Wednesday, March 4, 2009

Ísskápur


Við höfum komist að því að ísskápur er tæki sem við stólum okkur töluvert mikið á. Við komum heim síðasta föstudag og fljótlega eftir að við komum heim byrjuðum við að heyra öðru hvoru lítil sprengjuhljóð. Skildum ekkert hvað þetta væri, hljóðið kom úr eldhúsinu, en sama hvað við skoðuðum, þá fundum við ekki neitt. Fyrr en í þriðju tilraun, eftir meiri sprengjuhljóð, þá sá ég bara að snúran úr ísskápnum var að brenna með svakalegum óhljóðum. Gaui var fljótur að kippa snúrunni úr sambandi, og um leið kom lítill eldlogi og snúran fór í sundur (veit nú ekki af hverju ég er að segja frá þessu, ömmurnar fá líklega hjertebanken). Allavega, við sáum þá að snúran var teipuð saman og sá hluti lá í vatni sem hafði lekið á gólfið, því heitavatnskraninn lekur (það er fátt sem virkar alveg perfect hér :). Nú við auðvitað fórum strax í að hringja í leigumiðlarana. Sá sem talar ensku í fyrirtækinu (það er einn, í fyrirtæki sem hefur 500 íbúðir!!) var auðvitað í fríi í Brasilíu, svo Gaui var flottur að útskýra að rafmagnssnúran í ísskápinn hefði brunnið í sundur og við þyrftum viðgerðarmann. Þetta var á fimmtudagskvöldi, en það gekk nokkuð vel að útskýra hjá honum. Hann leitaði í orðabók, spænska orðið fyrir ísskáp (man ekki) og spænska orðið fyrir eld (inferno!!). Svo hringdi hann: Hello, se Gudjon, ma "ísskáp" inferno... yes, need to fix..". Gaurinn sem hann talaði við skildi þetta ágætlega og tók þessum fréttum bara mjög rólega. Hann sagðist myndi senda mann daginn eftir. Svo leið dagurinn, og enginn kom. Og annar dagur og enginn kom. Og þið getið ímyndað ykkur fýluna sem fór að koma út úr helv.. ísskápnum. Því þó maður taki allt sem getur skemmst út úr ísskápnum, þá er samt eitthvað ógeð í honum sem maður fattar ekki að mygli. Í mínu tilviki var það rucola-salat, falið á bak við tómatsósuna, sem náði að menga laumulega alla íbúðina smátt og smátt. Nú, þegar fjórir dagar voru liðnir ísskápslausir og enginn viðgerð, þá hringdum við aftur, sendum meil OG hringdum í kallinn sem var í fríi í Brasilíu. Töluðum inn á símsvarann hans, eins og geðveikir túristar "WE ARE NOT HAPPY!!!". Fimm mínútum seinna var hringt í okkur: "viðgerðarmaður kemur eftir korter". Svo kom gaur með verkfæratösku, klippti á snúruna og teipaði hana saman aftur. Tók 3 mínútur."Voilá". Ég var frekar efins og er nú alveg sannfærð um að þetta sé algert fúsk. Ég "spurði" (á táknmáli) hvort þetta væri ekki hættulegt, hann brosti bara og sagði no no, og sýndi stoltur að hann hafði bundið snúruna upp, svo hún færi ekki í vatnið aftur. Hmmm. Við fylgjumst vel með þessu og ætlum að kaupa reykskynjara til að hafa fyrir ofan þetta. Allur er varinn góður. En þetta er soldið skrítið, maður sér soldið afslappaðra viðhorf gagnvart ýmsum hlutum hér, sem ég myndi nú telja frekar mikilvægt að hafa í lagi. En vá hvað er gaman að hafa ísskáp sem virkar!!!!! Þvílíkur lúxus.
Annað sem okkur finnst nú orðið ansi mikilvægt að hafa eru tölvurnar. Eftir að hafa alltaf þurft að fara í reception á íbúðahótelinu í Ríó til að komast á netið, finnst okkur rosa lúxus að hafa netið hérna bara í íbúðinni!! Datt þetta í hug um daginn þegar ég var að rölta á fótboltaæfingu með Arnóri og Orra. Þá hafði eitthvað komið fyrir hjá einhverjum bíl og löggan stóð hjá og tók viðtöl við vitni og mikið pælt og mikið rætt. Svo mikið að tveimur tímum seinna, þegar við vorum að rölta heim, voru þeir ennþá þarna. Þá voru þeir að fara yfir það sem þeir höfðu skrifað niður, stóðu tveir yfir skrifblokkinni, þar til einn fer í löggubílinn, tekur út kassa, upp úr kassanum tekur hann upp eldgamla ritvél, sem hann skellir á húddið á bílnum og svo fór hann bara að skrifa upp eftir hinum, sem las upphátt fyrir hann. Tölvur hvað...?

No comments: