Sunday, August 2, 2009

Og þá er það Evrópa aftur!!


Eftir alla þessa mánuði í Suður Ameríku þá var Evrópa á dagskrá 10 júlí. Það verður að viðurkennast að tilhlökkunin var mikil, við vorum orðin soldið lúin á ýmsum atriðum í Suður-Ameríku eins og ruslinu sem var ansi víða, engin virðing fyrir gangandi vegfarendum, alltaf að vera "gringo" og öðruvísi en aðrir á götunni. Nokkuð sem er líka spennandi, en svo eftir soldinn tíma, þá fór ég allavega að sakna þess að falla ekki stundum inn í hópinn og eiga t.d. von á því að hitta öðru hvoru einhvern sem ég þekkti! Það er fyndið með þessi litlu atriði sem manni finnst svo sjálfsögð, en saknar svo þegar þau eru ekki til staðar.


Þann 10 júlí áttum við að fljúga til Madrid, en fengum e-mail frá flugfyrirtækinu tveimur dögum áður (allt á spænsku!!) en Gauja tókst að krafla sig framúr bréfinu og í því stóð að ferðinni hefði verið frestað, en okkur væri velkomið að vera með í fluginu þann 11! Frekar skrítið, en lítið annað að gera en að þiggja boðið pent.


Madrid var falleg, alveg gullfalleg og flott. Steikjandi hiti og við í svaka stuði, enda gríðarkát yfir því að vera komin til Evrópu. Hér eru strákarnir að taka ketilbjölluæfingu, með innkaupapokum. Maður verður að redda sér!!

No comments: