Thursday, July 9, 2009

Huaca Pucllana



Við fórum að skoða þessar frægu rústir í miðborg Lima í fyrradag en þetta er heilagur staður sem byggður var um 5-800 eftir Krist. Þetta er gegnheill pýramídi (þeir eru nokkrir í Perú) og svo torg og nokkur fleiri mannvirki. Þetta tilheyrði Lima-kúlturnum, en það er flokkur sem var sem sagt uppi milli 5-800 eftir Krist. Staðurinn var notaður sem fórnarstaður fyrir guðina, þó sjaldan sem mannlegar fórnir voru færðar, "eingöngu" gert á tuttugu ára fresti, og þá alltaf ung stúlka á aldrinum 12-25 ára, því þær þóttu svo hreinar. Svæðið var mun stærra áður, en var ekki farið að varðveita það fyrr en kringum 1980, svo það er búið að byggja yfir þó nokkuð af rústunum. Svo á tímabili (held kringum 1960) þótti voða gaman að halda mótórhjólakeppnir á pýramídanum og þar í kring. Núna er hins vegar mikið kapp lagt í að vernda svæðið og endurreisa það sem hefur hrunið. Þetta er allt gert úr steinum sem þeir bjuggu sjálfir til, úr leir og skeljum og það sem hefur hjálpað til við að vernda þetta er að það rignir eiginlega aldrei í Lima. Síðast rigndi fyrir alvöru hér 1971, en annars er þetta bara örlítill úði. Ef það yrði hins vegar alvöru íslensk rignng hér, tæki það ekki nema svona viku að eyðileggja byggingarnar! Vissuð þið að Lima er önnur þurrasta höfuðborg í heimi? Sú þurrasta er Kairó.

Við erum að pakka núna og klára síðustu kettlebells-póstana fyrir næsta ferðalag. Förum í flug í nótt/fyrramálið og eftir 12 tíma flug erum við í Madrid!! Allir orðnir spenntir og þó er ansi skrítin tilfinning að vera að fara frá Suður-Ameríku eftir þennan tíma. Það sem ég hlakka furðurlega mikið til, er að upplifa aftur að klósettpappír sé sjálfsagður á klósettum og að það megi líka setja hann í klósettið!! The little things often matter a lot... Gleymi því til dæmis aldrei hversu óstjórnlega glöð ég varð á flugvellinum í Kína þegar ég sá hvítt postulínsklósett!! Eftir að hafa notast við göt í jörðina í nokkra daga, þá er þetta hlutur sem gleður þig!!

Bókahillutæknin


Þarna sést hvernig tækni þeir notuðu við byggingu staðarins. Þeir hrúga upp ferköntuðum steinum, sem þeir bjuggu til, allir í ca sömu stærð og þeir röðuðu þeim eins og bókum í bókahillu, ekkert á milli þeirra, en alltaf eitt lag af leir milli hverrar raðar. Þetta var gert til að byggingin myndi þola jarðskjálfta og þetta hefur svínvirkað.

Mér fannst við hæfi að hafa bókaorminn okkar til að sýna bókahillu-tæknina! Drengur sem las sjö bækur í bókasafni afa Ingimundar í fjögurra daga dvöl á Hóli.

Vinnunmennirnir

Þarna er verið að búa til steinana sem notaðir voru til að byggja þennan heilaga stað. Þeir bjuggu steinana til úr skeljasandi og leir. Aumingja mennirnir voru nú ekki mikið í ergonomiunni, vinnustellingarnar eru ekki til að hrópa húrra fyrir. Svo voru þeir gríðarlega stuttir í annan endann, því þeir þurftu frá unga aldri að bera þungar byrgðar, svo þeir urðu sterkir og stuttir. Sjaldan hærri en 1.50 á hæð.

Þarna eru þeir að fórna

Það var hefð að fórna leirkerum fyrir guðina og þarna er verið að fórna einu stóru. Á því er mynd af hákarli til að sýna virðingu fyrir Móðurinni; Hafinu. Presturinn er sá sem er með málaða bláa grímu, og það eru víst mistök listamannsins sem hefur gleymt sér aðeins, því þeir höfðu eiginlega bara brúnan og rauðan lit sem þeir notuðu til skrauts. En stundum fer kreativitetið úr böndunum..

A Peruvian delicassy..


..or an Icelandic pet!

Perú-hundurinn


Þessi tegund af hundum eru "þjóðarhundurinn", varla stingandi strá á þeim og þeir hafa víst gríðarlega læknandi áhrif á asma, exem og almenna geðveiki. Sel það ekki dýrara en ég keypti það, og þessi var nú alveg ferlega "sætur". Var hluti af sýningunni á þessum forna stað, þar sem okkur var sögð hluti úr sögu Perú og svo sýnt ýmis dýr sem hafa mikið komið við sögu landsins. Hann var rosalega rólegur, leyfði okkur að klappa sér og var voða áhugasamur um að snúsa af öllum. Að klappa honum var eins og að strjúka grófu og heitu leðurbelti sem er búið að velta upp úr sandi.

Tveir grimmir!


Húsakaup í Lima


Þessi fallegi kastali er til sölu í Lima, örugglega á fínu verði. Ég sé mikla möguleika í þessari eign og góður málari gæti gert þetta að svaðalegu listaverki!! Ég þekki einn málara...

Tuesday, July 7, 2009

Komin til Lima kl. hálf sjö að morgni!


Jæja, það sígur heldur betur á seinni hluta ferðarinnar, nú erum við komin til Lima eftir ævintýralegan endi á dvölinni í Arequipa. Við vorum búin að kaupa rútumiða til Cusco, skipuleggja ferð til Machu Picchu og svo þaðan ætluðum við að fara til Lima 6 júlí til að ná fluginu til Evrópu 9 júlí. Svo voru það verkföll og vegatálmar og alls konar órói, þannig að þetta endaði nú þannig að eftir tvær tilraunir að komast til Cusco, þá afpöntuðum við miðana og keyptum bara rútumiða til Lima, því þó við hefðum kannski komist til Cusco, þá er töluvert af fólki sem er fast þar í þó nokkuð fleiri daga en það ætlaði að vera. Og það vildum við fyrir alla muni ekki hætta á, 6 mánuðir í Suður-Ameríku eru nóg í bili. Rútuferðin gekk skítsæmilega, rútan fín, en vegirnir ekki, svo þrír úr hópnum tóku upp á því að æla á leiðinni (allir ælarar tengdir mér..), og þar af einn á gólf og hurð rútunnar. Þjónustuskvísan átti nú bara bágt með sig sjálf þegar við bentum henni á skvetturnar, og hún lét þær bara vera alla ferðina! Ekki var ég með græjur í farangri til að þrífa þetta, svo þetta varð að vera. Sem betur fer var einhver dama fyrir aftan okkur með svona lyktar-eyðingar-sprey með sér í handfarangrinum, sem hún notaði óspart. Svo tókst okkur nú að sofna á endanum, og þegar við vöknuðum eftir þessa 15 tíma rútuferð, vorum við barasta komin til Lima, án nokkurra vandræða (daginn eftir hins vegar verkfall og líklega næstu þrjá daga í viðbót, svo við rétt sluppum)!! Mikið vorum við fegin að vera komin frá Arequipa, enda vikurnar orðnar 6, sem við höfum verið þar, mjög fallegur bær, mjög fallegt allt í kring, vinalegt fólk (fyrir utan sjónvarpsþjófinn) en heldur betur kominn tími til að halda áfram ferðinni. Maður setur sig í stellingar fyrir ákveðinn tíma á hverjum stað og ef sá tími styttist eða lengist án þess að maður sjálfur hafi nokkuð um það að segja, þá er það bara challenge að sætta sig við það. Æfing í sveigjanleika. Það var dálítið skondið, að um kvöldið var boðið upp á ókeypis bingó í rútunni (þeir eru spes Perúbúar!). Við tókum auðvitað þátt, voða spennt, vantar ekki keppnisskapið í okkur, bingó eða fótbolti, skiptir ekki máli. Þegar leið á spilið magnaðist nú spennan hjá okkur, því ég var alveg að fá bingó. Og ég vann!!! Ég sendi Viktor upp á efri hæðina til a sækja vinninginn, en hann kom tilbaka, og skildi ekkert hvað skvísan var að segja. Svo ég fór sjálf, að heimta vinninginn, alveg hreint gríðarlega spennt að sjá hvað ég vann. Ég var hins vegar ekki lengi að afþakka vinninginn þegar ég sá hver hann var. Ferð tilbaka til Arequipa!!

Markaður


Guttarnir mínir gerðu það nú fyrir mig einn daginn í síðustu viku að fara með mér á markaðinn í Arequipa. Þar úir og grúir af öllu, ótrúlegt úrval af öllu milli himins og jarðar til sölu, á spottprís, að sjálfsögðu. Fer stundum minna fyrir gæðunum, en hva.... Voða gaman að vera þarna. Allavega í soldinn tíma, svo fær maður overdose.

Ekki slæmt


Þegar okkur var ljóst að við kæmumst ekki til Cusco vegna vegatálma og verkfalla, þá var ekkert annað í stöðunni en að hanga nokkra daga í viðbót í Arequipa. Garðurinn var mjög sólríkur og ég ákvað því í fýlunni yfir því að þurfa að bíða svona, að taka bara sólbaðið af krafti!! Agatha Christie og hvítvín voru svo bara til að gera sólbaðið skemmtilegra!! Svo var líka gaman að fylgjast með Apríkósu í baði..

Apríkósa í baði


Hundurinn sem húseigendur eiga (sem er hvítur í 5 mín eftir þvott og svo strax orðin grá og moldug) er hér í þvotti í garðinum. Þarna er yngsta dóttirin að sinna skylduverkinu sínu, þá þurfti hún að tölta niður í garð með ca 20 lítra af vatni í flöskum og hundasjampó og svo var bara baðtími, þar sem þessi annars óhlýðni og hressi hundur stóð grafkyrr og lét þvo sér hátt og lágt. Þessa stelpu höfum við grunaða um að þykjast ekki skilja okkur, hún er oft að passa "gistihúsið" og þegar okkur vantar eitthvað, undirbúum við okkur með orðabókinni, berum orðin vandlega fram, tölum hægt og skýrt, en allt kemur fyrir ekki, hún þykist ekkert skilja, hlustar samt í nokkrar mínútur og segir svo: "no! .... ehe.." og sækir aðra systur. Hún er samt voða greindarleg stúlka... nema þegar við tölum.. þá virkar hún barasta greindarskert. En kannski erum það bara við sem erum smá skert... eða spænskan okkar í það minnsta..

Svona var maður nú lúpulegur í þvottinum..


..en svo þegar henni var sleppt og hún fékk að hrista sig, þá elti hún okkur uppi og gerði í því að reyna að gera alla jafn blauta og hún var sjálf. Ferlega skemmtilegur hundur hann Apríkósa frá Arequipa!!

Wednesday, July 1, 2009

Spennandi matur og fleira..



Við fórum út að borða síðasta laugardag, á alveg frábæran veitingastað hér nálægt. Yfirleitt höfum við nú eldað sjálf hér í Arequipa, en fyrst við vorum á þjóðlegum og góðum stað, þá ákvað Gaui að prófa enn einu sinni að panta naggrís og í þetta sinn var hann heppinn. Hann fékk hann í heilu lagi, haus, klær og alles, eins og hann hafði lesið um í bókunum. Jummíjummí!! Eða jukkíjukkí... þarna er kvikindið og bragðið: "tasted like chicken". Sumir halda að þetta sé þjóðarrétturinn, en það er ekki svo, þetta er bara algengur réttur hjá fátækari hluta þjóðarinnar, því þetta er ódýrt kjöt og auðvelt í framleiðslu. Við hin fengum okkur alpacasteikur og súpu, æðislega gott.

Það er ansi mikill órói hér í Perú núna sem við verðum svo sem ekki mikið vör við nema af því við erum að fara að ferðast, mikið um verkföll og vegatálma. Við höfum farið fram og tilbaka í ákvörðunum um hvort við getum farið til Cusco (og þaðan til Machu Picchu) eða ekki. Maður fær alls staðar mismunandi svör og fáránlega erfitt að komast að einhverju traustu í þessum málum. Það veit bara enginn neitt. Svo nú er allavega planið að fara til Cusco á morgun (miðvikudag) og treysta á að við komumst alla leið án tafa eða vegatálma. Mótmælin og verkföllin eru friðsæl, svo það eru engar áhyggjur þar. Bara frekar erfitt ef rútuferðin, sem á að taka 11 tíma, lengist mikið, þá er þetta ekkert voða gaman. En við sjáum til. Látum vita og sendið góða strauma!

Santa Catalina klaustrið


Ég fór um daginn að skoða þetta 500 ára klaustur sem er eitt það frægasta í Perú. Allir talað um að þetta sé "must see" og ég ákvað að skella mér. Ég þekki hins vegar mitt fólk og var ekkert að ýta á guttana eða Gauja að koma með, bæði erum við búin að skoða ansi margar byggingar í ferðinni og svo hefur nú bara ýmislegt í kaþólsku trúnni vakið spurningar hjá okkur. Við fáum mjög oft þá tilfinningu þegar við förum í stóru skrautlegu kirkjurnar þeirra að trúin hjá þeim snúist um svo mikla þjáningu og það vanti alla gleði. Boðskapurinn sé eiginlega að maður eigi að hafa samviskubit yfir að lifa lífinu. Í kirkjunum eru myndir og ikonar af Jesú, öllum blóðugum, þjáningarsvipur á honum, alls staðar svik, lygi og neikvæðar upplifanir á öllum málverkum. Mjög sjaldan eitthvað frá góðu stundunum í lífi Jesú. Og ég veit að hann átti margar góðar stundir. Mín skoðun er sú að maður eigi að geta leitað huggunar í trúnni, fundið gleði, traust, góðmennsku, hjálpsemi og mér finnst í raun alltaf besta reglan; að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Einfalt í raun og þarf ekki allan þennan skrautlega ramma utan um slíka lífsreglu. En kaþólska trúin er jú stór hluti menningar í Suður-Ameríku, svo við skoðum oft kirkjurnar. Þar sem hugmyndin um að ganga og skoða stórt klaustur, skála nunnanna, eldhúsið þeirra og fleira í þeim dúr (þetta er eiginelga lítið þorp sem nunnurnarnar bjuggu í, þorp í borginni innan þykkra veggja) var ekki alveg að vekja áhuga, og þar sem það var rándýrt að koma þar inn, þá fór ég bara ein í þetta sinn. Sem betur fer, þeim hefði hundleiðst... Fallegar byggingar samt! Mjög fallegar.