Wednesday, September 10, 2008

Frábærir fótboltadagar

...kannski ekki fyrir Ísland, en fyrir guttana okkar er þetta búið að vera skemmtilegt. Gaui hringdi í KSÍ hérna á eyjunni og fékk númerið hjá liði hér. Maðurinn sem er yfirþjálfari heitir David og hann boðaði bara Orra á æfingu í gær með 6-7 ára guttum og Arnór í dag með 8,9 og 10 ára guttum.

Kricket er helsta íþrótt Barbadosbúa, og fótbolti mun minna þekktur. Samt voru um 25 litlir guttar á æfinu í gær og okkar maður var alsæll. Viktor var með Orra allan tímann að hjálpa honum að þýða allt sem þjálfararnir sögðu, og það er bara ótrúlegt hversu mikið hann Viktor skilur. Það er nefninlega ekki alveg enska sem er töluð hér alltaf, heldur er mjög mikill "bajan" tónn í þessu og þetta er í raun mjög sterk mállýska. En að fótboltanum, hann Orri er kallaður Patrick hérna (heitir Patrekur Orri) og þjálfararnir voru alltaf að kalla "well done Iceland" eða "good going Patrick" eða "go on Patrick, tackle him, go on!!" :) Orri var mjög sáttur við eigin frammistöðu eftir æfinguna, enda fékk hann gríðarlega hvatningu, og hann tilkynnti í bílnum í fullri alvöru á leiðinni heim, alveg blautur af svita "ég held að þjálfurunum hafi þótt ég langbestur á æfingunni". Og það fannst mér alveg frábært, það er einmitt það sem maður vill að allir upplifi í þeirri íþrótt sem þeir stunda, hafi gaman að þessu og upplifi sigra og þessa "ég get" tilfinningu.

Arnórs æfing var fjölmennari, um 40-50 drengir og aftur var svona rosalega gaman. Þetta eru tveggja tíma æfingar í yfir 30 stiga hita og það er ekkert smávegis sem það krefst. Hann stóð sig líka frábærlega, fór inn í æfinguna af fullum krafti og var alltaf á ferðinni. Enda var eftir honum tekið, ekki furða með þessa hæfileika og þetta síða rauða hár! Þetta var alveg frábært og ofsalega mikil gleði í þjálfuninni hér. Aðstaðan er alls ekki góð, þeir spila á grasflöt hjá litlum skúr sem er í niðurníslu, engin flóðljós og á miðjum vellinum er stór yfirbreiðsla þar sem sandflötur kricketvallarins er. En gleðin og hvatningin er til staðar og bara flottur fótbolti spilaður hjá guttunum, heilmikil tækniþjálfun og skotþjálfun. Orri og Arnór eru skráðir í þennan klúbb "Kick start football club" næstu 14 vikurnar, æfing einu sinni í viku, tvo tíma í senn. Verður gaman.

Viktor prófaði svo fótboltaæfingu með 11, 12 og 13 ára strákum í dag og þar er mikil áhersla á tækni. Aftur tveggja tíma æfing og mikil keyrsla, en líka mikið talað og mikið útskýrt. Viktor hefur lítið sem ekkert æft fótbolta heima, en stóð sig alveg svakalega vel. Spjallaði við strákana á æfingunni, og naut þess bara að vera með og standa sig vel. Hann ákvað að prófa fótboltaæfingu í stað taekwondo, eins og hann stundar heima, eftir heimsókn í taekwondo tíma í gær. Stefnan var sem sagt tekin á taekvondo æfingu fyrir Viktor í gær eftir fótboltaæfingu Arnórs. Æfingin var í húsi niður í bæ, eiginlega alveg við göngugötuna (sem bílar keyra nú samt í gegnum). Og við löbbuðum upp á þriðju hæð þar sem tíminn átti að vera, og þetta var nú ansi hreint ólíkt fótboltaæfingunni. Salurinn var í algerri niðurníslu, á æfingunni voru fjórir krakkar ca. 4-7 ára og einn þjálfari, og satt að segja fannst okkur þetta eins og að koma inn í fangelsi. Krakkarnir áttu að gera sömu hreyfinguna aftur og aftur og aftur, og svo næstu hreyfingu aftur og aftur og aftur og aftur og aftur. Áhugaleysið skein úr andlitunum, og ef þau gerðu vitlaust, stoppaði þjálfarinn æfinguna, gekk að þeim, talaði niður til þeirra og þrælaði þeim í gegnum hreyfinguna eins og þau væru hreyfihömluð. Öðru hvoru átti að gera 20 armbeygjur, og það var nú lítið pælt í hvernig þær voru gerðar, olnbogar úti, bakið bogið, hálsinn teygður og allt í hönk. Ekkert leiðrétt þar. Ég veit að það er krafist aga á bardagaæfingum, en þetta var bara ömurlegt. Það er hægt að kenna bardagaíþróttir á jákvæðan hátt, þar sem aga, þjálfun, gleði og smá húmor er blandað saman. Það á að vera gaman að stunda íþróttina, auðvitað líka stundum mikil vinna, en það á samt alltaf að vera gaman líka. Það er allavega mín skoðun og við ætlum að leita að öðrum stað fyrir Viktor að æfa, því þótt maður eigi kannski ekki að dæma allan klúbbinn eftir eina heimsókn, þá var stemningin þarna ekki eitthvað sem ég vil að Viktor upplifi í tengslum við taekwondo, sem hann annars elskar að stunda.

Jæja, nóg af því. Við erum að berjast svolítið við maura þessa dagana, enda rignir ansi mikið núna. Þá leita þessi "grey" inn í skjólið. og það er frekar pirrandi að finna þá alls staðar sem smá mylsna hefur verið skilin eftir. Það hefur nú stundum verið lenska hjá mér að geyma uppvaskið aðeins.. en hér gengur það bara ekki. Og það er fátt sem rekur mann janfmikið áfram og hræðslan við helv... maurana. Ég var nú alveg orðlaus af vanmáttugum pirringi hér einn morguninn, þegar ég ætlaði að setja morgunbrauðsneiðina mína í ristina. Er komin í vana hér að fá mér brauðsneið og kaffi í morgunmat, því hafragrauturinn smakkast bara ekki eins vel án lifrarpylsunnar... kannski finn ég eitthvað í staðinn, en þangað til... Nú, maurarnir voru sem sagt komnir í ristina, og ég sem er nú yfirleitt frekar yfirveguð manneskja var bara að gráti komin að þurfa að díla við þessi kvikindi fyrir morgunmat!!! Ég tók "æðiskast" (milt) og spreyjaði bara allt draslið, ristina (bara smá), snúruna, borðið í kring og gólfið í nettu morðæði og jú jú, þeir drápust. Svo þurfti að hreinsa upp líkin og eitrið, og ég neyddist til að hvíla ristina rétt meðan mesta eitrið væri að sjatna, beið í tíu mín og ristaði svo fína "coconut brauðið" sem ég er búin að finna hér. Smakkaðist bara vel. Svo kom Sheila, konan sem leigir okkur, í óvænta heimsókn stuttu seinna, og þá nýtti ég tækifærið til að spyrja hana hvað hún gerði í sambandi við maurana. Hún sagði "þar sem það er rigningartímabilið núna, þá leita þeir inn..." jú jú, ég vissi það.. en hvað með ristina.. "jú, ef þeir eru í ristinni, þá kveikir þú bara á henni, það drepur þá!" ..hmm, ok, en þá eru dauðir maurar í ristinni.. "já, já, þeir eru meinlausir.." ojojojoj... hugsaði ég en þar sem ég hafði fengið að borða, hélt ég rónni. "Má eitra?" spurði ég, morðinginn.. já, já, það má eitra, auðvitað ekki ofaní ristina, haha, that could be harmful..." "of course, haha" svaraði ég mjööööög róleg.." Allavega, ristin komin uppá hillu og ég held ég lifi þetta af.

Það eru fleiri dýr að koma inn til okkar í rigningunni núna. Eðlur sækja svolítið inn, en þær eru alveg óskaplega hræddar við okkur. Ferlega fyndið samt að sjá þær ganga bara lóðrétt eftir veggnum. Kíkið á videóið :))

6 comments:

Anonymous said...

Hæ Hæ
Var að flakka á netinu og rakst á þessa síðu, og er það þá ekki Gaui gamli félagi. Var reyndar búinn að frétta að þið væruð að fara út.
En Vala! alveg magnað að ég hafi verið í spinning hjá þér í tvö ár og ekki vita að þú værir konan hans Gaua:). Hafið það sem best og gangi ykkur vel.
Gaui mailið hjá mér er kiddi@stalogsuda.is væri gaman að heyra í þér. Kveðja Kiddi

Ps. Maiden rules haha

Anonymous said...

Hahahaha heyrðu þú ert greinilega stórhættuleg með eitrið... Ég fæ nú stundum kakkalakka í heimsókn...stundum fugla líka sem að hoppa inn af svölunum. Ég heyrði í einni gekko í skápnum hjá mér áðan, hef fundið eina þar áður, en þær eru góðar þær éta flugurnar!!! Knús frá OZ

Unknown said...

hahaha það er aldeilis allt að gerast!! ég skil þig VEL með maurana, fara mest í taugarnar á mér þessi litlu kvikindi...
gaman að heyra af ykkur...

knús
Erna, Elmar og Eik

Anonymous said...

Halló halló!
Okkur Dodda fannst gaman að sjá myndirnar hjá ykkur, eðlan var alveg frábær. Dodda langaði að fara til Orra og synda með honum í sjónum!
Við eigum eftir að kíkja inn oftar til að fylgjast með ævintýrum ykkar.
Hafið það gott
Kveðja
Doddi, mamma hans og pabbi

Anonymous said...

Hæ gaman að lesa bloggið ykkar. Við skilum kærri kveðju.
Tína , Kalli og krílin

Unknown said...

Sæl og bless vinir...

Þetta blogg jafnast á við bestu framhaldssögu. Ég er búinn að leggja Eldrauðu Ástarævintýrunum og Ísfólkinu og les bara þetta blogg á kvöldin. Skemmtilegur flæðandi í skrifunum og flottur stíll...

Ég bíð spenntur eftir næstu ævintýrum!

Gangi ykkur sem best og Gaui ekki drepa þig á þessum hlaupum. Við viljum fara að sjá slakan Gaua með rastafari fléttur sem lætur nægja bæsepp með bjórnum.

Bragi og restin af Nökkvavogi 23

Blog Archive