Monday, November 3, 2008

Kosningar


Nú sitjum við hérna í sófanum hjónin, að fylgjast með síðustu klukkutímunum hjá Obama og Mccain fyrir kosningar. Það er mikið fylgst með þessu hérna á eyjunni og auðvitað hefur Obama fleiri á sínu bandi hér. Þeir harðneita samt að hann sé svartur, finnst hann vera mun meira hvítur en svartur. Fyndið, því svo finnst þeim hvítu hann vera svartur. Og "spænskumælandi-fólkið" (latinos/hispanics) í USA viðurkennir hann ekki sem einn af sínum, enda með svartan föður og hvíta móður, svo hvaða hópi má maðurinn tilheyra. Og enn furðulegra að það skuli skipta máli, þegar fólk er að kjósa. Common, eru það ekki málefnin og maðurinn sjálfur sem skipta máli, ekki liturinn. En það er mikið rætt um þetta hér og við erum orðin miklir CNN áhorfendur hér á kvöldin. Á morgun verður svo kosningapartý hjá Armstrong (þetta er maðurinn sem kynnti sig sem "the loudest man in the neigbourhood, and I never make any noise, HAHAHAHAHA) hann var sem sagt að segja okkur hvað þetta væri rólegt hverfi. Svo er hann bara með standandi partý, kallinn. Hann er búinn að bjóða okkur (alltaf svo social, enda frá St. Lucia) og ætli við kíkjum ekki. Hann er með skjávarpa og svaka tjald sem hann dregur niður og gerir stofuna sína að litlu bíó (kosningabíói). Mikið vona ég líka að Obama vinni!! Bara svo það sé nú á hreinu :)


Og úr einu stórmálinu í annað.. nú var bara kominn tími til að gera eitthvað í hárinu á mér! Ég var að spá í að fara og reyna að finna einhverja stofu á hótelunum hér nálægt, því þar væri meiri möguleiki á stofu sem væri vön "hvítu hári". Er ekki orðin svona snögglega gráhærð, heldur að meina sem sagt "ekki afró hári". En Gaui hélt nú ekki, skildi ekki hvaða vesen þetta væri í mér, rándýr þessi hótel.... Ég reyndi að útskýra að ég vildi strípur og smá klippingu og þær væru örugglega ekki með neina reynslu í hári eins og mínu (hárið alltaf svo viðkvæmt hjá manni :) og Gaui svaraði að bragði: "hvað meinarðu "ekki reynslu", þær eru allar meira og minna með gular og bláar strípur hérna þessar svörtu, þær kunna þetta örugglega..". Já, mjög freistandi. En ég er líka frekar nísk með peninginn, enda krónan svo sem ekki á fljúgandi ferð upp á við, svo ég endaði í því að kaupa bara lit í súpermarkaðinum. Og er sem sagt búin að lita hárið í fyrsta sinn. Þetta er ansi ansi dökkt, stóru strákarnir horfðu á mig og spurðu svo "mamma, af hverju ertu að þessu..?" "er ekki hægt að losna við þennan lit?.." Mjög uppörvandi, en þeir vilja helst aldrei breytingar á hári. Orri, honum gæti ekki verið meira sama, enda tók hann ekki eftir neinu. Þótt ég væri búin að snoða mig, þá myndi hann kíkja á mig án þess að fatta neitt og tilkynna eins og venjulega "mamma, ég er að fara að kúka, ég fer á nýja klósettið, þetta sem var einu sinni bilað en er núna ekki bilað". Þetta er standard tilkynning, þegar þarf að sinna náttúrunni.


Við erum að farin að finna það nú að rigningartíminn er að klárast. Mun sjaldnar sem rignir núna og aðeins farið að kólna á kvöldin, samt aldrei kalt. Dæmi um það er að það eru ekki fatahengi fyrir innan útidyrahurðir í húsinum hér. Þeir eru aldrei í yfirhöfnum! Við skreppum gjarnan á ströndina seinni partinn þegar Gaui er búinn að vinna, svona um fjögur-fimm og erum fram að sólarlagi, sem er um hálfsex-sex. Hrikalega fallegt að fylgjast með sólinni setjast. Jetski gaurarnir að taka saman eftir strembinn dag með túristunum, gamall kall sem kemur alltaf á ströndina á sama tíma í kvöldsundið sitt og tekur nokkrar armbeygjur og draugakrabbarnir sem byrja að kíkja upp úr sandinum í leit að fæðu. Bara almennt ofboðslega fallegur og kyrrlátur tími svona seinni hluta dags á ströndinni. Myndin er tekin í einni svona ferð, þetta er sem sagt á litlu ströndinni sem er neðst í brekkunni hjá okkur. Gaui alltaf flottastur!!


No comments: