Sunday, June 7, 2009

Í fótbolta


Þetta er ekki allt skóla- og ketilbjölluvinna! Við reynum að fara eitthvað út á hverju degi, þó það sé oft ansi freistandi að vera bara inni í stóru íbúðinni og litla hlýja garðinum sem við höfum hér. Við erum búin að ferðast mikið síðustu vikur og það er frábært að fá svona tíma til að slaka bara á, æfa mikið (jú það fer víst saman!) og bara vera saman í ró og næði. Hér á myndinni eru Gaui og strákarnir að leika sér í garði hér nálægt og Orri er einmitt nýbúinn að verja glæsiskot!!
Við höfum prófað að fara á tvær fótboltaæfingar hér í bænum. Ein var í klúbbi sem reyndist vera "country club", voða fínt umhverfi, fáir krakkar að æfa og það fyndna var að þjálfarinn var lítið að "ýta" á þessi börn. Ef þau hlupu eitthvað fyrir alvöru í nokkrar sekúndur, þá sagði hann þeim að þau mættu alveg taka sér pásu og setjast á kantinni meðan þau hvíldu sig. Common!! Krakkarnir voru meira eða minna of þung og höfðu sko þörf fyrir miklu meiri hreyfingu en þetta! Held að íslenskir fótboltaþjálfarar hefðu fengið hláturskast yfir þessu. Orra og Arnóri fannst þetta leiðinlegasta æfing sem þeir hafa farið á.
Hinn staðurinn sem við kíktum á er nokkra kílómetra í burtu, sem er ekkert mál, taxar mjög ódýrir. Þegar við komum á völlinn var það fyrsta sem við sáum kind á vellinum, að éta. Alveg hinum megin voru guttar að æfa, við töltum yfir og það kom í ljós eftir smá spjall að þetta voru 12-14 ára guttar, þetta var ekki beint félag, heldur svona "institution". Veit ekki alveg hvað það þýðir, en Orra og Arnóri var boðið að taka þátt. Þeir skelltu sér í leikinn og höfðu gaman að, Orri skoppaði soldið um þarna, helmingi minni en flestir, en stóð sig voða vel, hehe. Eftir æfinguna var okkur boðið að æfa með "institutioninni", sem hljómaði ekkert illa, en við þurftum þá að koma með ljósrit af passanum þeirra, tvær passamyndir af hvorum og næsta æfing var kl. 6 í fyrramálið! Ok. Við erum fótboltaáhugafólk og áhugafólk um hreyfingu... en að að vakna kl. 5 fyrir það! Hér! Í Perú! Og taka leigubíl í myrkrinu! Sorry. No thanks. Svo næsta skref var að panta bara pláss á fótboltanámskeiði í sumar í Aftureldingu.. og Orri og Arnór ganga um á bleiku skýi, þeir hlakka svo til að fara á æfingu þar sem þeir skilja ALLT sem er sagt, hehe. Þeir eru hörkuduglegir að æfa hér í garðinum með okkur, og nýjustu fréttir eru þær að Arnór bætti upphífingametið sitt í dag. Guttinn er kominn í 10 dead-hang upphífingar (það þýðir að hann hangir í hringjunum okkar og hífir sig upp, fer rólega niður, réttir alveg úr handleggjum, án þess að koma við jörð, og hífir sig upp aftur. Tíu sinnum!!). Þegar við vorum í Chile var metið hans 3!!! Engin smá bæting hjá guttanum.

2 comments:

Unknown said...

Þegar highlight dagsins í útstáelsi og hreyfingu er að drusla tvíburavagni niður tröppurnar til að sækja dótturina á leikskólann, er dásamlegt að fylgjast með því sem er að gerast úti í hinum stóra heimi :) og ekki verra að lesu um fólk eins og ykkur sem telur tímann í löndum en ekki vikum og mánuðum eins og við hin. Það verður skrítið að fara að rekast á ykkur í Mosó bráðum, Bestu kveðjur, Bergþóra

Vala said...

Noj noj, en gaman að heyra frá þér Bergþóra!! Ég var að skoða myndir af gullunum þínum á facebook um daginn, mikið ertu rík kona!! Já, það styttist í okkur að koma heim, tíminn líður hratt (á gervihnatta-öööld..) Hlakka til að sjá þig!

Blog Archive