Thursday, September 4, 2008

Bíllinn kominn!!!


Helsti atburður dagsins var að við fengum bílinn sem við ákváðum að leigja. Þetta hús sem við búum í er í ansi miklu úthverfi, og í raun ekki neitt sérstaklega spennandi nálægt, nema náttúrulega stutt í ströndina. Bíll gefur okkur mikið frelsi og við fórum í okkar fyrsta bíltúr í dag. Í fyrsta lagi þurfti að venjast því að keyra vinstra megin á götunni, Gaui tók það að sér í dag. Það gekk nokkuð vel, hann var snöggur að venjast því, það er í raun bara að gera nokkurn vegin allt öfugt við það sem maður er vanur að gera þegar keyrt er heima. Hringtorgin virka eins og heima, nema farið er inn í þau vinstra megin, keyrt öfugan hring og innri hringur á réttinn.

Það sem flóknara var í dag var að rata. Það eru voðalega fín kort yfir Barbados, svipað stór og gott Íslandskort, nema það tekur ca. 45 mín að keyra frá einum enda til annars, þannig að ég var bara komin norður í land á kortinu áður en ég vissi af. Ekkert smá erfitt þess vegna að finna nokkur staðarnöfn, það voru alltaf komnir 20cm á kortinu á no time!! Svo er eiginlega ekkert merkt hér, fyrr en maður er kominn á staðinn, og þá þýtur maður auðvitað framhjá. Eyjan er ótrúlega falleg, gróðursæl og hæðótt. Vestuströndin, þar sem við erum, er mjög þéttbýl og þar eru bestu baðstrendurnar. Austurströndin snýr að Atlandshafinu og þar eru mun meiri straumar og ekki mælt með að fólk sé að synda þar. Hins vegar er þar alger surfing-paradís og það var ógeðslega flott að sjá pínulitla kalla (reyndar í eðlilegri stærð, en öldurnar voru svo stórar :) að leika sér með brimbrettin á öldunum og hrynja svo inn í risaöldur og hverfa. Við vorum orðin soldið svöng eftir að baða við Vesturströndina, keyra svo landið þvert og endilangt yfir á Austurströndina, svo við byrjuðum að leita okkur að veitingastað. Höfum ekki enn prófað veitingastað hér, þetta eina skipti sem við ætluðum að prófa var hann jú í fríi til 24 október. Allavega, það var hægara sagt en gert að finna stað sem ekki var bara búlla, þrír stólar, pulsugrill og bjórkassi. Og við vorum komin alla leið aftur á Vesturströndina inn í Brigdetown, höfuðborgina, þegar við fundum stað til að fara á. Þótt vegalengdin sé ekki mikil, varð þetta góður bíltúr því við villtumst fram og tilbaka um litla sveitavegi sem voru barasta ekkert merktir. En við enduðum á stað sem kallast "Brown sugar" og var baaaara góður. Ætlum að fara með gestina okkar á þennan stað, alveg pottþétt.

Dýralífið hérna er ansi mikið öðruvísi en á Íslandi. (talandi um dýr, hér fyrir ofan er mynd af hundinum hans Renzo Gracie, sem við fórum að kíkja á í New York, meira um það síðar, þvílíkur höfðingi hann Renzo og þvílíkur hundur sem hann á!) Ég og guttarnir fórum á strönd í gær meðan Gaui var að vinna, sem Tiger Woods og hans líkir fara á þegar þeir koma hingað, kallast Monkey Bay. Svo sem eins og hinar strendurnar, gullfalleg, en það sem var sérkennilegt við hana var að það var fullt af dauðum skjaldbökuungum í sandinum. Þeir höfðu líklega verið á leiðinni að sjónum og ekki náð áður en þeir þornuðu, en við fundum einn lifandi og vorum ekki lengi að koma honum í sjóinn. Vona að hann spjari sig.. Við eigum eftir að prófa að leigja bát til að fara að skoða risaskjaldbökur, en það er víst hægt að synda með þeim og snorkla í kringum þær. Ætlum að prófa það einhvern daginn. Rákumst einnig á gulan krabba á ströndinni, sem hljóp fyrir framan okkur. Var svona eins og á fjórða glasi því hann hljóp út á hlið, dreif sig svo undir stórt laufblað og gróf sig niður í sandinn. Svo þegar ég var að hengja upp þvottinn í dag hér fyrir utan, var að ná í eitthvað á snúrunni og sé svona út undan mér græna eðlu. Fyrstu nanósekúnduna hugsaði ég bara "þessi leikföng fara nú alveg út um allt" en fattaði svo að þetta væri bara alvöru lítil skærgræn eðla sem hélt að ef hún stæði aaalveeeg kyrr myndi ég engan vegin sjá hana á rauðu gólfinu. Hrikalega fyndin lítil dýr.

Guttarnir eru ýmist rosalega ánægðir með ferðina, eða mjög þreyttir á þessu. Viktor tók smá rispu í dag í mikllu pirri yfir því að við værum "bara" með tölvu, en ekki prentara. Hann þurfti prentara og það strax. Lítið atriði í raun, en allt sem þeir eru að upplifa núna, undirstrikar hversu góðu við erum vön heima á Íslandi. Og ekki bara þeir, ég líka. Ég á dálítið erfitt með að fá ekki fetaostinn minn, lambhagasalatið og kotasæluna :) missti út úr mér í dag, þegar við vorum búin að keyra hring eftir hring um litla, holótta, ómerkta vegi í leit að veitingastað sem ég teldi "örugga", að ég skildi bara alveg fólk sem færi í frí á lokuðum lúksussvæðum með allt innifalið, hehemm. Þegar maður er svangur og þreyttur, og þarf að klára verkefni, kemur líklega best í ljós úr hverju maður er gerður. Örugga á ég við, staði sem gefa ekki magakveisu. Ég er pínu smeyk við það á þessum litlu vegabúllum, en kannski á það eftir að koma. Ég er ennþá föst í því að staður sem maður kaupir mat á, eigi að vera hreinn og fínn. En málið með svoleiðis staði hér er, að gaurar eins og Woods eru að borða þar, og þá er það ekki alveg gefins, svona eins og Holtið.

Viktor kom með gott komment í gær þegar við vorum að rölta út í búð í gegnum hverfið okkar, þar sem við erum eina hvíta fólkið. Einhver gaur heilsaði okkur, sem hafði líka heilsað daginn áður, og hann sagði í viðurkenningartóni "það er svo gaman hvað fólk er mannglöggt hérna!".

3 comments:

Anonymous said...

æði að lesa færslurnar ykkar!! ég kæmi 110% í heimsókn ef ég væri ekki með lítinn unga heima :Þ

María said...

Yndislegt að heyra frá ykkur.
Búin að setja slóðina á Favorites ;-)) alltaf að kíkja!

Skoðaðu Kastljós:
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4431204/4

fimmtud. 4.9.08 Seychelles

kveðja María

Anonymous said...

Hahahahaha gott þetta með manngleggninga... ;-) Habba

Blog Archive