Sunday, April 5, 2009

Puerto Madryn


Við fórum frá Buenos Aires þann 21 mars, 17 tíma rútuferð til Puerto Madryn í Patagoníu. Patagonía hefur verið óskastaðurinn minn lengi, enda lesið mikið um þetta landsvæði, sem þykir mjög fallegt og er á heimsminjaskrá UNESCO. Hér eru gríðarlega þurrar og flatar sléttur sem við keyrðum yfir á leiðinni til Puerto Madryn, fyrsta áfangastaðar eftir Buenos Aires. Bærinn er eins og vin í eyðimörkinni, allt þurrt og rykugt í kringum bæinn, sem liggur við strönd Gulfo Nueve, en sá flói er frægur fyrir að vera „fæðingastaður hvalanna“. Þangað koma hvalirnir í september til að fjölga sér, fæða og ala upp ungana sína á svæði sem þeir eru friðaðir. Ströndin í bænum er frábær göngutúraströnd og við tókum auðvitað hrikalega æfingu þarna einn daginn. Alls staðar í bænum er að finna einkennismerki Puerto Madryn, hvalasporðinn upp úr vatninu.
Það var þó ekki eina ástæðan fyrir okkar heimsókn þangað, en við höfðum mestan áhuga á að koma til Punta Tombo að heimsækja stærsu mörgæsanýlendu Suður-Ameríku.
Við vorum á Hi Patagonia-hostelinu, þar sem Gaston ræður ríkjum. Okkur fannst það alveg frábær staður, vinalegt hostel og þægilegt, sanngjarnt verð og það sem var einna skemmtilegast var að tvö af þessum þremur kvöldum sem við vorum þarna, voru grillkvöld þar sem gestir hostelsins sátu saman og voru dekraðir af góðum mat og skemmtilegum sögum. Það var frábært að skiptast á ferðasögum með hinum gestunum, t.d. strákarnir frá Frakklandi, en annar þeirra hafði verið 6 mánuði í vinnu í Mexico borg. Þar sagði hann Mexicana alveg dýrvitlausa í alls konar Power Point forwardaða meila, og öðru hvoru heyrist skelfingaröskur úr einhverjum básnum, þegar sá hinn sami fær sendan Power Point mail frá galdranorn. Það er trú í Mexico að galdranornir geti lagt bölvun á mann, en eitthvað fannst vini okkar þetta ólíklegt og reyndi að spyrja Mexicanana með sínum frábæra ensk/franska hreimi: „do you really sink, sat if sere was a wítsh, sat she would use a power point..??“.
Svo var þarna Þjóðverji á ferðalagi um heiminn, bankastarfsmaður sem tók sér launalaust árs leyfi, mjög ótýpískt fyrir Þjóðverja. Hann hefur átt soldið erfitt hér í Suður-Ameríku, því verandi Þjóðverji, þá er hann gríðar-stundvís, en hér snýst allt um „mas o ménos“ sem þýðir „meira eða minna“, og t.d. þegar sagt er klukkan hvað að hittast? „ehh, klukkan tvö... mas o ménos“ og það getur þýtt svona hálf þrjú-þrjú, en Þjóðverjinn er auðvitað mættur korter í tvö!
Svo var það gaurinn frá Israel, 22 ára, búinn að vera 3 ár í hernum og berjast í tveimur stríðum. Skrítið að hlusta á hans lífssögur og lýsingar á baráttunni við Hamas. Hann sagði að það væru alltaf tvær hliðar á öllum þessum stríðslýsingum og yfirleitt væri hann ósáttur við báðar. Hann er sem sagt á móti stríðinu, eins og líklega flest venjulegt fólk í Israel og Gasa, sem vill bara fá að lifa í friði, eðlilegu lífi. Svo var par frá Englandi þarna, eða þau búa í Englandi, en hún er frá Suður-Afríku og hann frá Ástralíu. Þau voru mjög skemmtileg og hafa ferðast mikið um ævina. Ætla í þessari ferð að fara bæði til Páskaeyju og Galapagos! Það eru ansi dýrar ferðir, svo vonandi verða þær góðar :) Hittum einnig stelpu sem er frá Buenos Aires, en er að vinna á Peninsula Valdes Estansia, sem er kindabúgarður á Peninsulasvæðinu sem er heimsfrægt fyrir dýralíf og þá sérstaklega vegna háhyrninganna. Stelpan er guide í mörgæsa-svæðinu þar nálægt. Hún sagði okkur heilmikið um sögu Argentínu og útskýrði t.d. hvers vegna þessi litlu altari eru við vegina alls staðar. Eru til minningar um fólk sem hefur lagt sitt af mörkunum fyrir landið sitt. Svo eru mörg altari til minningar um konu sem lést í eyðimörkinni eftir að hún gekk af stað, með nýfætt barnið sitt til að fara til eiginmannsins, sem var að berjast fyrir Argentínu gegn Spánverjum. Hún lést úr vatnsskorti á leiðinni, en barnið lifði með því að drekka brjóstamjólk úr látnum líkama móður sinnar, þar til því var bjargað. Atvinnubílstjórar stoppa við þessi altari og leggja fullar vatnsflöskur hjá því, til minningar um þessa konu og í von um að hún veiti þeim vernd á vegum landsins í staðinn.
Ef þið rýnið í myndina, þá sjáið þið stóran hund ganga með okkur, hann ákvað í smá stund þarna á ströndinni að eiga okkur, gekk með okkur nokkra kílómetra, stór og skítugur en voðalega vinalegur. Við skírðum hann Björn, því hann var eins og björn. Fyndið með svona atvik, að þegar hann gekk þvert yfir teppi hjá fólki sem var í huggulegu picnic á ströndinni eða terroriseraði litla púðluhunda í bleiku og tölti svo til okkar aftur, þá fengum við þvílík augnaráð frá fólki. Og það fyndna var, að við fengum samviskubit! Eins og við bærum ábyrgð á þessum flökkurisa!!

No comments: