Monday, January 26, 2009

Og svo helgin


25 janúar 2009-01-25
Við höfum átt fína helgi hér, á laugardag fórum við í miðbæinn, því ég var svo ákveðin í að það væri alger skylda að sjá miðbæ í þeim borgum sem maður er í, til að fá mynd af lífinu í landinu. Við þurftum þó fyrst að fara í innkaupaleiðangur, það er göngutúr sem tekur um tíu mínútur í búðina og svo aðeins lengri tíma heim, því við erum stór fjölskylda sem þarf mikinn mat. Alveg er það greinilegt að guttarnir eru farnir að borða meira, mér hefur oft verið sagt gegnum árin, „jáhá, ÞRÍR strákar... það mun eitthvað kosta maturinn í þá!! Hehe“ og ég hef bara brosað með. En núna er ég farin að finna þetta vel, ég næ varla að vakna stundum á morgnanna áður en sá elsti er kominn: „mamma, hvað verður í matinn í kvöld?“ „má ég fá mér eitthvað núna...?“ og hálftíma seinna: „má ég fá að borða, oh, það er ekkert til....!“. Auðvitað er ekkert til, þið eruð búnir að borða allt!!! En semsagt, við berum annan hvern dag ansi þunga poka heim, allir hjálpast að, enda vatn, mjólk, ávextir og bara allt sem heimilið þarf borið heim. Það er nú lúxus að geta bara skellt pokunum inn í skottið á bílnum, þið þarna heima!! Gleðin samt við að fara í búðina er mikil, kjötið, fiskurinn og ávextirnir eru svo fersk og flott að það er eftitt að stýra sér í valinu. Mann langar að kaupa allt. Eitt hérna er þó skrítið, það er mjólkin, en hún er eins og á St. Lucia g-mjólk,. Það er, hún stendur bara úti á gólfi í búðinum, og endist volg í 6-10 mánuði. Ojojoj, hvað hún er vond á bragðið ef maður tekur hana í mjólkurglasi eins og heima, og það er sko EKKERT suðað um morgunkorn hérna, náttúrulega vita vonlaust að borða kornflexið með g-mjólk. Við kaupum samt örlítið af mjólk til að setja út í „vitaminas“ drykkina sem við gerum hérna, en það er einn aðaleinkennisdrykkur Brasilíubúa, ávextir í blandara og mjólk útí. Rosa gott, enda mangó, jarðaber, melónur og bananar GLÆNÝ og vel þroskuð. Talandi um jarðaber, hér kostar bakkinn af jarðaberjum um 2 real, sem er tæpur hundrað kall, svo við kaupum óspart af þeim. Allavega, svo þegar innkaupaferðin var búin var kominn tími á bæjarferð og við tókum leigubíl. Hér er einungis örlítið dýrara fyrir okkur að taka leigubíl heldur en strætó þar sem við erum svona mörg. Gaman að ferðast í leigubíl, og þetta var fyrsta alvöru ferðin okkar út fyrir hverfið okkar J svo við vorum spennt. Við Gaui búin að liggja yfir Brasilíubókinni „rough guide to brazil“ og lesa um centrum í Ríó, en það reyndist nú örlítið erfiðara en við héldum að finna góða nálgun á þetta allt saman. Eftir miklar pælingar ákváðum við að byrja centrumferðina á Placa XV nóvembré, átti að vera glæsilegt torg með mikla sögu og góður fallegur göngutúr þaðan að National Museum sem er víst byggt að fyrirmynd Louvre!! Ekki amalegt. Við skellum okkur í leigarann, við erum alltaf fjögur afturí venjulegum bílum, þeir eru nú ekki mikið að pæla í beltum hérna og maður sér krakkana ýmist hanga út um gluggann eða á milli framsætanna í bílunum við hliðaná. Ég reyni yfirleitt að setja guttana í belti, og sit svo einhvernvegin í klessu sjálf, en stundum sitjum við Viktor saman í belti í miðjunni. Leigubílstjórar eru svo öruggir bílstjórar :Þ Nú kallinn var svolitla stund að skilja portúgölskuna hans Gauja, en skildi loks og sagði „ah, plasasenk!!“ Við brostum bara. Þegar við svo vorum komin á staðinn blasa við okkur ca. tuttugu heimilislausir að kveikja sér bál og kúra sig við húsveggi, einhverjir að tína rusl og skoða hvort það væri ætilegt og hér og þar á stjái lögreglumenn. Engir venjulegir lögreglumenn þó, heldur brynvarðir sérsveitarmenn með vélbyssur og kylfur. Hmmmm, við spyrjum „placa nóvembré fimmtán..?“ og bendum á kortið, jújú, þetta var réttur staður, bara labba til hægri. Svo við fórum út, Gaui tilkynnti dimmri röddu: „strákar hér löbbum við þétt!“ því Viktor á það til að draga sig aðeins út úr hópnum, svona „ég er sko ekki með þessum túristum...“. En tilfinningin var skrítin og torgið frekar eyðilegt. Við löbbuðum hratt yfir þarna og beygðum inn á stóra götu þar sem virtist allavega vera fólk sem hefði heimilisfang, en það var merkilegt hversu fátt var í bænum. Allt bara tómt. Svo við vorum frekar stutt þarna, óþægileg tilfinning, og stukkum upp í leigubíl aftur og létum keyra okkur niður á Cobacabana. Þar var mun meira af fólki, miklu meira líf og allt önnur stemmning. Okkur var létt, en nú erum við líka búin að sjá miðbæinn. Við löbbuðum aðeins við ströndina, fengum okkur kókoshnetu, horfðum á strandfótboltaleik og skoðum handverksmarkað sem var þarna. Æðislegt. Strákarnir voru dolfallnir yfir steinunum sem voru þarna til sölu, og svo var líka myntsölukall þarna, með gamla peninga allt frá 1800 og eitthvað. Orri vildi finna pening með mín fæðingarári og spurði: „mamma, hvenær ertu fædd, sautjánhundruð og hvað..??“. Eftir smá labb við Cobacabana fórum við ánægð upp í leigara aftur og brunuðum „heim“ í okkar hverfi. Gaman við þetta er að við erum bara ennþá ánægðari með okkar hverfi og okkar strönd eftir svona túr. Okkar Barra beach er sko alveg jafn flott og Cobacabana, og jafnvel eh, dear I say... BETTER..?! Mér finnst frábært hvað Brasilíumenn hugsa vel um strandirnar hérna, þetta er geinilega svo stór partur af þeirra kúltur að vera á ströndinni, að þær eru jafn vel hirtar og flottu miðbæirnir í V-Evrópu. Ströndin og stígarnir við þær er þeirra miðbær.
Eftir miðbæjartúrinn fórum við á kjúklingastaðinn okkar, en við erum búin að finna þennan fína stað þar sem við fáum fullt af mat fyrir ekki alltof mikinn pening. Þetta er staður sem við löbbum alltaf framhjá þegar við förum á æfingu og erum farin að fá vink og kveðjur frá þjónunum þegar þeir sjá okkur skunda framhjá. Gaman. Við ákváðum að vera ævintýragjörn í drykkjavali gærkvöldi öll sömul (eða gaurarnir voru kannski pínulítið þvingaðir í það..) og þeir pöntuðu Guyrana gos, en það er rosalega vinsælt hér, og við pöntuðum rauðvínsglas með matnum. Ekki það að við séum svo saklaus að panta aldrei rauðvín með mat, heldur er það bara ekki svo algent hérna að fólk sé að drekka vín með mat. Það er alltaf bjór, bjór, bjór. Og við fengum ekki venjulegan vínlista að panta eftir, heldur spurði þjónninn bara: „sætt eða súrt..?“. Við áttum eiginlega ekkert svar, svo hann kom með smagspröve í pínuponkulitlum glösum, annað var eins og epladjús og hitt var eins og eplaedik. Við völdum epladjúsinn, og viti menn, fengum þau stærstu vínglös sem ég hef séð, hafa ábyggilega vegið um 2 kíló hvort, full af þessu epladjús-sæta-rauðvíni. Úff, það var nú bara erfitt að klára þetta, en það tókst, hehe.
Myndin sýnir Gauja og Arnór á sunnudeginum á leiknum.

No comments: