Tuesday, October 28, 2008

Skipsflak séð úr kafbát!


Þá er þessi vika með mömmu í heimsókn liðin, við vorum að keyra hana út á flugvöll áðan og hún líklega komin í háloftin núna og verður þar næstu 8 klukkutímana eða svo. Þá hefur hún um fjóra tíma til að fara milli flugvalla í London og þar tekur næsta flug við, um 3 tímar. Mikið á sig lagt fyrir einkadótturina, sem betur fer, það var alveg frábært að fá hana. Eina kvörtunin er að tíminn leið ALLT of hratt. Við gerðum heilmargt með henni og vonandi fékk hún góða sýn á Barbados. Ég man þegar ég var að æfa mig að keyra hér, með hjartað í brókunum og andilitið á rúðunni í þessari vinstri umferð, þá hugsaði ég "vá, hvað ég hlakka til þegar mamma kemur í lok okt, þá verð ég orðin vön því að keyra í þessu brjálæði og farin að rata jafnvel!". Og viti menn, það stemmir bara alveg. Mamma var svo gjörsamlega áttavillt og einu sinni þegar ég bauð henni hvort hún vildi prófa að keyra kom mjög hátt og snöggt "NEI!!!!" hehe. Ég er sem sagt bæði farin að rata hérna, svona líka helv... vel, og líka orðin vön að keyra vinstra megin. Meira að segja farin að labba ósjálfrátt að hægri hliðinni á bílnum þegar ég ætla í bílstjórasætið, og þarf ekki að labba allan hringinn!


En eins og ég segi, þá gerðum við ansi margt skemmtilegt með ömmu D. Það sem stendur uppúr er örugglega kafbáturinn og "Ocean park" sem er sjávardýragarður. Ekkert okkar hafði áður prófað að fara í alvöru kafbát og við vorum ansi spennt að prófa það. Það var siglt með okkur út í bátinn, tók nokkrar mínútur. Á meðan var alveg hreint eiturhress guide að halda ræðu yfir okkur, talandi um björgunarvesti, súrefnisgrímur og björgunarleiðangra. Talandi um að það væru reyndar ekki nógu mörg vesti fyrir alla, "only the strongest survive" HAHAHAHA og okkur stökk varla bros. Grey kallinn. En svo förum við niður í kafbátinn, löbbum afturábak niður mjóan stiga, rosa fílingur í þessu, kafbáturinn mjór og langur. Allir fengu sæti og það voru kringlóttir gluggar meðfram báðum hliðunum svo maður sá rosalega vel. Svo er bara lokað, og við mörrum þarna í hálfu kafi, heillengi, líklega verið að ganga frá öllu, tekur smá tíma. En Gaui sagði mér eftir á að hann hefði verið MJÖG nálægt því að standa upp og brjálast. Taka svona "hleypið mér út, ég fer ekki niður" og berja allt og alla. Hann þjáist af nettri innilokunnarkennd, en ég tók ekki í mál að hann kæmi ekki með, híhí. Hræðslan við að vera slæm fyrirmynd fyrir börnin sem voru um borð, var innilokunnarkenndinni yfirsterkari og hann náði að fókusera á lífið sem var fyrir utan gluggana. Sem betur fer, því þetta er sko annar heimur þarna niðri og hann hefði ekki viljað missa af þessu. Við byrjuðum á að sigla eiginlega alveg niður á botn, 120 fet, sem er um 40 metrar, og sigldum þar í kringum skipsflak, meðan þeir spiluðu Titanic-lagið. Það var frekar fyndið. En vá, hvað þetta var gaman. Það var allt morandi í fiskum, þeir synda mikið í hópum, og við sáum milljón tegundir og milljón fiska!! Ekki að ýkja. Skipsflakið hefur legið í sjónum í 30 ár og á skipinu eru byrjaðir að vaxa kórallar, sem eru orðnir (ef ég skildi guidinn rétt) 3 cm langir. Hann sagði okkur að það tekur sem sagt kóralla 10 ár að vaxa 1 cm! Og þarna voru kórallar sem voru hátt í 1 meters langir, hrikalega flottir. Allt gekk þetta sem sagt vel, þrátt fyrir smá spenning hjá okkur að fara svona á hafsbotn í fyrsta sinn, og þetta er klárlega eitthvað sem ég vona að ég eigi eftir að gera aftur. Það hlýtur líka að vera alveg einstök upplifun að prófa að kafa. Kannski þori ég því einhverntíma, þegar ég verð stór :)


Svo fórum við í Ocean park í gær. Þar vorum við eiginlega ein með garðinn, það er mjög lítið komið af túristum svona miðað við það sem við getum búist við. Og í garðinum eru alls konar fiskar í tjörnum, búrum og risabúrum. Við sáum t.d. pírana-fiska og gaurinn sem var að gefa þeim stakk handleggnum ofan í búrið til að sýna okkur að þeir stökkva ekkert á allt sem hreyfist.. Þeim myndu víst éta fingurinn ef hann stingi honum niður, en ekki heilan handlegg meðan hann hreyfði hann. Þeir eru nefninlega hræætur, og eru eins og ræstingmenn Amason-fljótsins. Svo voru þarna litlar tjarnir með tveimur litlum hákörlum (70-80 cm langir) og svo slatta af stórum gullfiskum og einhverjum svörtum fiskum. Og í þeirri tjörn voru hákarlarnir með ákveðið hlutverk, sem var bara að halda fjölda hinna fiskanna í skefjum! Þeir "maka sig" víst stanslaust (veit ekki hvað "hitt" kallast hjá fiskum), og úr verða óendanlega mörg síli og ef hákarlarnir væru ekki í tjörninni, þá væri mjög fljótt orðið stútfullt. Hmm..

Svo var risastórt búr með stærri hákörlum og stórum fiskum og þar sáum við líka þegar þeim var gefið. Þá sagði gaurinn sem gaf þeim okkur frá því, að það er ekki sjéns fyrir þá að sleppa hákörlunum í sjóinn núna, því þeir eru orðnir svo mannelskir. Hann fer sem sagt þrisvar í viku í köfunnarleiðangur ofan í búrið til að þrífa það, og þá koma hákarlarnir á fullri ferð til hans, ekki til að ráðast á hann, heldur til að láta klóra sér á maganum!!! Og það sem myndi gerast ef þeim yrði sleppt lausum væri sem sagt að þeir myndu sækja í strandirnar þar sem fólkið er, í von um magaklór! Vinsælt!


Svo fengum við að gefa skötunum!! Þetta voru "sting rays" sem eru sama tegund og sem drap Steve Irwin, krókodílamanninn. Og mér var nú ekki alveg sama þegar sá sem var að gefa þeim óð bara út í tjörnina (reyndar í sundskóm). Hann gaf skýringu á sundskónum, en hún var að sköturnar narta í tærnar á honum, því þær eru forvitnar og félagslyndar. Það sýndi sig síðan að þær eru meira en það, þær eru frekar!! Þegar matartíminn var að nálgast og bakkinn með þessum líka subbulega smokkfiski kominn nálægt þeim (mömmu fannst smokkfiskurinn ekkert subbulegur, sagði "það vantar bara rúgbrauð og snafs, þá er þetta eðal-frokost!!") og þá byrjuðu þær að synda að bakkanum og setja annan "vænginn" upp á bakkann og slá frekjulega með honum, svo það skvettust vatnsgusur yfir okkur, híhí. Þær stærstu voru frekastar. Svo byrjaði hann að gefa þeim, setti hendina niður í vatnið og laumaði einhvernvegin smokkfisknum undir þær og þær sugu hann upp. ....og auðvitað fengum við að prófa að gefa þeim!! Strákarnir og Gaui voru ekki lengi að rífa sig úr skónum og stilla sér á þrepið sem þeir áttu að standa, og svo bara sá maður stungusköturnar synda til þeirra á leifturhraða, með broddinn sinn á eftir sér og mamman með hjartað í bróknunum enn og aftur!!! Gaurinn sem var að gefa þeim kenndi okkur aðeins um sköturnar, þær stinga sem sagt bara í ýtrustu neyð, bara þegar þeim er ógnað og það gerist auðvitað stundum óvart hér við strendurnar, því þær grafa sig í sandinn nálægt landi og þegar maður skundar út í sjóinn, þá er stundum stigið óvart á skötu. Ráðið til að verjast þessu er að labba alltaf rólega út í sjó og nota skautahreyfingu til að vara þær við. Og ef maður er svo óheppinn að fá brodd í sig, þá má maður ALLS EKKI fjarlægja hann, því þá fær maður eitrið í sig. Maður á sem sagt að tölta í rólegheitunum upp á strönd aftur með broddinn út í loftið, hóa á sjúkrabíl og láta lakknana fjarlægja þetta á spítala. Krefst auðvitað hrikalegrar sjálfstjórnar, en borgar sig.


Svo sem sagt er amma Dóra farin til Íslands, þessi stutta en frábæra heimsókn búin og mikið var þetta gaman. Strákarnir eru pínulítið áttavilltir eftir að amma fór, eru strax að skrifa bréf til hennar og spyrja mikið um hvenær við sjáum hana næst, og satt best að segja þá bara veit ég það ekki. Ég vona að það verði fyrr en síðar, hún er svo frábær. Kannski kemur hún aftur að hitta okkur í ferðinni, hver veit hvar eða hvenær, en kannski hittum við hana á Íslandinu góða. Vona samt að það verði fyrr. Vil eiginlega ekki einblína á hvenær við hittum hana næst, betra að hugsa bara um það, hvað var gaman að hafa hana núna. Arnór sagði svo áðan "nú skil ég af hverju það er svona mikilvægt að eiga góða ættingja" og ég spurði "já, af hverju segirði það?" og hann sagði "nú, af því amma Dóra er svo góð, það er svo gott að vera með henni, manni líður svo vel þá".


Úff, nú er Gaui að borða súpu sem hann fékk smagspröve af frá Sheilu, konunni sem leigir okkur. Súpan er afskaplega ólystug svo ekki sé meira sagt, "kjúklingafótasúpa". Það eru sem sagt notaðar lappirnar af kjúllunum (við eru ekki að tala um lærin eða leggina, heldur gulu stangirnar sem þessi dýr labba á..) og svo ýmislegt grænmeti eins og sætar kartöflur, gulrætur og svoleiðis. Ég spurði hana vongóð þegar hún var að lýsa þessu "ok, so you don´t actually eat the chicken feet, you just use it for flavoring..?" "oh, no, no, we eat the feet" svaraði hún hress og kát, bætti svo við alvarleg "but we spit out the clawes..". Oj, oj, oj, en eins og Gaui segir þegar hann borðar svona dótarí: "Vala, þetta er bara state of mind". Uhmmm.... ég þroskast kannski einhverntíma með þetta. Ég veit ekki hvort ég nái þeim þroska að borða kjúklingalappir og spýta út úr mér klónum.... en hver veit..

Monday, October 27, 2008

Viktor Gauti 12 ára!!


Í dag er stórmerkilegur dagur, 27. október og frumburðurinn, sjálfur Viktor Gauti er 12 ára gamall. Hann var vakinn með söng og kakói í rúmið, var svo settur í mikla leit að gjöfum með hinum og þessum vísbendingum. Þurfti öðru hvoru að gera mismunandi æfingar eins og 5 armbeygjur, 5 hindu og standa á höndum, en hann fór létt með það (ömmu Dóru fannst þetta ansi hart að gera "barninu" þetta, þar til hún heyrði að Viktor hefði gert nákvæmlega það sama við pabba sinn þegar hann átti afmæli 21. sept). Í gær tók hann brekkuna með pabba sínum, í fjórða sinn og í fjórða sinn bætti hann tímann sinn, er núna kominn undir 9 mínútur. Það var líka ansi gaman, að hann lagði af stað aðeins á undan Gauja, sem þurfti að læsa bílnum. En Gaui hefur alltaf hingað til náð guttanum ofarlega í brekkunni, en ekki í þetta sinn. Viktor kíkti öðru hvoru tilbaka, til að tjékka á hvar kallinn væri, og ef hann var of nálægt, þá gaf hann bara aðeins í og jók bilið! Gaui náði honum ekki í þetta sinn, og er þetta kannski fyrirboði um það sem koma skal.. er strákurinn að verða stærri, sterkari OG fljótari en við..?!? Bara 12 ára? Hvar endar þetta?? :) Til hamingju gullmoli!!

Saturday, October 25, 2008

Planið í dag!


Þessi fallegi hákarl er vonandi ekki fyrirheit um hvað við munum sjá eftir tvo tíma, en þá erum við að fara í kafbátaferð! Kafbátaferð er nokkuð sem er vinsælt hér hjá túristunum, fólk fer að skoða kóralrifin og sokkin skip og þetta er eitt af því sem við höfum geymt þar til við fengjum gesti til að taka með í þetta. Og nú er fyrsti íslenski gesturinn kominn, hún mamma er í heimsókn og þó hún teljist nú seint ævintýramanneskja, þá fær hún að koma með okkur í kafbátaferð :)))


Það er frábært að hafa mömmu hérna, hún stendur sig eins og hetja í hitanum, en þó svo allar fræðikenningar segi að hitinn eigi að vera farinn að minnka hér, þá er bara hitinn ekki sammála og ennþá er bara steikjandi heitt. Við fórum að sækja mömmu á flugvöllinn á þriðjudaginn síðasta, biðum úti (maður má ekki fara inn í bygginguna, bíður bara fyrir utan, enda aldrei slabb og slydda að komast inn úr..). Biðin eftir henni var löng og við fengum útskýringu á því. Fyrst var það klukkutíma löng biðröð til að komast í gegnum passa-skoðun. Þar er fólk sko ekkert að flýta sér, allir spurðir eins og í Bandaríkjunum, hvað á að gera hér, hversu lengi ætlar það að vera og allt það. Svo var það nú þannig að mamma var með barnabílsessuna fyrir okkur (sessa með baki, létt, en dálítið fyrirferðamikið) og vegna þess var hún tekin í "spes viðtal". Það að sextug kona, ein á ferð, væri með slíkan farangur fannst þeim frekar dúbíus! Svo hún var spurð spjörunum úr og eftir að hafa fengið skýr svör um hvers vegna hún væri með þetta með sér, klykktu þeir út með því sem þá grunaði allan tímann: "Are you going to sell it, mam!!!?" eins og konan væri með barnasessu sem færi á markaðsvirði kókaíns. Nú jæja, hún komst í gegn, þrælaði sér með farangurinn út að hurðinni (hún var með 13 kíló í yfirvigt, enda mikið af yndislegum sendingum að heiman fyrir okkur :) Strákarnir hlupu inn til að knúsa hana og hjálpuðu henni svo með farangurinn út til mín. Ég hef ALDREI séð múttu svona þreytta áður, og mun líklega aldrei gleyma svipnum á henni þegar hún gekk út úr loftkælda flugvellinum, svo örþreytt, á móti hitaveggnum á "Paradísareyjunni" hehe. Og hún hefur líklega aldrei verið jafnglöð að komast inn í loftkældan bíl áður. En þetta er allt að venjast hjá henni, og þegar hitinn verður of mikill fyrir hana, þá sest hún aðeins inn í herbergið sitt og setur loftkælinguna af stað. Yfirleitt fær hún nú ekki að vera lengi ein þar inni, einhver strákanna er kominn ýmist til að lesa, spila eða spjalla, en það er bara huggulegt.


Tíminn líður allt of hratt með henni hér, við höfum aðeins farið í Bridgetown, dropasteinshellinn, út að borða á Brown Sugar og á safn með sögu Barbados. Rosa gaman að taka túristann á þetta, og núna á eftir erum við sem sagt að fara í kafbát að skoða djúp hafsins í kring. Úúúúúúúíííí! Vonandi hittum við ekki hákarl, eða jú, vonandi hittum við hákarl, eða nei.... eða jú.. veit ekki.

Sunday, October 19, 2008

Partý!! ..og ljót tá..


Tánöglin er loksins dottin af hjá Gauja og hann þorir aftur í sjóinn. Hann hefur alveg sleppt sjóböðum síðustu tvær vikurnar, setið eins og píslarvottur í sandinum meðan við kælum okkur í öldunum og skemmtum okkur aðeins of vel. Orri er að verða rosa duglegur í sjónum, í byrjun varð hann alltaf frekar reiður þegar sjórinn kom í andlitið hans, en núna er hann farinn að fatta þetta aðeins og meira að segja farinn að kafa smá til að sjá fiska. Hann er yfirleitt með armkúta og við erum alltaf að minna hann á "beygja-kreppa-sundur-saman". Hann hlustar þolinmóður á rulluna, og syndir svo hundasund. Viktor og Arnór eru eins og selir í sjónum, í dag vorum við á ströndinni næstum tvo tíma, og þeir voru í sjónum ALLAN tímann. Þvílíkir rúsínuputtar þegar þeir komu uppúr. En nöglin á Gauja..., hann er alltaf í sambandi við Maxwell, og sendi honum tölvupóst í fyrradag, "jæja, ég get loksins farið í sjóinn aftur, júhúú, sárið á tánni að gróa.. " og fékk tilbaka "ha, hefur EKKI farið í sjóinn vegna sársins....? Það er einmitt það sem þú ÁTT að gera, setja sárið í saltvatn!!!". Gaui fór næstum því að gráta, hehe, en bara næstum því!


Een, það hlaut að koma að því, okkur var boðið í fyrsta partýið okkar hér á eyjunni í gær... jei!! Helgin er búin að vera góð, við höfum haft þó nokkra sól og það er búið að vera heitt. Bajanar tala um að þetta sé heitasta ár sem þeir muna í langan tíma, því í raun eigi samkvæmt venju að vera byrjað að kólna í október. September á að vera sá heitasti, en eitthvað virðist þetta að breytast og hitinn dregst fram í október þessi árin. Við finnum það samt klárlega að sjórinn er farinn að kólna pínu, ekkert sem hægt er að kvarta yfir, sérstaklega þegar maður hugsar til sjóbaðanna heima, þar sem maður gekk reifur og kátur yfir stórgrýtið eftir ískalda sjósundið, því maður var orðinn tilfinnalaus í iljunum.... Við byrjuðum helgina á æfingum, Gaui fór með Arnór á fótboltaæfingu og tók æfingu sjálfur á meðan hann beið, enda tveggja tíma æfingar hjá guttunum. Ég vaknaði í rólegheitum með Viktori og Orra, og eftir morgunmat settist ég á sólbekk, bláan og gamlan hér fyrir utan meðan ég melti það mesta. Er að lesa svo skemmtilegar bækur sem ég fæ lánaðar á bókasafninu í Holetown. Það er pínkuponkulítið bókasafn sem er opið milli hálfellefu og eitt, og svo aftur milli tvö og fimm á daginn. Það er ekki tölvukerfi hjá þeim, ég spurði t.d. eftir mikla leit hvort það væru til barnabækur um eðlur, þá tölti hún pollróleg sjálf framfyrir skrifborðið, kíkti í hillurnar, leitaði lengi, og tilkynnti svo "no". Ef það er ekki inni, er það ekki til :) Við höfum farið núna reglulega einu sinni í viku og erum farin að kynnast starfsfólkinu á safninu.. öllum tveimur. Það vinnur þarna maður, hann sagði við mig í síðustu viku þegar við komum, "you had a big loss last week!" ég hélt náttúrulega að hann væri að tala um kreppuna á fjármálamörkuðum, hrun bankanna, Iceland on its knees.. og allt það, byrjaði "yes, it´s terrible, but we will get over it, we are figthers, a nation of fishermen, used to the hard life.." Nei þá var það fótboltinn.. við töpuðum fyrir Hollandi. Ég minnti hann stolt á að við unnum nú Makedóníu, honum fannst það nú lítið afrek.


Allavega, ég slakaði á þennan laugardagsmorgun á bláa eldgamla sólbekknum, þar til ég gat ekki meir og skellti mér þá í æfingu. Ég rúlla út handklæðum á bílaplanið, elti sólina eins og sönnum Íslendingi sæmir (þó það skilji mann næstum meðvitundarlausan eftir), og tók hindu squats, hindu push ups, hack squats með iranian armbeygjum og hoppi og ýmislegt fleira. Það svoleiðis lak af mér svitinn, ógeðslega gott og gaman. Við erum búin að finna steypustólpa frá girðingu, í hana er fastur járnbiti sem við getum náð taki á, og með þessum stólpa swingum við. Hann er örugglega milli 25 og 30 kíló, og gripið ekki beint ergonomískt, en samt er rosa gaman að swinga aftur :) Nágranninn fyrir ofan, hann Armstrong, var aðeins að fylgjast með mér frá svölunum, hann var með gest sem er búinn að vera í nokkra daga, stór, kolsvart tröll með sólgleraugu. Þeir kíktu öðru hvoru á mig, veifuðu aðeins og drukku kaffið sitt. Svo komu Gaui og Arnór heim, og við fórum fljótlega á St. Gabriels school festival. Það er árleg fjársöfnum skólans sem mjög margir af æfingafélögum Arnórs eru í. Það var matarsala, alls konar keppnir, andlitsmálning og bara almenn kátína í gangi. Við hittum foreldra sem við höfum aðeins spjallað við á æfingum (rosalegt hvað maður kynnist mikið öðru fólki í gegnum starf barnanna), það var smá bjór sötraður, meðan guttarnir eyddu peningunum okkar í draslmat, gos og fleira... þarf ekki að taka það fram að brosið náði hringinn! Svo fórum við heim og þegar heim er komið er bara allt logandi í stuði á efri hæðinni. Nágranninn, hann Armstrong bara með partý! Hann Arnstrong er alveg frábær kall, hann er eitthvað milli 30 og 40 ára, vinnur hjá Sameinuðu þjóðunum, er frá St. Lucia, sem er næsta eyja, á kærustu sem býr þar, en hann býr einn hér. Yfirleitt heyrist lítið í honum og hann vinnur mikið, en síðustu daga hefur hann verið með vin í heimsókn (tröllið sem veifaði mér af svölunum) og þegar þeir tala saman, þá er bara eins og heilt fótboltalið sé í upphitun fyrir bikarúrslitaleik, lætin eru þvílík. Allt í góðu alltaf, hlátur öðru hvoru, en mjög fyndið að heyra þetta hingað niður. Líður eins og dauðyfli, að tala svona lágt hérna heima, þegar ég heyri í þeim uppi. Hef líka stundum (í mestu látunum) velt því fyrir mér hvort ég myndi geta þekkt vininn í line-uppi, svona EF Armstrong fyndist nú myrtur og vinurinn væri grunaður.. en það er bara þegar samræður þeirra hafa snúist um Obama og Mccain. Þeir eru sammála reyndar, vilja báðir Obama, en það er bara svo gaman að tala um kosningarnar AÐ ÞAÐ VERÐUR BARA ALLT BRJÁLAÐ... ÞÓ VIÐ SÉUM BARA TVEIR!!!!!!!!!!!!!!!!! Og þegar við komum sem sagt heim í gær um sexleytið hékk Armstrong yfir handriðið og bauð okkur upp í súpu! Við sáum svaka partý í gangi, en okkur var boðið í súpu, ekta St. Lucian súpu, hann væri með nokkra vini frá heimaeyjunni sinni í heimsókn og vildi bjóða okkur. Auðvitað vorum við til, guttarnir fóru inn til okkar og voru mjög fegnir að komast heim og sleppa við meira socializing, svo við töltum upp, spennt að vita hvernig þetta yrði, eina hvíta fólkið auðvitað, en við erum farin að venjast því, fólk er bara fólk. Útlitið á súpunni hins vegar minnti ansi mikið á baunasúpuna heima, nema að þetta var svínahalasúpa :)))) og það vantaði sko ekki svínahalana, ónei. Gaui japlaði á nokkrum. Mér tókst sem betur fer að taka ausuna úr höndum Gauja þegar hann ætlaði að skammta mér, hann er svona "fáum sem flesta bita!-kall", meðan ég er sátt við bara vökvann, allavega meðan ég tjékka á bragðinu. Arnstrong var búinn að vara okkur við að hún væri ansi sölt, en svei mér þá ég fann bara ekki einn einasta saltpunkt í henni og hefði saltað hana ef ég hefði fundið dunkinn. Það eina sem ég þekkti í súpunni voru jams (sterakartöflurnar góðu) og svo svínahalarnir. Veit ekki hvað hitt var, en súpan var góð. Og þetta var sniðugt partý! Það byrjaði greinilega um fjögur-fimmleytið, romm á borðið og bjór í í kæli, og svo auðvitað súpan. Svo er fólk bara að spjalla og borða til svona sex-sjö. Þá var bara skjávarpinn tekinn fram og tónlist og vídeó sett af stað, og fólk var byrjað að dansa og syngja. Þá fórum við nú niður, södd og sæl og dauðþreytt í hausnum, hehe, eftir að reyna að halda upp samræðum á Bajan-ensku í BRJÁLAÐRI TÓNLIST. Nú partýið hélt áfram, rosaleg tónlist og SVAKALEGA HÁVÆRAR SAMRÆÐUR til ca. tíu. Þá slökkti nú tillitssami Armstrong á tónlistinni, en ég sver það, að það var voðalega lítill munur. Fólkið talar svo hátt, að það er bara fyndið, er eins og að hafa tuttugu Eika í sömu stofu. Og þau töluðu til ca. eitt eða tvö, allt í góðu, maðurinn hefur eiginlega aldrei gesti, en þetta var eins og það væri standandi rifrildi fyrir ofan okkur frá sex til tvö í nótt, híhí. Þetta var algert snilldarbragð, að bjóða okkur í súpuna og við hittum liðið og erum þar af leiðandi miklu sáttari við partýið og lætin. Var bara ekkert mál og við ætlum að gera þetta næst þegar við höldum partý heima ;)


Tónlistin hérna er kafli út af fyrir sig. Við hlustum soldið á útvarpið hér, en það getur orðið of mikið jafnvel fyrir mig. Þeir eru alveg hreint brjálæðislega væmnir í tónlistarsmekk hérna, það er Michel Bolton, Lionel Ritchie, Witney Houston, Mariah Carey og ég veit ekki hvað og hvað.. á öllum stöðvum nema einni, þar er hipp hopp. Gaui talar um að þetta geti verið hættulegt fyrir testósterónlevellið. Maxwell sagði okkur í sumar að það væri búið að sanna það að þegar strákar og menn horfa á stríðsmyndir og bardagamyndir auki það testósterónmagnið í líkamanum og geri þá þar af leiðandi að "meiri mönnum" (lesist með dimmri röddu), meðan ástarsögur og ég tala nú ekki um "romantic comedy" komi testóinu í hættulega lág gildi. Hmmm. við viljum það ekki, svo við hlustum mikið á geisladiska í bílnum, því væmin lög eru á sama lista og rómantískar gamanmyndir :) Eina rokkið sem við heyrum er í ipodunum okkar, og það reddar alveg æfingunum, því get ég lofað! Mann myndi bara langa að gráta ef maður æfir með Lionel Ritchie. Taka tvær armbeygjur og enda bara í fósturstellingu snöktandi.

Tuesday, October 14, 2008

Mestu rigningar í 20 ár!

Í dag var sett met í rigningu hér á Barbados. Það byrjaði með þrusu þrumuveðri, en við erum orðin ansi vön þeim og létum það ekki trufla okkur við námið. Svo bara hélt áfram að rigna, og öðru hvoru þrumuveður og þannig var það bara í marga klukkutíma. Við tókum videó, settum það hér á, þar er mynd af garðinum okkar og hvernig hann leit út í dag. Allt orðið eðlilegt núna.

Vegurinn sem við keyrum venjulega í bæinn og æfingar fór í sundur og við sáum það í fréttunum að það eru þó nokkur hús sem vatnið náði að flæða inn í. Við erum sem betur fer hátt uppi á hæð, svo það rennur allt vatnið í burtu frá okkur. Okkur finnst þetta rosa gaman þegar svona rigning og þrumuveður kemur, en íbúum finnst þetta lítið gaman, enda fara vegirnir ansi illa á þessu. Vatnið virðist bara tæta malbikið upp eins og drullu, verður allt út í sprungum.

Það sem er merkilegt er að það er vatnsskortur á Barbados (ekki alvarlegur) þrátt fyrir alla þessa rigningu og heimamenn eru fúlir út í sjálfa sig fyrir að hleypa öllum lítrunum sem streyma niður af himnum beint út í sjó í stað þess að safna vatninu í geyma og nýta það betur. Sáum ráðherra í ríkisstjórninni einmitt tala um þetta í fréttum áðan. Spurning hvort við göngum ekki bara í málið?

En jæja, allt gott að frétta og allir hressir og kátir og telja dagana þar til amma Dóra kemur!!!!!

Og svona er maður flottur..


núna, eftir að pabbi snoðaði hárið af og þetta er sko MIKLU þægilegra :)


En stóra spurningin, hverjum er ég líkur? Ha, Halla á Svanshóli.. hvern minni ég á? :)

Svona var maður...


áður en hitinn fór að fara mikið í taugarnar á manni!!

Sunday, October 12, 2008

Miló api og fjallgangan gríðarlega


Við höfum verið frekar heimakær síðustu vikur þar sem gengið var að stríða íslensku krónunni og við ekki alveg búin að finna jörðina aftur í þessu. Þegar dollarinn var sem hæstur kostaði cerios-pakkinn um 13oo kall, svona til að gefa ykkur smá mynd af þessu. Á tímabili fannst mér bara eins og við gætum ekki hreyft okkur án þessa að það kostaði tuttuguþúsund kall, en ég hef líka alltaf verið dramadrottning. Ekki það að við viljum væla, enda brugðumst við bara við þessu.

Við höfum t.d. sett okkur betur inn í það grænmeti sem er "in season" og kaupum það á mörkuðum en ekki í súpermörkuðum. Við erum komin með okkar eigin grænmetisstelpu sem við förum til, hún er búttuð og hlýleg, ca. 30 ára bóndastelpa með skjannahvítar tennur, dökkbrúnan hörundslit og risastórt bros. Hún er með þennan fína sölubás í Speigtstown og hún kennir okkur hvað allt þetta skrítna grænmeti heitir sem við sjáum hjá henni og segir okkur hvernig við eigum að elda það. Við erum orðin algerir "jam-aðdáendur", það eru stórir hvítir rótarávextir sem eru soðnir eins og kartöflur og það er bara svakalegt hvað maður verður saddur af þessum sterakartöflum. Ég kalla þær það, því þær eru eins og kartöflur á sterum, ca. 5 kílóa kartafla, fást bæði gular og hvítar. Svo eru það "ojstens" sem ég hef ekki hugmynd um hvernig maður skrifar, er víst hrikalega gott og maður sýður það í smá stund og borðar svo. Svo eru það stönglar sem eru eins maisstönglar, bara grænir og með bólur. Þeir eru víst beiskir á bragðið, maður steikir þá á pönnu, og hún varaði okkur við, "steikið þá fyrst og smakkið ÁÐUR en þið setjið þá út í matinn. Eigum eftir að gera það :) Svo gefur hún okkur alltaf eitthvað aðeins í lokin, gaf Orra stóra vatnsmelónusneið um daginn, og gaf okkur nokkur "golden apples" síðast. Það eru epli sem vaxa hér, eru eins og lítil, súr og fersk mangó, rosa góð. Og við eigum eftir að prófa ýmislegt af þessu sem er í boði, galdurinn er að kaupa það sem er "in season" því það er ódýrast, allt annað, sem er ekki in season er sem sagt aðflutt og þeim mun dýrara fyrir vikið. Þannig að þetta er ekkert neikvætt að þurfa að gæta peninganna.


Við fórum í smá ferð í dag, ákváðum að taka nú daginn útivið og stefndum hvorki neira né minna en á hæsta tind eyjunnar, Mount Hillaby. Fyndið þegar maður kemur úr svona allt annarri menningu, þá mætir maður í verkefnið með ákveðnar myndir í huga sem maður býst við að sjá. Ég t.d. bjóst við einhverskonar bílastæði, þar sem væru leiðbeiningar um gönguleiðina á toppinn og svo kannski útsýnispalli þar sem hægt væri að dást að útsýni yfir eyjuna. Það stóð nú í bókinni að frá toppinum væri einstakt útsýni yfir suður, norður og austurhluta eyjunnar. Svo við vorum spennt og í góðu skónum, engir sandalar í fjallgöngu takk fyrir..... allavega, eins og með margt annað hér í Karabískahafinu, þá sýndi það sig enn einu sinni að það þýðir bara ekkert að hafa fyrirfram myndaðar væntingar. Ó nei. Í fyrsta lagi, þá keyrðum við um í villu og svíma í að minnsta kosti klukkutíma áður en við fundum afleggjarann að fjallinu. Endalausir litlir vegir þar sem alls staðar eru hús og kofar og bárujárnsgirðingar og geitur (sem Gaui segir að séu kindur kallaðar "black sheep") og alls staðar og ég meina alls staðar karlar, konur og krakkar á rölti eða sitjandi á stólum við veginn, eða sitjandi við húsin sín að horfa á ég veit ekki hvað. Jæja, við fundum svo loksins þorpið Hillaby, og þaðan afleggjarann að "fjallinu" (343 metrar). Og við keyrðum og við keyrðum, og vegurinn varð verri og svo vorum við komin upp á topp! Í bílnum! Og toppurinn var sem sagt innkeyrsla að kofa, þar sem hundur var í bandi fyrir utan, fólk inni að spjalla og bara tré alls staðar, svo við sáum ekki neitt!! Einstakt útsýni, já, inn á milli trjánna, með því að standa á tám eða laumast inn á private property þrátt fyrir brjálað hundagelt. Þetta var ekki alveg Esjan svona skipulagslega séð, verð að viðurkenna það, en milli laufblaðanna var óskaplega fallegt útsýni, hehe. Það eina sem strákarnir sögðu um þetta var "ertekki með nesti mamma?"


Reyndar sá ég í fyrsta sinn á ævinni avókadotré í þessari fjallkeyrslu. Hafði hreinlega ekki kveikt á því að avókato yxi á trjám, en það segir kannski bara eitthvað um minn einfaldleika. Við fórum náttúrulega í það að reyna að ná í avókadó, með falli krónunnar er kílóverðið á þessum ávexti komið upp í 300 þúsund kall eða svo. Og Gaui tók körfuboltahoppið sitt fræga, dugði ekki. Tók þá Viktor í skeifutak ( lét hann stíga í hendina), gekk ekki, hélt þá á Arnóri sem teygði sig, gekk ekki. Það var ekki fyrr en hann tók dramadrottninguna sjálfa á háhest (ég skal aldrei aftur gera grín að börnum sem þora ekki á háhest) og mér tókst að teygja mig í það sem mér fannst vera forboðni ávöxturinn. Yeeees!! Náðum einum. Hann er reyndar pínulítið ormétinn, og óþroskaður, en við tókum hann sko með heim!


Svo eftir þessa skrítnu fjallgöngu fórum við á austurströndina og settumst aðeins í fjöruna og borðuðum nestið, og lékum okkur hjá öldunum, vá hvað þær eru stórar og flottar. Það er alltaf jafnmerkilegt fyrir mér, hversu mikill munur er á austur- og vesturströndinni. Austanmegin er Atlandshafið og vestanmegin er Karabíska hafið. Og þetta er bara svakalega ólíkt. Atlandshafið er svo hrátt, rosaleg undiralda, hávært, skellur á klettunum sem það er búið að forma, meðan Karabískahafið er mjúkt, rólegt, lítill straumur og sandfjörur eftir allri strandlengjunni. Svona rosalegur munur á ströndum þessarar pínulitlu eyjar. Við keyrðum síðan eftir ströndinni og stoppuðum til að kaupa ís í lítilli búð/krá/hang-out. Þar var maður að súpa bjór, og hann var með lítinn apa með sér. Algert krútt, 5 mánaða, heitir Miló, alveg eins go Herra Níels hennar Línu Langsokk. Og hann var svona líka hrifinn af stráknum, hann Miló. Hann hoppaði í kringum þá, gerði allar sínar flottustu listir, naut svo athyglinnar og þeir fengu allir að halda á honum. Það er að segja Viktor og Arnór héldu á honum, Orri vildi ekki taka hann í fangið, þá beið Miló bara eftir því að Orri sneri baki í hann, hoppaði þá á öxlina á Orra, færði sig aftan á hnakka og byrjaði að róta í ljósa hárinu hans, eins og hann væri að leita að flóm. Við fengum algert hláturskast, Orri fór í algera skræki um leið og hann hló með. Þetta var alveg frábært. við tókum auðvitað myndir, en svo bara eyddust þær óvart, og þið þurfið bara að ímynda ykkur hvernig þetta var. Arnór sagði þegar við vorum á leiðinni heim, að þetta hefði bara verið einn af uppáhaldsdögunum hans hér á Barbados. Og það í sjálfu sér er náttúrulega málið. að njóta dagsins! Svo nú skuluð þið gera það heima á Íslandi, það er fullt af góðum hlutum sem hægt er að gera þrátt fyrir kreppu og læti. Njótið dagsins og sendið okkur comment!


Gylfi, Orri segir takk fyrir skilaboðin frá þér og til hamingju með afmælið um daginn :) Á myndinni er hann með snorkl-græjurnar, hann er að læra á þær smátt og smátt, getur verið í kafi í ca. 5 sekúndur núna og er búinn að sjá nokkra fiska og einn ál meira að segja!

Bloggleiðbeiningar!

Hæ, það hafa víst einhverjir verið í vandræðum með að setja inn comment, svo ég fékk mömmu tölvugúru til að setja inn leiðbeiningar um hvernig hún gerir. Það er í "comments" undir póstinum á undan, "sjáið Orra litla". Kíkið á það og endielga setið inn comment sem oftast. Er svo gaman að heyra frá ykkur :)

Á dagskrá í dag er fjallganga, á hæsta fjall eyjunnar Mount Hillaby. Það er 343 metrar!!!!

Tuesday, October 7, 2008

Sjáiði Orra litla!!


Orri í sólarlaginu á litlu ströndinni hér fyrir neðan. Það eru æðislegir litir í náttúrunni þessar nokkrar mínútur sem sólin er að setjast og hér náðum við einni góðri.
En það giskaði nú barasta enginn á réttan eiganda tásanna á myndinni í blogginu á undan, ekki einu sinni tengdamamma, enda líklega ansi langt síðan hún þreif þessar "litlu" tær. Eigandinn var sem sagt Gaui, ekki Viktor og ekki ÉG (ég er nú pínu sár yfir þessari ágiskun og það eina sem ég get huggað mig við, er að Gaui þykir hafa ansi netta fætur.... fyrir karlmann!


En tærnar hans eru nú ekki alveg jafn fallegar núna eins og þarna á myndinni. Þannig er nefninlega mál með vexti, að þegar hann, Orri og Arnór voru að leika sér eftir fótboltaæfingu síðasta fimmtudag meðan þeir biðu eftir okkur Viktori. Þá komu þjálfarar strákanna til hans og buðu honum að koma með þeim að keppa á laugardaginn. Gaui (að sjálfsögðu ansi ánægður) spurði aðeins út í þetta, jú , þetta er svona "old boys" lið, leikurinn væri stuttur, sjö menn á móti sjö, en á litlum grasvelli með flóðljósum og alles. Jú, Gauja leist vel á það, og þrátt fyrir að hafa ekki spilað fótboltaboltaleik síðustu 20 ár eða svo, þá er þetta náttúrlega eins og að læra að hjóla "when you can, you can". Hann er reyndar ekki með takkaskó, en einn þjálfarinn notar sömu stærð og hann, svo Gaui myndi bara fá lánaða skó hjá honum.

Laugardagurinn rann upp, bjartur og fagur, reyndar fyrr en við ætluðum, eða kl. 7 um morguninn því elskan hún Sheila sem leigir okkur húsið, er ekki mikið fyrir að sofa út. Hún sem sagt hringdi kl. 7 á laugardagsmorgni til að ræða millifærslur, rafmagnsreikning og bankagjöld. Gaui var mjög viðráðanlegur svona árla morguns "yes, of course Sheila, any way you want, of course... yes yes" og bara nokkuð greinilegt að hann vildi bara losna úr símanum, enda ekki skrítið. Alveg virðist þetta vera leyfilegt hérna, að hringja svona fyrir allar aldir og Sheila var sko ekkert að taka neinu hinti, þessi kæra kona. Hún er samt alveg ágæt, þrátt fyrir að sofa aldrei. Okkur fannst þetta ansi snemmt þennan laugardaginn, en svo á mánudeginum á eftir hringdi síminn kl. 5.30, kona að spyrja eftir einhverri konu, þegar við (þ.e.a.s. Gaui, ég sendi hann alltaf í morgunsímtöl..) sögðum að engin með því nafni byggi hér, sagði hún bara "oh, ok, bye, bye". Kl. 5.30 um morguninn!!!! Mig langaði að öskra fram: "kenndi mamma þín þér ekki að maður á ekki að hringja í heimahús fyrir kl. tíu á morgnanna??!!"


Allavega, Gaui var vaknaður og allan laugardaginn var hann smá spenntur, dagurinn leið hægt þar sem hann hlakkaði til að fara að leika sér með hinum köllunum. Við ákváðum að gera þetta að alvöru kaupstaðarferð, leikurinn átti að vera hálf sjö um kvöldið, örugglega búinn um sjöleytið og þá ætluðum við á veitingastað, bara flott á því sko og guttarnir í skýjunum. Gaui átti að hitta hina leikmennina kl. sex á vellinum, hann vildi auðvitað leggja af stað í góðum tíma, svo við fórum af stað kl. fimm, vorum ekki lengi að finna þetta, komin ca hálf sex. Þetta var flottur völlur og greinilega soldil félagsmiðstöð, fólk á öllum aldri sat þarna að spjalla og borða hnetur. Voða gaman hjá því á tröppunum, sem og hópi manna sem voru að spila einhverja útgáfu af dómínó inni. Inni og úti eru samt svolítið opin hugtök hér, því húsin eru svo opin oft, allir gluggar opnir og dyr yfirleitt upp á gátt. Mennirnir inni spiluðu með svaka skellum og látum, alltaf þegar einhver var mátaður heyrðust mikil öskur og köll og maður hélt að slagsmál væru að brjótast út. Bajanar eru ansi háværir og stundum heldur maður virkilega að rifrildi sé í fullum blóma, þar til maður sér fólkið skella upp úr og veifa og kalla "ah-rægt" og bara vinalegheit í öllum þessum látum.

Jæja, við biðum bara þarna og guttarnir fóru að leika sér. Gaui gekk aðeins um, og ég ímyndaði mér að hann væri svona að "psyka sig upp" og kortleggja völlinn. Kom seinna í ljós að hann var bara að spá í hvort við værum á réttum velli, því tíminn leið og leikurinn átti að byrja hálfsjö. Bajanar eru ekkert rosa fastir í stundvísi, liðið fór að tínast inn um hálf sjö og lánsskórnir komu rúmlega það. Reyndar soldið litlir, en hva.. stuttur leikur á litlum velli, með "old-boys". Þá fékk Gaui að vita að reyndar verði leikurinn á velli í fullri stærð.. ok, og reyndar myndu þeir spila í fullar 90 mínútur..... ok, oooog reyndar væru þeir að keppa við stráka, 18-20 ára, sem eru að æfa sig fyrir Karabíu-eyjamót........ OOOkei!! Á sama tíma hlupu ca. tuttugu tvítugir menn inn á völlinn í einfaldri röð og eins búningum, legghlífar og alles og þeir fóru að hita upp, allir í takt. Gaui fékk fjólubláu liðspeysuna og fór til "liðsins", voru komnir sjö, vantaði enn fjóra en þeir gætu farið að hita upp, restin hlyti að skila sér. Markmaðurinn þeirra, með um það bil 40 kílóa maga hitaði um með því að labba (rösklega) milli stanganna og reykja. Og leikurinn byrjaði svo hálf átta. Þetta reyndist hin mesta skemmtun og þrátt fyrir 0-4 tap, þá stóð liðið hans Gauja sig bara ágætlega, Gaui þar á meðal, engu gleymt. Hann var nú reyndar aðeins farinn að haltra í seinni hálfleik, og þegar hann fór úr skónum eftir leikinn urðu hælarnir eftir í skónum, ásamt fjórum tánöglum. Úff. Þess vegna segi ég það, þær eru ekki jafn fallegar og á froskamyndinni.


Við fórum svo á "resturant", þar sem klukkan var orðin tíu þegar við komumst af stað, var eiginlega bara T.G.I. fridays opið, soldið Hard rock-legt, með háværri tónlist, en hva.. maturinn var fínn. Það fyndna var, að fólkið á næsta borði var að halda upp á afmæli, og starfsfólkið mætti við borðið með köku og kerti, klöppuðu í takt og byrjuðu "I don´t know what I´ve been told, someone here is getting old.." og eitthvað meira, klappi klapp, vei vei vei og svo fóru þau öll um leið og lagið var búið. Við svona litu á hvort annað, flissuðum soldið og héldum áfram að borða. Tveimur mínútum seinna kemur í ljós að fólkið ská á móti okkur á líka ammmmæli og þau eru mætt, klappi klapp "I don´t know what I´ve been told, someone here is getting old...." vei vei og allt búið. Við flissum aftur, finnst þetta soldið lummó, en hva, greinilega vinsælt að fara á TGI fridays á afmælum. Heyrðu, tveim mínútum seinna, fólkið hinu megin... afmæli! klappi klappi "I don´t know what I´ve been told, someone.....". Nú vorum við bara farin að stynja, en nei, tveimur mínútum seinna, fólkið á bak við okkur. Í alvöru, þetta er greinilega mega-vinsælt. Við vöktum eiginlega athygli fyrir að eiga EKKI afmæli.


Á sunnudeginum byrjaði ég svo að bólgna á fætinum, komin með annað svona risabit eins og ég var með á handleggnum fyrir nokkrum vikum og þurfti pensillín. Þar sem Gaui var með fætur í hrikalegu ástandi líka, ákváðum við að prófa að sjá hvort þetta myndi ekki jafna sig sjálft hjá okkur báðum, enda enginn hiti eða sýking, ennþá. Um kvöldið þegar við komum uppí kíkti Gaui í bók, sem hann tók með sér í ferðina, sem heitir "Ultimate survival guide" til að sjá hvað ofurhermaðurinn Chris Ryan gerir við sýkingum. Þar mælir Chris með að setja heita bakstur á sárið, skipta um umbúðir þegar þær kólna og setja nýjan heitan bakstur, í allt í 30 mín, endurtaka 3-4 sinnum á dag í nokkra daga. Binda svo utanum, þurrka sárið, halda því hreinu, drekka mikið vatn og sjá hvort þetta batni ekki. Bara svona fínar ráðleggingar. Í ýktum aðstæðum, eins og frumskógarferðum, má nota ferskt þvag til að hreinsa sár ef enginn aðgangur er að vatni. Hmmm. Ef sýkingin fer ekki á nokkrum dögum við svona skolmeðferð á að láta sárið vera opið, hleypa flugum að því og bíða eftir að lirfur/maðkar (maggots) fari að vaxa í sárinu. Binda þá um sárið og maðkarnir éta dauða/sýkta vefinn. Þegar sársauki fer að aukast, eða ferskt blóð að koma úr sárinu veit maður að maðkarnir eru að byrja á heilbrigða vefnum, þá á að skola þá burtu, með vatni, eða ef það er ekki til, þá með fersku þvagi. Þá kom þessi fleyga setning frá Gauja: "Dúddi minn, ætlarðu að míga fyrir mig á maðkana mína..?" Þarf líklega ekki að taka fram að okkur er báðum farið að batna.

Thursday, October 2, 2008


Fimmtudagur í dag og við í miklum rökræðum við okkur sjálf og íslensku krónuna. Þetta er ansi svakalegt það sem er að gerast með þennan blessaða gjaldmiðil og það er heldur betur að höggva ferðasjóðinn sem við erum búin að vera að safna síðustu þrjú árin. En í stað þess að koma heim með skottið á milli lappanna eftir að klára peninginn á tveimur mánuðum eða eins og Viktor stakk uppá: látum fólkið heima bara senda okkur mat og það sem við þurfum... hmm góð hugmynd, hákarl og brennivín líklega það eina sem ekki myndi skemmast á 3ja vikna póstferðalagi í 30°stiga hita, þá ætlum við að skoða okkar venjur.


Hann Gummi hennar Maríu sendi okkur alveg frábært bréf í dag, þar sem hann kom með nokkur ráð um hvernig við gætum mætt þessum vanda, enda sjóaður í hinum ýmsustu hlutum hann Gummi og gott fyrir okkur að hafa aðgang að svona góðum mönnum! Hann fékk okkur virkilega til að hugsa, og við tókum fund í familíunni og höfum ákveðið ýmislegt sem við ætlum að breyta í neysluvenjum. Við höfum hingað til sótt mikið í "evrópulegar" matarbúðir, þar sem ég meðal annars fann fetaost og kotasælu mér til mikillar gleði (og mikillar eyðslu). En það er bara þannig að slíkar búðir eru alveg hreint svakalega dýrar og nú ætlum við að sækja meira inn á markaðina :) Já, markaðina í Speightstown, þar sem við getum fengið ávexti og grænmeti beint frá fátækum bændum og fiskimarkaðinn í Bridgetown þar sem fiskurinn er ferskari en andskotinn. Ekki lengur "eins og heima" hugsun, heldur einblína á hvernig þau eru að borða hér í landi. Því launin eru ekkert sérstaklega há, hjá svona venjulega vinnufólkinu en matur dýr, svo einhver brögð hljótum við að geta lært af þeim. Og við erum byrjuð. Ég ræddi við mömmunar á bardagaæfingunni og fékk nöfn á ýmsum búðum sem eru "Bónus" og svo er ég meira að segja búin að fá tilboð um kennslu í matreiðslu á Bajan-réttum, eitthvað sem t.d. heitir coo-coo sem er víst svaka gott. Hún talaði ansi hratt daman, en það sem ég náði er að þetta er soðið þar til það er slímugt, þá tekið upp og rúllað upp úr méli og eitthvað gert við það sem ég veit ekki hvað er. En víst rosalega gott "jús gæs go læk ih".... ég ætla allavega í kennslustund hjá henni og bíð spennt.


Annars ganga hlutir nokkuð vel, ef litið er frá þessum blessuðu peningum. Ég er orðin svakalega góð í umferðinni, farin að keyra eins og herforingi um allar götur hér og jafnvel farin að geta talað OG keyrt í einu. Það er rosalega mikið af bílum hér á litlu svæði og oft umferðarteppur (eru jafnmargir íbúar hér og á Íslandi, en á svæði sem nokkurn vegin dekkar Stór-Reykjavíkursvæðið). Mikið af bílum, en um leið mikil umferðamenning hérna, þeir eru mjög viljugir að hleypa inn í raðir, þegar maður kemur að bílum sem vill komast inn á akrein blikkar maður ljósunum tvisvar snöggt og hægir á sér. Þá keyra þeir inn í röðina, ýta létt á flautuna tvisvar, maður lyftir vísifingri rólega upp, mjög kúl, og allir eru kátir. Það er ekki skylda að hafa ljós á bílunum á daginn, svo það er ekki svona automatiskt sem það kviknar á ljósunum þegar maður startar bílnum eins og heima. Hér dimmir mjög hratt, tekur ca. korter þá er bara dimmt, og þá er eins gott að kveikja á ljósunum. Svo eru Barbadosbúar mjög sparsamir á rafmagnið, enda mjög dýrt hér. En þeir spara það í hinum og þessum götum líka, svo maður er kannski að keyra og er svo bara allt í einu á dimmu svæði, þar sem slökkt er á öllum ljósstaurum í smá stund, og svo er maður kominn aftur á svæði þar sem kveikt er á þeim. Rosa skrítið og engin sérstök regla í þessu. Allavega, við vorum að keyra um daginn, ég og guttarnir á leið af fótboltaæfingu og allt orðið dimmt. Ég þurfti dálítið að einbeita mér í dimmunni, sérstalega á dimmustu svæðunum, en þetta gekk nokkuð vel miðað við óvana hægriakstursmanneskju. Þar til við komum að götunni inn í hverfið okkar, þá verður bara svona svakalega dimmt og ég vanda mig enn meira, komin með andlitið upp að framrúðunni og er að gera mitt besta. Sé svo allt í einu tvær pollrólegar manneskjur sem ganga á MIÐRI götunni og eru sko ekkert að færa sig þótt ég sé komin með húddið alveg upp að rassinum á þeim. Fatta þá auðvitað að ég hafði bara alveg gleymt að kveikja á bílljósunum!! Mér brá svo við að fatta það, að ég kveiki rosa snöggt og ég held bara að ég hafi aldrei séð tvær manneskjur hoppa jafnhátt. Við þetta stökk þeirra missi ég út úr mér þennan svakalega hrossahlátur, fatta svo að glugginn er opinn á bílnum... það eina sem mér datt í hug í stöðunni, var að beygja mig djúpt niður í sætið og vona að þau hafi ekki séð númerið á bílnum þegar ég brunaði framhjá.


Á nóttunni erum við alltaf með skemmtilega "tónlist". Þetta eru pínulitlir froskar sem syngja alla nóttina, eru ábyggilega margar milljónir af þeim og þetta er voða huggulegt hljóð. Bajanar segja þetta reyndar vera "bloody anoying" en þetta er nú samt eitt af sérkennum Barbados og okkur finnst þetta skemmtilega spes. Þetta eru pínulitlir froskar sem við sjáum ósköp sjaldan, en einstaka sinnum droppar einn og einn hingað inn fyrir slysni. Á myndinni sjáið þið einn þeirra, hér er smá gáta: Hver á tærnar??

Wednesday, October 1, 2008

Fyrsta belti í Jeet kon do


Halló þetta er Viktor. Ég ætla að skrifa um fyrsta beltið mitt í hinni frábæru íþrótt Jeet kon do. Jeet kon do er íþrótt sem byggist á því að maður læri að verja sjálfan sig með því að nota allar tegundir bardagalista t.d. að glíma á gólfinu og að sparka og kýla standandi. Þetta er eiginlega bara samsetning búin til úr: taekwondo, karate, boxi, jiu jitsu, glímu og júdó Til að fá hvíta beltið þá þurfti ég að læra eið utanað sem er svona: ,, As an active student of the martial arts, I plegde to continually develop myself physically, emotionally, mentally and spiritually. As I strive for jeet kun do exellence, I will develop the qualities of loyalty, respect, integrity, courtesy and perseverance. I will always rely on common sense before using my skills in self-defense''. Þetta þurfti ég að segja ásamt því að kunna að heilsa og kveðja. Ég náði þessu og nú er ég með hvíta beltið í jeet kon do.