Wednesday, March 25, 2009

Punta Tombo


Við komum hingað til Puerto Madryn til að heimsækja stærstu mörgæsanýlendu Suður-Ameríku, en þar búa um hálf milljón mörgæsa frá september til apríl á hverju ári. Við leigðum bíl og keyrðum þangað, tæplega þriggja tíma bíltúr í eyðimörkinni. Mörgæsirnar eru á stóru landsvæði og þvers og kruss yfir svæðið þeirra er búið að afmarka göngustíga sem fólk getur gengið á og skoðað mörgæsirnar "up close". Þær eru á vappi um allt, líka á göngustígunum, og þær eru orðnar svo vanar fólki að maður kemst í 20cm nálægð við þær, því þær eru sko EKKI að víkja þegar maður þarf að komast framhjá. Það má þó alls ekki snerta þær, því ef það er mannalykt af þeim, þá geta þær ekki eignast maka og eru í raun útskúfaðar af hinum mörgæsunum. Þær eru skemmtilega frekar og t.d. þegar einhver ætlaði að komast út í sjó, þá þurfti hún að berjast í gegnum hópinn sem sat í sólbaði við fjöruborðið, og þegar einhver mörgæs fór framhjá, þá kepptustu þær við að gagga og bíta í viðkomandi. Engin velkomst-viðbrögð þar!!
Dvölin í Puerto Madryn hefur verið mjög skemmtileg. Við erum á hosteli hér og höfum hitt fólk úr öllum heimshornum og það er virkilega skemmtilegt að skiptast á góðum ferðasögum og hugmyndum um flotta staði að sjá. Nú er svo ferðinni heitið til El Calafate, 17 tíma rútuferð sem byrjar eftir tvo tíma, og við verðum komin í jöklabæinn upp úr hádegi á morgun :)

No comments: