Friday, February 27, 2009

Eina málverkið í íbúðinni!!


Þetta afskaplega "fína" málverk er í íbúðinni okkar. Ég tók mynd af því og hef skírt myndina "Hugsað út fyrir rammann!". Styrkleiki að geta það! :)

Buenos Aires


Þá erum við strax búin að vera hér í BA í viku (á morgun) og erum farin að rata um hverfið, voða dugleg. Loftslagið hér er rosalega þægilegt, finnst mér, ca. 25-30°c hiti og þægilega svöl gola. Gauja finnst þetta nú aðeins í kaldara lagi, er algert hitadýr. Við erum komin með fínt vikuplan hérna í æfingum og spænskukennslu heimatilbúinni (því við erum með hjóðbókarnámskeið með okkur) og dagarnir líða hratt. Gaui er með einhverja flensu, hiti og hálsbólga og þegar hann er lasinn þá á hann alveg hreint gríðarlega bágt. Hann var afspyrnu slappur í gær, en er betri í dag og aðeins léttari í skapi eftir því :) Hann setti mér fyrir verkefni í fyrradag (áður en hann veiktist), að skipuleggja hvert við skyldum halda eftir 21. mars þegar BA-dvölin er búin. Ég fór í málið í gær, settist með Suður-Ameríku bókina að vopni og tölvuna, þegar aðrir fóru í spænskukennsluna (sjáið þetta á myndinni). Ég fann hina og þessa staði, Gaui vildi lítið sem ekkert blanda sér, en hlustaði á hugmyndir og leist ágætlega á. Eftir því sem á daginn leið hækkaði hitinn hjá honum, og þá fór hann að leggjast yfir einkabankann. Hmmm, flensa og bókhald fara nú ekki vel saman... Ég var síðan komin með planið, við förum með rútu niður eftir Argentínu, tökum flugvél frá El Calafete, sem er lítill bær, fljúgum til Ushuaia og verðum þar í tvo daga. Það sem er sérstakt við Ushuaia er að það er syðsta byggða ból jarðar!!! Við þurfum þá loksins að nota þessi hlýju föt og hettupeysur sem við höfum dröslað með okkur yfir hálfan heiminn. Gaui samþykkti flugmiðana, leist á hugmyndina um að fara alla leið suður, en þegar ég hélt áfram, vildi náttúrulega sýna lit og standa undir ábyrgðinni "skipuleggjari", þá leit hann upp úr tölvunni, með klósettpappírinn í nefinu og stundi rámri röddu: "þú bara finnur leiðir til að eyða og eyða peningum... hrmmff". Ekki alveg í ferðagírnum kallinn, en þetta var nú flensan að tala. Í dag líður honum mun betur og bólar ekki á skapvonsku, hehe.
En þetta er náttúrulega það sem við erum alltaf að vinna með, þessi blessaða króna og hvernig ferðasjóðurinn, sem hefur minnkað leiðinlega mikið, með gengisfallinu, getur dugað okkur fram á sumar. Stærsta ákvörðun í þessu "látum peninginn duga-ferli" er að við höfum ákveðið að einblína á Suður-Ameríku og Mið-Ameríku. Það kostar óheyrilega mikið fyrir okkur fimm að fljúgja t.d. héðan og til Nýja-Sjálands eða Ástralíu, og það sama er að segja, um að fljúga til Afríku eða Asíu. Það er ofboðslega margt spennandi að sjá og skoða hér "nálægt", Argentína, Chile, Perú, Ekvador, Mexicó, Costa Rica og áfram má telja. Við erum ánægð með þessa ákvörðun og sérstaklega vegna þess að það var einróma samþykkt að búa til "Álfu-ferða-áætlun". Við stefnum sem sagt á það að taka heimsálfurnar, eina í einu, á næstu árum. Byrjum að safna um leið og við komum heim, og eftir 2-3 ár verður næsta heimsálfa skoðuð. Ferðalögin verða nú ekki alltaf jafnlöng og þetta, kannski notum við sumarið í þetta og hver veit nema við fáum ömmur eða afa með í slíka ferð :) Orri var reyndar soldið lengi að samþykkja álfuferð, við skildum ekkert af hverju hann var svona tregur í taumi, þar til hann með tár í augum gat stunið upp: "mig langar bara EKKERT til að hitta álfa!!!!".

Dýragarðsferð


Fórum í dýragarðinn í fyrradag. Hann er nokkuð stór og inni í miðri borg. Garðurinn hefur þá stefnu að hafa eingöngu dýr sem ýmist hafa alist upp í dýragarði og gætu ekki komist af í náttúrunni, eða dýr sem hefur verið bjargað frá dauða. Þetta er skemmtilegt svæði og flest dýrin hafa gott pláss og líður vel. Sá eini sem var eitthvað letilegur í hitanum var greyið ísbjörninn, hann lá á maganum í sólinni, með alla útlimi úti og dormaði. Skiljum ekki af hverju hann fór ekki í skuggann, eða í vatnið sem hann var með, en kannski geta meira að segja ísbirnir lært að elska hitann...? Þessi úlfaldi var nú ekkert að splæsa brosi á okkur þrátt fyrir að líða ágætlega. Slefaði eiginlega bara að okkur. Viktori finnst hann minna á Þórð húsvörð... (vil taka það fram að hann er að meina þennan sem Laddi leikur, ef það skyldi nú vera Þórður húsvörður í Varmárskóla).

Dýrin í Amazon


Þessi æðislegu fiðrildi er að finna í Amazon-regnskóginum. Það var hús með alls konan skordýrum í dýragarðinum, ýmist lifandi eða dauð, og dýrin sem finnast í þessum stóra skógi eru svakaleg. Litadýrðin á fiðrildunum gerði að mig langaði nú soldið að fara í Amazon, en svo þegar ég sá hin kvikindin, þá var ég svo sem alveg sátt við að sleppa því. Við höfum farið mikið fram og tilbaka með það hvort við ættum að taka ferð í Amazon, en ákváðum að hættan á malaríu og öðrum sjúkdómum væri aðeins of mikil. Ef við værum ekki með litla gutta í ferðinni, þá myndum við slá til. Amazon-ákvörðunin var sett í nefnd, setta fimm nefndarmeðlimum, sem unnu hratt og örugglega. Nefndin ákváð að við myndum taka góða Amazon ferð þegar þeir eru komnir kringum tvítugt. Þá verður farin ævintýraferð í frumskóginn!! Eitthvað í kringum 2018-9.

Skrítnar


Ég hreinlega veit ekki hvaða kvikindi þetta eru, en það stærsta er um 40 cm langt og ég eiginlega varð orðlaus þegar ég sá þetta. Guttarnir stundu: "oh, vildi að þetta væri lifandi, okkur langar að sjá

það fjúga!" og ég hugsaði bara "oj nei!!". Þetta er nú allur þroskinn...

Flugur í Amazon


Flugurnar í Amazon skóginum eru eins og hin dýrin, í stærra lagi, en þessi í miðjunni er ca. lófastærð á fullorðnum manni. Ég er alveg hætt að kvarta yfir húsflugunum heima.

Sáum líka þennan...


..honum líður víst best í regnskóginum eða tropískum svæðum, en sjaldgæfur í köldum löndum. Þetta er félagsvera, mjög skrafhreifinn þegar sá gállinn er á honum, en þegar hann kippir í norðan-kynið getur verið þungt í honum og erfitt að fá hann til að gefa frá sér önnur hljóð en "hrmmf". Einstaklega gáfað og skapmikið dýr, sem verður myndarlegra með aldrinum.

Alltaf nóg að gera..


...þegar maður er mamma.

Tvífari Dimmu


Löbbuðum í dýragarðinn í fyrradag og gengum framhjá þessari krúsídúllu. Við áttum ekki til orð yfir því hvað hún er lík henni Dimmu okkar, sem bíður eftir okkur heima hjá ömmu Dóru meðan við erum á þessu flakki. Eða "bíður og ekki bíður", hún er í svoddan ofdekur-eldi að hún eflaust kvíðir því að við komum heim "litla" kisan. No more

sweet life, just diet diet diet..... En þið sem þekkið Dimmu, takið eftir hvað þessi á myndinni er lík Dimmu í framan!! Og þið sem ekki eigið ketti: "jú, víst eru kettir með mismunandi andlitsdrætti!!"

Kaffihús...


...Viktor er mjög duglegur við að hvetja okkur til að fara á kaffihús, það er hreinlega eitt af því skemmtilegasta sem hann gerir (fyrir utan að glíma í BJJ). Þá fær hann eitthvað gott að drekka og eitthvað gott í gogginn, og þá er minn ánægður. Haldiði að við höfum ekki bara fundið gamla góða Mirandað hérna í Buenos Aires. Það heitir reyndar Mirinda.... en þetta er sko sama tóbakið!!

Stór "Hljómskálagarður"


Í ca. tíu mínútna göngufæri er stór almenningsgarður, þar sem meðal annars fótboltasvæðið þar sem strákarnir æfa, er. Garðurinn minnir okkur soldið á garðana í Odense, fólk liggur hér og þar í grasinu, kelandi, æfandi eða sofandi. Mikið dýralíf er í garðinum, fuglar og pöddur, en það er laaaangmest af hundum. Þetta er greinilega einhver samkomustaður hundaeigenda, og einnig hundapassara. Við hér um bil hvert tré í garðinum eru bundnir 5-7 hundar, geltandi og vælandi, dillandi rófunni og bara yfirleitt í mega góðu skapi. Svo gengur fólkið á milli og tekur nokkra með sér, röltir með þá hring eða að kaffistandinum, fer svo tilbaka og sækir næsta hóp. Hundarnir virðast skemmta sér vel í svona stórum hópum, við höfum mest séð einn mann með 14 hunda í bandi af hinum ýmsustu stærðum og gerðum.

Fótboltasvæðið..


..er í miðri stórborginni og háýsin allt í kring eins og þið sjáið á þessari mynd, þar sem Arnór er að fara að taka innkast. Æfingasvæðið eru sex gervigrasvellir, allir afgirtir, og svo er risastór girðing í kringum allt, með járnhliði sem er læst með hengilás. Svo þegar æfingin byrjar, koma krakkarnir að hliðinu, bara svo inná vellina með sínum þjálfara og þegar æfingin er búin, mynda þau röð og foreldrar kallaðir upp til að taka á móti barninu áður en því er hleypt út úr girðingunni. Ef foreldri er ekki komið, fær barnið ekki að fara út, það er sem sagt mjööög mikil gæsla hér. Liklega eitthvað sem er þörf á, enda margur misjafn sauðurinn þegar stórborgir eru annars vegar.

Wednesday, February 25, 2009

Fyrsta fótboltaæfingin í BA hjá Orra


Hér er svo Orri á sinni fyrstu æfingu í gær, mjög einbeittur og rosa duglegur. Var svo á annarri æfingu í dag og er mjög kátur með þetta. Finnst æfingarnar samt heldur stuttar, baaaara klukkutími, enda vanur 3 tíma æfingum í Kick Start á Barbados.

Tuesday, February 24, 2009

Fyrsta fótboltaæfingin í BA


Arnór að spila, myndin er tekin rétt áður en hann skorar mark. Sést glitta í þjálfarann hans þarna á bak við. Hann er mjög skemmtilegur og tók stórt "goooooooooooooooooooooooooooooooooal" þegar Nórinn skoraði.

Fyrir utan húsið


Þarna erum við komin í háhýsið sem við búum í og vorum að bíða eftir leigusalanum. Gaui hafði talað við hann í síma frá rútustöðinni og hann talaði enga ensku. Svo Gaui, á sinni menntaskólaspænsku, taldi sig hafa skilið kallinn rétt, að við ættum að hittast fyrir utan húsið. Þar biðum við lengi vel og nörtuðum í sólblómafræ sem ég hafði keypt í Puerto Igazu.

Eitthvað erum við nú að verða harðari af okkur í sambandi við pöddur, því við vorum öll búin að fá fræ í lófann og kjömsuðum á þeim, þegar ég kíki í dósina og sé bara nokkrar skríðandi pöddur þar ofan í. Ég hætti við að fá mér aðra lúku og lét hin vita af þessu. Strákarnir skyrptu fræunum út úr sér án þess að segja neitt, en Gaui stóð bara og japlaði. Ég hugsaði bara, "nú.. honum er líklega alveg sama" þegar ég sá hann demba restinni upp í sig og fer til að henda dósinni. Svo kem ég tilbaka, og segi lágt, eiginlega við sjálfa mig "soldið pirrandi þegar það eru pöddur í matnum sem maður kaupir..". Þá heyrist í Gauja "HA.. PÖDDUR...??". Þá hafði hann bara ekki heyrt í mér, en ég haldið að hann væri bara svona cool á þessu og var ekkert að æsast yfir þessu. En svo var þetta bara gleymt, enginn að vesenast yfir þessu, eða kúgast eða neitt slíkt. Allir búnir að éta pöddur... pirrandi... en hey, so what... hmm.

Svo endaði nú með því að leigusalinn kom og hann mætti með bróður sinn, sem kunni smá í ensku, svo þetta gekk bara ágætlega og íbúðin er lítil en alveg allt í lagi. Þeir vildu leiga okku aðra íbúð í næsta hverfi, þegar þeir sáu að við værum fimm, en hún kostaði töluvert meira og okkur er alveg sama þótt við séum ekki í "hús og hýbýli", bara aðalatriði að það sé öruggt hverfi, svefnstaður fyrir alla og eldhús og bað. Þá erum við góð. Svo er náttúrulega eitt sem er frábært, það er að við erum svo hátt uppi að það nenna ekki maurar eða mýflugur hingað upp!!

Ferðalög geta verið lýjandi


Arnór hérna þungt hugsi eftir að við vorum rétt nýkomin í íbúðina. Gaman að fylgjast með því hvernig þeir guttarnir bregðast misjafnlega við nýjum stöðum og svo líka hversu mikið auðveldara þeir eiga með þetta núna, heldur en fyrst. Í byrjun ferðarinnar, í ágúst, voru Arnór og Orri frekar óöruggir og þurftu mikinn stuðning og hvatningu til að prófa nýja hluti. Viktor var rólegri, var eins og blóm í eggi strax í New York, eins og hann hefði aldrei gert annað en að ferðast milli staða og stórborga. Núna eru Arnór og Orri líka orðnir miklu öruggari. Kom mjög vel í ljós í dag þegar þeir fóru á sína fyrstu fótboltaæfingu hér í Buenos Aires. Ég mætti með þá, fullt af guttum á svæðinu, þeim sýnt hvaða hóp þeir áttu að fara í og fóru þangað. Ég sá að Arnór spurði þjálfarann hvort einhver talaði ensku, fékk svarið að það væri nú ansi lítið. Arnór hummaði bara og dembdi sér svo bara í æfinguna. Ekkert mál!! Gaman að sjá svona aukið sjálfsöryggi hjá þeim og ég held það sé alveg á hreinu að þeir eru að læra ofboðslega mikið á þessari ferð.

Litla stofan


Hér erum við nú ekki búin að koma okkur, en það stoppar nú ekki Viktorinn í að hafa það huggulegt yfir tölvunni í litlu stofunni á 13 hæð, með útsýni yfir háhýsin í kring. Hér sit ég akkúrat núna meðan ég skrifa þetta, á nákvæmlega sama stað og Viktor situr á myndinni.

Orri með svartar tásur eins og hinir


Eins og myndin sýnir, þá voru tærnar ansi svartar eftir fyrsta daginn í íbúðinni hér. Íbúðin var ofboðslega skítug reyndar alls staðar og fyrsta daginn sem var síðasta laugardagur, þá vorum við eiginlega bara þrífandi, þrátt fyrir að vera nýkomin í bæinn í ansi langri rútuferð OG það var 11 ára giftingarafmæli hjá okkur Gauja. Þetta var bara OF skítugt. Var að hugsa þetta eftir á, skildi eiginlega ekki hvað það er mikill skítur í teppinu, en það er bara ekki hefð fyrir að fara úr skónum hér áður en maður kemur inn í hús. Það er bara gengið beint inn, og kannski bara í svona rigningar/snjó-löndum eins og Íslandi sem þetta er nauðsynlegt. Allavega, við þrifum fullt og þetta er að verða nokkuð gott. Náum samt ekki úr teppinu, ryksugan sem fylgir íbúðinni hefur örugglega verið í eigu iðnaðarmanna, (áður en leigufélagið keypti hana á antikmarkaði) sem notuðu hana í steypu- eða múrvinnu, hún spýtir bara út úr sér rykmekki svo allt verður "blurry", og ekki halda að það sé rauðvínið, þó það sé svaka ódýrt hér.. :)

Friday, February 20, 2009

Argentína, skógurinn


Alltaf gaman að byrja bloggið á huggulegri dömu, eins og þessari könguló. Viktor hefur gaman að þeim, verður ábyggilega skordýrafræðingu, hann sér alls staðar skordýr og er mjög duglegur við að benda okkur á þau, sérstaklega ef þau eru virkilega ógeðsleg!! Erum búin að sjá fullt af þessum köngulóm, þær eru ca jafnstórar og lófinn á fullorðnum og spinna risastóra vefi þvert yfir göngustígana í skóginum... svona hávaxið fólk eins og við, fer að ganga örlítið hokið.. alveg óvart.

Igazu fossar, Puerto Igazu og Río Tropic hótelið


Þá erum við komin til Argentínu, Puerto Igazu heitir bærinn og Igazu fossarnir aðalstjörnurnar á þessu svæði. Ég hef alltaf haft svolítið rómantískar hugmyndir um Argentínu eftir Madonnu myndina um Evitu (ég veit, ekki mikill kúltúr í því..) og lagið „don´t cry for me Argentina, the truth is I never left you... osfrv.“, oh, svo flott lag. Og ég er ánægð með það sem ég hef séð hingað til. Rútuferðin hingað tókst vel. Hún byrjaði seinnipartinn á mánudag, á Rodovaria í Ríó, við mætt með allt okkar hafurtask eftir leiða kveðjustund á Barra Beach. Við höfum haft það ofboðslega gott þarna, Barra alveg einstaklega gott hverfi með allt sem maður þarf til að lifa góðu og einföldu lífi, eins og Gaui gat stunið upp gegnum ekkann: „vinalegt fólk, ávextir alls staðar, hægt að labba í allt, jiujitsu, strönd, sjór og sól“. Við ætlum að koma aftur þangað, það er á hreinu.
Nú svo hófst rútuferðin, við spennt að sjá hvernig þetta færi fram. Sætin voru frábær!! Þetta eru eiginlega lazyboy-stólar, geta hallast alveg aftur (reyndar gat ég nú ekki nýtt það, þar sem ég þekkti manninn fyrir aftan mig (Guðjón heitir hann) og hann misnotaði kunningsskapinn óspart og kvartaði ef ég var komin of langt aftur) og fótskemill. Barinn sem við höfðum beðið spennt eftir að sjá og áttum eitt sæti við, reyndist nú bara vatns og kaffistöð, selfservice, og kaffið sem var í automatnum dýsætt, að brazza-sið. Ódrekkandi andsk.. Þegar ca. 5 mín voru búnar af ferðinni hófst dvd-mynd á skjánum, hljóðið úr henni glumdi yfir alla rútu, svo maður hafði lítið val um hvort maður vildi horfa og heyra. Og þetta var þessi svakalega ofbeldismynd, með kynferðislegu ívafi, svo að við foreldrarnir höfum verið í mesta basli síðustu daga við að svara flóknum spurningum um siðfræði, framhjáhald og tilgang lífsins. Eftir þessa mynd kom önnur ansi svæsin og þannig var þetta trekk í trekk. Myndirnar dekkuðu eiginlega öll dökk svið mannlífsins: eiturlyf, ofbeldi, fangelsi, forsetamorð, skilnað, spilltar löggur og kynlíf. Inni í þessu leyndist ein rómantísk gamanmynd sem ég naut mikið, en svo furðulega vill til að öllum strákunum tókst að sofna undir þeirri mynd!
Tímarnir 22 í rútunni liðu bara ágætlega og þetta var bara ekkert mál. Við komum svo til Puerto Igazu um fjögurleytið á þriðjudeginum. Það fór smá tími í að finna banka til að kaupa Argentínska pesóa til að geta borgað fyrir leigubílinn á hótelið. Það gekk á endanum og hótelið er rosalega kósí. Það er svona bjálkakofaraðhús, 9 herbergi, misstór, liggja í hálfhring utan um litla sundlaug. Rólegt og inni í skógi, sem er þónokkuð byggður, hús hér og þar og fjölskyldur með fullt af börnum og hundum allt í kring. Skrítinn jarðvegurinn hér, virðist vera rústrauður, og allar götur og moldin í kring í þessum lit. Setur soldið tóninn fyrir tilfinninguna af Suður-Ameríku. Það er algengt að sjá krakka, allt niður í 6-8 ára með litlu systkyni sín töltandi á eftir sér, og það yngsta bundið á mjöðmina, oft ekki meira en nokkurra mánaða. Þessir krakkar eru þá að selja eitthvað, eða þá á göngu á eftir foreldri, sem er með stórar töskur af handverksmunum sem þau eru að selja. Ótrúlega fallegir munir. Ég fíla vel þetta fólk, því það er alls ekki ýtið. Það býður manni að skoða, ef maður vill ekki skoða, þá bara nikkar það og heldur áfram, er ekkert að bögga mann.
Fyrsta daginn okkar í Argentínu vorum við bara á hótelinu og við sundlaugina, enda frekar ryðguð eftir rútuferðina og gátum ekki hugsað okkur að taka bíl inn í bæ til að borða. Hjónin sem eru með hótelið hér, er ekki með kvöldmat, en hann pantaði pizzu fyrir okkur og reddaði rauðvínsflösku, svo við gátum slakað og legið í leti meðan guttarnir hömuðust í sundlauginni. Ótrúlegt hvað börn eru orkumikil, ég meina það, ekki einu sinni 22 tíma rútuferð gerir þá lúna í hausnum, það var bara djöflast af enn meiri krafti, eins og til að bæta upp tapaðan tíma í djöflagangi meðan þeir þurftu að sitja kyrrir í mjúku rútusæti og horfa á ofbeldismyndir!! Hótelið er mjög „low key“, bara rúm á herberginu og baðherbergi og loftkæling. Ekkert sjónvarp, og ég var að rifja það upp að það eru að verða tveir mánuðir síðan við horfðum á sjónvarp, ég meina ég fréttir, barnatíma eða eitthvað þannig. Það var náttúrulega horft á sjónvarpið í rútunni, þótt við værum stundum alveg til í að sleppa því og guttarnir grófu sig undir teppin, settu kodda yfir eyrun og horfðu út eða reyndu að sofna. Þetta er frekar ódýrt hótel,, en voða hreint og þægilegt og vinalegir eigendur, ung hjón sem eiga litla eins árs stelpu, sem trítlar um allt og er forvitin. Svo eiga þau líka stóran hund, einhverskonar Dobermann-tegund, nema breiðari. Hann gæti verið soldið „scary“, en hann er bara svo rólegur og dúllulegur, því hann gengur um allt með tusku í kjaftinum, sem er svona eins og snuðið hans! Bærinn, Puerto Igazu, gegnur bara út á fossana. Þetta er eins og lítið „souvenier bær“, því það eru íbúarnir, sem eru fáir, og svo eru það túristarnir, sem eru gríðarmargir og stoppa yfirleitt ekki meira en 2-3 daga. Soldið sérkennilegt svæði, en vinalegt.
Svo á miðvikudeginum, eftir góðan morgunmat, fórum við að skoða fossana. Tókum daginn ekkert allt of snemma, en náðum að skoða mestan hluta fossanna. Þetta er svakalegt svæði, Igazu fossarnir samanstanda af 275 fossum, sem geta farið upp í yfir 300 fossa, þegar rigningar eru miklar. Við tókum bátsferð upp ána, sem endaði í að báturinn siglir með mann ansi nálægt einum fossinum, þannig að allir verða gegnblautir, voða gaman og mikið stuð. Svo bara skoðuðum við svæðið, gengum heilmikið og á svæðinu er líka heilmikill skógur og villt dýralíf, með köngulóm, risamaurum, eðlum, einhvernskonar þvottabjörnum, öpum, hrægömmum og öðrum fuglum og svo toppurinn; jagúar. Við sáum margar af þessum dýrategundum, þó ekki jagúarinn, þeir eru fáir og eru bara á ferð á nóttunni. Við ákváðum að geyma skoðun á stærsta fossinum þar til í dag, enda gaman að þurfa ekki að flýta sér of mikið við að skoða þennan fallega stað. Fórum á góðan kjötstað í gærkvöldi, fengum stóra nautasteik og þó svo svæðið hér þyki ekki alveg það besta í nautakjötsgeiranum, þá var þetta fínn matur.

Þar sem við fórum með bátnum


Þarna er Orri kominn á einn útsýnispallinn eftir siglinguna, það er gaman að sjá næstu báta fara í gusuna. Báturinn (sjáið hann fyrir miðju, vinstra megin) siglir sem sagt næstum því inn í stærsta fossinn þarna vinstra megin og maður verður gersamlega gegnblautur, mikið gargað og mikið hlegið.

Í siglingunni


Rio Tropic herbergið


Einfaldur stíll, 5 rúm, eitt borð og baðherbergi. Allt í tré, hrikalega notalegt :)

Paragvæ


Í gær, létum við svo verða af því sem mig hefur langað til að gera, að fara til Paragvæ í smá skottúr, bara til að hafa nú aðeins komið þangað, þótt stutt væri. Við fengum leigubílstjóra sem hóteleigandinn pantaði fyrir okkur, hann átti að vera með okkur héðan frá hótelinu, að rútustöðinni til að kaupa miða, yfir til Paragvæ, tilbaka og svo út að fossunum, því við áttum eftir að skoða stærsta fossinn, sem heitir svo sjarmerandi „Háls Djöfulsins“. Paragvæ er töluvert fátækara land en þau sem ligga í kring, og þegar við höfum spurt Brasilíubúa að því hvernig Paragvæ væri, þá setja þeir upp svip og ein sagði meira að segja „Nothing to see there, waste of time!“. Soldið skrítið og við erum svo sem ekki alveg til í að samþykkja það. Við kíktum sem sagt aðeins inn í Paragvæ í dag, það þarf að fara úr Argentínu, yfir til Brasilíu og þaðan yfir til Paragvæ. Fylla út soldið af pappírum og svona, en það var þess virði. Eftir rútustöðina þurftum við að stoppa í bankaautómat og leigarinn vissi af einum í casinóinu sem liggur einmitt nálægt landamærunum. Gaui stökk inn, náði í pening og sagði okkur frá reyknum og dimmunni þarna inni í þessum skrítna heimi. Svo var keyrt að passaskoðun og þegar kallinn var að skoða passana okkar, grafalvarlegur, stekkur Gaui upp í sætinu því hann fattaði að hann hafði gleymt símanum sínum! Ok, leigarinn reddar því nú fljótt, keyrir bílinn 5 metra, þannig að við leggjum bara við dyrnar á passaskoðunarkofanum, sem sagt á landamæralínunni, tekur passann hans Gauja og Gauja út úr bílnum og segir öllum landamæravörðunum: „Hann gleymdi símanum sínum í Kasínóinu! Við sækja!“. Svo tölta þeir af stað yfir landamærin og skildu okkur eftir í leigubílnum, á landamærum Argentínu og Paragvæ. Þarna sátum við meðan gleymni(=fulli) fjárhættuspilarinn sótti símann sinn í Kasínóið. Fengum þó nokkur samúðaraugnaráð frá landamæravörðunum, enda sátum við fjögur í klessu aftur í leigubílnum, sem var nú ekki af nýjustu gerð. Gaui kom þó aftur, leigarinn líka, og við fengum að sjá örlítið Paragvæ. Það er ansi sérstakur bær, Ciudad del Este sem liggur á landamærunum. Mikill sölubær, fólk fer héðan og frá Brasilíu til að kaupa sér ódýrar rafmagnsvörur, og um leið og við vorum komin út úr bílnum í bænum, þá hrúgaðist að okkur sölufólk að bjóða ilmvötn, sokka, magaþjálfara og ég veit ekki hvað. Ansi ýtið fólk, tók engum nei-um, hélt bara áfram og furðulegt hvernig stemningin getur snarbreyst á ekki stærra svæði. Hér í Argentínu er nefninlega mikið um sölufólk, en það ýtir aldrei á mann ef maður bara neitar. Virðist vera meiri fátækt og meiri... ekki örvænting.. en miklu meiri og sýnilegri samkeppni um að lifa af, og greinilegt að aðkomufólkið er mikil lífæð, því við fengum hrúgu af sölufólki á okkur. Samt skilst mér nú að þetta hafi verið lítið miðað við Indland þegar Gaui var þar 2007. Við keyptum aðeins hjá þeim í Paragvæ, Gaui hér á myndinni með landsliðsbúninginn þeirra, sem hann keypti sér. Alltaf með soft spot fyrir fótboltatreyjum!!

Sá stóri!!


Eftir Paragvæ var stefnan tekin á Igazu fossana aftur, núna á þann stærsta, „Garganta del Diablo“, eða The Devils Throat. Við bjuggumst við einhverju stóru, kannski svipað og Dettifoss, en vorum ekki alveg viðbúin SVONA stóru. Kíkið á myndina, þetta er stærsti hlutinn af fossinum, hann næst ekki allur á myndina, hann er svo breiður og við svo nálægt, en vatnsmagnið er yfirþyrmandi. Við komumst eiginlega alveg upp að fossinum, sjáum hann ofan frá og maður fær á sig vatnsgusur og varla er hægt að tala saman fyrir hávaða. Svo var alveg magnað að fylgjast með fuglum sem eiga hreiður bakvið fossana. Þeir eru víst einu fuglar í heimi sem geta þetta, þeir hreinlega stinga sér inn í fossinn, fljúga í gegn og gera hreiður bakvið vatnið. Þegar maður horfir á þetta hugsar maður „þetta er ekki hægt“, en það hefur greinilega enginn sagt fuglunum það, þeir bara gera það samt og geta það! :)


Svo er það bara rútuferð aftur í dag, föstudag. rútan fer kl. tvö og eftir litla 18 tíma verðum við komin til Buenos Aires. Virðist vera að við séum að finna íbúð þar, verður spennandi hvort það gangi, er víst í Palermo-hverfinu, öruggt hverfi og skemmtilegt segja heimamenn.

Monday, February 16, 2009

Bless bjútífúl Brasilía!


Við erum að pakka, rútan fer af stað til Igazu fossanna klukkan fjögur í dag og við eigum fimm sæti bókuð í henni. Við lásum í bók að því minna númer á sætunum, því betra, því það þýðir að sætið er lengra frá klósetti rútunnar, en við erum með há númer. Pollyannan í okkur segir bara „gott að það sé stutt á klóið...“ hmm. Gaui fór einn að kaupa miðana í fyrradag, kom heim og tilkynnti þetta með sætin, og bætt svo bið „við sitjum fjögur saman öðru megin í rútunni og svo er eitt sætið við barinn...“ Viktor var fljótur á sér, svaraði glottandi, dimmri röddu: „ég skal vera þar“. Svaka fórn. Er nú ekki ákveðið hver verður við barinn ennþá, en sætin eru víst svona svefnsæti, maður getur hallað þeim alveg aftur og upp kemur fótastallur. Ég er spennt að prófa þetta, en það er nú ekki verra að hafa þægileg sæti í 22 tíma rútuferð!!


Þegar við erum búin að pakka ætlum við á Bibi´s að fá okkur uppáhaldið okkar, en það er bombuber sem við erum búin að uppgvöta. Þetta ber vex í Amazon, er fjólublátt og borið fram hálffrosið, eins og ís í skál. Fullt af andoxunarefnum, járni og vítamínum og VIÐ ELSKUM ÞAÐ!!!! Vonandi verður hægt að fá þetta í hinum Suður-Ameríku löndunum, því þetta er ávanabindandi og gríðarlega holl máltíð sem strákarnir sníkja á hverjum degi. Ekki slæmt.

Við fórum á ströndina í gær, síðasta strandferðin okkar á Barra-ströndina okkar og það var hrikalega gaman. Öldurnar voru gríðarstórar og ég fór aðeins út í þær með Arnóri og Viktori. Það er ótrúlega gaman að ná hárri öldu áður en hún brotnar, því hún lyftir manni nokkra metra upp og niður aftur eins og í rússibana. Svo auðvitað fatast manni listin stundum, lendir í „broti“ og er eins og í þvottavél í nokkrar sekúndur. Svakalegur kraftur og ekkert að gera í raun, nema að halda í sér andanum og bíða eftir að vindunin klárist. Viktor er svellkaldur í þessu, ég svosem líka og það sem ég var kannski hissa á var að Arnór var líka alveg ótrúlega duglegur. Hissa og ekki hissa, Arnór er náttúrulega hörkudagurlegur, en hann er alveg höfðinu minni en við Viktor, svo öldurnar urðu enn hærri fyrir hann. Við fengum svoleiðis sjó í augu, nef og eyru og vorum kýld niður í sandinn stundum (því það er ekki svo djúpt þarna og litlir straumar þennan daginn, hefði ekki farið með guttana út í eitthvað brjálæði, ömmur!!) og þetta var mikið fjör. Og þetta er sko hörkuútgáfa af sundæfingu fyrir guttana.

Við vorum að kveðja Simone, konuna sem sér um þrif á hæðinni hér, er ca. þrítug, lítil og brosmild. Við höfum kynnst henni aðeins, hún er voðalega vinaleg og kann ekkert í ensku, en við náum samt að tala saman með handapati og andlitsgrettum. Hún er svo hrifin af strákunum, finnst þeir svo flottir, er voðalega skotin í Orra (sem er kallaður Patríkí hér í Bras), svo ég fór að spyrja um daginn hvort hún ætti börn. Hún jánkar og setur upp tíu fingur!! Ég hugsa bara: „je, dúdda mía... aumingja konan að vera kaþólskur ræstitæknir, fer ekki vel saman..) en þá var hún bara að segja að hún ætti strák sem er tíu ára. Svo á hún líka stelpu sem er 12 ára. Áðan þegar við vorum að gefa henni smá kveðjugjafir, þá sagði hún við Orra: „má ég ekki taka þig með heim, og þig..“ við Arnór, og svo við Viktor: „ og þig heim fyrir stelpuna mína að giftast!!“.


Þetta er í annað sinn sem Viktor vekur lukku hjá konum sem vilja hann sem mann fyrir dæturnar, enda orðinn 170cm á hæð og virkar örugglega miklu eldri en 12 ára. Vorum á veitingastað um daginn og ég og Gaui pöntuðum bjórglas. Svo kom þjónninn og skellti einu glasi hjá Gauja, og einu hjá Viktori!! Allavega, Simone var ógurlega glöð og þakkaði okkur sérstaklega fyrir að gefa henni þjórfé (við höfum alltaf skilið eftir pening á föstudögum fyrir hana) og sagði okkur að hún hefði notað peninginn frá okkur til að kaupa skólabækur fyrir börnin sín tvö! Gott að heyra það og gaman þegar maður getur gert eitthvað fyrir aðra, því launin fyrir svona störf eru mjög lág. Við höfum aðeins séð inn í fátækrahverfin hérna, þetta eru svakalegir kofar og í raun alveg eins og í bíómyndunum. Alger kofahreysi í kaos og svo hlaupandi næstum því allsber dökkbrún börn út um allar götur. Og það er sko gríðarleg stærð á þessum Favela-hverfum (fátækrahverfum). Við höfum hins vegar ekki farið inn í hverfin, þykir mjög óöruggt að fara þangað án fylgdar heimamanna.


Hann Gummi spyr í commenti hér eða á facebook, man ekki, hvernig í ósköpunum okkur dettur í hug að púla svona með ketilbjöllur í 30°c hita...? Ég er eiginlega á sömu línu núna með BJJ, því ég er eitthvað tognuð við bringubein eftir glímu. Líkaminn þarf að venjast rúllinu og það tekur tíma og þolinmæði, sem ég hafði svo sem ekki á þessum æfingamánuði okkar. Á undan bringubeinsveseni var það bólgin tá og fyrir það var bakið stíft og fyrir það var hálsinn í klessu....... en það eru eiginlega engin svör önnur en „Gummi, þetta er bara svo gaman!“ :)

Thursday, February 12, 2009

Nýklipptur!!


Hér kemur stutt færsla, viljum bara sýna ykkur heima þennan flotta gutta með nýja klippingu. Var klipptur í gær, er ennþá að venjast, en þetta er töluvert þægilegra í hitanum!


Smá svar til Gumma og Kristó: Viktor er búinn að kaupa sér nýja myndavél, tekur svaka flottar myndir! Við komum líklega heim í lok júlí til að ná aðeins í íslenska sumarið og á næstunni verðum við meira á flakki, svo við höfum ekki heimilisfang sem hægt er að senda á, stoppum stutt á næstu stöðum. Látum ykkur vita ef við tökum lengri stopp :) Viktor var líka í klippingu í gær, er líka töluvert stutt á honum hárið. Hann er á jiujistu æfingu núna, en ég set inn mynd af honum á morgun eða næstu daga, hann er líka megaflottur!!

Monday, February 9, 2009

Pedropolis og litla hótelherbergið


Mánudagur, önnur vika búin og brátt er dvölin í Ríó á enda. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt, ég veit að ég hef sagt þetta áður, en við erum samt gáttuð á þessu. Á laugardag fórum við í ævintýraferðina okkar. Vöknuðum um hálfníu, borðuðum morgunmat og náðum okkur í leigubíl til Rodovaria novo, sem er „nýja rútubílastöðin“ um 40 mín í burtu. Vorum með upplýsingar frá ferðaskrifstofu um hvaða rútufélag við áttum að finna á stöðinni, til að fá miða til Petrópólis. Við pökkuðum léttum farangri, vorum bara með einn bakpoka fyrir okkur öll, tilbúin hvort sem var til að koma tilbaka sama kvöld, eða gista eina nótt. Við mætum á rútustöðina, frekar sjabbí staður eins og rútu/lestar/strætóstöðvara virðast vera í öllum löndum, svei mér þá. Þegar við svo ætlum að kaupa miða til Petrópolis var okkur sagt að við yrðum fyrst að sýna persónuskilríki sem sanna að við eigum þessi þrjú börn sem við erum með. Við bara hváðum og hummuðum, hafði ekki dottið þetta í hug, og höfðum einmitt viljandi skilið passana eftir í íbúðinni. Það var ekkert að gera, það þarf víst alltaf að sýna skilríki þegar ferðast er með börn, svo það var ekkert annað fyrir okkur að gera en að stefna heim aftur, sækja passana og koma svo aftur, tæki í allt rúman klukkutíma. Þegar við svo komum út koma leigubílstjórarnir í hrönnum að okkur að bjóða bíl, og þegar þeir heyra að við viljum bíl til Barra og aftur tilbaka kveiktu þeir strax á perunni. „Documentation..? no, no, we drive Pedropolis!... no documentation.. nice, quiet, yes?“. Við vorum nú fyrst efins, hvað með að komast tilbaka, en þeir sannfærðu okkur um að það þyrfti ekki skilríki til að fá rútumiða tilbaka, það væri bara til að komast út úr Ríó. Svo voru fjármál „rædd“,, set það í gæsalappir, því það var meira handapat, en töluð orð, og á endanum samþykkjum við þennan „miklu þægilegri ferðamáta“. Strákarnir setjast í bílinn, við erum vön að þurfa að sitja fjögur afturí og þá er annað hvort ég eða Gaui ekki með belti, sem þykir nú ekki tiltökumál hér í Ríó. En í aftursætinu var ekkert belti, ekki eitt einasta. Við hikum aftur, en kýlum svo á þetta, Gaui segir mér að setjast framí, þar er allavega belti sem bílstjórinn sýndi stoltur. Ég var nú ekki hrifin, vill frekar að guttarnir séu í belti en ég, en þar sem ég hafði lesið um fjallvegina sem liggja til Petrópólis vildi ég frekar að ég væri framí. Svo sest ég, bílstjórinn teygir sig í beltið mitt, smeygir því yfir mig og krækir því í handbremsuna!! Ok, enginn í belti.
Svo keyrum við af stað, og það var reyndar alveg gullfalleg leiðin þangað, alls ekki hrikaleg eins og stóð í bókinni, allt tvíbreitt og bara einstefna alla leið, það er annar vegur fyrir bílana sem eru á leið til Ríó. Æðislegt útsýni yfir fjöll þakin skógi og við veginn stóð hér og þar lítill bás með ávöxtum til sölu og skrautlegum teppum og mottum sem heimafólkið býr til. Bíltúrinn til Pedrópolis var fínn, ekki kannski mjög „quiet“ eins og þeir töluðu um, galopnir gluggar og bíllinn hljóðkútslaus dolla þar sem smurninsmerkið skein allan tímann og hann barðist upp fjallvegina á 40km hraða. En við komumst í heilu lagi og Pedrópolis er falleg. Þetta er lítil borg, friðsæl og miðbærinn í gamla hlutanum alveg frábærlega sjarmerandi. Rosalega þægileg tilfinning og ef við spurðum til vegar var okkur bara fylgt þangað sem við spurðum um. Ofsalega vinalegt fólk og mér fannst rosalega þægilegt að vera þarna, sérstaklega þegar maður miðar við Ríó, sem er mjög falleg og skemmtileg, laaaaaaangflestir vinalegir, en svo eru bara svörtu sauðirnir inn á milli, svo maður er alltaf var um sig. Reyndar þó hverfisskipt, okkar hverfi Barra, er mjög öruggt og afslappað miðað við aðra bæjarhluta.
Svo röltum við um Pedrópólis, fundum hótel sem Brasilíubókin okkar hafði mælt með og tjékkum á herbergi. Þar fyrir utan sat feitur kall með bjór, greinilega eigandinn, og það vantaði bara alpahúfuna á hann, hann var svaka eitthvað austurískur í útliti. Hann tölti með okkur inn, hlustaði á allt sem stelpan í reception sagði, blandaði sér í samræður, allt auðvitað á portúgölsku, hún leiðrétti hann, talaði við okkur, hann blandaði sér, hún útskýrði, talaði við okkur, hann blandaði sér og á endanum fengum við herbergi, hehe. Hann vissi að þetta væri lítið herbergi, og skammaði hana þegar hún ætlaði að rukka fyrir aukadýnu eins og reglan segir til um, skammaði hana aftur þegar hún ætlaði að láta Gauja fylla út eyðublaðið eins og reglan segir til um, fannst nú ekki taka því fyrir eina nótt, og hún bara fórnaði höndum og brosti, greinilega vön kallinum. Þetta var lítið gistiheimili, voða kósí og afslappað, og þrifin í því voru afslöppuð líka. Aldrei gist á stað þar sem köngulær voru mun fleiri en gestirnir... allavega ekki svo ég viti til. En við vorum nú ekki þarna til að hanga á hótelherberginu, drifum okkur af stað á Museum Imperial, sem var sumarhús keisarans Dom Pedro II og þar var hægt að sjá ýmsa muni úr eigu fjölskyldunnar, meðal annars kórónuna. Við spennt að sjá það og urðum sko ekki fyrir vonbrigðum. Svakalegar mublur, málverk, föt, skartgripir og svo aðalmálið; kórónan, sem er út gulli, sett 77 eðalperlum og hvorki meira né minna en 639 demöntum. Vopn keisarans vöktu auðvitað líka athygli guttanna, svakaleg sverð og eitthvað dinglumdangl. Svo bara dóluðum við okkur um borgina, fórum upp að minnismerki Fatimu, sem er verndari borgarinnar, þar var frábært útsýni yfir borg og sveitir í kring. Fín ferð og við glöð í gær, á rútustöðinni þegar við gátum keypt miða í rútuna tilbaka, án þess að þurfa að sýna skilríki um börnin. Fengum svo nett sjokk þegar bílstjórin spurði vinalega: „documentation?“ þegar við vorum að labba inn í rútuna. Strákarnir voru komnir inn í rútu og á millisekúndu sá ég fyrir mér þegar við yrðum dregin organdi út úr rútunni, snúin niður og handtekin, gargandi „can´t you see, he´s just like his father!!!“Hefði lítið hjálpað þessi eina setning sem ég kann á portúgölsku "onde fica o banheiro?" (hvar er klósettið!!!?). Eeen ég hélt nú rónni, opnaði augun sakleysislega upp á gátt, sagði „documentation...???.. ökuskírteini..hmm..?“ og sýndi honum íslenska ökuskíteinið sem er með frekar brosandi mynd af mér því konan á myndavélinni hafði sagt eitthvað fyndið. Hann hló bara létt og hleypti okkur inn. Hjúkk.
Rútan var svo upplifun út af fyrir sig, geðveikislega mjúk sæti, fullt af fótaplássi, sætisbök sem hægt er að halla og loftkæling og alles. Rosa fínt. Enda var rútan varla lögð af stað, þá var Gaui byrjaður að dotta, hann er alveg ferlegur ferðafélagi ef hann er ekki sjálfur að keyra, um leið og heyrist í mótor byrja augnlokin að síga. Ég er horfandi út, sé eitthvað flott, segi „Gaui, vá sjáðu!!“ og hann svona snorlar uppúr sér: „.. hnrkrr..hvað!..ha..mm, jahh..zzzzzz“. Þetta var tölvert þægilegra en taxaferðin, og svo er líka mun betra útsýnið úr rútunum, enda setið hærra uppi. Við höldum okkur við þær á næstu ferðalögum, sem styttist jú í, því við eigum bara nokkra daga eftir hér í Ríó, þá heldur ferðin áfram. Munum sakna BJJ æfinganna, það er á hreinu og Gaui er mjög hrifinn af Ríó, langar ekkert að fara. g er sátt, fílaði Pedrópólis svo vel, er spennt að sjá meira af Suður-Ameríku.
Ég á örugglega eftir að sakna staðarins hér. Við höfum kynnst mörgu frábæru fólki og stemningin í kringum æfingarnar og fólkið sem tengist þeim hefur gefið okkur mikið. Íbúðin hér er náttúrulega líka á frábærum stað, útsýnið yfir ströndina óviðjafnanlegt og það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hvað það er huggulegt að sitja á hvítum stórum svölum, með stórt og fallegt rauðvínsglas og horfa á stórar kröftugar öldur og hvítan sandinn í sólarlegi hér. Ég á eftir að muna eftir þessum stundum alveg sérstaklega, og líklega á ég eftir að gleyma maurunum í eldhúsinu (sem við reyndar sjáum bara á daginn, því á kvöldin þegar það er orðið dimmt og við erum að elda, þá sjáum við ekki maurana í kringum matinn okkar, því ljósið í eldhúsinu virkar ekki, sniðugt!! ;). Ég mun líka muna eftir útsýninu við eldhúsvaskinn þegar ég er að þvo fötin okkar í höndunum. Fór að gera það eftir að hafa farið með föt í þvott hér í fyrstu vikunni, rándýrt, svo það er bara gamle måden. Allt nema Gi-in (Jiujitsu-búningarnir). Ég þvoði þau einu sinni í höndunum, tók ca tvo tíma, er svo helv.. þykkt efni, og svo fór ekki einu sinni fýlan úr Gauja galla!! Nenni því ekki aftur og borga glöð fyrir þvott á þeim.
Ég á líka eftir að muna eftir því hvað ég varð hissa að sjá Svíann koma á æfingu. Það er soldið af útlendingum sem koma sem sagt í stöðin, því Gracie Barra er með klúbba út um allan heim, m.a. í Svíðþjóð. Voru tveir Svíar komnir á sama tíma og við og við búin að kynnast þeim. Svo mætir sá þriðji tveimur vikum seinna og vá, hvað hann var hvítur. Hann er ekkert óeðlilega hvítur, við erum bara orðin soldið dökk. Þá rifjaðist einnig upp fyrir okkur þegar við vorum að labba með Renzo í Reykjavík og hann stundi upp: „everybody is SO white!!“ og við skildum ekkert hvað hann átti við. Við skiljum það núna, hehe.

Ætla að hætta núna langa textanum í bili, við þurfum að leggjast yfir skipulagningu á framhaldi ferðalagsins. Eru nokkrar myndir í viðbót, en ég ætla að enda á góðum spakmælum sem ég heyrði í eðalmyndinni Kung Fu Panda, sem Orri fékk í jólagjöf. Skjaldbakan, sem var vitrust sagði þetta þegar ein söguhetjan var ráðvillt. „Yesterday is history, the future is a mistery, today is a gift. That´s why it´s called „the present“. Margt gott í barnamyndunum, aðalmálið er bara að hafa gaman að lífinu... í dag!!

Útsýnið úr rútuferðinni


The Cathedral in Pedropolis




Rosalega falleg kirkja í Pedropolis, kirkjan sem keisarfjölskyldan var lögð til hvílu, gríðarlega stór og skrautleg.

Finnst kirkjugarðarnir skrítnir hér, hver gröf er svo plássfrek, risa-steypt-kista og allt ofan á jörðinni! Svo fellur þetta bara inn í íbúðahverfin, eins og lítil hús, þegar maður horfir yfir byggðina.

Lilian??


Varð að taka mynd af þessari brasillísku mær í Pedropolis. Fékk sting í hjartað, fannst eins og Lilian litla frænka væri þarna. Hún er reyndar með minna nef, en hárið var svo svipað, að ég varð að taka mynd. Hæ Lilian og Ester!!

Margt fallegt að skoða í Pedrópolis, m.a. þessi örn sem er búinn að ná slöngu. Við þetta litla tún var antikmarkaður í gangi, fólk með alls konar gersemar að selja. Nú var Gaui heppinn að við erum á ferðalagi, úúúúú, það var svo margt freistandi sem okkur guttana langaði í!! Er bara svo leiðinlegt að bera mikinn farangur ;)

Flugvélar Suður-Ameríku.. eða þannig.


Fínu rúturnar hérna. Svakalega þægilegur ferðamáti og hrikalega gaman að horfa út um gluggann á leiðinni, ótrúlega falleg náttúra, mikið mannlíf og mikið dýralíf.

Við að glíma...


...og ég gef ekkert eftir :) hann hefur reyndar sagt mér að ef ég tappi hann út, þá fái ég ekkert að borða..

En ég er að læra, þótt hægt gangi, tapa mjög oft glímum, næ samt oft að halda jafntefli, sem sagt er að æfa vörnina, og svo tekst mér örsjaldan að vinna. Tókst um daginn að tappa eina út sem ermeð fjólublátt belti, það þótti mér nú afrek, því hún settist á andlitið á mér í glímu daginn áður, og það er sko ekki lítill á henni afturendinn!! Svo er svo fyndið, maður er á fullu að glíma, reyna að ná lásum og hinu og þessu, svaka barátta, svo er kallað "TEMPO!" og þá hættir maður strax, brosir, gefur five og fer að spjalla, allir vinir! Gaman!!

Wednesday, February 4, 2009

Tíminn rýkur áfram


Venjuleg rútína heldur áfram og tíminn flýgur. Við vöknum um átta, sá sem er fyrstur á fætur byrjar að gera ávaxtadrykk og sjóða kranavatnið hér VEL. Vatnið er ekki öruggt að drekka nema maður sé vanur bakteríuflórunni, en hún er víst töluverð. Svo er það hlandgult á litinn, svo um helgar gerum við spari-kaffi og notum flöskuvatn J en mánudagur í dag, hland-vatnið í kaffið. Við höfum ekki þann lúxus að hafa kaffivél hér, svo við fjárfestum í filter, svona margnota. Kaffigerðin er í nokkrum skrefum: að hita vatnið, skella filternum í stóra glerkrukku sem hann passar í (glerkrukkan er líklega fyrir morgunkornið, en þar sem eina mjólin hér er g-mjólk sem endist út árið, þá drekkum við eiginlega ekki mjólk, enda ferlega vond á bragðið), svo tekur maður viskustykki og hellir reglulega soðna vatninu gegnum filterinn, um leið og hitt viskustykkið á heimilinu er utan um glerkrukkuna svo það haldist smá hiti á þessum eðaldrykk. Þegar búið er að tæma pottinn, og vatnið runnið í krukkuna, hellum við kaffinu yfir í hitakönnu sem við fjárfestum í, fagurgræn. Í morgunmat er sem sagt ávaxtadjús og svo líka kaffi fyrir okkur Gauja. Ef við guttarnir vöknum mjög svöng hita ég brauðhleifa í litlum ofni sem er hérna (engin ristavél og brauðhleifarnir, svona eins og litlar langlokur, selt eftir kílóaverði, eins og grænmeti hér, maður þarf að láta vigta það í búðinni), og við fáum okkur smá brauð með marmelaði og brasilískum osti, voða góðum. Svo drífum við okkur á æfingu, löbbum þangað, göngum framhjá uppáhaldskjúklingastaðnum okkar og veifum uppáhaldsþjóninum okkar, köllum „como vai?“ og hann kallar „BEM!!!“ alltaf eiturhress og skælbrosandi þó svo hann sé eflaust enn og aftur að byrja sinn 14 tíma langa vinnudag á lúsalaunum. Æfingin er frábær, ég fíla morgunæfingar betur en kvöldæfingar, bæði eru færri á æfingunni, en svo eru líka færri svört belti á æfingunni, svo það er minna machó-dæmi í gangi, allir bara mættir til að æfa sig og verða betri. Ekki það að svartbeltingarnir séu eitthvað slæmir, það er bara önnur stemming á morgnanna og andrúmsloftið rólegra. Æfingin er til rúmlega tólf, þá töltum við í búðina, kaupum vatn og ávexti, dauðþreytt því þetta er ótrúlega krefjandi sport. Svo erum við bara að dunda okkur, við Gaui stundum að vinna í ketilbjöllunum og því sem þarf að gera tengt Íslandi, förum stundum á ströndina, og í dag fórum við t.d. í leiðangur að kaupa rútumiða til Petrópólis. Okkar langar að fara aðeins inn í land næstu helgi og gamla borgin Petrópolis varð fyrir valinu. Hún er um 60km í burtu og þykir ægifögur, var áður frístaður keisarans og þarna er t.d. að finna kórónu sem hann bar, sett 639 demöntum. Svo langar okkur svo að komast aðeins í göngutúra í náttúrunni, og í Ríó er ekki góð hugmynd að fara í göngutúr hvar sem er. Svo við þráum smá frelsi, svona eins og maður getur gert óhræddur á Íslandi, farið út í óbyggðina og bara klifrað og labbað og leikið sér J Það gekk nú ekki auðveldlega að fá rútumiða til Petrópolis, fæst ekki á ferðaskrifstofum, og fæst ekki í „Barra shopping“ sem er stór Kringla sem okkur var bent á að þeir væru fáanlegir. Við þurfum að fara alla leið niður í miðbæ, í aðalrútumiðstöðina (BSÍ) og kaupa miða. Við ætlum þó bara að fara á miðstöðina snemma á laugardagsmorguninn og kaupa miða, hvort sem það verður til Petrópolis eða bara einhvern stað nálægt sem gæti verið gaman að labba um í og skoða, því rútumiðstöðin þýðir að minnsta kosti klukkutíma strætótúr aðra leið. Nemmum því ekki, ætlum því að taka bara bakpokastemmninguna á þetta, mæta með tannbursta í tösku, taka rútu þangað sem við fáum pláss, og ef við fáum gistingu á staðnum, þá fínt, annars komum við heim seinnipartinn. Bara gaman að komast aðeins út úr borginni og sjá eitthvað annað.
Skrítið að vera svona túristi, þekkja ekki staðinn, vera alltaf eitt spurningamerki og alltaf að sjá eitthvað nýtt. Flestir eru mjög hjálpsamir og vinalegir, en auðvitað er stundum reynt að græða aðeins á túristunum, og því lendum við stundum í. Síðasta miðvikudag, fyrir viku, ætluðum við að skoða Kriststyttuna. Mættum galvösk niður að leigubílaplássinu um þrjúleytið, tilkynnum „Kristos!“ og það kemur svona líka mikið hik á kallana. Þeir þræta og deila og skrifa svo á miða „220“. Þetta er um það bil 180 reals (1 real rúmlega 50kr ísl) meira en við bjuggumst við, svo við vorum nú ekki alveg til í að samþykkja þetta. Þá kom mikil ræða (allt á portúgölsku, svo við skildum auðvitað ekki orð) um styttuna og Sykurtoppinn, og eftir mikið þras skildum við að þetta væri löng leið og þeir vildu taka túristann á þetta, setja okkur í styttuna, bíða og svo koma okkur í kláfinn sem fer upp á Sykurtopp, því þangað fara allir túristar.Við vorum ekki alveg á því, en þeim varð ekki haggað, svo á endanum sögðum við lúpulega „Barra shopping/Kringlan“ því það var plan B, að skoða myndavél sem Viktor var að safna sér fyrir. Okkur fannst þetta frekar lúseralegt, að fara úr „il grande túristó“ yfir í „shopping-mall-bum“ en vorum ekki tilbúin í að borga svona hrikalegt verð. Daginn eftir komum við okkur að styttunni fyrir miklu minni pening, á öruggan hátt og útsýnið var FRÁBÆRT og upplifunin mjög góð. Á myndinni sem er með í dag sjáið þið Arnór og Orra á vespunni hans Ara, en það er frábær maður sem er oft á æfingu með okkur. Hann minnir okkur oft á Maxwell þessi maður, gefur einstaklega mikið af sér og það geislar af honum ró og öryggi. Hann er rosalega góður við strákana, spjallar mikið við þá og kennir þeim góðar teygjur og einhver brögð í BJJ líka. Hér gaf hann guttunum smá túr á vespunni, þeim fannst það nú frekar mikið gaman!!

Svo lendum við stundum í fyndnum hlutum, eins og þegar við vorum í búðinni í gær, vorum komin á kassann, þá pikkar kona í mig og segir: „Talaðu við hana á þýsku!“ skælbrosir og bendir á unglingsstelpu. Svo heyri ég bara „NEI!“, kemur paniksvipur á stelpuna og hún reynir að fela sig á bak við innkaupakerruna. Nú hef ég ekki lært stakt orð í þýsku, en þar sem ég kann heldur ekki portúgölsku, þá gat ég ekki útskýrt að ég væri nú sleipari í frönskunni, nú eða dönskunni, en best væri ég í íslensku.... svo ég brosti bara og kallaði á stelpuna þegar ég borgaði: „Auf wiedersen!“, eins og hver annað þjóðverji.
Svo lenti Gaui nú í því að týna giftingarhringnum. Hann tók hann af sér á æfingu, setti hann í töskuna og síðan hefur ekkert til hans spurst. Hefur líklega dottið úr þegar hann hefur tekið gallann upp úr eftir æfingu. Við höfum leitað mikið, og Gaui er nú frekar leiður yfir þessu. Tilkynnti mér að hann myndi bara fá sér tatto í staðinn, hafa nafnið mitt í því. Ég stakk upp á að setja það á ennið, en hef ekki fengið svör. Viktor kom líka með uppástungu, við erum svo hjálpleg í þessari fjölskyldu. Hann bauðst til að gefa pabba sínum hringinn sem hann fann í Kjósinni fyrir nokkrum árum. Það er þessi fíni giftingarhringur, við reyndum mikið en fundum ekki raunverulegan eiganda, svo þessi hringur er ennþá í Viktors eign. Gauja fannst þetta vel boðið, en hefur ekki þegið ennþá. Finnst það spila rullu að inni í hringnum standi „þinn Þorsteinn“.

Sunday, February 1, 2009

Svona er sólarlagið hérna!!


Sólarlagið í gærkvöldi var magnþrungið. Látum bara myndina tala sjálfa, en hún versnar nú ekki við að hafa svona fjallmyndarlega Íslendinga í forgrunni!! Gaui er að heilsa þarna að Gracie Barra sið, svona gera allir töffararnir þegar þeir koma inn á æfingu, takið eftir hendinni. Og ef þið rýnið enn betur í myndina, og hlustið vel, því ég er að hvísla... "þá sjáið þið að Viktor fer að ná pabba í hæð....."

Guttar í glímu


Guttarnir eru á barna-bjj æfingum tvö kvöld í viku, en svo fá þeir nú stundum aukakennslu í leiðinni, því þeir eru náttúrulega alltaf með okkur á æfingu. Hér eru þeir Viktor og Orri að æfa bragð þar sem Orri nær að læsa hæ olnboga Viktors í óþægilega stöðu (reyndar af því Viktor leyfir það, því Orri á að æfa sig), svo hann gefst upp. Held að þetta bragð heiti Americana.. Arnór brosir í myndavél á meðan, sætur!! Klúbburinn heitir Gracie Barra, eða Gracie Baha, því r er borið fram eins og h. Pælið í því, Río er sem sagt ekkert Río, heldur Hío!

Cristo Redentor


Við fórum síðasta fimmtudag að sjá Kriststyttuna, sem vakir yfir Ríó. Við vorum búin að vera hér í tvær vikur og frúin var orðin ansi hreint langeyg eftir smá sightseeing. Gaui er svo mikill karl í sér, hann fílar svo vel þetta einfalda líf, að æfa, borða, sofa, að ég þurfti að gefa honum rækilegt spark í rassinn til að drífa hann í skoðunarferð. Honum finnst auðvitað gaman að skoða og sjá fallega hluti, en einhvernvegin var hann pooooollllllrólegur yfir þessu. Maxwell hefur útskýrt þetta þannig að BJJ (eða Brazilian Jiujitsu) sé "a jealous girlfriend, that doesn´t leave energy for anything elsa" hehe. Og það er svo sem rétt, við erum gersamlega búin á því stundum, þérstaklega ef við höfum farið bæði á morgun- og kvöldæfingar. En það var frábært að sjá styttuna. Hún er 30 metra há, og þvílíkt þrekvirki það hefur verið að byggja hana, koma byggingarefninu þarna upp. Hún var kláruð 1931, 9 árum á eftir áætlun. Hún er glæsileg!! Svo inni í henni, eða inni í stallinum réttara sagt, er lítil kapella, þar sem fólk var að syngja og hljóta blessun prestsins. Þetta var ansi magical :) Þið sjáið glitta í styttuna efst á fjallinu.

Orri litli var ánægður með þetta


Hluti af útsýninu


Og famillian undir styttunni


Gaui að plana


Við fundum bók um Suður-Ameríku, svona Rough guide bók, og sitjum á svölunum okkar á kvöldin og plönum framhaldið. Næst förum við að Igazu-fossunum, gistum þar líklega tvær nætur eða meira, Argentínumegin. Vitum ekki hvort við fáum íbúðina hérna yfir Karnival, svo annað hvort tökum við rútu til fossanna kringum miðjan feb, eða um viku seinna.

Fáklætt fólk


Svona er yfirleitt klæðnaður á fólki hérna. Konan er þó helst til mikið klædd. Það er mjög algengt og mér finnst það samt ennþá mjög fyndið að sjá karlana koma brunandi á stóra bílnum sínum, leggja bílnum þungir í brúnum og stökkva svo út í speedó-skýlu einni fata!!

Gaui að skokka..


Síðustu vikuna hefur verið frekar rólegt á ströndinni, enda ansi oft rigning og rok. Einn af þessum dögum fór Gaui að skokka, það er ótrúlegt hvað það er ERFITT að skokka í sandi!!!