Tuesday, May 5, 2009

Uyuni og rútuferð og hrrrotel


Stefnan var svo tekin á Uyuni, þar sem bærinn liggur við Salar, en það er eitt stærsta undur Bólivíu. Stórt uppþornað saltvatn, 12þús ferkílómetrar að stærð, sem sagt stærra en Barbados, og 1/10 af stærð Íslands. Uyuni (borið fram Újúní) er hins vegar bær sem er á barmi örvæntingar. Um leið og við stigum útu úr rútunni var fullt af fólki sem stökk að okkur með tilboð um gistingu, ferð að Saltvatninu og aðra túra. Það var rifist um okkur, allir að gera lítið úr tilboði hinna, og á endanum fór Gaui með einum kalli sem hafði hostel þarna alveg við, til að kíkja á herbergin. Hann kom tilbaka og var eitthvað skrítinn á svipinn, spurði mig svo „langar þig að prófa að sofa í fangelsi?“, þá voru herbergin víst alveg eins og klefi. „Fjölskylduherbergið“ var örmjótt, með fjórum rúmum og ekkert annað komst inn, NEMA sjónvarp sem hékk á veggnum. Kallinn gerði mikið úr því „you see, television!!“. Þegar Gaui spurði um klósettið, þá var það bara hinum megin við hornið, sem þýddi ca. tveggja mínútu labb gegnum ranghala hússins. Við erum svo sem engin lúxusdýr, en þetta var aðeins of mikið, þegar maður er með þrjá gutta með sér, mismyrkfælna. Þá fylgdum við stelpu sem var að „headhunta“ á vegum hótels þarna í bænum. Hún lagði mikla áherslu á að þetta væri „hhrrótell, nott a hhrrrostel!“, sagði það ca. þúsund sinnum , þar til Arnór sagði bara „YES, WE KNOW, HHRROTEL!!“. Við vorum ánægð með það sem við sáum þar, tvö samliggjandi herbergi og heit sturta og klósett í herbergjunum. Tókum tilboðinu og einnig tilboði stelpunnar, sem ætlaði að sjá um allt fyrir okkur, hótel, dagsferð í Saltvatnið með „english speaking guide“ og svo rútan til La Paz. Hún sagði okkur að það væri óþarfi að vera tvær nætur í Uyuni, hægt væri að taka þessa fínu næturrútu til La Paz, semi-cama, sem þýðir minni sæti, sem þó er hægt að halla aðeins aftur. 11 tímar, piece of cake! Við stukkum á það. Daginn eftir vorum við hress og kát, þrátt fyrir næturgest á herbergið, sem kom ekki einu sinni, heldur fjórum sinnum! Við vöknuðum sem sagt við skrjáf í pappír sem var í rúslinu og í var ávaxtabörkur, en í hvert sinn sem við kveiktum ljósið skaust kvikinið út undir hurðina. Við giskum á að það hafi verið lítil mús eða eðla, mjög þrjósk og hún hætti ekki fyrr en við settum ruslafötuna út. Hinn fíni enskumælandi guide reyndist nú vera grautfúll bólíviani, sem sagði varla stakt orð, fyrr en hann var búinn að tyggja hér um bil fullan poka af kóka-laufum, en þau eru alls staðar! Þetta er sem sagt lauf af kókajurtinni, þeirri sömu og kókaín er gert úr, þetta er selt alls staðar og svei mér þá ef þú bara missir ekki ríkisborgararétt í Bólivíu ef þú tyggur þetta ekki daginn út og inn. Hann fór með okkur á þetta gríðarstóra svæði sem Salar de Uyuni er, Saltvatnið (og hann var eins og hrossin í sveitinni, hundfúll á leiðinni þangað, en svínhress á leiðinni heim!). Fyrst fórum við í kirkjugarð lestanna. Þetta hlýtur að vera eitt skrítnasta „túrist-attraction“ sem við höfum farið á, fullt af lestum, allt að 90 ára gömlum, sem má klifra á og leika sér í.

No comments: