Friday, March 13, 2009

Pepsi testið


Ýmislegt er hægt að dunda sér við, og mér datt eitt í hug um daginn. Ekki var það nú æfingatengt, eiginlega þvert á móti. Það er nú þannig að við eigum það til að setjast á kaffihús eða veitingastað (gerum meira af því hér en heima, því þótt það sé langt frá því hræódýrt, þá er það töluvert ódýrara en heima og í löngum göngutúrum yfir stræti og torg vinnum við oft upp mikla matarlyst). Þegar guttarnir panta sér drykk með matnum, biðja t.d. um sprite, þá svarar þjónninn "no, 7-up" og ef þeir biðja um Mirinda svarar þjónninn "no, Fanta" og svo framvegis. Þá mundi ég eftir Pepsi-Kók-test auglýsingunni sem var heima um árið, munið þið? Testið gengur út á að maður smakki drykkinn með bundið fyrir augun, og segi svo hvort er hvort og hvað manni finnst betra. Mig minnir að þetta hafi verið leið sem Pepsi tók til að sýna fram á að ALLIR velja Pepsi...hvernig sem það nú gekk. Við keyptum því Kók og Pepsi, Fanta og Mirinda og 7-up og Sprite. Svo þegar heim var komið prófuðu allir allar tegundir með bundið fyrir augun, allt skráð niður, mikill hátíðleiki enda um gríðarlega keppni að ræða.. að ná öllu réttu. Og niðurstöðurnar voru auðvitað mismunandi, sumir fengu allt rétt, aðrir bara eitt. En við vorum öll sammála um að það er eiginlega fáránlega lítill munur á þessu sykurdrulli, nema að Coka Cola vörurnar vöru helst til sætari, ef eitthvað. Þetta var ferlega skemmtilegt og ég mæli bara með þessu sem fjölskylduskemmtun. Ef þið hafið áhyggjur af óhollustunni, þá er bara hægt að taka þetta á nammidegi og sannfæra sjálfan sig um að þetta sé góð kennsluleið fyrir börnin að þróa með sér önnur skynfæri en augun.... ;-) strákunum fannst þetta ÓGISSLEGA gaman, voru flissandi og hlæjandi og Orri skoppaði alla leið heim úr búðinni af spenningi þegar við keyptum flöskurnar.

No comments: