Tuesday, June 30, 2009

Santa Catalina klaustrið

Í þessar skálar söfnuðu nunnurnar vatni upp úr uppsprettum þarna í kring, enda dagarnir yfirleitt heitir, sólríkir og það rignir eiginlega aldrei hérna. En þær höfðu mikinn gróður í kringum sig, ofsalega mikið af blómum og fallegum trjám og þau þurfa jú vatn, eins og nunnurnar svo sem...
Klaustrið var fallegt og arkitektúrinn svakalega fallegur. Það var "gaman" að koma þarna, en ég verð að viðurkenna að ég á voðalega erfitt með að skilja hvað er á bak við þessa löngun til að loka sig frá þjóðfélaginu, eiga ekki samskipti við það nema í gengum tvöfalda hlera og telja sig svo vera að gera heiminum gríðarlegt gagn, með því að vera að biðja fyrir honum frá kl. 5 á morgnanna. Nú má ekki misskilja mig, ég trúi á mátt bænarinnar og finnst mjög gott að vita að fólk er að biðja fyrir okkur öllum, en ég gat ekki annað en pælt í því, hvort þær hefðu ekki getað gert meira gagn utan veggja klaustursins, allavega með því að fara daglega út og gera eitthvað áþreifanlegt til að hjálpa fólki. Fátæktin var og er gríðarleg í Perú, og alltaf verk að vinna alls staðar. Af hverju ekki að fara út í nokkra klukkutíma á dag og taka til hendinni? Það voru bara fáar útvaldar sem fengu að gera það. Svo voru ógurlegar hetjusögur um abbadísir fortíðarinnar, sem létu hengja sig upp á kross, föstuðu dögum saman og völdu að láta líkamann þola alls konar þjáningar til að sýna styrk trúar sinnar. Ég er á móti öfgum, svo einfalt er það. Og þetta eru öfgar. Svo mér leið ekkert voða vel eftir að hafa verið þarna og gat engan vegin skilið fólk sem gekk um gangana í klaustrinu og tók upp á video hvert einasta skref! Hvenær vill maður skella þessu í tækið og horfa aftur á 3ja tíma ferð um klaustuveggi? I don´t know, en það er nú svo margt sem ég ekki skil... og sérstaklega ekki ýmis atriði í kaþólskri trú..

Pakkinn frá mömmu


Það var nú ekkert smávegis mál að fá þennan pakka á leiðarenda. Eftir að fá skilaboð frá mömmu um að pakkinn hefði komið til Lima 12 júní og setið tíu daga í tollinum (tollfrjáls pakki),

þá fengum við stelpurnar á efri hæðinni til að hringja fyrir okkur í póstinn til að athuga hvernig á þessu stæði. þar fengum við að vita að við ættum bara að koma niðureftir, pakkinn væri hjá þeim og við auðvitað að springa af spenningi, enda vona á appolló-lakkrís OG andrés-blöðum í pakkanum!! Svo mætum við á staðinn, en hvergi fannst pakkinn, svo okkur var sagt að koma bara kl. 7 um kvöldið, þá kæmi póstburðafólkið í hús, og eitthvert þeirra væri örugglega með pakkann. Svo við fórum aftur heim, soldið svekkt, en héldum samt gleðinni, enda allt í lagi að bíða nokkra klukkutíma í viðbót. Svo leið dagurinn, og við mættum á slaginu 7 að sækja pakkann, en ekki fannst hann heldur í þetta sinn. Þá sagði manngreyið sem var voða hjálpsamur, að líklega væri pakkinn í næstu deild, sem var 20cm frá þessari deild, en lokuð. Við áttum að mæta kl. 8.30 í fyrramálið og þá yrði leitað að pakkanum fyrir okkur. Þá voru nú sumir gráti næst af vonbrigðum, ótrúlegt hvað svona sending að heiman hefur að segja fyrir mann, þegar margir mánuðir eru síðan maður var á heimaslóðum. En Gaui hélt góða skapinu, bauð sig fram í að fara snemma um morguninn að sækja pakkann og Arnór með, svo kl. 8.15 rölta þeir kátir af stað. Við hin sofum bara lengur, vöknum svo um 9-leytið, borðum morgunmat, vöskum upp, þvoum föt (ég segi þetta í fleirtölu, en í raun er þetta nú bara ég sem sé um þetta, guttarnir voru í tölvunni minnir mig... þeir sjá þó um uppvask eftir kvöldmat, alla daga) og þegar klukkan var orðin 11, var mér nú hætt að standa á sama. Þegar ég var á leiðinni að fara út á pósthús að athuga hvort ég fyndi þá, þá mættu þeir loksins!! Og tilkynntu þegar ég spurði hvernig þetta hefði getað tekið svona langan tíma "við lentum í röð!! Þriggja manna röð!!". Þeir voru um klukktíma að afgreiða eina manneskju, pælið í því! Skriffinskan er þvílík að fólk getur þurft að eyða heilum degi á pósthúsinu þegar það sækir pakka. Þeir eru voðalega hrifnir af pappírum hérna í Perú.

Förum á morgun frá Avenida Emmel


Þarna erum við að njóta ísbúðarinnar í göngugötu Arequipa, hrikalega góður ís og svo selja þeir líka bjór fyrir þá sem vilja frekar svala þorstanum í sólinni, híhí. En nú heldur ferðalagið áfram, við förum frá Arequipa annað kvöld. Við erum búin að vera hér í 5 vikur, höfum farið í stuttar ferðir frá borginni, Colca Canyon, Misti og fleira, en það sem stendur líklega uppúr hjá okkur er samveran í íbúðinni sem við höfum haft á leigu. Þar er stórt eldhús, sem við höfum eytt mörgum stundum, hlæjandi og vinnandi og svo garðurinn sem er lítill, en alveg frábær. Þegar ég vakna á morgnanna er oft það fyrsta sem ég geri að draga gardínuna frá glugganum og svo leggjast aftur í rúmið, því garðurinn iðar af fuglalífi. Þeir koma af öllum stærðum og gerðum, rótandi í laufunum, rekandi aðra fugla í burtu, étandi maurana og annað smálegt sem þeir finna, og það er ferlega næs að vakna við svona líf. Sólin er mætt í garðinn um 9-leytið, er strax hlý og góð og er svo alveg til um 3-leytið. Ýmislegt brasað í þessum litla garði!

Við höfum æft mikið..


..og allar æfingar fara fram í garðinum.

Höfum öll bætt okkur í því sem við vildum bæta okkur í. Arnór er t.d. farinn að geta staðið sjálfur á höndum og getur staðið í 40sek! Hann kemst sjálfur upp og finnst það frekar gaman, enda búinn að æfa það mikið. Næstum jafnmikið og upphífingarnar, sem eru orðnar 20!!!

..stundum soldið kalt..


..inni í eldhúsi, en þá förum við bara út í garð með matinn okkar og sólin vermir okkur á skotstundu og ekki var lengur þörf á ponsjó!

Já..


..við höfum haft það rosa gott í garðinum í Arequipa!

Thursday, June 25, 2009

Colca Canyon ferðin


Við vorum auðvitað ansi spennt að leggja í hann til Colca Canyon eftir reynsluna af guidunum í "fundum ekki fossinn og lindin lokuð"-ferðinni, en guidinn í þessari ferð var flottur! Fyndið að fara í svona skipulagða túristaferð öðru hvoru þegar maður er orðinn vanur að stýra sér svona alveg sjálfur. Stoppað á fullt af stöðum og öllum í rútunni skipað út að taka myndir, allir hlýða, og tölta svo upp í rútu aftur og setjast í sömu sæti, alla ferðina. Við stoppuðum t.d. á þessum markaði og keyptum hlýja alpaca peysu af mömmu þessa litla barns, sem var auðvitað með mömmu í vinnunni, lengst uppi á heiði. Eitthvað var litli guttinn óánægður, vældi og kvartaði, en það þýddi lítið, mamma þarf að vinna. Reglulega komu rútur fullar af túristum, þá var guttinn lagður niður og fékk litla athygli fyrr en rútan fór og túristarnir með.

Þjóðarréttur "utan-höfuðborgar-fólksins"


Gaui var auðvitað sjálfum sér samkvæmur

og pantaði sér ævintýralegan mat. Hann hafði heyrt um "guinea pig", nokkurs konar naggrís (eins og við höfum sem gæludýr heima...) sem er aðalfæða sveitafólksins. Ekki endilega vegna þess að það er svo gott á bragðið, heldur er þetta svo ódýrt kjöt og auðvelt í ræktun, eignast alltaf fullt af ungum og það oft á ári. Hann var samt soldið svekktur með þetta, því jú, það bragðaðist svo sem ágætlega, en hann hafði heyrt að sums staðar væri það borið fram í heilu lagi, haus, klær og alles, og hann hafði hlakkað svo til þess! Stundum veit ég ekki frá hvaða plánetu hann er....

Clive englendingur


Þarna er Clive, alger sprelligosi og ferlega skemmtilegur náungi sem var með okkur í ferðinni. Hann er á ferðalagi um Suður-Ameríku með frænda sínum sem er 18 ára, þeir ferðast um eins ódýrt og þeir geta, borða eins ódýrt og þeir geta (og eru því að borða á stöðum sem við viljum helst ekki borða á, ekki "bara" sóðalegt, heldur líka suddalega mikill suddamatur...) og þannig láta þeir peninginn endast lengur. Þeir hafa verið á ferðinni síðan í maí og fara heim til Englands í ágúst. Þeir voru ofsalega skemmtilegir ferðafélagar og Clive var alger barnakarl, alltaf að spjalla við Orra (þeir sátu saman í rútunni), kitla hann, leyfa honum að taka myndir á biluðu myndavélina sína og kalla hann "you cheaky monkey!!". Þarf ekki að taka það fram að Orri dýrkar hann, eins og Arnór og Viktor, því hann var stanslaust fyndinn og kátur, bauð Orra upp í dans á þessu skemmtikvöldi og þeir áttu sviðið, enda Orri ansi lítið feiminn við athygli.

Rifin upp í þjóðdans


Sjáið þetta! Það er eins og ég sé að dansa við barn!! Karlmenn í Perú munu seint teljast hávaxnir, því jú, hann er fullvaxta þessi. Og ekki bætir það útlitið á "dansparinu" að ég er í fjórum peysum, því það var soddan skítakuldi á veitingastaðnum þarna, þeir hita aldrei upp húsin sín!! Þrátt fyrir fullt af heitu vatni í jörðinni og íííííísakulda á kvöldin, nóttunni og morgnanna. Nei, nei, þau klæða sig bara meira.
Ég heyrði strákana okkar vera að spjalla saman þarna um kvöldið, þeir voru að rifja upp með nostalgískum tón "munið þið heima... þá gat maður bara farið úr rúminu á nærbuxunum og var EKKERT kalt!!".

Vaknað snemma


Við þurftum að vakna kl. 5.20 til að við myndum ná að sjá condor-fuglana. Þeir eru helst á flugi milli 7-9 á morgnanna og þar sem Chivay er í tveggja tíma fjarlægð frá Colca canyon, þá var það bara harkan sex. Guttarnir tóku því auðvitað vel, enda íslensk hörkutól, en mikið svakalega var kalt!! Og það er sko ekkert verið að splæsa í upphitun á hostelinu, svo hitastigið í herberginu í herberginu þarna á myndinni var um 5°. Huggulegt að vakna í svona.... hehe. Það gerði það reyndar aðeins auðveldara að fara á fætur, að við sváfum eiginlega í öllum fötunum. Svo fórum við í "morgunmat", þar sem boðið var upp á hvítt loftbrauð (eins og á flestum hostelum), marmelaði og te. Guttunum var svo kalt að þeir létu sig hafa það að drekka te, ég skellti smá sykri út í það og þetta var hinn besti drykkur. Sykur líka góður í háa loftinu, og Chivay í ca 3500m hæð (held ég, allavega eitthvað milli 3-4000m).

Allt í pöllum


Það var voða skrítið að keyra um á þessu svæði, því þrátt fyrir þessa hörðu náttúru, þá er alls staðar á mögulegum og ómögulegum svæðum búið að skipta svæðinu í hluta og búið að búa til "tröppur" í brekkurnar, til að nýta svæðið til ræktunar. Þessir pallar eða tröppur eru hins vegar ekki hugmynd nútímans, heldur eru þeir alveg síðan fyrir Inka-tímabilið, sem sagt frá um 1200. Svakalega fallegt að horfa yfir þetta og með ólíkindum hvað þeir hafa farið hátt upp í fjallshlíðarnar til að gera þessa palla. Alger snilld líka hvernig þeir svo nýttu vatnið til að vökva gróðurinn, það voru byggðar rennur meðfram pöllunum og vatnið rann frá efsta palli, gegnum jarðveginn og niður í næsta pall, þannig að sem minnst fór til spillis. Alger snilld og ofboðslega spes að horfa yfir þetta villta, stórbrotna en skipulagða svæði.

Fátækleg híbýlí


Eitt þorpið sem við stoppuðum í, mjög týpískt þorp á þessu svæði, lítil hús, fallegar hellulagðar götur, en svo í öllum litlum hliðarsundum allt út í ruslapokum, dýr í görðum (svín, kindur, lamadýr, ansar, hænur og beljur). Ef þið rýnið í myndina sjáið þið lögin í jarðveginum sem ég talaði um áðan, fyrir ofan þorpið. Þessir "pallar" í brekkunum voru ALLS STAÐAR.

Í gilinu


Það var stórfurðulegt að sjá þessi þrjú hús þarna leeeengst niðri í gilinu. Engin leið að komast að þeim nema að ganga eftir stíg sem lá í brattri fjallshlíðinni. Við vorum mikið að spá hvort þetta væri bóndabær, en finnst þó líklegra að þetta sé göngumanna-skáli, enda gönguferðir vinsælar í gilinu og þá gist 2-3 nætur.

Colca Canyon


Þarna sést soldið yfir gilið, það er gríðarlega djúpt og mikilfenglegt. Háir fjallgarðar allt í kring. Ekki gaman að detta þarna niður, en sumir túristarnir voru soldið í að klifra ansi nálægt brúninni til að reyna að ná góðum myndum af condorunum. Þeir búa þarna í gilinu, við sáum allt að 15 stykki, enda er þeim gefið vikulega. Einu sinni í viku er stórt dautt dýr sett í gilið til þeirra og þar sem þeir eru hræætur, eru þeir voða sáttir við þetta. Það eru þá t.d. dauðir asnar eða naut sem eru fæðan þeirra. Og kannski einn og einn fífldjarfur ferðamaður.... who knows?

Condor


Það var algerlega frábært að fylgjast með þessum stóru fuglum svífa um loftið. Þeir voru heilmargir og komu oft 2-3 metra nálægt okkur þar sem við stóðum á útsýnispalli við gilið.

Fálkinn að sýna vængina


Í einu stoppinu var maður með þennan stóra fálka. Maður mátti prófa að halda á fuglinum og það var ekki hægt að láta slíkt tækifæri fara framhjá sér. Pollrólegur, risastór og glæsilegur fugl, og greinilega vel passað upp á hann. Arnóri fannst rosalega gaman að prófa að halda á honum og fuglinn sat á hendinni hans og hoppaði svo upp á hausinn hans þegar eigandinn skellti þessum fína leðurhatti á Arnór. Svo stóð hann bara þar og horfi í kringum sig, meðan Arnór flissaði.

Viktor með fuglinn


Það var víst ansi erfitt að standa uppréttur með fuglinn á hausnum og ekki gerði það auðveldara að Clive, enski vinur okkar sagði við Viktor að fálkinn væri að skoða eyrað hans ansi vandlega, liti út fyrir að hann ætlaði að narta í það... Auðvitað haugalygi, en þegar dýrið stendur á hausnum á manni, þá fer nú fiðringur um mann við svona tilkynningu.

Orri flottur


Þetta er ekkert smá stór fugl!!

Varningur til sölu


Allstaðar er hægt að kaupa sér skrautlegar vörur, en ansi mikið af því sem er í boði er það sama aftur og aftur og aftur. Samt er alltaf gaman að skoða, og hér er það Arnór sem er að athuga hvort eitthvað gott leynist í básnum. Hann fellur ansi vel inn í umhverfið í ponsjónum sínum, en við erum búin að kaupa okkur nokkra ponsjóa, enda fátt jafn hlýtt og gott á þessum köldu kvöldum og morgnum hér.

Smalar


Alltaf öðru hvoru rekst maður á svona hópa, smali með dýrin sín á leið á eða frá beitilöndum. Oft eru það Lamadýr eða Alpaca, en stundum eru það beljur, kindur eða jafnvel asnar. Lamadýrin er nú flott, með þessar rauðu slaufur á eyrunum.

Á veitingastað..


þar sem við stoppuðum eftir gilið og condorana, voru þessir hrikalega sætu tveggja mánaða Alpaca-ungar. Þeir eru þarna eins og heimalningar, fá pela og eru bara á rölti í portinu fyrir framan veitingastaðinn. Guttarnir voru náttúrulega gríðarlega hrifinir af þeim, prófuðu að gefa þeim lauf og þeir átu aðeins hjá þeim. Sá brúni var ofsalega blíður og rólegur og það mátti klappa og knúsa hann, en sá hvíti var öllu stífari. Hann var meiri mannafæla og virkaði töluvert lítið hrifinn af fólki. Þegar Orri beygði sig yfir hann, hélt höndinni á bakinu hans og hallaði sér fram til að sjá framan í hann, þá tók kvikindið sig til og spýtti góðri slummu framan í Orra. Guttinn fékk náttúrulega vægt sjokk, kom til mín með undirskálaaugu, allur í grænum lauf-slef-slettum og sagði hátt "þetta er EKKI fyndið!!" því allir í kring misstu gersamlega stjórn á sér. Alltaf svo fyndið þegar aðrir lenda í svona. Ég vildi koma þessu slefi sem fyrst af litla stráknum mínum, hélt niðri í mér hlátrinum og sagði, nei, nei, þetta er ekkert fyndið, og í æsingnum reyndi ég að komast inn á karlaklósettið, en var þá tekin föstum tökum af "alpaca-verðinum" sem stýrði mér, þó mjúklega, að kvennaklósettinu, með snöktandi grænflekkóttan Orra á eftir mér. Hann var nú fljótur að jafna sig og getur hlegið að þessu núna.

Eins og módel


Alger krútt, og eftir spýtinguna á Orra, þá hélt fólk sig í þægilegri fjarlægð fyrir þessa Alpaca-unga.

Á hæsta punkti


Hér erum við á hæsta punkti í ferðinni, 4910m og maður fann alveg fyrir því. Ég prófaði að gera nokkrar hnébeygjur og það tekur ekki margar endurtekningar að ná mæðinni upp. Ég stillti Gauja auðvitað við steininn sem á er skrifað "Volcan Misti, 5825m" og ef vel er skoðað þá sést glitta í toppinn á El Misti í beinni línu fyrir ofan hægra eyrað á Gauja. Hann gekk á fjallið í síðustu viku, fór í tveggja daga ferð, ásamt tvítugum frakka, perúmanni, austurískri kærustu hans og svo guidinn. Fyrst var tjaldað í 4600m hæð, nístandi kuldi, farið að sofa kl. 6 og allir vaktir kl. 1 um nóttina til að hefja gönguna á toppinn í myrkrinu. Kuldinn var svakalegur, allir með bankaræningjahúfu og ljós á enninu. Ýmist gengið í möl eða stórgrýti og ferðast áfram í hænufetum, því loftið er svo þunnt að minnstu átök kosta mikla mæði. Frakkinn sem hafði verið manna hressastur daginn áður gafst upp í 5100m hæð, leið illa, en restin af hópnum barðist áfram og komst á toppinn kl. 9.10 um morguninn. Alger stórsigur, og Gaui gríðarlega ánægður með árangurinn, enda þessi ferð á fjallið fallega, eitt það erfiðasta sem hann hefur gert!!

Á einum af hærri punktum leiðarinnar


Hér erum við í ca 4500m hæð og þarna eru uppsprettur sem yfir liggur klaki stóran hluta úr árinu. Svakalega flott og auðvitað skylda að stoppa rútuna og "everybode now take pítjur". við stilltum okkur upp, minnum reynar dulítið á Álafoss-auglýsingu í Alpacapeysunum okkar...

Bakpokaliðinu..


..detta oft skrítnir hlutir í hug. Þessi gaur er frá Englandi, tölti rólegur út úr rútunni með okkur hinum til að taka myndir af ísnum. Og maður má náttúrulega ekki líta af þessu liði, þá er það búið að missa stjórn á sér, hehe, þetta var nú reyndar soldið fyndið... Gauja fannst þetta minna hressilega á nokkra félaga sína, nema þeir hefðu líklega ekki haldið fyrir...

Orri hjá ísnum..


..honum datt ekki í hug að rífa sig úr fötunum.

Condor


Þessi hafði gaman að því að fljúga yfir ferðamannahópinn, kom ansi nálgt okkur stundum, hefur líklega þótt fyndið hvernig öll andlitin á fólkinu breyttust í myndavélar, bara við það að hann blakað þessum tveggja metra vængjum. Líka spurning hvort hann væri að athuga hvort einhver ferðamannanna liti veiklulega út, Condorar eru jú hræ-ætur.
Ég sá fyrir mér góða hugmynd að auglýsingu þarna á svæðinu, þar sem fólk lagði svo mikið á sig til að ná flottri mynd, var klifrandi fram yfir kantinn sem mátti ekki klifra yfir, enda ca 1200m niður í gilið fyrir neðan: auglýsingin væri þannig að ferðamaður væri svo upptekinn við að ná myndum af Condorunum, sem stríddu honum með því að fljúga alltaf lengra og lengra út og ferðamaðurinn færi lengra og lengra út á kantinn, þar til að á endanum myndi hrynja niður. Þá myndi heyrast svona "muhahahaha" í Condurunum, þeir steypa sér að líkinu og berjast aðeins um það (ekki sýnt samt neitt ógeð, börn verða líka að njóta auglýsingarinnar..), en svo væri aftur skot á ferðamannahópinn, sem sér annan Condor nálgast, þau ætla að fara að ná góðum myndum, en þá sjá þau að Condorinn er kominn með myndavél dauða mannsins! Og hann er að taka myndir af heimsku túristunum!! Svo kæmi texti "Kodak 390, svo einföld, að allir geta notað hana!".

Saturday, June 20, 2009

Dagsferðin


Við höfum heyrt að þorpið Jura rétt fyrir utan Arequipa sé svæði sem maður eigi endilega að heimsækja. Aðallega vegna heitra uppspretta sem eru þarna, sem gerð hafa verið böð í kringum og vatnið þykir hafa læknandi mátt, sem er jú ekki verra á þessum síðustu og verstu. Gaui líka soldið lúinn eftir klifrið á EL Misti dagana áður (5825m gott fólk! og meira um þann túr á morgun) og gott að hvíla lúin bein í heitri læknandi lind undir heiðbláum himni. Við ákváðum þess vegna að kaupa okkur einn túr til Jura, með sama fyrirtæki og sá um túrinn hans Gauja á El Misti. Svakalega hentugt að panta túrinn daginn eftir fjallaferðina, og skelltum inní litlum göngutúr upp að fallegum 10m fossi sem átti að vera rétt hjá Jura. Göngutúrinn væri jú léttur, 30-60 mínútur, fer eftir formi, hahahaha en voða fallegur foss. Og lindirnar, úlala. Við hlökkuðum því mikið til þegar við vorum tilbúin í morgun, sundföt, handklæði, hlý föt (því þó sólin sé mjög heit, þá er oft ansi kalt í skugga) og smávegis nesti, vatn og kókoskúlur, hjemmelavet, sin azucer. Við erum sótt, alveg á réttum tíma, förum í þennan fína, soldið gamla "van", engin belti, en við erum eiginlega hætt að kippa okkur upp við það, það er bara ekki vaninn hér. Maður sér ungabörn í fangi mæðra í framsæti og hin 6 börnin ofan á ömmu sinni í aftursætinu í bílum hér, þannig er það bara. En við spennt, fara út úr bænum og Gaui spes spenntur fyrir heitu lindunum, beinin ponkulítið lúin eftir Misti. Svo erum við kysst í bak og fyrir, það er lenskan hér, allir kysstir og klifrum inn í bíl. Bilstjóri og ung stelpa sem er guidinn okkar, voða vinaleg. Svo keyrum við af stað og eftir ca hálftíma er fyrsta stopp. Til að spyrja til vegar! Ok, kannski eitthvað búið að breyta hugsum við, alltaf jákvæð. Þau skoppa aftur uppí bíl, eða skopa og skoppa, unga daman er ca 30kg of þung, en hva.. þetta er bara hálftíma ganga, svo það ætti ekki að vera vandamál. Soldið kvefuð líka, hnerrandi og snýtandi sér reglulega, en ce la vie. Ok, við keyrum áfram, í korter, stoppum þá aftur. Til að spyrja til vegar. Tökum þá eina innfædda í bílinn, sem situr með okkur í 5 mín, bendir bílstjóranum hvert á að fara og yfirgefur okkur svo. Þá kom örlítil löngun í að biðja nú blessaða konuna um að fara ekki, hún var eitthvað svo örugg í þessu, en við kunnum nú ekki við það. Svo keyrum við áfram, stoppum, og spyrjum til vegar, snúum við, keyrum lengi tilbaka og þegar stoppað er, þá loks er komið að því. Gangan upp að fossi að hefjast. Jei!! Voða gaman, löbbum frá Jura, bænum með heitu lindirnar, út í eyðimörkina. Svo bara löbbum við og löbbum, svakalega hrjóstrugt en sjarmerandi umhverfi, mjög ólíkt því sem við sjáum á Íslandi og mikil upplifum. Eitthvað kvartaði nú Orri í byrjun, heitt og þurrt, hann í sandölum og alltaf öðruhvoru kaktus-þyrnar að stinga sér í tærnar á honum. Svo þegar við erum búin að ganga um einn og hálfan tíma, komum við að svæði þar sem bændur eru að rækta, vökva vel og ótrúlega gaman að sjá svona græn svæði eftir allan sandinn, kaktusana og rykið. Eitthvað var nú fossinn lengi að sýna sig og í fyrstu vatnspásunni segir stelpan okkur að þapð séu í raun 3 ár síðan hún var hér síðast og búið að breyta leiðinni. Ok. Svo töltum við áfram, lengi lengi lengi og komum loks að gili. Þar á fossinn að vera! Frábært, soldið lengri göngutúr en við höfðum reiknað með, en spennó að sjá fossinn. Svo klifrum við áfram, gengum trjágöng, vöðum drullu, göngum meðfram steinveggjum, allt voða ævintýri, komin inn í gilið, og þá segir Janet; við komumst ekki lengra! Fossinn sem sagt ennþá langt í burtu, en hei, við erum komin í gilið! Don´t get me wrong, gilið var rosalega fallegt!!! En við vildum sjá fossinn! Við klifruðum aðeins lengra, lékum okkur að vaða í ánni og nutum þess virkilega að vera svona úti í náttúrunni, en það verður að viðurkennast að við vorum soldið svekkt að sjá ekki fossinn. Þessi hálftíma ganga var á þessum punkti orðin tveir og hálfur tími, en við kát samt, þrátt fyrir fossaleysi, enda heitu lindirnar sem biðu okkar! Við töltum tilbaka, hittum aftur tannlausu vingjarnlegu bóndakonuna, sem benti okkur á veg, sem væri miklu auðveldari að ganga. Tæki bara tíu mínútur að komast til Jura. Ok, við töltum hann, lítið eftir af vatni, við búin að gefa "guidinum" soldið vatn, því hún var ekki alveg viðbúin svona langri göngu, greyið. Tíu mínúturnar reyndust vera Suður-Amerískar, því þetta voru um tveir tímar. Í EYÐIMÖRK. Þetta var ævintýri líka, sólin bakaði okkur, við erum öll eins og karfar núna, en reynslunni ríkari. Og þetta var gaman! Bara ólíkt því sem við höfðum pantað. Meira að segja mjög ólíkt. Jæja, ef þú ert enn að lesa, þá er ég mjög þakklát þér fyrir þolinmæðina! Eftir tæplega 5 tíma göngu komum við í Jura, ÞVÍLÍKT tilbúin fyrir heita pottinn, guidinn búin að hringja á bílstjórann úr tíkallasíma, því gemsinn hennar var batteríslaus (ég sem hélt að guide ætti vera svona "semi-skáti" ávallt viðbúinn!). Bílstórinn kom og sótti okkur og þá var stefnan tekin á böðin. Fyrst þurftum við samt að snúa við tvisvar, því hann fann þau ekki. Þegar við loks komum um fjögur, þá var tilkynnt, neeeeeeiiiiiiii, þau loka kl. 3! Vá hvað við vorum svekkt!!!! Og jákvæðnin sem einkennir familíuna á ögurstundum sýndi sig í geðveiku hláturskasti hjá Arnóri og Viktori, Orri fór að gráta og ég og Gaui urðum eins og móðgaðar konur í saumaklúbb, munnurinn varð að striki og við strunsuðum í helv.. "vaninn". Arnór hélt áfram að hlæja alla leiðina heim segjandi "ég hef aldrei, aldrei, aldrei hitt jafnmikla jólasveina!" og við Gaui spjölluðum í hálfum hljóðum um að við vonuðum bara að túrinn til Colca Canyon verði ekki eins "Ja, ja, we just can´t find the Canyon.. it´s supposed to be really big...." og þá bætti Orri við með ekka "við bara pössum að ÞAU TVÖ verði ekki með okkur!!". Sjáum til.

Ræktuð svæði..


..in the middle of nowhere.

Vatn þýðir gróður!


Hér og þar í þessu þurra landi þar sem ryk rauk upp í kringum okkur í hverju skrefi, þá komu svona svæði þar sem allt var grænt og fallegt. Þetta var í kringum litlar lækjarsprænur sem skoppuðu rólega niður hlíðina, svo pínulitlar en samt svona voldugar að geta hjálpað öllum þessum gróðri að vaxa. Ótrúlega fyndið að vera að labba í ryki og sandi, og vera svo allt í einu kominn í gróður og moldardrullu, allt á sömu mínútunni. Þarna er klukkutímagangan orðin ca tveir og hálfur tími og við farin að spara vatnið... you never know.

Ýmislegt fallegt í eyðimörkinni þurru..

..eins og þessi litli kaktus sem ákvað að blómstra, þó allir hinir kaktusarnir segja að þetta sé ekki rétti tíminn. Alltaf er einhver sem brýtur reglurnar og gerir eitthvað allt öðruvísi en hinir, og það er það sem gerir lífið svo skemmtilegt!

Þarna er þetta fína hús


Við vorum á gangi þarna í eyðimörkinni og rekumst bara á þetta hús, alveg upp úr þurru. Við heilsuðum fólkinu "Buenos dias!!" eins og heimsmennirnir sem við erum, bóndakonan tannlausa en vinalega benti eitthvað til vinstri um leið og hún kallaði "senora!!" en við eltum guidinn okkar, sem var að bögglast eitthvað með gult plastband sem var búið að strengja yfir veginn. Þegar köllin fóru að hækka í vinalegu, tannlausu, bóndakonunni þá fórum við hlusta á hana og þetta reyndist sem sagt vera leiðin að gilinu sem hún var að benda á. Furðulegt með svona leiðsögumenn og völdin sem þeir hafa, maður mætir á staðinn, er sagt "this will be your guide!" og þar með er hlutverkum úthlutað! Þó svo það komi upp aftur og aftur og aftur og aftur atriði sem sýna að guidinn þekkir ekki svæðið frekar en þú, þá trúir maður alltaf á hann, aþþí þöj ððrögðu "this is your guide!!".

Þa´þurrtadna!!


Margt fallegt


Hér er Orri kominn með bolinn á hausinn, því pabbi las í bók að það er algert aðalatriði í "survival" að skýla höfðinu í hita. Það er reyndar líka aðalatriði í "survival" að ferðast bara á nóttunni í eyðimörkinni, aldrei opna munninn, því þá gufar vökvinn frekar upp og éta hverja einustu pöddu sem verður á vegi þínum því hún getur haldið í þér lífinu!! Við fylgdum ekki alveg öllum reglunum, enda bara hálfur dagur og við með vatn og kókoskúlur í nesti!

Hvílum lúin bein..


..eftir þessa rúmlega 4ra tíma göngu í eyðimörkinni, en vorum spennt þar sem við vorum á leiðina í heitu fínu lindirnar. Töldum við. Þær reyndust jú lokaðar, klukkan fjögur á laugardegi.

Inni í gilinu...

...en það var sem sagt það næsta sem við komumst að fossinum sem við höfðum upplýsingar um að væri 10m hár og svakalega flottur.. Fín ferð allt í allt, en dulítið mikið öðruvísi en við borguðum fyrir, hehe.

Tuesday, June 16, 2009

Ein af uppáhaldsmyndunum mínum


Tókum þessa í Bólivíu á leiðinni til Uyuni. Hristumst í rútu í 5 klukkutíma með innfæddum, sem tuggðu kókalauf í gríð og erg og reyndu að hafa stjórn á fallegu börnunum sínum og jafnvel húsdýrunum sem voru í fanginu. Rútan bilaði tvisvar á leiðinni og þá notuð allir tækifærið til að fara út að pissa og svo kasta kommentum á bílstjórann sem skreið undir rútuna til að redda málunum.

Þessi á myndinni varð forvitinn um ipodinn hans Viktors og fékk að hlusta á Metallica. Var rosa hrifinn!

Sunday, June 14, 2009

Torgið í Arequipa að kvöldlagi


Það dimmir hérna milli hálfsex og sex á kvöldin og þá er torgið lýst upp. Það er ofsalega mikið líf í kringum torgið, fólk notar það til að hittast, spjalla, sýna sig og sjá aðra. Þarna vinstra megin er hliðið að kirkunni, þar sem fólk hefur safnast saman og hengt upp miða og spjöld til að sýna samstöðu með frumbyggjunum í skóginum sem eru að mótmæla yfirgangi stjórnvaldanna. Oft sér maður fullt af fólki koma út úr kirkjunni eftir messu. Virðist alltaf vel mætt, jafnvel þó það sé ekki jarðaför eða ferming....

Fyrsta bréfið komið!!


Arnór dansaði af gleði þegar hann fékk bréfið frá Alla

vini sínum síðasta föstudag!!!

Strípur


Við Viktor ákváðum um daginn að prófa að setja í okkur strípur. Ég hef prófað nokkrar stofur hér og þar í Suður-Ameríku en aldrei verið ánægð með útkomuna (engar stofur jafn góðar og Pílus í Mosó!), svo nú ákváðum við bara að gera þetta sjálf. Við fundum strípu-pakka í súpermarkaðinum á sex-hundruð kall, eitthvað voða fínt Latino-merki "si, si, si, myu bien!!" sagði litla konan í búðinni. Ég hef aldrei gert þetta áður, svo ég þurfti að draga djúpt andann þegar ég sá að leiðbeiningarnar allar voru á spænsku og herbresku. Settist út í garð, með orðabókina að vopni og reyndi að feta mig gegnum þetta svakalega skjal. Eftir 30 mín var ég orðin nægilega leið á þessu, til að verða kærulaus, kallaði á fórnarlambið og vatt mér bara í verkið. Viktor er hugrakkur drengur og treystir mömmu sinni vel, svo hann var ekki að hika við þetta. Og útkoman var bara flott! Þegar ég var búin að setja í hann, þá setti ég í sjálfa mig. Það er ótrúlega frelsandi þegar maður er að gera eitthvað svona, að hugsa bara um það, að ég þekki ekki neinn hérna! Þannig að ef þetta mistekst, þá lendi ég ekki í því að hitta fólk sem vissi hvernig ég var áður, úti á götu. Því ég hitti aldrei neinn sem ég þekki úti á götu. Hef ekki gert það síðustu 10 mánuði!
Svo þegar ég var að segja Höbbu frá strípunum, þá spurði hún "hvernig er þær á litinn??", nokkuð sem mér hefði aldrei dottið í hug, að fá sér einhvern lit!! Strípur í mínum huga eru bara "high-lights" eins og mamma segir. Þar kom í ljós hvor okkar er meiri ævintýramanneskja þegar kemur að hárinu, hehe.

Strípurnar hjá Viktori


Er þetta ekki bara helv.. fínt?? Við erum allavega perustolt af því að hafa fattað þetta!

Hér sést aðeins í strípurnar mínar..


...þar sem ég var snúin niður í óþægilegasta sófa í heimi til fallegasta og skemmtilegasta manns í heimi!

Byggingar við torgið


Á kaffihúsi við torgið


Þarna erum við að fagna 3ja vikna Spartan-kúrnum og að við vorum svona dugleg. Við Gaui með bjór og strákarnir með súkkulaði mjólkurhristing (maður segir jú ekki "milk-shake" Dídí mín!). Torgið fyrir aftan okkur þykir það fallegasta í Perú, bæði mikið af trjám á því og svo er það með hverja gullfallegu bygginguna allt í kringum sig. Sjáið t.d. eina þeirra á ,myndinni fyrir ofan. Þegar ég tók myndina var jarðskjálfti nýbúinn að ríða yfir, held hann hafi verið 4.9 á Richter, við fundum vel fyrir honum, en það er svo fyndið, maður er svo seinn að fatta. Við héldum bara að einstaklega þungur vörubíll væri að keyra framhjá, svo við héldum bara aðeins betur í bjórinn. Allavega þar til starfsfólk kaffihússins kom hlaupandi út á veröndina...

Hann Apríkósa


Hér er hann Apríkósa, góður vinur okkar. Hann býr á næstu hæð fyrir ofan og kemur oft í heimsókn til okkar. Hann er einhvers konar púðluhundategund, en soldið stærri en púðluhundarnir heima sem ég hef séð. Hann er ótrúlega skapgóður, geltir aldrei, en á það til að væla við hurðina okkar þegar við erum sein að opna fyrir honum. Hann er ferlega skemmtilegur og veit ekkert skemmtilegra en þegar við förum að djöflast úti í garði. Ef við erum að stökkva í armbeygjur eða eitthvað slíkt, þá tekur hann undir sig stökk og þeysist um garðinn eins og snarvitlaus maður/hundur og kemur svo tilbaka til að tjékka á hvort maður ætli að taka aðra armbeygju, því þá tekur hann sko annan sprett!!

Svona fær maður bita!


Hann Apríkósa er snillingur í að ganga á afturfótunum, þegar hann sér möguleika á smá snarli. Hér er hann í bláa og rauða settinu sínu, svo á hann líka græna prjónapeysu. Hann er alltaf klæddur í hundaföt (það virðist mikil tíska hér í Perú), nema þegar hann fær þvott úti í garði, þá verður hann skjannahvítur og ógurlega montinn, kemur hlaupandi inn í eldhúsið til okkar og hristir sig rækilega!

Eldhúsið


Hér erum við ansi mikinn part úr deginum, ýmist við skólavinnu, tölvuvinnu, að elda, borða, spjalla og teikna. Þetta er stórt eldhús, með stóru borði í miðjunni sem eiginlega fyllir upp í allt eldhúsið. Þaðan sem ég tek myndina er garðhurðin (ég sný sem sagt baki í garðhurðina), en við höfum aðgang að litlum garði þar sem við getum setið í sólinni, æft og svo er tvöfaldur vaskur þar sem ég þvæ fötin okkar. Gaui snýr baki í hurðina sem leiðir mann út í gang/stofu og hefur aðra höndina á stóra, trausta og gamla ísskápnum sem við erum með. Nú ætlar Orri að skella sér í appelsínugula ponsjóinn sem ég keypti á markaði hér og prúttaði niður í ekki neitt, og sýna okkur íbúðina.

Í herbergi Arnórs


Hér er Orri inni í herberginu sem Arnór og Viktor skiptast á að hafa. Við erum hér í 38 daga, og þeir vilja báðir hafa einkaherbergi. Þeir ákváðu því að skiptast á, hvor hefði herbergið í tíu daga fyrst, og svo níu daga í annarri umferð. Þegar myndin er tekin er Kiss-aðdáandinn Arnór sem sagt herbergis-eigandinn.

Sést inn í eldhúsið


Hér er Orri fyrir framan eldhúsið, stendur á ganginum og þá eru dyrnar í herbergin á hans vinstri hönd (eða eiginlega snýr hann bringunni að herbergjunum. Ég stend í stofunni og tek myndina.

Blog Archive