mynd af Orranum, öllu hressari en hann var í morgun. En hann er að jafna sig núna og er að klára þessa gubbutörn.


Takk alveg rosalega fyrir öll commentin frá ykkur, við höfum öll ofsalega gaman af því að lesa þau. Mér finnst líka frábært að vita að þið eruð að lesa bloggið, hafa gaman að því og taka þátt í þessu með okkur. Takk, takk, takk!!!

Earthworks


Þetta er leirkeraverkstæðið sem við fórum á, sjá líka í póstinum á undan. Er ansi frægur staður hér, en það var ensk kona sem komst að því að sérstök leirkerasmíði Barbadosbúa, tækni sem þeir hafa notað í nokkrar aldir, var að deyja út. Hún tók sig því til, lærði hana og stofnaði fyrirtæki, verkstæði og búð, sem er orðið eitt helsta túrista "attraction" á eyjunni. Arnór hér fyrir framan húsið, að hvíla sig eftir sprett.

Arnór á sprettinum


Við fórum í leirkeraverkstæði hér í bænum, ótrúlega flott og gaman fannst mér. Guttarnir voru ekki alveg sammála mér í að það væri gaman að skoða þetta alveg svona lengi og fundu upp á skemmtilegri keppni sem þeir dunduðu sér við meðan ég skoðaði keramikdótið. Húsið stóð við ansi bratta brekku og þeir kepptu í að bæta tímann sinn við að spretta upp brekkuna. Gaui var tímavörður og þeir tóku ansi marga spretti hver og náðu allir að bæta tímann sinn svakalega. Fengu þarna flotta æfingu þessir hraustu strákar. Hér er Arnór, einbeittur!

Hvernig í ósköpunum..??


Skrítin mynd, en hér stendur Gaui í brekkunni sem strákarnir voru að spretta upp.

Viktor í sjónum..


.. og ef þið skoðið himininn á bakvið hann, sjáið þið skilin milli góðs veðurs og þrumuveðurs, en það er ansi oft þrumuveður hér, enda regntími núna á Barbados.

Power wheel


Hér kemur smá sería hjá mér af nokkrum æfingum sem við erum að gera hér. Skelli þessu inná aðallega fyrir ketilbjölluhópinn og aðra áhugasama um æfingar. Ég er nefninlega stundum að skrifa um þetta til hópsins, og þá er fínt að vita hvernig þetta lítur út. En enn sem komið er kann ég ekki að setja fleiri en eina mynd á eina færslu, hehe, svo þetta kemur í mörgum hlutum.


Hér er ég með fæturna á pedulunum í Power wheelinu, og geri armbeygju og dreg svo hnén upp að olnbogum, fer svo aftur í armbeygjustöðu, passa að halda spennu í öllum líkamanum, og gera aðra armbeygju, dreg svo hné upp að olnbogum og svo framvegis. Kvindislega skemmtileg æfing sem virkar!

..sandpoki


Hér í bóndagöngu með sandpokann í fanginu. Sést í Gauja í hamstring-æfingunni (vöðvar aftan á læri). Var ekki búin að átta mig á freknunum sem ég hef safnað hér, en Arnór tók myndina og hann hefur töluvert meira gaman að nærmyndum en ég...

Jungle Gym - róður


Svona er róðurinn framkvæmdur. Jungle Gym hengt í mangótréð og svo bara halda líkamanum þráðbeinum og toga sig upp í róðurhreyfingu, rosaleg latsa-æfing (stóri bakvöðvinn). Og um leið eru flestir vöðvar líkamans að vinna við að halda beinni stöðu. Frábær æfing!

Viktor kátur..


Það er fátt sem gleður hann Viktor minn eins og kalt kókglas á veitingastað. Ég spurði hann hvort, ef hann fengi að ráða, hann myndi fá sér kókglas á HVERJUM degi? "Nei, ég myndi fá mér kókGLÖS á hverjum degi!". Hér er mynd af honum á veitingastað sem við fórum á í gær eftir hellaferðina. Veitingastaðurinn heitir Dina´s, stór og myndarleg kona sem á hann, hún gengur um milli gestanna og spjallar og tjékkar á hvernig öllum líður. Rosa kammó. Staðurinn er við surfströndina, sem er eðlilega mikill túristastaður. Góður matur, en eins og annað hér á Barbados, ansi dýr. Létt máltíð fyrir okkur fimm kostaði okkur rúmlega 200 barbados-dollara, eða um 10þús kall. Ísland er bara alls ekki dýrasta land í heimi :)
Annað sem gefur smá hugmynd um verðlag, er verðið á mjólkinni, 2 lítrar kosta 10 bbd (barbados dollara) en það er rúmlega 400kr. Við erum því þó nokkuð að halda í peningana hér, en guttarnir eru hins vegar mjög viljugir að eyða peningunum okkar og vilja fara sem oftast á veitingastaði, skiljanlegt svo sem. Við fórum í vikunni á lítið kaffihús og þegar við setjumst niður til að skoða matseðilinn tilkynnum við Gaui; "við ætlum að fá okkur kaffi, hvað viljið þið að drekka? Við ætlum ekkert að borða hér, gerum það bara þegar við komum heim.." Fengum mikil viðbrögð "Oh, ég er so ógissslega svangur!" "ég er að deyja úr húúúngrrri", þannig að ég gaf aðeins eftir: "ok, en allt sem þið pantið ykkur að borða, borgið þið helminginn af, með ykkar peningum". "já, ég er eiginlega bara þyrstur.."

"Altarið"


Og hér er mynd af altarinu í kapellunni stóru í dropasteinahellinum. Í kringum "líkneskin" er lítil tjörn sem hefur myndast af sjálfu sér, ótrúlega fallegt og friðsælt, langt, langt, niðri í jörðinni.

Sunday, September 14, 2008

Dropasteinshellir og surfing á Bathsheba


Í dag fórum við í svakalega ferð niður í jörðina!! Við fórum að skoða Harrisons cave, einn af frægustu dropasteinshellum í heimi. Við fórum með "lest" langt niður í jörðina í þessa hella sem hafa verið þekktir í að minnsta kosti 250 ár. Þó er talið að jafnvel frumbyggjar á eyjunni hafi vitað af þeim. Stærstu dropasteinarnir hafa verið að myndast í um 7000 ár en þetta eru svona gul grýlukerti í loftinu sem lekur endalaust úr. Það sem lekur af þeim myndar svo "klessuturna" á hellisgólfinu og úr verður algert listaverk í hverri hvelfingunni á fætur annarri. Ein hvelfingin, sú stærsta er nefnd "The Cathedral" og það er svolítið eins og að koma inn í kirkju þegar maður kemur þangað inn. Lofthæðin er gríðarleg og svo eru þessir skúlptúrar út um allt á hellisgólfinu. Með smávegis ímyndunarafli er auðvelt að sjá alls konar myndir út úr þessum formum, Maríu mey, munka, eða drauga. Mér fannst þetta þó einna mest minna á Hattifattana úr Múmínálfunum. Án gríns.


Eftir hellaferðina fórum við svo í bíltúr yfir á austurhlið eyjarinnar og horfðum aðeins á surfingkeppni í Bathsheba. Austurhlið eyjunnar snýr að Atlandshafinu og þar eru mun meiri straumar en á vesturhliðinni sem snýr að Karabíska hafinu. Þannig að það er ekki mælt með að synda við austurhliðina, en hins vegar koma þessar svakalegu öldur þar og því er þetta surfing paradise! Sem væri gaman fyrir okkur ef við kynnum að surfa. Someday. Við fylgdumst með þessum hörkutólum og ég hafði einstaklega gaman af að fylgjast með fólki detta og hverfa inn í froðufellandi ölduna. Rosalegt sport, enda svakalega hraustlegt útlit á þessu fólki. Ekki einn einasta feitan surfara að sjá, sama á hvaða aldri þeir voru. Það eru misjafnar aðferðir sem þeir nota. T.d. völdu flestir að fara í gegnum eða undir ölduna, þegar þeir voru að svamla út, en sumir reyndu alltaf að fara yfir ölduna, kannski til að rugla ekki hárinu, en surfarar eru alltaf með sítt hár með strípum. Sú aðferð var greinilega erfiðari, en kannski meiri rússibanatilfinning í henni. Við viljum læra þetta, spurning bara hvar og hvenær í reisunni.
Við erum enn að fá heimsóknir af hinum ýmsustu kvikindum. Horfðum á þátt um skrítna fæðu á National Geografic eitt kvöldið, m.a. verið að borða tarantúllur í einhverju landinu, ásamt öðrum kvikindum með fleiri en fjóra fætur. Svo komu upp myndir af fólki á Vesturlöndum vera að borða humar og krabba og Gaui sagði: "já, þetta er kannski bara svipað... aldrei að vita nema maður prófi..". Ég var ekki alveg jafn yfirveguð og civilliseruð yfir þessu, en svo förum við að slökkva ljós og svona fyrir háttinn.. og... ónei, það er ekkert rómó sem gerðist þá.. ekki fara að halda það. Við hurðina á svefnherberginu okkar beið stærsti kakkalakki sem ég hef séð á ævinni!!! Fyrst blótuðum við honum, en þegar það dugði ekki náðum við í eitrið góða og spreyjuðum (eða Gaui spreyjaði, ég var í "stikki" inni í herbergi með það mikilvæga hlutverk að halda rónni). Eitrið hafði nú lítil áhrif á Kakka, og þá upphófust þær almestu barsmíðar sem heyrst hafa í þessu húsi.. með dagblaði. Eftir ca. tveggja mínútna baráttu, og brjáluð læti (þar sem Viktor kallaði fram "pabbi, viltu hætta að leika þér með pottana, ég er að reyna að sofa hérna!") var Kakki sigraður. En Gauja langar ekki að borða stórar pöddur eftir þetta, svo eitthvað gott kom út úr þessu :)

Mýflugurnar eru búnar að fatta hverjir eru með sætasta blóðið í fjölskyldunni. Við Arnór eigum klárlega vinninginn. Í augnablikinu er ég með um það bil tuttugu bit fyrir neðan hné. Í gær þegar ég gekk um með eymdarsvip, haltrandi og stynjandi í von um smá samúð, þá heyrði ég sagt fyrir aftan mig "oj, ertað grínast, mamma, þú ert ógeðslega bólug á fætunum!!" Þetta var öll samúðin, en þar sem ég er ábyrg fyrir íslenskukennslunni í vetur þá svaraði ég með þótti "það heitir að vera bólóttur á fótleggjunum!". Þannig er nú það, alltaf tækifæri til að kenna, ef maður er bara vakandi fyrir því.


Wednesday, September 10, 2008

Frábærir fótboltadagar

...kannski ekki fyrir Ísland, en fyrir guttana okkar er þetta búið að vera skemmtilegt. Gaui hringdi í KSÍ hérna á eyjunni og fékk númerið hjá liði hér. Maðurinn sem er yfirþjálfari heitir David og hann boðaði bara Orra á æfingu í gær með 6-7 ára guttum og Arnór í dag með 8,9 og 10 ára guttum.

Kricket er helsta íþrótt Barbadosbúa, og fótbolti mun minna þekktur. Samt voru um 25 litlir guttar á æfinu í gær og okkar maður var alsæll. Viktor var með Orra allan tímann að hjálpa honum að þýða allt sem þjálfararnir sögðu, og það er bara ótrúlegt hversu mikið hann Viktor skilur. Það er nefninlega ekki alveg enska sem er töluð hér alltaf, heldur er mjög mikill "bajan" tónn í þessu og þetta er í raun mjög sterk mállýska. En að fótboltanum, hann Orri er kallaður Patrick hérna (heitir Patrekur Orri) og þjálfararnir voru alltaf að kalla "well done Iceland" eða "good going Patrick" eða "go on Patrick, tackle him, go on!!" :) Orri var mjög sáttur við eigin frammistöðu eftir æfinguna, enda fékk hann gríðarlega hvatningu, og hann tilkynnti í bílnum í fullri alvöru á leiðinni heim, alveg blautur af svita "ég held að þjálfurunum hafi þótt ég langbestur á æfingunni". Og það fannst mér alveg frábært, það er einmitt það sem maður vill að allir upplifi í þeirri íþrótt sem þeir stunda, hafi gaman að þessu og upplifi sigra og þessa "ég get" tilfinningu.

Arnórs æfing var fjölmennari, um 40-50 drengir og aftur var svona rosalega gaman. Þetta eru tveggja tíma æfingar í yfir 30 stiga hita og það er ekkert smávegis sem það krefst. Hann stóð sig líka frábærlega, fór inn í æfinguna af fullum krafti og var alltaf á ferðinni. Enda var eftir honum tekið, ekki furða með þessa hæfileika og þetta síða rauða hár! Þetta var alveg frábært og ofsalega mikil gleði í þjálfuninni hér. Aðstaðan er alls ekki góð, þeir spila á grasflöt hjá litlum skúr sem er í niðurníslu, engin flóðljós og á miðjum vellinum er stór yfirbreiðsla þar sem sandflötur kricketvallarins er. En gleðin og hvatningin er til staðar og bara flottur fótbolti spilaður hjá guttunum, heilmikil tækniþjálfun og skotþjálfun. Orri og Arnór eru skráðir í þennan klúbb "Kick start football club" næstu 14 vikurnar, æfing einu sinni í viku, tvo tíma í senn. Verður gaman.

Viktor prófaði svo fótboltaæfingu með 11, 12 og 13 ára strákum í dag og þar er mikil áhersla á tækni. Aftur tveggja tíma æfing og mikil keyrsla, en líka mikið talað og mikið útskýrt. Viktor hefur lítið sem ekkert æft fótbolta heima, en stóð sig alveg svakalega vel. Spjallaði við strákana á æfingunni, og naut þess bara að vera með og standa sig vel. Hann ákvað að prófa fótboltaæfingu í stað taekwondo, eins og hann stundar heima, eftir heimsókn í taekwondo tíma í gær. Stefnan var sem sagt tekin á taekvondo æfingu fyrir Viktor í gær eftir fótboltaæfingu Arnórs. Æfingin var í húsi niður í bæ, eiginlega alveg við göngugötuna (sem bílar keyra nú samt í gegnum). Og við löbbuðum upp á þriðju hæð þar sem tíminn átti að vera, og þetta var nú ansi hreint ólíkt fótboltaæfingunni. Salurinn var í algerri niðurníslu, á æfingunni voru fjórir krakkar ca. 4-7 ára og einn þjálfari, og satt að segja fannst okkur þetta eins og að koma inn í fangelsi. Krakkarnir áttu að gera sömu hreyfinguna aftur og aftur og aftur, og svo næstu hreyfingu aftur og aftur og aftur og aftur og aftur. Áhugaleysið skein úr andlitunum, og ef þau gerðu vitlaust, stoppaði þjálfarinn æfinguna, gekk að þeim, talaði niður til þeirra og þrælaði þeim í gegnum hreyfinguna eins og þau væru hreyfihömluð. Öðru hvoru átti að gera 20 armbeygjur, og það var nú lítið pælt í hvernig þær voru gerðar, olnbogar úti, bakið bogið, hálsinn teygður og allt í hönk. Ekkert leiðrétt þar. Ég veit að það er krafist aga á bardagaæfingum, en þetta var bara ömurlegt. Það er hægt að kenna bardagaíþróttir á jákvæðan hátt, þar sem aga, þjálfun, gleði og smá húmor er blandað saman. Það á að vera gaman að stunda íþróttina, auðvitað líka stundum mikil vinna, en það á samt alltaf að vera gaman líka. Það er allavega mín skoðun og við ætlum að leita að öðrum stað fyrir Viktor að æfa, því þótt maður eigi kannski ekki að dæma allan klúbbinn eftir eina heimsókn, þá var stemningin þarna ekki eitthvað sem ég vil að Viktor upplifi í tengslum við taekwondo, sem hann annars elskar að stunda.

Jæja, nóg af því. Við erum að berjast svolítið við maura þessa dagana, enda rignir ansi mikið núna. Þá leita þessi "grey" inn í skjólið. og það er frekar pirrandi að finna þá alls staðar sem smá mylsna hefur verið skilin eftir. Það hefur nú stundum verið lenska hjá mér að geyma uppvaskið aðeins.. en hér gengur það bara ekki. Og það er fátt sem rekur mann janfmikið áfram og hræðslan við helv... maurana. Ég var nú alveg orðlaus af vanmáttugum pirringi hér einn morguninn, þegar ég ætlaði að setja morgunbrauðsneiðina mína í ristina. Er komin í vana hér að fá mér brauðsneið og kaffi í morgunmat, því hafragrauturinn smakkast bara ekki eins vel án lifrarpylsunnar... kannski finn ég eitthvað í staðinn, en þangað til... Nú, maurarnir voru sem sagt komnir í ristina, og ég sem er nú yfirleitt frekar yfirveguð manneskja var bara að gráti komin að þurfa að díla við þessi kvikindi fyrir morgunmat!!! Ég tók "æðiskast" (milt) og spreyjaði bara allt draslið, ristina (bara smá), snúruna, borðið í kring og gólfið í nettu morðæði og jú jú, þeir drápust. Svo þurfti að hreinsa upp líkin og eitrið, og ég neyddist til að hvíla ristina rétt meðan mesta eitrið væri að sjatna, beið í tíu mín og ristaði svo fína "coconut brauðið" sem ég er búin að finna hér. Smakkaðist bara vel. Svo kom Sheila, konan sem leigir okkur, í óvænta heimsókn stuttu seinna, og þá nýtti ég tækifærið til að spyrja hana hvað hún gerði í sambandi við maurana. Hún sagði "þar sem það er rigningartímabilið núna, þá leita þeir inn..." jú jú, ég vissi það.. en hvað með ristina.. "jú, ef þeir eru í ristinni, þá kveikir þú bara á henni, það drepur þá!" ..hmm, ok, en þá eru dauðir maurar í ristinni.. "já, já, þeir eru meinlausir.." ojojojoj... hugsaði ég en þar sem ég hafði fengið að borða, hélt ég rónni. "Má eitra?" spurði ég, morðinginn.. já, já, það má eitra, auðvitað ekki ofaní ristina, haha, that could be harmful..." "of course, haha" svaraði ég mjööööög róleg.." Allavega, ristin komin uppá hillu og ég held ég lifi þetta af.

Það eru fleiri dýr að koma inn til okkar í rigningunni núna. Eðlur sækja svolítið inn, en þær eru alveg óskaplega hræddar við okkur. Ferlega fyndið samt að sjá þær ganga bara lóðrétt eftir veggnum. Kíkið á videóið :))

Monday, September 8, 2008

Jei, fundum annan súpermarkað!!


Jú, jú, þetta eru stóru fréttir dagsins, lífið er nú ekki flóknara en það. Við guttarnir fundum sem sagt annan súpermarkað, miklu betri en Jordans, sem er afskaplega dimmur, þröngur og trúir hvorki á ávexti né grænmeti. En við fórum sem sagt á röltið í Holetown (næsti bær) á meðan Gaui var að vinna og fundum þennan rosalega flotta súpermarkað þar sem úrvalið af ávöxtum stendur algerlega undir öllum þeim væntingum sem ég hafði fyrir þessa ferð. Ég var nefninlega alveg viss um að ég myndi loksins fá að bragða á ávöxtum sem væru ekki teknir af trjánum 3 mánuðum fyrir nauðsynlegan þroska, eins og við erum held ég oft að fá á Íslandinu góða. Ég keypti fullt af ávöxtum og við burðuðumst með það heim (þrátt fyrir ca. 8 matvælapoka og þrjú börn er samt flautað á mig og mér boðnir hinir ýmsustu hlutir til sölu. Ég vel að skilja það sem svo að ég sé svona ofboðslega heillandi, en kannski lít ég bara svona vellauðug út. Eins og einn sagði við mig "vow, three boys, must be a strong woman..." hehemm.


Og talandi um styrk, þá tókum við frábæra æfingu í gær hér í garðinum. Nýttum hringina, Jungle Gym, sippuband, sandpokann og Power wheelið sem við kynntumst hjá Maxwell til að taka alveg fantaæfingu. Við tókum 3 umferðir af mismunandi æfingum, t.d. róðri og armbeygjum í Jungle Gym, snúninga og magaæfingar í hringjunum, hnébeygjur með sandpokann, sippuðum og gengum á höndunum með Power wheel. Ótrúlega gaman.


Í fyrradag ákvað Gaui að hlaupa nokkrum sinnum upp brekkuna hér, hún er ansi brött. Í brekkunni er oft fólk á gangi og meðal annars er við hana "dagvistun fyrir aldraða" (stendur málað á skilti fyrir utan að þau taka að sér aldraða bæði long- og short term :) og svo er hverfisbúllan þar við hliðiná. Nú, hann hljóp þetta 5 sinnum, skokkaði niður brekkuna og spretti svo upp og fékk ansi skemmtileg viðbrögð. Mest var nú um hljóða undrun frá hverfisrónunum, en gamla fólkið hékk yfir handriðið á dagvistuninni og kallaði á hann hvellum rómi "don´t kill yourself old man!"


Það er svolítið öðruvísi að æfa svona í hita. Áður en æfingin er byrjuð er maður orðinn vel sveitttur, og svo er ég allaveg svolítið meira á varðbergi hér, því það eru eðlur, froskar og apar alltaf á næsta leiti. Minnsta hreyfing sem ég sé nær athygli minni, eins og þegar ég hékk á hvolfi í hringjunum sem við höfðum hengt í mangótréð, og heyrði svo "íhíhhaaaa" og þá voru það apar einhvers staðar í myrkrinu fyrir ofan mig. Og ég á hvolfi.


Strákarnir eru enn að sveiflast milli þess að fíla þetta alveg í botn og svo að fá mikla heimþrá. Það eru auðvitað helst vinirnir og fjölskyldan sem þeir sakna. Skrítið að þegar við höfum verið á styttri ferðalögum, eins og 2-3 vikur, þá hefur ekki komið eitt einasta heimþráraugnablik, en núna voru þeir strax komnir með heimþrá eftir nokkra daga. Samt eru þeir mjög sáttir við að vera í heimsreisu og þeir hlakka til að upplifa restina af ferðalaginu, en þetta er langur tími þegar maður horfir fram á vegin. Einhvernvegin er heilt ár miklu lengra fram á við, heldur en þegar maður lítur aftur. Ég er samt viss um að þetta verði ansi fljótt að líða. Helsta verkefnið hér á Barbados er að gera dagana áhugaverða, en samt halda okkur niðri á jörðinni, því þetta á að vera "hversdagur". Þeir eiga að læra fyrir skólann heima á Íslandi, og það er ekki nammidagur alla daga :) Getur verið flókið að skilja þegar pálmatré, heitur sjór og sól bíða manns úti.


Frábært að fá commentin frá ykkur, gaman að þið eruð að fylgjast með okkur. Við hugsum mikið heim og söknum ykkar meira að segja stundum :) Finnst ég jafnvel stundum vera á Íslandi þegar ég borga í matvörubúðunum hér, kostar bara svipað, aldrei undir 4-5þús kallinn.


Ástarkveðjur héðan úr hitanum, það eru engir fellibyljir hér hjá okkur. Síðasti fellibylur sem skall á Barbados var víst kringum 1950. Er vel staðsett þessi litla eyja :))

Saturday, September 6, 2008

Safarí og veðrið hér

Dagurinn í gær var ansi skondinn. Ég fór í þennan blessaða æfingaakstur, sem gekk svona upp og niður, en takmarkið var að komast í "Kringluna" og það tókst. Á heimleiðinni tókst okkur að sjálfsögðu að villast, en það reddaðist auðvitað á endanum. Eftir Kringluferðina tók Gaui vinnutörn og við guttarnir fórum á ströndina okkar, sem sagt þessa sem er beint fyrir neðan. Hún er mjög skemmtileg þegar það er lítið af öldum, því það eru steina og sker í botninum og í kringum þau eru svo margir fiskar. Ströndin í Holetown, sem er ca 5 mín akstur héðan er hins vegar bara sandur og rosalega góð þegar smá öldugangur er, því öldugangurinn setur sandinn af stað og þá sést ekki neitt í kafi. Allavega, við höfðum það rosalega gaman, eins og þið sjáið smá sýnishorn af á videoinu sem við settum fyrr í dag. Gerðum svaka kastala í sandinum, með virkisveggjum í kring til að sjórinn myndi ekki eiga séns að skemma. Kom hins vegar í ljós að við áttum ekki séns að hindra sjóinn í því :) en það mátti reyna að berjast. Eftir að við höfðum leikið okkur heillengi kom þessi líka svakalega rigning. Það er fyndið með rigningu hér, að hún byrjar ekkert með smádropum fyrst, eða þungum skýjum. Eina sekúnduna er sól, næstu dregur fyrir sól og á þeirri þriðju ertu í sturtu!! Nú, við vorum þarna á sundfötunum, ég sitjandi á handklæði og guttarnir í fjöruborðinu, og það var eins og rigningin róaði sjóinn. Öldurnar snarminnkuðu og allt varð svona þokukennt grátt. Rosa skrítið. Svo stytti upp og ég var mjög kát yfir að hafa náð að halda fötunum sem voru í tösku, þurrum, ásamt símanum og myndavélinni. Svo vorum við aðeins lengur, svona til að þurrka okkur, ca. tíu mínútum seinna orðin þurr, og ég byrja að smala liðinu í fötin... þrír, tveir, einn..STURTA!! Við drifum okkur af stað, þurftum að koma við í Jordans supermarket að kaupa í matinn, og ég hef nú sjaldan vakið jafnmikla athygli. Barbados-búar eru upp til hópa mjög vinalegir og brosmildir, en þeir sem búa ekki yfir þeim eiginleikum, eru látnir vinna í jordans súpermarkaði. Þarna vorum við, útötuð í sandi og rennandi blaut, keyptum í matinn og ég vildi bara drífa okkur út, en þá kom í ljós að peningurinn hafði ekki alveg sloppið við rigninguna.. eða sandinn, hihi. Það myndaðist löng röð við kassann, meðan kassadaman þurrkaði fýlulega af hverjum einasta seðli, báðu megin, tvisvar. Ég byrjaði eitthvað aðeins "sorry, about the sand..hehe, we just got caught in the rain.. new in town.. you know.." en svo hætti ég bara þessum kurteisistilraunum. Hún hafði engan húmor, daman, ekki einu sinni fyrir óförum annarra!!

Í dag fórum við svo í Barbados Wild life reserve í dag og það ferlega gaman. Þetta er svona eins og frumskógur með stígum sem maður á að fylgja. Stígarnir eru fyrir mannfólkið, en svo finnst skjaldbökunum þær líka eiga stígana, og þær rölta virðulega og í hæææææægðum sínum eftir þessum litlu hlykkjóttu stígum. Alveg frábærar. Svo sáum við slöngur, litla hirti (alltaf þegar við sáum hjört, kallaði eitthvert okkar "hvar er Ágústa?" smá innan-tribe-húmor"), svo voru eðlur af öllum stærðum og gerðum, fuglar og hinir frægu "green monkeys" en það eru litlir apar sem eru frjálsir um garðinn og eru líka mjög frjálslegir. Gaui "lenti" t.d. í því að taka video af tveimum öpum, rosa krúttlegum að leika sér, og á sekúndubroti voru þeir bara komnir á fullt í xxx og leikstjórinn roðnaði og hrópaði "cut".
Við erum búin að vera hér í viku núna og erum ánægð. Ég fékk væga heimþrá samt í kvöld, kíkti á mbl.is og sá myndir af fjöllunum. Úff, væri gott að fá ca 5 mín af ferska kuldanum :) við erum að mestu bara í stuttbuxum, bol og sandölum. Allt meira en það, og maður er farinn að svitna eins og Óskar í ketilbjöllutímum!!

Ströndin okkar

Stutt vídeó tekið í gær, við guttarnir löbbuðum niður á strönd, Gaui var heima að vinna. Rétt á eftir þetta vídeó var tekið rigndi eins og hellt væri úr himnunum (ekki fötu :).

Erum að útbúa nesti og ætlum að fara í ævintýraferð í dag. Meir um það síðar.

Menn eru spenntir fyrir Noregur - Ísland, en hann er því miður ekki í beinni hér heldur Portúgal - Malta...

Áfram Ísland!

Thursday, September 4, 2008

Bíllinn kominn!!!


Helsti atburður dagsins var að við fengum bílinn sem við ákváðum að leigja. Þetta hús sem við búum í er í ansi miklu úthverfi, og í raun ekki neitt sérstaklega spennandi nálægt, nema náttúrulega stutt í ströndina. Bíll gefur okkur mikið frelsi og við fórum í okkar fyrsta bíltúr í dag. Í fyrsta lagi þurfti að venjast því að keyra vinstra megin á götunni, Gaui tók það að sér í dag. Það gekk nokkuð vel, hann var snöggur að venjast því, það er í raun bara að gera nokkurn vegin allt öfugt við það sem maður er vanur að gera þegar keyrt er heima. Hringtorgin virka eins og heima, nema farið er inn í þau vinstra megin, keyrt öfugan hring og innri hringur á réttinn.

Það sem flóknara var í dag var að rata. Það eru voðalega fín kort yfir Barbados, svipað stór og gott Íslandskort, nema það tekur ca. 45 mín að keyra frá einum enda til annars, þannig að ég var bara komin norður í land á kortinu áður en ég vissi af. Ekkert smá erfitt þess vegna að finna nokkur staðarnöfn, það voru alltaf komnir 20cm á kortinu á no time!! Svo er eiginlega ekkert merkt hér, fyrr en maður er kominn á staðinn, og þá þýtur maður auðvitað framhjá. Eyjan er ótrúlega falleg, gróðursæl og hæðótt. Vestuströndin, þar sem við erum, er mjög þéttbýl og þar eru bestu baðstrendurnar. Austurströndin snýr að Atlandshafinu og þar eru mun meiri straumar og ekki mælt með að fólk sé að synda þar. Hins vegar er þar alger surfing-paradís og það var ógeðslega flott að sjá pínulitla kalla (reyndar í eðlilegri stærð, en öldurnar voru svo stórar :) að leika sér með brimbrettin á öldunum og hrynja svo inn í risaöldur og hverfa. Við vorum orðin soldið svöng eftir að baða við Vesturströndina, keyra svo landið þvert og endilangt yfir á Austurströndina, svo við byrjuðum að leita okkur að veitingastað. Höfum ekki enn prófað veitingastað hér, þetta eina skipti sem við ætluðum að prófa var hann jú í fríi til 24 október. Allavega, það var hægara sagt en gert að finna stað sem ekki var bara búlla, þrír stólar, pulsugrill og bjórkassi. Og við vorum komin alla leið aftur á Vesturströndina inn í Brigdetown, höfuðborgina, þegar við fundum stað til að fara á. Þótt vegalengdin sé ekki mikil, varð þetta góður bíltúr því við villtumst fram og tilbaka um litla sveitavegi sem voru barasta ekkert merktir. En við enduðum á stað sem kallast "Brown sugar" og var baaaara góður. Ætlum að fara með gestina okkar á þennan stað, alveg pottþétt.

Dýralífið hérna er ansi mikið öðruvísi en á Íslandi. (talandi um dýr, hér fyrir ofan er mynd af hundinum hans Renzo Gracie, sem við fórum að kíkja á í New York, meira um það síðar, þvílíkur höfðingi hann Renzo og þvílíkur hundur sem hann á!) Ég og guttarnir fórum á strönd í gær meðan Gaui var að vinna, sem Tiger Woods og hans líkir fara á þegar þeir koma hingað, kallast Monkey Bay. Svo sem eins og hinar strendurnar, gullfalleg, en það sem var sérkennilegt við hana var að það var fullt af dauðum skjaldbökuungum í sandinum. Þeir höfðu líklega verið á leiðinni að sjónum og ekki náð áður en þeir þornuðu, en við fundum einn lifandi og vorum ekki lengi að koma honum í sjóinn. Vona að hann spjari sig.. Við eigum eftir að prófa að leigja bát til að fara að skoða risaskjaldbökur, en það er víst hægt að synda með þeim og snorkla í kringum þær. Ætlum að prófa það einhvern daginn. Rákumst einnig á gulan krabba á ströndinni, sem hljóp fyrir framan okkur. Var svona eins og á fjórða glasi því hann hljóp út á hlið, dreif sig svo undir stórt laufblað og gróf sig niður í sandinn. Svo þegar ég var að hengja upp þvottinn í dag hér fyrir utan, var að ná í eitthvað á snúrunni og sé svona út undan mér græna eðlu. Fyrstu nanósekúnduna hugsaði ég bara "þessi leikföng fara nú alveg út um allt" en fattaði svo að þetta væri bara alvöru lítil skærgræn eðla sem hélt að ef hún stæði aaalveeeg kyrr myndi ég engan vegin sjá hana á rauðu gólfinu. Hrikalega fyndin lítil dýr.

Guttarnir eru ýmist rosalega ánægðir með ferðina, eða mjög þreyttir á þessu. Viktor tók smá rispu í dag í mikllu pirri yfir því að við værum "bara" með tölvu, en ekki prentara. Hann þurfti prentara og það strax. Lítið atriði í raun, en allt sem þeir eru að upplifa núna, undirstrikar hversu góðu við erum vön heima á Íslandi. Og ekki bara þeir, ég líka. Ég á dálítið erfitt með að fá ekki fetaostinn minn, lambhagasalatið og kotasæluna :) missti út úr mér í dag, þegar við vorum búin að keyra hring eftir hring um litla, holótta, ómerkta vegi í leit að veitingastað sem ég teldi "örugga", að ég skildi bara alveg fólk sem færi í frí á lokuðum lúksussvæðum með allt innifalið, hehemm. Þegar maður er svangur og þreyttur, og þarf að klára verkefni, kemur líklega best í ljós úr hverju maður er gerður. Örugga á ég við, staði sem gefa ekki magakveisu. Ég er pínu smeyk við það á þessum litlu vegabúllum, en kannski á það eftir að koma. Ég er ennþá föst í því að staður sem maður kaupir mat á, eigi að vera hreinn og fínn. En málið með svoleiðis staði hér er, að gaurar eins og Woods eru að borða þar, og þá er það ekki alveg gefins, svona eins og Holtið.

Viktor kom með gott komment í gær þegar við vorum að rölta út í búð í gegnum hverfið okkar, þar sem við erum eina hvíta fólkið. Einhver gaur heilsaði okkur, sem hafði líka heilsað daginn áður, og hann sagði í viðurkenningartóni "það er svo gaman hvað fólk er mannglöggt hérna!".

Tuesday, September 2, 2008

Barbados!!!

Þá erum við komin á þessa pínulitlu paradísareyju í Karabíska hafinu.

Við erum búin að koma okkur nokkuð þægilega fyrir í húsinu hér að 13 Risk Ridge. Fyrsta kvöldið okkar hér fórum við í göngutúr um hverfið í leit að veitingastað, en komumst fljótt að því að hér í þessu úthverfi er lítið um slíkt. Gaui kom hingað í mars, þegar hann leigði húsið og mundi eftir að lítill huggulegur ítalskur veitingastaður væri hér í göngufæri. Við gengum og gengum, svöng og þyrst í dimmunni (lítið um ljósastaura hér í úthverfunum) og fundum ekki neitt nema súpermarkað. Létum okkur þá hafa það að kaupa mat og fara með heim til að elda. Mjög skrítið að vera svona eina hvíta fólkið í búðinni. Fólkið tók okkur nú frekar afslappað, allir heilsa og eru cool, en börnin stara soldið á okkur. Á röltinu daginn eftir fundum við svo þennan litla ítalska stað, en þá er hann bara frekar afslappaður eins og annað á eyjunni og er í sumarfríi til 4. október! ókídókí.. þar fór hverfisstaðurinn :) Það er reyndar ekki mikið sem þarf til að gera hverfispöbb hér, eitt coca cola merki, þrír ryðgaðir stólar, bjórkassi og voilá!! Komið "hangout place".

Við erum í ágætis hverfi, en þó er mjög misjafnt hversu vel við haldið húsin eru hér, sum uppfylla allar kröfur um draugamynda-hús, meðan önnur eru rosalega flott með marglitum blómatrjám í garðinum, stundum með belju og hænum á rölti. Ég á eftir að setja inn myndir af umhverfinu á næstunni, er svona að læra á þetta blogg smátt og smátt.

Í dag byrjaði svo skólinn hjá krökkunum á eyjunni og við nýttum tækifærið og byrjuðum heimakennsluna hér. Viktor og Arnór byrjuðu daginn á stærðfræði og íslensku, Gaui að vinna, en Orri svaf aðeins lengur og kom svo sterkur inn í stærðfræðina. Eftir lærdóminn tókum við guttarnir stefnuna niður á ströndina okkar, og þar tóku ágætis öldur á móti okkur. Gaui kláraði vinnuna sína og kom aðeins á eftir. Týpist, að þegar hann kom var ég í hrókasamræðum við sölumann sem var að sýna mér alls konar dót sem hann býr til, hehe, en það fyndna var að hann hafði komið til Íslands, séð Dimmuborgir, Geysi, Gullfoss og allan pakkann. Svona er samt fólkið hérna, alltaf til í að spjalla, vinalegt og ótrúlega rólegt. Allavega, stöndin... í fyrradag þegar við fórum var sjórinn mjög sléttur og þegar við köfuðum sáum við fullt af fiskum. Núna sást lítið, en sjórinn var volgur og öldurnar meiri. Það er mjög grunnt hér við ströndina og við höldum okkur mjög nálægt landi, alltaf örugg (engar áhyggjur ömmur!!). Við tókum æfingu á ströndinni, við Gaui. Hindu hnébeygjur, pistols, hindu armbeygjur og fleira sem okkur datt í hug. Eftir strandferðina, röltum við okkur heim, slöppuðum af, þvoðum smá þvott, Orri las heila bók (Óli og Ása) og við Gaui fundum út úr blogginu. Yndislegt að geta skipulagt daginn svona sjálf, í raun algerlega nýtt og ég finn að ég þarf að gíra mig niður. Er vön því að vera alltaf á fullu á Íslandi, en hér í hitanum verður bara allt að róast.
Ég hef fengið rosalega góð viðbrögð við ketilbjöllutímunum heima, fæ að heyra mikið af hrósi um kennaranna sem kenna tímana mína, svo ég er rosalega ánægð með það. Það munar svo mikið um það að vita að hlutirnir heima gangi vel.
Við fórum til Brigdetown í gær, sem er höfuðborgin og það var skemmtilegt. Það er samt þar eins og með annað hér, maður fer nokkur ár aftur í tímann og alveg sérkennilegt að vera svona alger minnihluti, það er svo lítið af hvítu fólki hérna. Arnór átti setningu dagsins í gær þegar við sátum á annarri hæð á veitingastað og horfðum yfir mannfjöldann í götunni meðan við borðuðum, "hey, þarna eru 5 menn.. og hvorugur þeirra eru svartir!!".

Blog Archive