Sunday, September 14, 2008

Dropasteinshellir og surfing á Bathsheba


Í dag fórum við í svakalega ferð niður í jörðina!! Við fórum að skoða Harrisons cave, einn af frægustu dropasteinshellum í heimi. Við fórum með "lest" langt niður í jörðina í þessa hella sem hafa verið þekktir í að minnsta kosti 250 ár. Þó er talið að jafnvel frumbyggjar á eyjunni hafi vitað af þeim. Stærstu dropasteinarnir hafa verið að myndast í um 7000 ár en þetta eru svona gul grýlukerti í loftinu sem lekur endalaust úr. Það sem lekur af þeim myndar svo "klessuturna" á hellisgólfinu og úr verður algert listaverk í hverri hvelfingunni á fætur annarri. Ein hvelfingin, sú stærsta er nefnd "The Cathedral" og það er svolítið eins og að koma inn í kirkju þegar maður kemur þangað inn. Lofthæðin er gríðarleg og svo eru þessir skúlptúrar út um allt á hellisgólfinu. Með smávegis ímyndunarafli er auðvelt að sjá alls konar myndir út úr þessum formum, Maríu mey, munka, eða drauga. Mér fannst þetta þó einna mest minna á Hattifattana úr Múmínálfunum. Án gríns.


Eftir hellaferðina fórum við svo í bíltúr yfir á austurhlið eyjarinnar og horfðum aðeins á surfingkeppni í Bathsheba. Austurhlið eyjunnar snýr að Atlandshafinu og þar eru mun meiri straumar en á vesturhliðinni sem snýr að Karabíska hafinu. Þannig að það er ekki mælt með að synda við austurhliðina, en hins vegar koma þessar svakalegu öldur þar og því er þetta surfing paradise! Sem væri gaman fyrir okkur ef við kynnum að surfa. Someday. Við fylgdumst með þessum hörkutólum og ég hafði einstaklega gaman af að fylgjast með fólki detta og hverfa inn í froðufellandi ölduna. Rosalegt sport, enda svakalega hraustlegt útlit á þessu fólki. Ekki einn einasta feitan surfara að sjá, sama á hvaða aldri þeir voru. Það eru misjafnar aðferðir sem þeir nota. T.d. völdu flestir að fara í gegnum eða undir ölduna, þegar þeir voru að svamla út, en sumir reyndu alltaf að fara yfir ölduna, kannski til að rugla ekki hárinu, en surfarar eru alltaf með sítt hár með strípum. Sú aðferð var greinilega erfiðari, en kannski meiri rússibanatilfinning í henni. Við viljum læra þetta, spurning bara hvar og hvenær í reisunni.
Við erum enn að fá heimsóknir af hinum ýmsustu kvikindum. Horfðum á þátt um skrítna fæðu á National Geografic eitt kvöldið, m.a. verið að borða tarantúllur í einhverju landinu, ásamt öðrum kvikindum með fleiri en fjóra fætur. Svo komu upp myndir af fólki á Vesturlöndum vera að borða humar og krabba og Gaui sagði: "já, þetta er kannski bara svipað... aldrei að vita nema maður prófi..". Ég var ekki alveg jafn yfirveguð og civilliseruð yfir þessu, en svo förum við að slökkva ljós og svona fyrir háttinn.. og... ónei, það er ekkert rómó sem gerðist þá.. ekki fara að halda það. Við hurðina á svefnherberginu okkar beið stærsti kakkalakki sem ég hef séð á ævinni!!! Fyrst blótuðum við honum, en þegar það dugði ekki náðum við í eitrið góða og spreyjuðum (eða Gaui spreyjaði, ég var í "stikki" inni í herbergi með það mikilvæga hlutverk að halda rónni). Eitrið hafði nú lítil áhrif á Kakka, og þá upphófust þær almestu barsmíðar sem heyrst hafa í þessu húsi.. með dagblaði. Eftir ca. tveggja mínútna baráttu, og brjáluð læti (þar sem Viktor kallaði fram "pabbi, viltu hætta að leika þér með pottana, ég er að reyna að sofa hérna!") var Kakki sigraður. En Gauja langar ekki að borða stórar pöddur eftir þetta, svo eitthvað gott kom út úr þessu :)

Mýflugurnar eru búnar að fatta hverjir eru með sætasta blóðið í fjölskyldunni. Við Arnór eigum klárlega vinninginn. Í augnablikinu er ég með um það bil tuttugu bit fyrir neðan hné. Í gær þegar ég gekk um með eymdarsvip, haltrandi og stynjandi í von um smá samúð, þá heyrði ég sagt fyrir aftan mig "oj, ertað grínast, mamma, þú ert ógeðslega bólug á fætunum!!" Þetta var öll samúðin, en þar sem ég er ábyrg fyrir íslenskukennslunni í vetur þá svaraði ég með þótti "það heitir að vera bólóttur á fótleggjunum!". Þannig er nú það, alltaf tækifæri til að kenna, ef maður er bara vakandi fyrir því.


1 comment:

Anonymous said...

Já, hættu þessum hamagangi með pottana Guðjón :-) Hahaha, frábær skemmtun að lesa bloggið ykkar og vonandi gengur ykkur bara vel í baráttunni við "fjölfætlinga" og aðrar smáverur. Gaman að eiga upprennandi fótboltasnillinga-frændur. Bestu kveðjur frá okkur öllum. Guðrún fr.

Blog Archive