Thursday, January 8, 2009

Á leið frá Barbados


Í dag er fimmtudagur og við erum byrjuð að tína niður af veggjunum og pakka fötum og bókum í töskurnar, því á mánudagsmorguninn förum við til Miami. Þá verður okkar rúmlega fjögurra mánaða dvöl á þessari litlu eyju í Karabíska hafinu lokið og við tekur ferð um Suður-Ameríku. Eins og það er nú skrítið, þá þurfum við að fljúga fyrst norður, til að komast suður, því það er ekkert flug milli Barbados og Suður-Ameríku, nema til Trinidad. Og þaðan þyrftum við að fljúga til Venezuela og þaðan til Rio og þaðan til Florianapolis, en það er næsti áfangastaður. Þannig að við tökum ódýrari leið Barbados-Miami-Sao Poulo-Florianapolis. Við ætlum að vera í Miami í tvo daga, ætlum að kíkja í dýragarð sem er þar og þykir einstakur. Svo eru nú einhverjar ketilbjöllur í Miami, svo kannski er maður nógu klikk til að leita þær uppi :)


Þegar við erum búin að vera hérna á Barb svona lengi, er þetta væg útgáfa af því að fara aftur af stað úr "öryggis-zoninum". Við erum farin að kunna nokkuð vel á flesta hluti hér, og hoppum aftur út í það óþekkta. Skrítið hversu þægindaþörfin getur verið sterk í manni og jafnvel skyggt á ævintýralöngunina. Nú höfum við verið hér, allt verið mjög spennandi og gaman að upplifa hvernig við höfum smátt og smátt komist inn í þjóðfélagið hér. Barbadosbúar er nefninlega lengi að samþykkja mann sem eitthvað meira en bara venjulegan túrista. Núna er fólk farið að kjafta við okkur, heilsar alltaf, hætt að bjóða okkur endalaust jet-ski, snorklferð, bátsferð og ég veit ekki hvað og hvað sem túristar eru endalaust bombardaðir með, og þetta er bara ferlega næs og auðvelt. Jafnvel varðhundarnir í húsunum í kring eru farnir að dilla rófunni þegar þeir sjá okkur og strákarnir eru búnir að eignast einlægan aðdáanda. Það er einn hundur í götunni sem heitir Tiger, látið ekki blekkjast af nafninu, hann er pínulítill og rosa sætur. Þessi hundur geltir á allt og alla, en þegar hann sér Viktor, Arnór og Orra leggur hann eyrun aftur, dillar litlu rófunni, sest niður, lyftir annarri framloppunni og ýlfrar eftir klappi. Hann slapp einu sinni út úr girðingunni sinni og eigandinn var einhvers staðar í burtu, svo Tiger litli settist bara að hérna á tröppunum okkar í sólarhring. Var náttúrulega klappað í hel og knúsaður í rusl, svo hann ELSKAR þegar strákarnir hlaupa yfir til hans og klappa honum í gegnum girðinguna. Og þeir gera það mörgum sinnum á dag og fá algera útrás fyrir dýraástina. Þeir sakna nefninlega kattanna okkar ansi mikið, Kristins og Dimmu, en eru um leið rosalega glaðir yfir því að amma Dóra passi þær svona vel. En ekki þar með sagt að við séum ekki spennt fyrir framhaldinu, það erum við svo sannarlega, það er bara þessi sterka þægindaþörf í manni, sem verður ofsalega greinileg núna. Það krefst átaks að rífa sig upp og framkvæma það sem maður hefur látið sig dreyma um að gera. Og málið er að þegar maður er að láta sig dreyma, situr maður heima í kósí sófanum sínum í hlýjunni og örygginu, og þá er ekkert mál að laaaaaaaaaaaanga svo mikið að gera hitt og þetta. Svo er bara að drífa í því!! Og það getur verið hunderfitt, en vá, það er sko þess virði. Ég hvet alla til að framkvæma það sem þá langar mest af öllu til að gera, það er allt í lagi að það taki langan tíma í undirbúningi, við byrjuðum að safna fyrir þessar ferð fyrir meira en þremur árum síðan. Keyptum okkur stórt alheimskort, hengdum það fyrir ofan borðstofuborðið og í þessi þrjú ár töluðum við um ferðina, löndin sem væri gaman að sjá, vorum líka með "heimsreisubauk" sem guttarnir settu í, í staðinn fyrir að kaupa sér nammi eða dót (stundum.. stundum vann dótalöngunin, eðlilega). Og fyrir tveimur árum ákváðum við HAUSTIÐ 2008!! Það skyldi verða tíminn til að fara af stað. Og allt í einu var bara komið að því og við létum rætast það sem við höfðum talað um að gera. Og ég er bara asskoti stolt af því, að láta það rætast sem ég talaði um að gera og þegar hindranir komu upp, þá fundum við lausnir. Einfalt, og stundum ansi erfitt. En alltaf þess virði.


Eitt af því sem við höfum notið einna mest hérna er að fylgjast með litunum á himninum þegar sólin er að setjast. Hún sest alveg svakalega hratt, tekur bara 3-4 mín frá því að hún "snerti" hafflötinn í að hún er horfin. Og litirnir!!!


Strákarnir er orðnir mjög spenntir fyrir áframhaldandi ferðalagi og hlakka sérstaklega mikið til Miami þar sem það er víst sundlaug á hótelinu. Þeir hafa auðvitað verið langmest í sjónum hér, við höfum ekki komist í sundlaug nema á hótelinu í St. Lucia. En þessi vera í sjónum hefur kennt þeim svakalega mikið. Þeir hafa allir verið með bodyboard, í fyrstu voru þau notuð að mestu leyti eins og vindsængur og við Gaui fengum þau óspart lánuð, hehe. Svo fórum við að prófa okkur áfram með að surfa á þeim, og eftir að Habba frænka var hérna að kenna okkur aðeins, þá eru þeir farnir að svífa á öldu eftir öldu og það er geggjað að sjá þá. Auðvitað skella þær þeim stundum, þeir fá sjó í eyru og nef og við fáum öll smá rispur eftir smásteinana í öldunum, en þeir fara bara aftur út, mislangt, Orri fer bara stutt útí ennþá, og ná í næstu öldu. Öryggið uppmálað! Og það er heldur betur gaman að sjá. Hér á myndinni sjáið þið sólarlagið og eina góða öldu. Við erum þó ekki að leika okkur í sjónum þarna, ekki í svona steinafjöru.
Svo er bara Brasilía næst og við byrjuð að æfa okkur í portúgölsku. Nú getum við sagt "góðan daginn", "takk" og "geturu sagt mér var klósettið er?". Sem sagt, öll grundvallaratriðin komin!!

1 comment:

Unknown said...

Hæ hæ hæ elsku fjölskylda!! Hef ekki kíkt í dágóðan tíma á ykkur en mikið svakalega er gaman að geta kíkt og fengið fréttir af ykkur beint í æð!!
Jiii við öfundum ykkur ekkert smá af þessu ævintýri ykkar, þið eigið eftir að lifa á þessu það sem eftir er :D Og vá strákarnir koma sko reynlunni ríkari heim!!

Vona að framhaldið gangi vel... hlakka til að fylgjast áfram með ykkur ;**

Knús

Erna, Elmar og Eik

p.s. Vala þú getur kíkt á myndir af Eik á www.barnanet.is/elmarsdottir ... ef þú vilt fylgjasat með skæruliðanum :) Ég get sent þér lykilorðið á facebook!!

Og já ég get ekki beðið eftir að koma á námskeið hjá ykkur ;)