Sunday, April 5, 2009

Ushuaia


Ushuaia var skemmtilega lík byggð á Íslandi, hefði getað verið Hafnafjörður, húsin svipuð og ferlega kalt. Bærinn er hafnarbær, byggður í brekku og húsin flest timburhús. Bærinn er auðvitað frægur fyrir að vera syðsti bær jarðar og gerir auðvitað mikið út á það. Þarna gengum við um og skoðuðum umhverfið, ekki þó lengi því kuldinn og vindurinn var bítandi og við búin að vera í hitanum svo lengi að við erum orðnir sottlir kettlingar í þessum kulda :þ Það er þarna fangelsi, sem er nokkuð frægt, enda syðsta fangelsi í heimi og þangað voru eingöngu sendir glæpamenn sem voru að fá dóm nr. tvö eða meira og þeir urðu að vera sterkbyggðir, því þetta var ekki fyrir vesalinga að lifa af þarna. Fangarnir voru nefninlega í vinnu (allavega þeir sem höguðu sér vel) við að höggva tré, byggja lestarteina og moka snjó. Þeir byggðu og notuðu svo syðstu lest í heimi, hún var tæplega 30km löng, var frá fangelsinu og út úr bænum, að skógarsvæði þarna nálægt. Lestin er kölluð „El tran del fin del monde“ eða lestin til enda heimsins og núna er hún túristattraction, gömul kolalest sem hægt er að fara með síðasta spottann af leiðinni, um 7km. Við gerðum þetta auðvitað, ekki oft sem manni býðst að taka lest á heimsenda, fannst 7km ekki mikið, en þegar við vorum lögð af stað urðum við nú fengin að þetta væri ekki lengra, því lestin fór lúshægt. Guttarnir urðu soldið skrítnir á svipinn þegar við lögðum af stað, hæægt og rólega.. og svo héldum við bara áfram að fara hææææægt og rólega. Viktor bað um að fá að ganga með, fékk það nú ekki, því hann hefði stungið okkur af ef honum hefði dottið í hug að skokka. Lestin fór með okkur um svæði þar sem trjástubbar stóðu eins og kirkjugarður liðinna tíma, tré sem höfðu verið hoggin af föngunum til að hita húsin í bænum. Það voru myndir af föngunum á lestinni, myndir af þeim að vinna í snjónum í röndóttum búningum (eins og Dalton-bræður), með vopnaða verði standandi yfir þeim. Fangelsinu sjálfu var lokað 1947 af Peron, vegna mannúðarstefnu, en er núna safn, bæði um sjálft fangelsisstarfið og svo líka sögu bæjarins. Við guttarnir fórum að skoða fangelsið, Gaui vildi sleppa því, hefur farið í tvö fangelsi áður, m.a. þar sem Nelson Mandela var og fannst lestarferðin alveg nóg sögustund um erfiða og drungalega liðna tíma. Fór í plötubúð í staðinn og skemmti sér vel. Við skoðuðum fangaklefana og þar voru t.d. endurgerðar pappadúkkur af nokkrum föngum, og rituð á vegginn í klefanum saga þeirra og glæpir. Nokkuð ógeðslegt og strákarnir hættu fljótlega að lesa þetta, enda neitaði ég sjálf að lesa þetta. Hrikalegar sögur um barnamorðingja, fjöldamorðingja og inn á milli pólistíska fanga. Úff, þetta var „haaard-core!“ eins og Arnold segir.
Svo voru dagarnir í Ushuaia búnir, og við flugum tilbaka til El Calafate. Ég var að tala um hversu gaman það væri að vera í flugvél og hvetja Orra til að horfa nú út um gluggann og njóta útsýnisins (það er mikil barátta alltaf um gluggasæti og Orri tekur fullan þátt í þeirri baráttu, þó hann fatti ekki alveg akkúru.. J) þegar hann horfði á mig og sagði: Tja, mamma, sko mér finnst þetta nú ekki ævintýri, sko. Ég meina, að fara að leita að gulli og finna, ÞAÐ er ævintýri, eða að týnast í eyðimörk og vera bjargað, ÞAÐ er ævintýri.. EF manni er bjargað. En að vera í einn klukkutíma í flugvél, sorry, en mér finnst það nú ekki vera ævintýri mamma mín, hehe“. Ég átti lítið svar við þessu, nema að biðja um gluggasætið næst J Litli stubburinn orðinn heimsmaður!!

No comments: