Wednesday, February 4, 2009

Tíminn rýkur áfram


Venjuleg rútína heldur áfram og tíminn flýgur. Við vöknum um átta, sá sem er fyrstur á fætur byrjar að gera ávaxtadrykk og sjóða kranavatnið hér VEL. Vatnið er ekki öruggt að drekka nema maður sé vanur bakteríuflórunni, en hún er víst töluverð. Svo er það hlandgult á litinn, svo um helgar gerum við spari-kaffi og notum flöskuvatn J en mánudagur í dag, hland-vatnið í kaffið. Við höfum ekki þann lúxus að hafa kaffivél hér, svo við fjárfestum í filter, svona margnota. Kaffigerðin er í nokkrum skrefum: að hita vatnið, skella filternum í stóra glerkrukku sem hann passar í (glerkrukkan er líklega fyrir morgunkornið, en þar sem eina mjólin hér er g-mjólk sem endist út árið, þá drekkum við eiginlega ekki mjólk, enda ferlega vond á bragðið), svo tekur maður viskustykki og hellir reglulega soðna vatninu gegnum filterinn, um leið og hitt viskustykkið á heimilinu er utan um glerkrukkuna svo það haldist smá hiti á þessum eðaldrykk. Þegar búið er að tæma pottinn, og vatnið runnið í krukkuna, hellum við kaffinu yfir í hitakönnu sem við fjárfestum í, fagurgræn. Í morgunmat er sem sagt ávaxtadjús og svo líka kaffi fyrir okkur Gauja. Ef við guttarnir vöknum mjög svöng hita ég brauðhleifa í litlum ofni sem er hérna (engin ristavél og brauðhleifarnir, svona eins og litlar langlokur, selt eftir kílóaverði, eins og grænmeti hér, maður þarf að láta vigta það í búðinni), og við fáum okkur smá brauð með marmelaði og brasilískum osti, voða góðum. Svo drífum við okkur á æfingu, löbbum þangað, göngum framhjá uppáhaldskjúklingastaðnum okkar og veifum uppáhaldsþjóninum okkar, köllum „como vai?“ og hann kallar „BEM!!!“ alltaf eiturhress og skælbrosandi þó svo hann sé eflaust enn og aftur að byrja sinn 14 tíma langa vinnudag á lúsalaunum. Æfingin er frábær, ég fíla morgunæfingar betur en kvöldæfingar, bæði eru færri á æfingunni, en svo eru líka færri svört belti á æfingunni, svo það er minna machó-dæmi í gangi, allir bara mættir til að æfa sig og verða betri. Ekki það að svartbeltingarnir séu eitthvað slæmir, það er bara önnur stemming á morgnanna og andrúmsloftið rólegra. Æfingin er til rúmlega tólf, þá töltum við í búðina, kaupum vatn og ávexti, dauðþreytt því þetta er ótrúlega krefjandi sport. Svo erum við bara að dunda okkur, við Gaui stundum að vinna í ketilbjöllunum og því sem þarf að gera tengt Íslandi, förum stundum á ströndina, og í dag fórum við t.d. í leiðangur að kaupa rútumiða til Petrópólis. Okkar langar að fara aðeins inn í land næstu helgi og gamla borgin Petrópolis varð fyrir valinu. Hún er um 60km í burtu og þykir ægifögur, var áður frístaður keisarans og þarna er t.d. að finna kórónu sem hann bar, sett 639 demöntum. Svo langar okkur svo að komast aðeins í göngutúra í náttúrunni, og í Ríó er ekki góð hugmynd að fara í göngutúr hvar sem er. Svo við þráum smá frelsi, svona eins og maður getur gert óhræddur á Íslandi, farið út í óbyggðina og bara klifrað og labbað og leikið sér J Það gekk nú ekki auðveldlega að fá rútumiða til Petrópolis, fæst ekki á ferðaskrifstofum, og fæst ekki í „Barra shopping“ sem er stór Kringla sem okkur var bent á að þeir væru fáanlegir. Við þurfum að fara alla leið niður í miðbæ, í aðalrútumiðstöðina (BSÍ) og kaupa miða. Við ætlum þó bara að fara á miðstöðina snemma á laugardagsmorguninn og kaupa miða, hvort sem það verður til Petrópolis eða bara einhvern stað nálægt sem gæti verið gaman að labba um í og skoða, því rútumiðstöðin þýðir að minnsta kosti klukkutíma strætótúr aðra leið. Nemmum því ekki, ætlum því að taka bara bakpokastemmninguna á þetta, mæta með tannbursta í tösku, taka rútu þangað sem við fáum pláss, og ef við fáum gistingu á staðnum, þá fínt, annars komum við heim seinnipartinn. Bara gaman að komast aðeins út úr borginni og sjá eitthvað annað.
Skrítið að vera svona túristi, þekkja ekki staðinn, vera alltaf eitt spurningamerki og alltaf að sjá eitthvað nýtt. Flestir eru mjög hjálpsamir og vinalegir, en auðvitað er stundum reynt að græða aðeins á túristunum, og því lendum við stundum í. Síðasta miðvikudag, fyrir viku, ætluðum við að skoða Kriststyttuna. Mættum galvösk niður að leigubílaplássinu um þrjúleytið, tilkynnum „Kristos!“ og það kemur svona líka mikið hik á kallana. Þeir þræta og deila og skrifa svo á miða „220“. Þetta er um það bil 180 reals (1 real rúmlega 50kr ísl) meira en við bjuggumst við, svo við vorum nú ekki alveg til í að samþykkja þetta. Þá kom mikil ræða (allt á portúgölsku, svo við skildum auðvitað ekki orð) um styttuna og Sykurtoppinn, og eftir mikið þras skildum við að þetta væri löng leið og þeir vildu taka túristann á þetta, setja okkur í styttuna, bíða og svo koma okkur í kláfinn sem fer upp á Sykurtopp, því þangað fara allir túristar.Við vorum ekki alveg á því, en þeim varð ekki haggað, svo á endanum sögðum við lúpulega „Barra shopping/Kringlan“ því það var plan B, að skoða myndavél sem Viktor var að safna sér fyrir. Okkur fannst þetta frekar lúseralegt, að fara úr „il grande túristó“ yfir í „shopping-mall-bum“ en vorum ekki tilbúin í að borga svona hrikalegt verð. Daginn eftir komum við okkur að styttunni fyrir miklu minni pening, á öruggan hátt og útsýnið var FRÁBÆRT og upplifunin mjög góð. Á myndinni sem er með í dag sjáið þið Arnór og Orra á vespunni hans Ara, en það er frábær maður sem er oft á æfingu með okkur. Hann minnir okkur oft á Maxwell þessi maður, gefur einstaklega mikið af sér og það geislar af honum ró og öryggi. Hann er rosalega góður við strákana, spjallar mikið við þá og kennir þeim góðar teygjur og einhver brögð í BJJ líka. Hér gaf hann guttunum smá túr á vespunni, þeim fannst það nú frekar mikið gaman!!

Svo lendum við stundum í fyndnum hlutum, eins og þegar við vorum í búðinni í gær, vorum komin á kassann, þá pikkar kona í mig og segir: „Talaðu við hana á þýsku!“ skælbrosir og bendir á unglingsstelpu. Svo heyri ég bara „NEI!“, kemur paniksvipur á stelpuna og hún reynir að fela sig á bak við innkaupakerruna. Nú hef ég ekki lært stakt orð í þýsku, en þar sem ég kann heldur ekki portúgölsku, þá gat ég ekki útskýrt að ég væri nú sleipari í frönskunni, nú eða dönskunni, en best væri ég í íslensku.... svo ég brosti bara og kallaði á stelpuna þegar ég borgaði: „Auf wiedersen!“, eins og hver annað þjóðverji.
Svo lenti Gaui nú í því að týna giftingarhringnum. Hann tók hann af sér á æfingu, setti hann í töskuna og síðan hefur ekkert til hans spurst. Hefur líklega dottið úr þegar hann hefur tekið gallann upp úr eftir æfingu. Við höfum leitað mikið, og Gaui er nú frekar leiður yfir þessu. Tilkynnti mér að hann myndi bara fá sér tatto í staðinn, hafa nafnið mitt í því. Ég stakk upp á að setja það á ennið, en hef ekki fengið svör. Viktor kom líka með uppástungu, við erum svo hjálpleg í þessari fjölskyldu. Hann bauðst til að gefa pabba sínum hringinn sem hann fann í Kjósinni fyrir nokkrum árum. Það er þessi fíni giftingarhringur, við reyndum mikið en fundum ekki raunverulegan eiganda, svo þessi hringur er ennþá í Viktors eign. Gauja fannst þetta vel boðið, en hefur ekki þegið ennþá. Finnst það spila rullu að inni í hringnum standi „þinn Þorsteinn“.

2 comments:

Anonymous said...

Afhverju ætlar þú að kaupa þér myndavél viktor??????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????????? kv. kristó

Anonymous said...

Hææææ elsku fjölskylda!! yndislsegt að lesa fréttirnar af ykkur. Þvílík upplifun. Smá öfund hérna megin;) Þið lifið á þessu næstu áratugina... það er eitt sem er víst!!

Hlakka til að sjá ykkur í sumar og vonandi geturðu haldið smá myndashow fyrir okkur!! Þið þyrftuð helst að opna myndasíðu líka :) Myndir segja nefnilega meira en þúsund orð... væri ekki amalegt að fá það líka ;) hahaha...

Gangi ykkur rosalega vel... knús úr kuldanum og stjórnsýslupælingum (er að fara í próf í stjórnsýslurétti á mánudaginn þannig maður er aðeins að lesa fram á nótt ;) )