Monday, February 9, 2009

Pedropolis og litla hótelherbergið


Mánudagur, önnur vika búin og brátt er dvölin í Ríó á enda. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt, ég veit að ég hef sagt þetta áður, en við erum samt gáttuð á þessu. Á laugardag fórum við í ævintýraferðina okkar. Vöknuðum um hálfníu, borðuðum morgunmat og náðum okkur í leigubíl til Rodovaria novo, sem er „nýja rútubílastöðin“ um 40 mín í burtu. Vorum með upplýsingar frá ferðaskrifstofu um hvaða rútufélag við áttum að finna á stöðinni, til að fá miða til Petrópólis. Við pökkuðum léttum farangri, vorum bara með einn bakpoka fyrir okkur öll, tilbúin hvort sem var til að koma tilbaka sama kvöld, eða gista eina nótt. Við mætum á rútustöðina, frekar sjabbí staður eins og rútu/lestar/strætóstöðvara virðast vera í öllum löndum, svei mér þá. Þegar við svo ætlum að kaupa miða til Petrópolis var okkur sagt að við yrðum fyrst að sýna persónuskilríki sem sanna að við eigum þessi þrjú börn sem við erum með. Við bara hváðum og hummuðum, hafði ekki dottið þetta í hug, og höfðum einmitt viljandi skilið passana eftir í íbúðinni. Það var ekkert að gera, það þarf víst alltaf að sýna skilríki þegar ferðast er með börn, svo það var ekkert annað fyrir okkur að gera en að stefna heim aftur, sækja passana og koma svo aftur, tæki í allt rúman klukkutíma. Þegar við svo komum út koma leigubílstjórarnir í hrönnum að okkur að bjóða bíl, og þegar þeir heyra að við viljum bíl til Barra og aftur tilbaka kveiktu þeir strax á perunni. „Documentation..? no, no, we drive Pedropolis!... no documentation.. nice, quiet, yes?“. Við vorum nú fyrst efins, hvað með að komast tilbaka, en þeir sannfærðu okkur um að það þyrfti ekki skilríki til að fá rútumiða tilbaka, það væri bara til að komast út úr Ríó. Svo voru fjármál „rædd“,, set það í gæsalappir, því það var meira handapat, en töluð orð, og á endanum samþykkjum við þennan „miklu þægilegri ferðamáta“. Strákarnir setjast í bílinn, við erum vön að þurfa að sitja fjögur afturí og þá er annað hvort ég eða Gaui ekki með belti, sem þykir nú ekki tiltökumál hér í Ríó. En í aftursætinu var ekkert belti, ekki eitt einasta. Við hikum aftur, en kýlum svo á þetta, Gaui segir mér að setjast framí, þar er allavega belti sem bílstjórinn sýndi stoltur. Ég var nú ekki hrifin, vill frekar að guttarnir séu í belti en ég, en þar sem ég hafði lesið um fjallvegina sem liggja til Petrópólis vildi ég frekar að ég væri framí. Svo sest ég, bílstjórinn teygir sig í beltið mitt, smeygir því yfir mig og krækir því í handbremsuna!! Ok, enginn í belti.
Svo keyrum við af stað, og það var reyndar alveg gullfalleg leiðin þangað, alls ekki hrikaleg eins og stóð í bókinni, allt tvíbreitt og bara einstefna alla leið, það er annar vegur fyrir bílana sem eru á leið til Ríó. Æðislegt útsýni yfir fjöll þakin skógi og við veginn stóð hér og þar lítill bás með ávöxtum til sölu og skrautlegum teppum og mottum sem heimafólkið býr til. Bíltúrinn til Pedrópolis var fínn, ekki kannski mjög „quiet“ eins og þeir töluðu um, galopnir gluggar og bíllinn hljóðkútslaus dolla þar sem smurninsmerkið skein allan tímann og hann barðist upp fjallvegina á 40km hraða. En við komumst í heilu lagi og Pedrópolis er falleg. Þetta er lítil borg, friðsæl og miðbærinn í gamla hlutanum alveg frábærlega sjarmerandi. Rosalega þægileg tilfinning og ef við spurðum til vegar var okkur bara fylgt þangað sem við spurðum um. Ofsalega vinalegt fólk og mér fannst rosalega þægilegt að vera þarna, sérstaklega þegar maður miðar við Ríó, sem er mjög falleg og skemmtileg, laaaaaaangflestir vinalegir, en svo eru bara svörtu sauðirnir inn á milli, svo maður er alltaf var um sig. Reyndar þó hverfisskipt, okkar hverfi Barra, er mjög öruggt og afslappað miðað við aðra bæjarhluta.
Svo röltum við um Pedrópólis, fundum hótel sem Brasilíubókin okkar hafði mælt með og tjékkum á herbergi. Þar fyrir utan sat feitur kall með bjór, greinilega eigandinn, og það vantaði bara alpahúfuna á hann, hann var svaka eitthvað austurískur í útliti. Hann tölti með okkur inn, hlustaði á allt sem stelpan í reception sagði, blandaði sér í samræður, allt auðvitað á portúgölsku, hún leiðrétti hann, talaði við okkur, hann blandaði sér, hún útskýrði, talaði við okkur, hann blandaði sér og á endanum fengum við herbergi, hehe. Hann vissi að þetta væri lítið herbergi, og skammaði hana þegar hún ætlaði að rukka fyrir aukadýnu eins og reglan segir til um, skammaði hana aftur þegar hún ætlaði að láta Gauja fylla út eyðublaðið eins og reglan segir til um, fannst nú ekki taka því fyrir eina nótt, og hún bara fórnaði höndum og brosti, greinilega vön kallinum. Þetta var lítið gistiheimili, voða kósí og afslappað, og þrifin í því voru afslöppuð líka. Aldrei gist á stað þar sem köngulær voru mun fleiri en gestirnir... allavega ekki svo ég viti til. En við vorum nú ekki þarna til að hanga á hótelherberginu, drifum okkur af stað á Museum Imperial, sem var sumarhús keisarans Dom Pedro II og þar var hægt að sjá ýmsa muni úr eigu fjölskyldunnar, meðal annars kórónuna. Við spennt að sjá það og urðum sko ekki fyrir vonbrigðum. Svakalegar mublur, málverk, föt, skartgripir og svo aðalmálið; kórónan, sem er út gulli, sett 77 eðalperlum og hvorki meira né minna en 639 demöntum. Vopn keisarans vöktu auðvitað líka athygli guttanna, svakaleg sverð og eitthvað dinglumdangl. Svo bara dóluðum við okkur um borgina, fórum upp að minnismerki Fatimu, sem er verndari borgarinnar, þar var frábært útsýni yfir borg og sveitir í kring. Fín ferð og við glöð í gær, á rútustöðinni þegar við gátum keypt miða í rútuna tilbaka, án þess að þurfa að sýna skilríki um börnin. Fengum svo nett sjokk þegar bílstjórin spurði vinalega: „documentation?“ þegar við vorum að labba inn í rútuna. Strákarnir voru komnir inn í rútu og á millisekúndu sá ég fyrir mér þegar við yrðum dregin organdi út úr rútunni, snúin niður og handtekin, gargandi „can´t you see, he´s just like his father!!!“Hefði lítið hjálpað þessi eina setning sem ég kann á portúgölsku "onde fica o banheiro?" (hvar er klósettið!!!?). Eeen ég hélt nú rónni, opnaði augun sakleysislega upp á gátt, sagði „documentation...???.. ökuskírteini..hmm..?“ og sýndi honum íslenska ökuskíteinið sem er með frekar brosandi mynd af mér því konan á myndavélinni hafði sagt eitthvað fyndið. Hann hló bara létt og hleypti okkur inn. Hjúkk.
Rútan var svo upplifun út af fyrir sig, geðveikislega mjúk sæti, fullt af fótaplássi, sætisbök sem hægt er að halla og loftkæling og alles. Rosa fínt. Enda var rútan varla lögð af stað, þá var Gaui byrjaður að dotta, hann er alveg ferlegur ferðafélagi ef hann er ekki sjálfur að keyra, um leið og heyrist í mótor byrja augnlokin að síga. Ég er horfandi út, sé eitthvað flott, segi „Gaui, vá sjáðu!!“ og hann svona snorlar uppúr sér: „.. hnrkrr..hvað!..ha..mm, jahh..zzzzzz“. Þetta var tölvert þægilegra en taxaferðin, og svo er líka mun betra útsýnið úr rútunum, enda setið hærra uppi. Við höldum okkur við þær á næstu ferðalögum, sem styttist jú í, því við eigum bara nokkra daga eftir hér í Ríó, þá heldur ferðin áfram. Munum sakna BJJ æfinganna, það er á hreinu og Gaui er mjög hrifinn af Ríó, langar ekkert að fara. g er sátt, fílaði Pedrópólis svo vel, er spennt að sjá meira af Suður-Ameríku.
Ég á örugglega eftir að sakna staðarins hér. Við höfum kynnst mörgu frábæru fólki og stemningin í kringum æfingarnar og fólkið sem tengist þeim hefur gefið okkur mikið. Íbúðin hér er náttúrulega líka á frábærum stað, útsýnið yfir ströndina óviðjafnanlegt og það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hvað það er huggulegt að sitja á hvítum stórum svölum, með stórt og fallegt rauðvínsglas og horfa á stórar kröftugar öldur og hvítan sandinn í sólarlegi hér. Ég á eftir að muna eftir þessum stundum alveg sérstaklega, og líklega á ég eftir að gleyma maurunum í eldhúsinu (sem við reyndar sjáum bara á daginn, því á kvöldin þegar það er orðið dimmt og við erum að elda, þá sjáum við ekki maurana í kringum matinn okkar, því ljósið í eldhúsinu virkar ekki, sniðugt!! ;). Ég mun líka muna eftir útsýninu við eldhúsvaskinn þegar ég er að þvo fötin okkar í höndunum. Fór að gera það eftir að hafa farið með föt í þvott hér í fyrstu vikunni, rándýrt, svo það er bara gamle måden. Allt nema Gi-in (Jiujitsu-búningarnir). Ég þvoði þau einu sinni í höndunum, tók ca tvo tíma, er svo helv.. þykkt efni, og svo fór ekki einu sinni fýlan úr Gauja galla!! Nenni því ekki aftur og borga glöð fyrir þvott á þeim.
Ég á líka eftir að muna eftir því hvað ég varð hissa að sjá Svíann koma á æfingu. Það er soldið af útlendingum sem koma sem sagt í stöðin, því Gracie Barra er með klúbba út um allan heim, m.a. í Svíðþjóð. Voru tveir Svíar komnir á sama tíma og við og við búin að kynnast þeim. Svo mætir sá þriðji tveimur vikum seinna og vá, hvað hann var hvítur. Hann er ekkert óeðlilega hvítur, við erum bara orðin soldið dökk. Þá rifjaðist einnig upp fyrir okkur þegar við vorum að labba með Renzo í Reykjavík og hann stundi upp: „everybody is SO white!!“ og við skildum ekkert hvað hann átti við. Við skiljum það núna, hehe.

4 comments:

Anonymous said...

Vó! Risafærsla.. Ánægð með það! Bara að skilja eftir smá spor hér, kv arna

Anonymous said...

Hvert farið þið næst kv. kristó

Anonymous said...

Ert þú búinn að kaupa þér myndavél Viktor? Og hvert farið þið næst? Getur þú sagt mér heimilisfangið þar þegar þið eruð komin þangað?

Kv. Guðmundur:)

Anonymous said...

Halló Viktor her.

Við ætluðum að koma í Águst en við erum að spá í að koma i Julí svo að við þurfum ekki að byrja strax í skólanum og því öllu.
Gummi. Manstu með peningana og minjagripina og allt það, ég þarf að geyma þá þangað til að við komum heim af því að það er bannað að senda peninga og minjagripirnir eru alltof þungir svo að ég læt þig fá þá heima. Nenniru að segja Kristó það líka.

Við vitum ekki hvar við verðum næst.

Skila kveðju til allra. Viktor