Tuesday, September 23, 2008


Þá er busy íþróttadagur að baki, Viktor að prófa bardagaæfingu og Orri á fótboltaæfingu fyrir 6-7 ára. Arnór tók þátt í æfingu Orra á þann hátt að aðstoða Orra þegar þurfti að þýða, en Orri er ekki alveg kominn með enskuna á hreint enn :)


Viktor er að æfa í klúbbi sem heitir Martial Arts Akademy, þar er hann að læra íþrótt sem heitir Jeet kun do og byggist á fræðum Bruce Lee!! Margt er nú til, og aðalmálið að guttinn er HIMINLIFANDI. Þetta er blanda af flottum spörkum og kýlingum, en í bland við gólfglímur og lása og blandan af þessu öllu á að gefa útkomu sem virkar, ef maður lendir í því að þurfa að verja sig úti á götu. Viktor glímdi við bæði við aðstoðarþjálfarann og aðalþjálfarann í dag og stóð sig vel, enda nautsterkur strákurinn og eitthvað búinn að læra af öllu þessu gamnituski með pabbanum. Svo þetta er það sem hann ætlar að æfa á Barbados. Tvisvar í viku.


Orri tók skemmtilega byrjun á æfingu í dag, tók upp á því að missa framtönn. Er því með ansi stórt op í munni núna, enda á þessum fallega tannlausa aldri. Hann var greyið alveg að leka niður á æfingu í dag, sólin skein, enginn vindur og þáááá er heitt. Svo hann fékk svona "hetjutreatment" hjá mér, fékk reglulega væna gusu af vatni yfir hausinn og smá slettu upp í munn og þá tórði hann næstu fimm mínútur. Hehe, held að hann þyki nú dálítið dekstraður, en þegar maður kemur frá landi ísa, þá finnst mömmunni það í augum uppi að maður er ekki að höndla það að hlaupa og sýna listir í 35°hita.


Það er búið að vera gaman að skoða íþróttalífið hér. Á afmæli Gauja hlupum við náttúrulega brekkuna góðu, 1.5km löng og við hlupum öll.... eða Viktor, Arnór og Gaui hlupu, ég og Orri hlupum ca. 30m og þá vildi Orri koma á hestbak. Svo þannig tók ég þetta, ekki hlaupandi, en gekk rösklega. Svo þegar þeir voru búnir að bíða eftir mér meðan ég gekk með Orra, sleppti honum svo þegar ca 50m voru eftir og við hlupum saman glæsileg í mark, þá langaði mig nú til að prófa að hlaupa þetta. Svo þeir biðu uppi, ég skokkaði niður og aftur upp. Fór hress af stað, eftir 4 mín þegar ég var enn að hlaupa niður, fór ég aðeins að hugsa hvern andsk.. ég væri að hugsa, en svo þýðir lítið að gefast upp. Svo ég lét mig hafa þetta, hljóp á mínútu lengur en Gaui, hann tók brekkuna á 8.15 og ég 9.15. Ég á eftir að bæta þetta, eins og hann reyndar líka. Á myndinni eru feðgarnir eftir hlaupin upp, misþreyttir, en allir jafnkátir. Þetta var rosalega gaman, Gaui hugmyndaríkur í svona skemmtunum og þetta gaf góða samverustund sem strákarnir tóku mjög alvarlega og stóðu sig frábærlega.


Svo fórum við bara á gullna strönd, kældum okkur niður og lékum okkur í öldunum. Viktor kramdi vespu með hnéinu í sandinum og fékk stungu, en það er sem betur fer lítið núna. Svo keyrðum við aðeins og fundum strand"chillout" stað, þar sem hægt var að fá mat og drykk um leið og maður sat og horfði á lífið á ströndinni. Voða næs. Ég fylgdist með hvítu kjánunum á ströndinni sem allir voru meira og minna brunnir, maður náttúrulega búinn að vera hér í 20 daga, næstum orðinn eins og innfæddur.. en um kvöldið fattaði ég að þessi þrjóska mín í brekkunni kom mér í koll. Ég var orðinn hvítur kjáni, brunnin eins og hinir.


Í gær prófaði ég mína fyrstu læknisheimsókn hér, ekki vegna brunans, heldur vegna bits sem kom á upphandlegginn minn. Það stækkaði og stækkaði, þar til biceppinn var orðinn ca. 40cm í ummál. Það væri kannski ekki slæmt hér, því vaxtarækt rosalega inn hér á Barbados, en þó gætti töluverðs ósamræmis í hlutföllum, hinn biceppinn er nebblega bara 25cm ca. Þannig að það var lítið nothæft í þessu og ég dreif mig til doksa. Fór á "Sandy Crest Medical center", hafði tekið eftir því þegar ég hef keyrt gegnum Holetown (bærinn sem Tiger Woods gistir í þegar hann er hér). Hugsaði sem svo, þar hljóta að vera vel menntaðir laakknar, sem stólandi er á. Vel tekið á móti mér, er látin fylla út blað með alls konar upplýsingum, ma. hæð og þyngd, marital status og fleira. Svo beið ég á biðstofunni, voða spennt, er kölluð inn til hjúkku sem mælir blóðþrýsting, tekur púlsinn, vigtaði mig (trúði mér ekki að ég væri svona fislétt, enda muskulös með þennan bícepp) og ég fékk svaka fína meðferð, biður mig svo að bíða, læknir komi fljótlega að skoða mig. Svo meðan ég sit róleg, læt ég augun reika um svæðið og sé þarna bréf frá Tony og Cherie Blair þar sem þau þakka hjálpina þennan örlagaríka þriðjudag, noh, noh, annað frá Tigernum sjálfum og svo nálægt því tilkynningu "NO CREDIT, PLEASE FEEL FREE TO ASK IN ADVANCE THE ESTIMATED COST OF YOUR CONSULTATION". Þá kom nú smá hik á mína, hafði verið svo ljómandi ánægð með þjónustuna hingað til, en sá nú fyrir mér 50þús dollara reiking. Ákvað að halda þetta út, örugglega líka myndavélar á svona fínum stöðum og ég hefði náðst ef ég hefði reynt að troða mér út um gluggann. Líka fest bíceppinn í þessum mjóu gluggum. Allavega, ég hitti doksa, og komin á bólgueyðandi og krem og er að ná fyrri hlutföllum á ný. Og reikningurinn ekkert svakalegur, ekki skemmtilegur, en yfirstíganlegur. Hjúkk.


En það var íþróttalífið.. við höfum kíkt á nokkrar stöðvar. Þær eru misjafnar auðvitað, eins og heima, sumar mjög hráar og flottar, og aðrar meira fancy. Mér finnst skrítnast að þær opna yfirleitt milli 4 og 5 á morgnanna! Morguntímar í spinning eru t.d. kl. 5.15! Mér fannst nú 6.15 alveg nógu snemmt þegar ég var að kenna. En spinning er greinilega nokkuð vinsælt hér og salirnir eru skemmtilegir. Ein stöðin er með diskókúlur og ljósaseríur í notkun meðan tíminn er, og í annarri stöð er risaskjár á bak við kennarann þar sem birtast myndir af vegum og flottu umvherfi meðan tíminn er í gangi. Rosa kúl. Fleira sem er í boði í stöðvunum er t.d. "Bridal bootcamp", sem sagt bootcamp bara fyrir verðandi brúðir. Við erum samt mög dugleg að æfa hér heima. Erum komin í 350 hindusquats og 100 (5x20) hinduarmbeygjur. Ég gerði þetta í dag og Gaui mun eflaust bæta þetta á morgun því það er komin smá keppni í þetta. Arnór prófaði líka Power Wheelið í gær og fékk harðsperrur í fyrsta skipti í magavöðana í dag, frekar fyndið.


Hann Arnór fékk annars frábærar fréttir hér í síðustu viku. Hann var á fótboltaæfingunni sinni, sem er fyrir 8,9 og 10 ára með 50 öðrum guttum. Eftir æfinguna kom þjálfarinn til okkar og bauð honum að koma líka á æfingu fyrir 11 og 12 ára. Þeir velja 5 efnilegustu strákana úr hópnum og bjóða þeim á þessar aukaæfingar og Arnór var sem sagt valinn. Við alveg perustolt og hann auðvitað líka. Svo nú er ég aldeilis komin í keyra og sækja á æfingar-gírinn aftur, híhí. Nema að ég bíð alltaf meðan æfingin er (og þær eru 2 tímar) því ég vil ekki skilja þá eftir eina, svo þetta er ágætis hlutavinna, og mjög skemmtileg. Hver veit nema ég verði bara betri í fótbolta eftir þetta, það væri þá aldrei!!


Takk fyrir góðar kveðjur á afmælisdaginn hans Gauja og commentin ykkar eru æðisleg!!!! Endilega haldið áfram að senda okkur comment, eru ómetanleg! Hafið það sem allra best öll sömul á Íslandinu okkar. Hér er laust gestaherbergi... anyone??!? :)






No comments:

Blog Archive