Monday, March 30, 2009

Gróðurinn...


...her ótrúlega svipaður hér og á Íslandi, nema að þessi fínu krækiber sem voru nálægt jöklinum eru rauð og með vatnsbragði. Flottir litir.

Yfirborð jökulsins


Nóg af sprungum að detta ofaní þarna!!

Jökullinn


Þessi armur skriðjökulsins er 5km breiður og 30km langur og allur út í sprungum. Gátum keypt ferð upp á jökul, en þeir áttu ekki jöklaskó á 6 ára :) enda líklega ansi kalt fyrir okkur bíkiní-stuttbuxnafólkið...

Sunday, March 29, 2009

Ushuaia!!


Þá erum við komin í syðsta bæ jarðar og þetta er ekkert smá fyndið. Hér búa 70þús manns, þannig að þetta er ansi stór bær, en annars finnst mér þetta alveg eins og að vera bara í Hafnafirði eða stórum Ísafirði! Veðrið er svo svipað og heima, húsin eru byggð í brekku og eru mörg hver ekta gömul timburhús, snjór í fjallatoppunum, fólk kappklætt og gróðurinn svipaður. Við spurðum konuna sem rekur gistihúsið sem við erum á, hvort það sé venjulegt að það sé svona kalt hérna (því það er bara rétt nýbyrjað haust hérna), en hún sagði að það hefði bara byrjað að kólna almennilega eftir hádegi í dag! Svo guttarnir fengu óskina sína rætta, þá langaði í snjókomu, og við fengum snjókomu. :)

Perito Morano


Þarna erum við komin alla leið að jöklinum. Þetta er einn stærsti jökull í heimi og einn frægasti skriðjökull Suður-Ameríku og þar af leiðandi vinsælasti áfangastaður heimamanna. Skrítið að fara svona úr hitanum í Buenos Aires á einni viku, smá stopp í Puerto Madryn, þar sem hitastigið var "hlýtt á daginn, skítakuldi á kvöldin" þannig að bókstaflega ALLT var tekið upp úr töskunum þessa 3 daga sem við vorum þar. Svo eftir "bara" 35 klukkutíma í rútu frá Buenos Aires suður, þá er maður bara kominn að jökli! Alveg magnað. Þetta er einn af mjög fáum skriðjöklum heims sem er ekki að minnka, en þessi jökull skríður fram 2 metra á dag, og lengist að meðaltali 40cm á dag. Það var alveg magnað að komast svona nálægt, því maður heyrði rosalegar drunur í jöklinum þegar klumpar voru að fara að hrynja út í vatnið. Það er ansi sjaldgæft að stórir klumpar hrynji, en við vorum svo heppin að sjá nokkurra tonna stykki falla, með tilheyrandi látum og skvettum! Argentína er heldur betur land þar sem hægt er að sjá mörg mismunandi veðurskilyrði, fórum úr 43° hita við Igazu-fossana, yfir í frostmarkið við Perito Morano! En nú erum við í Ushuaia (sjá myndina fyrir ofan, hún var tekin í dag, bara rétt áðan :), komum í dag og verðum í tvo daga!!

Wednesday, March 25, 2009

Punta Tombo


Við komum hingað til Puerto Madryn til að heimsækja stærstu mörgæsanýlendu Suður-Ameríku, en þar búa um hálf milljón mörgæsa frá september til apríl á hverju ári. Við leigðum bíl og keyrðum þangað, tæplega þriggja tíma bíltúr í eyðimörkinni. Mörgæsirnar eru á stóru landsvæði og þvers og kruss yfir svæðið þeirra er búið að afmarka göngustíga sem fólk getur gengið á og skoðað mörgæsirnar "up close". Þær eru á vappi um allt, líka á göngustígunum, og þær eru orðnar svo vanar fólki að maður kemst í 20cm nálægð við þær, því þær eru sko EKKI að víkja þegar maður þarf að komast framhjá. Það má þó alls ekki snerta þær, því ef það er mannalykt af þeim, þá geta þær ekki eignast maka og eru í raun útskúfaðar af hinum mörgæsunum. Þær eru skemmtilega frekar og t.d. þegar einhver ætlaði að komast út í sjó, þá þurfti hún að berjast í gegnum hópinn sem sat í sólbaði við fjöruborðið, og þegar einhver mörgæs fór framhjá, þá kepptustu þær við að gagga og bíta í viðkomandi. Engin velkomst-viðbrögð þar!!
Dvölin í Puerto Madryn hefur verið mjög skemmtileg. Við erum á hosteli hér og höfum hitt fólk úr öllum heimshornum og það er virkilega skemmtilegt að skiptast á góðum ferðasögum og hugmyndum um flotta staði að sjá. Nú er svo ferðinni heitið til El Calafate, 17 tíma rútuferð sem byrjar eftir tvo tíma, og við verðum komin í jöklabæinn upp úr hádegi á morgun :)

Sléttan


Svæðið hér í kringum Puerto Madryn er mjög þurrt og hér rignir einungis um 30mm á ári. Þegar við keyrðum frá Puerto Madryn til Punta Pombo þar sem mörgæsirnar eru, þá var þetta eins og að keyra í eyðimörk og rykið í bílnum eftir því :) Á myndinni sést vel hvernig landlagið er hér í kring og þarna eru mörgæsirnar á vappi milli runnanna og holanna sem þær búa sér til, til að kúra sig í.

Ungi


Þó maður sé rytjulegur, þá getur maður nú verið ánægður með sig!!
Allar mörgæsirnar eru núna að missa þykka feldinn og um leið og þær eru búnar að því, þá fara þær af stað norður til Río de Janeiro, en þangað fara þær í nokkra mánuði á ári. Þær koma reyndar ekki að landi, eru bara í sjónum fyrir utan Ríó-svæðið og koma ekkert að landi aftur fyrr en í september, þegar þær koma tilbaka til Punta Tombo. Ætli þær hafi heyrt hversu slæmt orð fer af Ríó??!

Fjórir bræður á ferðalagi...


Arnór og unginn


Þeir Arnór voru sammála um að svæðið væri ansi stórt og maður getur nú orðið soldið þreyttur á þessu labbi. Þá er gott að setjast í mölina og verða næstum jafnstór og mörgæsirnar. Þeim fannst gaman að geta horfst beint í augun á túristunum frá Íslandi.

Orri og vinur hans


Þeir voru nú soldið hissa hver á öðrum, þessir tveir furðufuglar, þar sem þeir sátu og ræddu hvern þeir ætla að kjósa í næstu kosningum á Íslandi. Mjög erfið ákvörðun. Þessi í jakkafötunum ætlar að kjósa bláa, þessi í hversdagsfötunum vill meira aktion....

Spjalla við Viktor


Þarna vorum við að labba að klettinum þar sem við gátum horft yfir ströndina þar sem allar mörgæsirnar skella sér í sjóinn.

Bless...


...ég bara nenni ekki að tala við þessa túrista!!

Saturday, March 21, 2009

Adios Buenos Aires!!


Við förum af stað til Patagoniu í dag, laugardag eftir fjögurra vikna dvöl í stórborginni. Erum ánægð með BA, en erum ótrúlega spennt yfir að komast í náttúruna og víðáttuna eftir þessa kaffihúsaborg. Margt skemmtilegt í boði hér og mikið líf, og í raun eina sem við höfum yfir að kvarta var þessi íbúðarhola sem við vorum í. Rykið í teppinu í tonnatali og þegar sólin skín inn er mökkur sést ryki sem þyrlast upp þó svo við læðumst eins og indjánar, hér var málað fyrir ca 100 árum og matarleifar frá 1934 á eldhúsveggnum, þegar ísskápurinn var loks lagaður (teipaður saman) eftir fimm daga dauða, hætti kalda vatnið á baðinu að renna svo við tannburstum upp úr heita vatninu og eldhúsvaskurinn sem lekur gríðarlega (og var þess valdandi að snúran í ísskápinn sprakk og brann) stíflaðist þannig að við gátum ekki notað hann, höfum þurft að vaska upp í stórum potti og hella úr honum í annan vask hjá þvottavélinni (en þvottavélin virkaði og það var stór plús!! :). Til að kóróna skítinn fann ég þykkan skóg af grænum myglusveppi í dyrakarminum á útidyrahurðinni, sem þegar ég þreif hann fór að valda skemmtilegum öndunaróþægindum og útskýrði af hverju Gaui er búinn að vera sjúgandi upp í nefið síðustu fjórar vikur "Nei, ég er ekki með ofnæmi!" segir hann samt þrjóskulega og sýgur upp í nefið milli þess sem hann hnerrar tíu hnerra í röð.

Þannig að við erum hrikalega spennt að komast í hreint LOFT!!!!!! Margt gott sem borgin býður uppá og það sem stendur uppúr eru vinalegir íbúar, gríðarleg hundaeign, lifandi götulíf, mörg og ólík hverfi hvert með sinn stíl, þægilegt subway-system, þægilegt loftslag og sjaldan of heitt, hunda- og kattargarðar, fótboltaáhugi og þá sérstaklega Maradonna-aðdáun, kaffihús, veitingastaðir og MILLJÓN búðir!! Ahhhhhh, Patagonía here we come!!!

Bikarar


Arnór og Orri fengu báðir afhentan bikar á sinni síðustu æfingu hjá Claudio Marangoni fótboltaskólanum þar sem þeir hafa verið að æfa. Claudio er fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta og var m.a. fyrirliði Boca Jr, eins stærsta liðs Argentínu. Hér á myndinni er guttarnir með nokkrum af þjálfurunum, á líka eina af þeim með Claudio en þar er Orri litli svo rauðeygður eftir kveðjutárin að þessi er svona hressilegri :) Ekkert smá gaman að fá bikar!!! Þeir fengu hann ásamt ræðu um að þeir væru gríðarlega duglegir, hefðu alltaf lagt sig alla fram á æfingum og þrátt fyrir að skilja eflsaust lítið í spænskunni, samt alltaf hlustað á þjálfara tala og gert það sem átti að gera af áhuga og eljusemi. Þeir voru barasta "impressed" yfir þessum litlu "GudjonssOn"!

Orra æfingafélagar..


..hann æfði með 6-7 ára guttum, mikil keppni og mikið hlaupið. Orri skemmti sér alltaf frábærlega, hlakkaði alltaf allan daginn til að fara á æfinguna, sem byrjaði klukkan hálf sex og var fjórum sinnum í viku. Hressir strákar!!

Arnór með sínum æfingaflokki..


..fullt af skemmtilegum strákum. Það góða í þessu er að þó svo margir foreldrar og þjálfarar gátu ekki talað ensku, þá gátu krakkarnir alveg stamað sig í gegnum samræður á ensku og margir mjög ófeimnir við að spjalla. Okkar strákar reyndu sig aðeins í spænskunni, Orri þó aðallega að segja "no hablo espanol!". Strákarnir voru rosalega ánægðir með þessar fótboltaæfingar, og þegar við kvöddum, þá komu nú nokkur tár hjá þeim yngsta.

Brasillískt jiu jitsu í Argentínu


Viktor og Gaui hafa verið að æfa BJJ hérna í BA og hér er þjálfarinn Gustavo "Panther" Cortes að kveðja Viktor í kvöld. Panther er fyrrverandi landsliðsmaður í Tae kwon do en eftir að hann kynntist BJJ og MMA var "no turning back". Toppnáungi og skemmtilegur þjálfari og hann var virkilega ánægður með okkar menn, fannst ótrúlegt að Viktor væri bara 12 ára, hann væri svo sterkur.

Wednesday, March 18, 2009

San Telmo


Fórum á þennan frábæra markað í San Telmo síðasta sunnudag og hann kom okkur heldur betur á óvart. Við vorum búin að ákveða stað sem góða Suður-Ameríku bókin okkar hafði bent okkur á í þessu hverfi, þar sem fallegur markaður væri haldin alla sunnudaga. Fundum hann á kortinu og tókum subway-ið í áttina og fórum svo að labba. Vorum komin í hverfið mjög fljótlega, og löbbuðum eftir eyðilegri götu þar sem var mikið af fallegum húsum, en voðalega lítið af fólki, sem er frekar óvenjulegt í þessari stórborg. Ég tók því ákvörðum fyrir hópinn (leader of the pack! eða leiðtogi pakksins!) og ákvað að við skyldum færa okkur yfir á næstu samsíða götu, og viti menn! Það liggur við að maður segi að himnarnir hafi opnast og geislar sólar tekið okkur fagnandi, slíkar voru breytingarnar, því þar var bara markaður-markaður-markaður svo langt sem augað eygði og mannlífið eftir því! Þetta var skemmtilegasta gata sem ég hef séð hérna í borginni, húsin gullfalleg og gömul, fólkið vinalegt, engir bílar og svo markðurinn fjölbreyttur. Það var alltaf eitthvað nýtt að sjá, ekki svona eins og er svo oft, allir að selja það sama. Við gengum þarna um í marga klukkutíma og svo skemmtilegt var þetta, að við æfingafólkið, sem höfðum ætlað að hitta Marcos í parkinum og taka æfingu með honum, AFLÝSTUM æfingu og fengum okkur kalt hvítvínsglas á fortovs-rrestúrang (eins og mamma og María frænka segja!
Á myndinni er Orri kominn í hljóðfærin (hann ætlar að stofna hljómsveit þegar hann verður stór og spila á öll hljóðfæri sem til eru! Smá athyglis-þorsti í gangi) og er að berja bumbur sem ég var næstum búin að freistast til að kaupa. Hrikalega flottar, handgerðar úr argentínskum viði, með merki Patagoníu á þeim (soldið eins og galdramerkin á Ströndum). En.. við höfum ekki eignast bumbu til að berja.... ennþá.

Boys will be boys!!


Temaiken


Fórum í frábæran dýragarð fyrir utan borgina síðasta laugardag. Höfðum ætlað í vatnsrennibrautargarð sem kunningi okkar hér sagði að væri rétt hjá þar sem við byggjum. Hann er ógiftur og barnlaus (nokkuð sem Orri furðaði sig mikið á. Samtal þeirra fór nokkurn vegin svona fram: Orri (strangur) "hvað ertu gamall?" "35 ára", "og áttu konu?" "nei, enga konu". Orri (í ávítunartóni) "hva! ertu 35 ára og átt ENGA konu!!!???, þarftu ekki að fara að velja þér eina konu, orðinn svona gamall!!?"). Allavega, kunningi okkar hefur greinilega ekki farið í þennan garð, því hann er 300km í burtu og því ekki alveg í því göngufæri sem hann hélt, nema maður heiti Reynir Pétur. Þess vegna var stefnan tekin á þennan fína dýragarð, sem er 50km í burtu og það er óhætt að mæla með honum. Stórt og flott svæði og öll dýrin í algeru dekri, með fullt af plássi. Virkilega gaman að ganga um dýragarð þar sem tilfinningin er svona góð.

"Nöj, nöj, hvað eru þær að gera!!?"


Svipurinn á þessum gaurum er óborganlegur, en getið þið giskað á hvað þeir eru að horfa?

Jú, mikið rétt..


..þeir voru að horfa á skjaldbökurnar!! Það er meira líf í þeim en maður heldur.

Svipur..


Hér heldur Viktor á hauskúpu úr simpansa, og prófaði að ná svipnum. Gekk bara ansi vel hjá guttanum :) Dýrin í dýragarðinum voru þó langflest alive and kicking!!

Hvar er Gunnar Hólmsteinn...???


...er þessi "vinalegi" hvíthákarl að hugsa! Hann er búinn að frétta að Gunni ætli í Great White Shark Cage Diving og bíður spenntur, alveg eins og Gunni.

Friday, March 13, 2009

Marco í garðinum




Við fórum í parkinn um daginn og tókum svakalega fína æfingu saman, öðru fólki til mikillar ánægju þar sem það lá í sólbaði. Alltaf svo gott að hafa eitthvað að horfa á. Svo þegar við vorum búin með æfinguna okkar, kom maður að okkur, sem hafði séð okkur út um gluggann á blokkinni sinni og séð hvernig við æfðum og langaði svo að spjalla við okkur. Hann heitir Marco og er Capueira kennar og Jiujitsumaður og er að búa til sína eigin línu í æfingum sem hann kallar Integrity. Hann langaði svo að sýna okkur hvað hann væri að gera og við samþykktum auðvitað að prófa. Æfingarnar voru skemmtilegar, byggðu mjög mikið á dýrahreyfingum og alls konar fjölbreyttum og mjúkum hreyfingum. Svo þegar við vorum þarna aftur í gær, þá kom hann, og þá sýndi hann okkur bandið sitt sem hann æfir jafnvægið á. Þetta er lína sem hann strekkir bara milli tveggja staura, svo æfir hann sig að ganga á þeim. Við sáum hvernig hann gerði og auðvitað þurftum við að prófa. Frekar gaman að prófa eitthvað svona nýtt og viti menn, við náðum að standa í nokkrar sekúndur... eftir margar tilraunir og smá stuðning :)
Svo er það soldið spennandi, því þegar hann frétti að við værum í ketilbjöllunum, þá fór hann að segja okkur frá vini sínum sem er með þetta hér. Það er pínulítill hópur hér, sem er búinn að uppgvöta bjöllurnar og lét gera bjöllur hérna. Þau hafa lært æfingarnar á netinu, en hafa aldrei hitt alvöru ketilbjölluþjálfara. Svo nú er á stefnuskránni að hitta liðið... Gaman gaman!!

Og Viktor að prófa


og stóð sig þrælvel. Það er svo gaman, að Viktor er farinn að taka þátt í eiginlega öllum æfingum sem við Gaui erum að gera. Hann er ótrúlega duglegur 12 ára strákur!!!
Svo var það annað, það var ansi stressandi í þessum línu-göngutilraunum, að það var þvílík hundadrulla rétt við hliðiná okkur. Ekki nóg með að maður vissi að maður myndi detta, heldur að þurfa að velja og stýra áttinni sem maður dytti í... það er bókstaflega allt út í hundaskít í þessum annars fína garði.. Buenos Aires er alger hundaborg. Ég hef aldrei séð jafnmikið af hundaeign í einni stórborg.

Hátt hátt uppi..


..við förum stundum upp á þak að æfa, þar er flottur og stór steyptur flötur, og hár veggur allan hringinn, svo borgarútsýnið truflar okkur ekki. Eftir æfingu um daginn klifraði ég uppá þennan stromp (bara eftir að Gaui hafði gert það fyrst og gert hnébeygjur :) og tilfinningin að vera þarna uppi og horfa yfir borgina er frekar villt. Þó svo maður sé algerlega öruggur (ef maður dytti, þá dytti maður bara 1-2 metra niður á þakið, sem er sléttur algerlega öruggur afgirtur flötur) þá fékk ég þvílíkt í magann að horfa svona yfir allt og standa svona hátt. Eins og að svífa og allt jafnvægisskyn breytist. Og svo að taka karate kid... úff, very nice.. eftirá.

Heimilislausir í BA


Æfingarnar stýra miklu hjá okkur hér í stórborginni og það er svo sem allt í góðu með það. Við erum hins vegar öll farin að hlakka mikið til að fara úr borgarlífinu og út í náttúruna, en það er núna vika eftir af dvölinni hér í BA. Á fótboltaæfingunum sem eru mán, þri, mið og fim sjáum við oft þetta fólk sem er á myndinni, en það býr undir tréi sem er við hliðiná vellinum. Þar sefur það fram eftir degi og er svo að spila á spil, spila á flautur og dunda sér við hitt og þetta, um leið og það drekkur eitthvað af stút. Stundum fylgjast þau með guttunum á æfingu, klappa fyrir þeim og hvetja þá áfram. Það sem er soldið sérstakt við þetta fólk er, að það er greinilega ansi stolt. Það betlar aldrei, það böggar mann aldrei, það heilsar hressilega öllum sem heilsa þeim af fyrra bragði og annars er það bara pollrólegt og býr bara þarna undir tréinu. Ef þið kíkið á myndina, þá sjáið þið að maðurinn sem er að horfa á leikinn, er með eitthvað í fanginu. Það er sem sagt pínulítið, nýfætt barn, sem konan sem liggur sofandi á bekknum á (og kannski hann líka?). Mér finnst erfitt að sjá þetta, langar helst að gefa þeim allan þann pening sem ég get, eða teppi eða kexpakka eða hvað sem ég er með á mér í það skipti. Finnst þetta frekar sárt, en um leið er ég soldið forvitin um þetta fólk. Þau eru svo róleg og virðast bara sátt í sinni eymd. Brosa og hlæja, spila og grínast... og drekka. Ég hef ekki séð þau fara frá þessum stað ennþá, auðvitað hljóta þau að gera það, til að ná sér í mat og svona, en þau eru þarna í öllum veðrum. Algerir naglar sem ég virði fyrir það, en um leið fæ ég alveg í magann.. hvað með þetta pínulitla barn...?

Pepsi testið


Ýmislegt er hægt að dunda sér við, og mér datt eitt í hug um daginn. Ekki var það nú æfingatengt, eiginlega þvert á móti. Það er nú þannig að við eigum það til að setjast á kaffihús eða veitingastað (gerum meira af því hér en heima, því þótt það sé langt frá því hræódýrt, þá er það töluvert ódýrara en heima og í löngum göngutúrum yfir stræti og torg vinnum við oft upp mikla matarlyst). Þegar guttarnir panta sér drykk með matnum, biðja t.d. um sprite, þá svarar þjónninn "no, 7-up" og ef þeir biðja um Mirinda svarar þjónninn "no, Fanta" og svo framvegis. Þá mundi ég eftir Pepsi-Kók-test auglýsingunni sem var heima um árið, munið þið? Testið gengur út á að maður smakki drykkinn með bundið fyrir augun, og segi svo hvort er hvort og hvað manni finnst betra. Mig minnir að þetta hafi verið leið sem Pepsi tók til að sýna fram á að ALLIR velja Pepsi...hvernig sem það nú gekk. Við keyptum því Kók og Pepsi, Fanta og Mirinda og 7-up og Sprite. Svo þegar heim var komið prófuðu allir allar tegundir með bundið fyrir augun, allt skráð niður, mikill hátíðleiki enda um gríðarlega keppni að ræða.. að ná öllu réttu. Og niðurstöðurnar voru auðvitað mismunandi, sumir fengu allt rétt, aðrir bara eitt. En við vorum öll sammála um að það er eiginlega fáránlega lítill munur á þessu sykurdrulli, nema að Coka Cola vörurnar vöru helst til sætari, ef eitthvað. Þetta var ferlega skemmtilegt og ég mæli bara með þessu sem fjölskylduskemmtun. Ef þið hafið áhyggjur af óhollustunni, þá er bara hægt að taka þetta á nammidegi og sannfæra sjálfan sig um að þetta sé góð kennsluleið fyrir börnin að þróa með sér önnur skynfæri en augun.... ;-) strákunum fannst þetta ÓGISSLEGA gaman, voru flissandi og hlæjandi og Orri skoppaði alla leið heim úr búðinni af spenningi þegar við keyptum flöskurnar.

Ricoleta kirkjugarðurinn


Dagarnir líða áfram hér í stórborginni. Suma daga erum við mikið úti og aðra daga mikið inni í lítlu hrörlegu íbúðinni okkar. Í fyrradag var mikill útidagur, við fórum að skoða Recoleta-kirkjugarðinn, en hann er frá árinu 1822 og mikið af frægu fólki úr sögu Argentínu grafið þar. Það er gríðarlega mikil saga í þessum kirkjugarði og mörg forsetar þjóðarinnar, sumir bara verið forsetar í 1 ár áður en þeim var steypt af stóli. Fremst á meðal jafningja er hún Eva Duarte Peron, sem heimurinn þekkir sem Evitu. Hún var gríðarlega vinsæl meðal fólksins og kom af stað heilmikilli aðstoð fyrir þá sem minna máttu sín í Argentínu meðan maðurinn hennar Peron var forseti. Hún eins og margt annað frægt fólk, lést langt um aldur fram, dó aðeins 33 ára gömul, en það er alltaf fólk við grafreitinn hennar.


Kirkjugarðurinn kom okkur öllum þó nokkuð mikið á óvart, því þetta var eins og að ganga í litlu þorpi. Þetta eru ekki grafreitir eins og við erum vön með legsteinum, heldur eru þetta grafhýsi sem tilheyra hinni og þessi fjölskyldu . Svo eru grafhýsin bara byggð hlið við hlið, stundum gluggar á þeim, og þá getur maður séð kistur fjölskyldumeðlima liggja í hillum (svona eins og bókahillur... bara "líkkistuhillur", sé þetta fyrir mér, mæta í Ikea "já, góðan daginn, mig vantar hillur..." "Já, fyrir bækur?" "nei, nei, fyrir líkkistur. Mig vantar svona fjórar-fimm, vitum ekki alveg með ömmu..."). En allavega, þetta er byggt upp svona eins og hús sem liggja við götur, svo labbar maður bara á milli og skoðar. Sum grafhýsin eru stórglæsileg í nýlegum stíl, speglahús og alles eins og glænýir bankar, meðan önnur eru í barokk-stíl með skreyttum krúsídúllum. Svo eru enn önnur sem eru í niðurníslu og eru því eins og draugahýsi og standa þá líklega barasta bráðvel undir nafni :Þ

Í garðinum búa svo fjölmargir kettir sem hringa sig við grafhýsin og tölta um göturnar eins og íbúar litla þorpsins. Þetta var ansi spes. Svo var líka gaman, að þó þetta sé mikið "tourist-attraction" þá fara líka BA-búar mikið þangað, til að sækja í kyrrðina og hátíðleikann sem ríkir þarna. Þessi kirkjugarður var allavega ólíkur öllum öðrum kirkjugörðum sem við höfum séð!

Wednesday, March 11, 2009

Gamall kirkjugarður...


..og sum grafhýsin verið í betra standi. Við vitum ekki hvernig stendur á þessu, því þetta er ábyggilega gríðarlega dýrt að hafa grafhýsi í þessum gamla og merkilega kirkjugarði, en svo eru sum þeirra hreinlega að grotna niður. Hér er t.d. grafhýsi þar sem kisturnar eru í hillum, málið er bara að það eru yfir hundrað ár síðan efstu hillurnar voru settar og því eru kisturnar ýmist að hrynja niður á næstu fyrir neðan, eða að gægjast út um grotnandi steypu, eins og sést á myndinni. Vantar aðeins upp á virðinguna þarna fannst okkur.

Evita


Í Ricoleta kirkjugarðinum er hún Evita Peron grafin. Við heimsóttum auðvitað gröfina hennar, en hún er ómerkt og Evita er í grafhýsinum sem fjölskylda hennar liggur í "Familia Duarte". Það er samt greinilegt að Evita er elskuð af þjóðinni hérna, það eru fullt af ferskum blómum kringum grafreitinn.

Út vil ek!


Hér er hurð á einu grafhýsinu. það er mjög algent að það sé gler á hurðunum svo maður getur séð kisturnar inni. Hér er blóm sem er inni í einu grafhýsinu sem var eitthvað orðið leitt á því að vera alltaf inni í dimmunni, og hefur laumað sér út í gegnum bilið milli hurðanna og út í sólina :) þolinmæðin þrautir vinnur allar!!

Á vakt


Ég veit ekki með ykkur, en ég á soldið erfitt með að taka þennan "löggubíl" alvarlega. Það þýðir ekkert að halda einhverju öðru fram... Stærðin skiptir víst máli!!

Sunday, March 8, 2009

Tangó..


.. er náttúrlega gríðar vinsæll hér í Argentínu og í Caminito-hverfinu þar sem við vorum um helgina var auðvitað tangóshow. Fyrir dansinn kom þessi fína tangóskvísa auga á Viktor og hún bara linnti ekki látum fyrr en hann var kominn upp á svið til hennar. Ég var farin að halda að hún ætlaði bara að dömpa herranum sínum og dansa við Viktor, en þá vildi hún láta taka mynd af sér með honum. Hann var sko flottur og þótt honum fyndist þetta frekar fyndið, þá bara brosti hann til hennar og stillti sér upp. Eftir að Viktor var lagður af stað niður af sviðinu, tók annar úr hópnum við sér..

..og þá var Orri nú ekki seinn á sér..


.. við sáum bara undir iljarnar á honum, hlaupandi upp á svið. Hann lætur sko ekki framhjá sér fara tækifæri á faðmlagi við fallega dömu. Drengurinn verður skæður... ladies beware!!

Húsin í Caminito..


... sem er í Boca, hverfinu hans Maradonna. Þetta eru tvær götur sem eru svona skratulegar, svo allt fyrir utan það er ansi fátæklegt og okkur túristum ráðlagt að fara ekki að flakka út fyrir þessar tvær götur. Soldið sérstakt að vera þarna, svona Christianíu stemmning, bara ekki gras-lyktin. :)

Gaui að skoða myndir til sölu


Við keyptum okkur eina litla mynd af húsum í hverfinu. Ótrúlega litríkar og flottar olíumyndir sem þau eru með þarna og það var sko ekki auðvelt að sýna sjálfstjórn og muna eftir því hversu þungar töskurnar voru í síðustu flutningum milli landa :) en þessi sem við keyptum er æði!!

Wednesday, March 4, 2009

Nýjir nágrannar


Það er búið að vera ferlega blautt veður hér síðustu daga og í fyrradag var alveg svakalegt þrumuveður.

Við höfðum verið að pæla í því síðan við komum fyrir rúmri viku, hvernig það geti staðið á því að það er músaskítur á gluggasyllunni fyrir utan svefnherbergið okkar. Ég meina, við erum nú á 13. hæð, og eins og Gaui sagði "hvernig eiga mýs að komast svona hátt?". En ég þekki músaskít, hann tekur alltaf á móti manni eftir veturinn í Barmahlíð, og þetta var sko músaskítur. Við þrifum það, en alltaf kom nýr og nýr, enda heyrist oft lítið tíst á kvöldin fyrir ofan gluggann. Svo í þessu þrumuveðri, sem var alveg klikkað, það var eins og verið væri að gera loftárás á borgin, lætin voru þvílík og þrumur og eldingar aftur og aftur og aftur. Og þá sáum við nágrannana. Það eru leðurblökur. Þær flugu kringum gluggann okkar og voru alveg í panik yfir allri rigningunni og þær flugu inn í húsið, bara rétt fyrir ofan svefnherbergisgluggann okkar. Þetta var eins og í svaka hryllingsmynd, blossar frá þrumum og leðurblökur fljúgandi og skrækjandi við gluggann. Í svona eina sekúndu var ég alveg svona "ég vissi það!!" því leðurblökur eru jú fljúgandi mýs, og þetta var þá rétt hjá mér með músaskítinn. En svo kom sjokkið (það hjálpaði ekki að þetta var kl. þrjú um nótt) þegar ég fattaði "Leðurblökur!! í húsinu! Fyrir ofan svefnherbergið! Oj Oj Oj!!" og þá langaði mig að flytja út. Svo fór ég á netið, svona til að vera viss, googlaði "bats buenos aires". Og það kom fullt af niðurstöðum. Jú, nóg af leðurblökum í borginni og jú þær taka bólfestu í húsum... yfirleitt 100-200 í hóp. Og mig langaði að flytja út. En svo leið nóttin og í dagsbirtu eru öll vandamál einfaldari. Þær hafa nú ekki böggað okkur mikið hingað til, og ef við pössum að hafa ekki gluggana galopna á kvöldin, svo þær komi ekki óvart inn. Svo er nú eitt gott við þær, og það er að þær éta gríðarlega mikið af skordýrum.

Svo kvöldið eftir, þá vildi ég reyna að sjá hvar þær búa, svo ég tilkynnti Gauja að ég ætlaði að setjast út á svalirnar og horfa á leðurblökurnar, "viltu koma með?". Hann varð pínu skrítinn á svipinn og svaraði: "hmm, freistandi, kem kannski seinna".

Æfingar


Við höldum áfram að vera dugleg að finna upp á ýmsum æfingum. Hér á myndinni er Arnór í handstöðu, sem styrkir mjög handleggi, axlir og úlnliði. Við erum öll að keppa við okkar eigin tíma, mitt met að standa svona er 1.16 mín, Viktor á 1.15mín (við keppum soldið), en Gaui slær okkur öllum við ennþá og hefur staðið svona í 2.02mín. Við náum honum. Svo erum við auðvitað í 23 hæða húsi og erum grimm í að hlaupa upp stigana (nema Gaui, hann gengur hægt upp núna, enda búinn að liggja í 5 daga flensu), tekur samt ekki lyftuna. En við Viktor tókum tímann hjá hvor öðru í fyrradag meðan hitt hljóp upp.. tvisvar! Þannig að þetta var eins og að hlaupa upp á 46 hæð með einni pásu. Rosa gaman og mikið púl. Fantaæfing á stuttum tíma, sem tekur vel á meiri hluta líkamans. Alltaf gaman að gera þannig æfingar.

Ísskápur


Við höfum komist að því að ísskápur er tæki sem við stólum okkur töluvert mikið á. Við komum heim síðasta föstudag og fljótlega eftir að við komum heim byrjuðum við að heyra öðru hvoru lítil sprengjuhljóð. Skildum ekkert hvað þetta væri, hljóðið kom úr eldhúsinu, en sama hvað við skoðuðum, þá fundum við ekki neitt. Fyrr en í þriðju tilraun, eftir meiri sprengjuhljóð, þá sá ég bara að snúran úr ísskápnum var að brenna með svakalegum óhljóðum. Gaui var fljótur að kippa snúrunni úr sambandi, og um leið kom lítill eldlogi og snúran fór í sundur (veit nú ekki af hverju ég er að segja frá þessu, ömmurnar fá líklega hjertebanken). Allavega, við sáum þá að snúran var teipuð saman og sá hluti lá í vatni sem hafði lekið á gólfið, því heitavatnskraninn lekur (það er fátt sem virkar alveg perfect hér :). Nú við auðvitað fórum strax í að hringja í leigumiðlarana. Sá sem talar ensku í fyrirtækinu (það er einn, í fyrirtæki sem hefur 500 íbúðir!!) var auðvitað í fríi í Brasilíu, svo Gaui var flottur að útskýra að rafmagnssnúran í ísskápinn hefði brunnið í sundur og við þyrftum viðgerðarmann. Þetta var á fimmtudagskvöldi, en það gekk nokkuð vel að útskýra hjá honum. Hann leitaði í orðabók, spænska orðið fyrir ísskáp (man ekki) og spænska orðið fyrir eld (inferno!!). Svo hringdi hann: Hello, se Gudjon, ma "ísskáp" inferno... yes, need to fix..". Gaurinn sem hann talaði við skildi þetta ágætlega og tók þessum fréttum bara mjög rólega. Hann sagðist myndi senda mann daginn eftir. Svo leið dagurinn, og enginn kom. Og annar dagur og enginn kom. Og þið getið ímyndað ykkur fýluna sem fór að koma út úr helv.. ísskápnum. Því þó maður taki allt sem getur skemmst út úr ísskápnum, þá er samt eitthvað ógeð í honum sem maður fattar ekki að mygli. Í mínu tilviki var það rucola-salat, falið á bak við tómatsósuna, sem náði að menga laumulega alla íbúðina smátt og smátt. Nú, þegar fjórir dagar voru liðnir ísskápslausir og enginn viðgerð, þá hringdum við aftur, sendum meil OG hringdum í kallinn sem var í fríi í Brasilíu. Töluðum inn á símsvarann hans, eins og geðveikir túristar "WE ARE NOT HAPPY!!!". Fimm mínútum seinna var hringt í okkur: "viðgerðarmaður kemur eftir korter". Svo kom gaur með verkfæratösku, klippti á snúruna og teipaði hana saman aftur. Tók 3 mínútur."Voilá". Ég var frekar efins og er nú alveg sannfærð um að þetta sé algert fúsk. Ég "spurði" (á táknmáli) hvort þetta væri ekki hættulegt, hann brosti bara og sagði no no, og sýndi stoltur að hann hafði bundið snúruna upp, svo hún færi ekki í vatnið aftur. Hmmm. Við fylgjumst vel með þessu og ætlum að kaupa reykskynjara til að hafa fyrir ofan þetta. Allur er varinn góður. En þetta er soldið skrítið, maður sér soldið afslappaðra viðhorf gagnvart ýmsum hlutum hér, sem ég myndi nú telja frekar mikilvægt að hafa í lagi. En vá hvað er gaman að hafa ísskáp sem virkar!!!!! Þvílíkur lúxus.
Annað sem okkur finnst nú orðið ansi mikilvægt að hafa eru tölvurnar. Eftir að hafa alltaf þurft að fara í reception á íbúðahótelinu í Ríó til að komast á netið, finnst okkur rosa lúxus að hafa netið hérna bara í íbúðinni!! Datt þetta í hug um daginn þegar ég var að rölta á fótboltaæfingu með Arnóri og Orra. Þá hafði eitthvað komið fyrir hjá einhverjum bíl og löggan stóð hjá og tók viðtöl við vitni og mikið pælt og mikið rætt. Svo mikið að tveimur tímum seinna, þegar við vorum að rölta heim, voru þeir ennþá þarna. Þá voru þeir að fara yfir það sem þeir höfðu skrifað niður, stóðu tveir yfir skrifblokkinni, þar til einn fer í löggubílinn, tekur út kassa, upp úr kassanum tekur hann upp eldgamla ritvél, sem hann skellir á húddið á bílnum og svo fór hann bara að skrifa upp eftir hinum, sem las upphátt fyrir hann. Tölvur hvað...?

Úsýnið út um eldhúsgluggann


Þetta er nú útsýnið sem við höfum yfir stórborgina, töluvert ólíkt ströndinni á Barra, en hver borg hefur sinn sjarma..... Barra var samt flottari.. búhúúú

Útimarkaður


Við Arnór og Viktor fórum í skoðunarferð um Palermo Hollywood síðasta laugardag, en það er hluti af Palermo-hverfinu. Gaui var ennþá með flensuna og Orra var illt í fætinum og ekki í stuði fyrir göngutúr. Hverfið er mjög þægilegt og fallegt
og þegar við komum að markaðinum, þá var fyrri hluti hans lagður undir hina og þessa hönnun, misglæsilega og svo ýmis handverk í seinni hlutanum. Mikið líf og ferlega gaman að ganga um og skoða. Við guttarnir vorum þó sammála um að það var dálítið óþægilegt að ef maður leit upp í augun á sölumanninum, þá var strax stokkið á mann og maður fékk eiginlega samviskubit að kaupa ekki, en við erum jú á frekar strangri "ekki kaupa neitt" reglu, sem er brotin sí og æ. Og auðvitað var ekki undantekning á þessum markaði, við keyptum af þessari dömu. Hún var að selja myntpeninga sem hún hafði sagað í, ótrúlega flott. T.d. mynd af skútu á 1 pesóa myntinni og þá hefur hún sagað út í kringum skútuna. Svo er peningurinn settur í hálsmen, ef maður vill. Ferlega flott hjá stelpunni, en hún hafði nú enga íslenska peninga... Arnór spurði.

Polo-búðir


Sáum þennan fyrir framan eina rosa fína og uppalega polobúð í "Palermo Hollywood". Hann er í réttri hestastærð, hver vill ekki hafa svona í stofunni? Ég fór nú ekki inn í búðina, tók bara mynd af hestinum og fékk illt augnaráð frá búðarkallinum fyrir. En common! Einn teinóttur polobolur á hundrað þúsund skrilljón pesóa... ekki fyrir mig. Mér finnst hins vegar hesturinn frekar mikið flottur!!