Monday, December 29, 2008

29. des


Í dag er afmælisdagur afa Gunnars, hann hefði orðið 98 ára ef hann hefði lifað. Skrítið að hugsa til þess að það sé orðið svo langt síðan hann fæddist. Í dag er einnig skírnardagur Viktors Gauta, en við létum eimitt skíra hann á afmæli afa. Viktor er 12 ára, og þegar ég hugsa um allt sem hefur gerst á þessum 12 árum, þá er bara alveg ótrúlegt hversu margt getur breyst á ekki svo mörgum árum. Eins gott að nota tímann sem maður hefur vel, gera það sem maður hefur áhuga á og nota frekar tímann í að hafa gaman að hlutunum, heldur en eyða tíma í leiðindi og kvart.


Við höfum haft það voða gott yfir jólin hér með ömmu Steinu, Eiríki og Höbbu í heimsókn. Aðfangadagur rann upp heitur og bjartur, eftir úrhellisrigningu um nóttina. Ég var í raun bara með eina ósk fyrir þennan dag sem var utan hins hefðbundna sem maður gerir eins og að búa til frómasinn, matinn og klára að pakka og svona, en það var að fara á ströndina!! Náttútulega frekar svalt að skella sér á ströndina á aðfangadegi, svamla í heitum sjó og njóta lífsins. Eftir góðan hrísgrjónagraut lagaðan af miklilli natni (Eiríkur fékk hlutverkið að hræra í grautnum, stóð við pottinn tííímunum saman) og miklar umræður um Kertasníki, en hann gaf guttunum í sokkinn, ömmu Steinu í skóinn og okkur hinum pakka, alveg svakalega gjafmildur kallinn, þá kíktum við aðeins á ketið til að komast að eldunartímanum. Við höfðum keypt góða svínasteik til að hafa í matinn, hefð frá Gauja fjölskyldu og ekki fást rjúpur hér, þannig að ég var voða sátt við purusteikina. En eitthvað var nú skrítin lykt af kjötinu fannst okkur Arnóri, ekki góð, en Gaui og aðrir róuðu okkur, svona er bara lyktin af svínunum... og jú hún er ekki góð, jafnvel þó þau séu lifandi, hvað þá dauð og ekki grafin.. hmmm. Nú við skelltum okkur á ströndina og það var æði!! Við vorum með brettin sem strákarnir hafa fengið einn af öðrum í afmælisgjöf og það er svo gaman að leika sér í sjónum. Endurnærandi og æðislegt. Við vorum eina tvo tíma á ströndinni með guttana, og töltum svo heim á leið. Eftir sturtu og tiltekt fór klukkan svo að nálgast fjögur og tími til að elda ketið fína. Tókum það út úr ísskápnum, og það var þessi svaðalega FÝLA sem mætti okkur. Þá fór sko ekki milli mála að fína fína jólakjötið var skemmt og vel það! Við Gaui rukum í búðina, sem betur fer er opið lengi hér á aðfangadag því aðaldagurinn hjá Barbadosbúum er jóladagur, þeir opna sem sagt pakkana á jóladagsmorgun. Það var allt VITLAUST í búðinni, biðraðirnar við kassana fleiri fleiri metra langar. Við vorum hins vegar svo fúl yfir fúla kjötinu að við rukum bara beint á yfirmann, skelltum illa lyktandi svíninu á afgreiðsluborðið og sögðum okkar sögu. Pokinn með kjötinu var líka skemmtilega lítið lokaður svo meðan við ræddum þetta að okkur fannst stórmál, þá lagði dauninn hægt og rólega yfir allt svæðið í kring, svona eins og græn þoka. Yfirmaðurinn hringdi í kjötdeildarmanninn og við biðum dottla stund eftir honum. Hann sýndi sig nú ekki, enda vitlaust að gera, svo Gaui fór að spjalla aðeins við yfirmanninn. Hann var eiginlega öskugrár í framan, ekki út af lyktinni, þó hún hafi nú ekki gert litinn betri, heldur var hann bara að farast úr stressi og þreytu greyið eftir jólavertíðina. Fór að segja Gauja hversu mikið hann hlakkaði til frídagsins á morgun, það kæmi vinur í heimsókn til hans frá Kanada og þeir ætluðu bara að taka það róóóóóóóóólega!! Gaman að spjalla svona við fólk sem býst alls ekki við spjalli, er svo gaman að sjá glitta í persónuna á bak við grímuna. Hann breyttist úr "kallinum sem gat eyðilagt jólamatinn með því að gefa okkur ekki annað kjöt" yfir í "kallinn sem er bara svoooo þreyttur og hlakkar svoooo mikið til jólanna". Nú kjötdeildarmaðurinn sýndi sig ekki þrátt fyrir langa bið, svo yfirmaðurinn sagði okkur bara að fara í kjötborðið og velja okkur eitthvað. Við hófum því gönguna gegnum mannþröngina, talandi um hvað við ættum að velja í matinn, gerandi grín með að það væru líklega bara pylsur eftir í borðinu... hahaha..... og þegar við nálguðumst kjötborðið sjáum við bara í tómar hillur... hmm. Leist ekki alveg á þetta, en ég var í svo miklu PollyÖnnu skapi eftir strandferðina á aðfangadegi, að ég ákvað að þetta yrðu þá bara bestu pylsur með bestu sósu í heimi (því maður sleppir EKKI sósunni á jólunum!). En svo þegar við komum alveg að borðinu sáum við að allt svínakjöt er búið, sem var allt í lagi, höfðum ekki lyst á svíni eftir fýluna, en fullt til af nautakjöti og það engum smásteikum! Mmmmmm. Við völdum tvö stykki, sem kostuðu þá svipað og hið vel kæsta svínakjöt, og jólamaturinn varð því eðal nautakjöt með brúnuðum kartöflum, rauðvínssósu, valdorfsalati og alles. Ógisssslega gott, eins og Orri segir :)


Aðfangadagur var sem sagt alveg yndislegur hjá okkur og strákarnir voða góðir að bíða eftir pökkunum. Mandlan heldur sínum upptekna hætti fyrri jóla, hún hvarf enn og aftur og allir átu á sig gat vegna keppnisskapsins, en ekki fannst hún. Möndluverðlaunin tilheyra því öllum og þau voru púsluspil sem að sjálfsögðu er búið að púsla núna. Orri sá um að lesa á pakkana og gerði það ansi skemmtilega, þannig að stundum runnu tárin af hlátri því hann átti pínu erfitt með sumar handskriftir en giskaði þá bara í eyðurnar og sagði t.d. þegar það stóð Til einkadótturinnnar Frá múttu, las hann "tileikadó frá múdu??!?? ooooh, hver er það eiginlega..?" skildi svo ekkert þegar við hlógum, þessi elska "hvað er svona fyndið??". Allir voru ánægðir með gjafirnar sínar, strákarnir höfðu sérstaklega gaman að þeim sem þeir gáfu því þeir höfðu valið þær sjálfir. Við gáfum þeim hverjum og einum 50 dollara til að kaupa gjafir handa bræðrunum, ömmu og Eiríki, Höbbu og okkur foreldrunum. Þetta varð heilmikil pæling og gaman að fylgjast með því. Ég fékk einu sinni spurningu frá þeim, um hvað þeir ættu að gera við afganginn. Ég sagði að þeir mættu eiga hann ef það yrði einhver. Augu Orra urðu stór og spennt við að heyra þetta og hann einsetti sér að finna sem ódýrastar gjafir hehe. Sagði þess vegna perustoltur þegar Eiríkur opnaði sína gjöf, sem reyndist vera herragreiða, fallega brún, "þetta kostaði bara 85 cent!!".


Við höfum farið um eyjuna með gestunum, sýnt þeim ýmislegt og þetta hefur verið gaman. Á norðurhlutanum þar sem við vorum í fyrradag voru öldurnar margra metra háar. Á myndinni má sjá nyrsta hluta eyjarinnar, kletturinn er líklega um 20 metra hár, en öldurnar skvettu upp á brúnina, eins og ekkert væri. Eins gott að lenda ekki í sjónum í svona veðri!


No comments: