Tuesday, July 7, 2009

Komin til Lima kl. hálf sjö að morgni!


Jæja, það sígur heldur betur á seinni hluta ferðarinnar, nú erum við komin til Lima eftir ævintýralegan endi á dvölinni í Arequipa. Við vorum búin að kaupa rútumiða til Cusco, skipuleggja ferð til Machu Picchu og svo þaðan ætluðum við að fara til Lima 6 júlí til að ná fluginu til Evrópu 9 júlí. Svo voru það verkföll og vegatálmar og alls konar órói, þannig að þetta endaði nú þannig að eftir tvær tilraunir að komast til Cusco, þá afpöntuðum við miðana og keyptum bara rútumiða til Lima, því þó við hefðum kannski komist til Cusco, þá er töluvert af fólki sem er fast þar í þó nokkuð fleiri daga en það ætlaði að vera. Og það vildum við fyrir alla muni ekki hætta á, 6 mánuðir í Suður-Ameríku eru nóg í bili. Rútuferðin gekk skítsæmilega, rútan fín, en vegirnir ekki, svo þrír úr hópnum tóku upp á því að æla á leiðinni (allir ælarar tengdir mér..), og þar af einn á gólf og hurð rútunnar. Þjónustuskvísan átti nú bara bágt með sig sjálf þegar við bentum henni á skvetturnar, og hún lét þær bara vera alla ferðina! Ekki var ég með græjur í farangri til að þrífa þetta, svo þetta varð að vera. Sem betur fer var einhver dama fyrir aftan okkur með svona lyktar-eyðingar-sprey með sér í handfarangrinum, sem hún notaði óspart. Svo tókst okkur nú að sofna á endanum, og þegar við vöknuðum eftir þessa 15 tíma rútuferð, vorum við barasta komin til Lima, án nokkurra vandræða (daginn eftir hins vegar verkfall og líklega næstu þrjá daga í viðbót, svo við rétt sluppum)!! Mikið vorum við fegin að vera komin frá Arequipa, enda vikurnar orðnar 6, sem við höfum verið þar, mjög fallegur bær, mjög fallegt allt í kring, vinalegt fólk (fyrir utan sjónvarpsþjófinn) en heldur betur kominn tími til að halda áfram ferðinni. Maður setur sig í stellingar fyrir ákveðinn tíma á hverjum stað og ef sá tími styttist eða lengist án þess að maður sjálfur hafi nokkuð um það að segja, þá er það bara challenge að sætta sig við það. Æfing í sveigjanleika. Það var dálítið skondið, að um kvöldið var boðið upp á ókeypis bingó í rútunni (þeir eru spes Perúbúar!). Við tókum auðvitað þátt, voða spennt, vantar ekki keppnisskapið í okkur, bingó eða fótbolti, skiptir ekki máli. Þegar leið á spilið magnaðist nú spennan hjá okkur, því ég var alveg að fá bingó. Og ég vann!!! Ég sendi Viktor upp á efri hæðina til a sækja vinninginn, en hann kom tilbaka, og skildi ekkert hvað skvísan var að segja. Svo ég fór sjálf, að heimta vinninginn, alveg hreint gríðarlega spennt að sjá hvað ég vann. Ég var hins vegar ekki lengi að afþakka vinninginn þegar ég sá hver hann var. Ferð tilbaka til Arequipa!!

No comments: