Tuesday, October 28, 2008

Skipsflak séð úr kafbát!


Þá er þessi vika með mömmu í heimsókn liðin, við vorum að keyra hana út á flugvöll áðan og hún líklega komin í háloftin núna og verður þar næstu 8 klukkutímana eða svo. Þá hefur hún um fjóra tíma til að fara milli flugvalla í London og þar tekur næsta flug við, um 3 tímar. Mikið á sig lagt fyrir einkadótturina, sem betur fer, það var alveg frábært að fá hana. Eina kvörtunin er að tíminn leið ALLT of hratt. Við gerðum heilmargt með henni og vonandi fékk hún góða sýn á Barbados. Ég man þegar ég var að æfa mig að keyra hér, með hjartað í brókunum og andilitið á rúðunni í þessari vinstri umferð, þá hugsaði ég "vá, hvað ég hlakka til þegar mamma kemur í lok okt, þá verð ég orðin vön því að keyra í þessu brjálæði og farin að rata jafnvel!". Og viti menn, það stemmir bara alveg. Mamma var svo gjörsamlega áttavillt og einu sinni þegar ég bauð henni hvort hún vildi prófa að keyra kom mjög hátt og snöggt "NEI!!!!" hehe. Ég er sem sagt bæði farin að rata hérna, svona líka helv... vel, og líka orðin vön að keyra vinstra megin. Meira að segja farin að labba ósjálfrátt að hægri hliðinni á bílnum þegar ég ætla í bílstjórasætið, og þarf ekki að labba allan hringinn!


En eins og ég segi, þá gerðum við ansi margt skemmtilegt með ömmu D. Það sem stendur uppúr er örugglega kafbáturinn og "Ocean park" sem er sjávardýragarður. Ekkert okkar hafði áður prófað að fara í alvöru kafbát og við vorum ansi spennt að prófa það. Það var siglt með okkur út í bátinn, tók nokkrar mínútur. Á meðan var alveg hreint eiturhress guide að halda ræðu yfir okkur, talandi um björgunarvesti, súrefnisgrímur og björgunarleiðangra. Talandi um að það væru reyndar ekki nógu mörg vesti fyrir alla, "only the strongest survive" HAHAHAHA og okkur stökk varla bros. Grey kallinn. En svo förum við niður í kafbátinn, löbbum afturábak niður mjóan stiga, rosa fílingur í þessu, kafbáturinn mjór og langur. Allir fengu sæti og það voru kringlóttir gluggar meðfram báðum hliðunum svo maður sá rosalega vel. Svo er bara lokað, og við mörrum þarna í hálfu kafi, heillengi, líklega verið að ganga frá öllu, tekur smá tíma. En Gaui sagði mér eftir á að hann hefði verið MJÖG nálægt því að standa upp og brjálast. Taka svona "hleypið mér út, ég fer ekki niður" og berja allt og alla. Hann þjáist af nettri innilokunnarkennd, en ég tók ekki í mál að hann kæmi ekki með, híhí. Hræðslan við að vera slæm fyrirmynd fyrir börnin sem voru um borð, var innilokunnarkenndinni yfirsterkari og hann náði að fókusera á lífið sem var fyrir utan gluggana. Sem betur fer, því þetta er sko annar heimur þarna niðri og hann hefði ekki viljað missa af þessu. Við byrjuðum á að sigla eiginlega alveg niður á botn, 120 fet, sem er um 40 metrar, og sigldum þar í kringum skipsflak, meðan þeir spiluðu Titanic-lagið. Það var frekar fyndið. En vá, hvað þetta var gaman. Það var allt morandi í fiskum, þeir synda mikið í hópum, og við sáum milljón tegundir og milljón fiska!! Ekki að ýkja. Skipsflakið hefur legið í sjónum í 30 ár og á skipinu eru byrjaðir að vaxa kórallar, sem eru orðnir (ef ég skildi guidinn rétt) 3 cm langir. Hann sagði okkur að það tekur sem sagt kóralla 10 ár að vaxa 1 cm! Og þarna voru kórallar sem voru hátt í 1 meters langir, hrikalega flottir. Allt gekk þetta sem sagt vel, þrátt fyrir smá spenning hjá okkur að fara svona á hafsbotn í fyrsta sinn, og þetta er klárlega eitthvað sem ég vona að ég eigi eftir að gera aftur. Það hlýtur líka að vera alveg einstök upplifun að prófa að kafa. Kannski þori ég því einhverntíma, þegar ég verð stór :)


Svo fórum við í Ocean park í gær. Þar vorum við eiginlega ein með garðinn, það er mjög lítið komið af túristum svona miðað við það sem við getum búist við. Og í garðinum eru alls konar fiskar í tjörnum, búrum og risabúrum. Við sáum t.d. pírana-fiska og gaurinn sem var að gefa þeim stakk handleggnum ofan í búrið til að sýna okkur að þeir stökkva ekkert á allt sem hreyfist.. Þeim myndu víst éta fingurinn ef hann stingi honum niður, en ekki heilan handlegg meðan hann hreyfði hann. Þeir eru nefninlega hræætur, og eru eins og ræstingmenn Amason-fljótsins. Svo voru þarna litlar tjarnir með tveimur litlum hákörlum (70-80 cm langir) og svo slatta af stórum gullfiskum og einhverjum svörtum fiskum. Og í þeirri tjörn voru hákarlarnir með ákveðið hlutverk, sem var bara að halda fjölda hinna fiskanna í skefjum! Þeir "maka sig" víst stanslaust (veit ekki hvað "hitt" kallast hjá fiskum), og úr verða óendanlega mörg síli og ef hákarlarnir væru ekki í tjörninni, þá væri mjög fljótt orðið stútfullt. Hmm..

Svo var risastórt búr með stærri hákörlum og stórum fiskum og þar sáum við líka þegar þeim var gefið. Þá sagði gaurinn sem gaf þeim okkur frá því, að það er ekki sjéns fyrir þá að sleppa hákörlunum í sjóinn núna, því þeir eru orðnir svo mannelskir. Hann fer sem sagt þrisvar í viku í köfunnarleiðangur ofan í búrið til að þrífa það, og þá koma hákarlarnir á fullri ferð til hans, ekki til að ráðast á hann, heldur til að láta klóra sér á maganum!!! Og það sem myndi gerast ef þeim yrði sleppt lausum væri sem sagt að þeir myndu sækja í strandirnar þar sem fólkið er, í von um magaklór! Vinsælt!


Svo fengum við að gefa skötunum!! Þetta voru "sting rays" sem eru sama tegund og sem drap Steve Irwin, krókodílamanninn. Og mér var nú ekki alveg sama þegar sá sem var að gefa þeim óð bara út í tjörnina (reyndar í sundskóm). Hann gaf skýringu á sundskónum, en hún var að sköturnar narta í tærnar á honum, því þær eru forvitnar og félagslyndar. Það sýndi sig síðan að þær eru meira en það, þær eru frekar!! Þegar matartíminn var að nálgast og bakkinn með þessum líka subbulega smokkfiski kominn nálægt þeim (mömmu fannst smokkfiskurinn ekkert subbulegur, sagði "það vantar bara rúgbrauð og snafs, þá er þetta eðal-frokost!!") og þá byrjuðu þær að synda að bakkanum og setja annan "vænginn" upp á bakkann og slá frekjulega með honum, svo það skvettust vatnsgusur yfir okkur, híhí. Þær stærstu voru frekastar. Svo byrjaði hann að gefa þeim, setti hendina niður í vatnið og laumaði einhvernvegin smokkfisknum undir þær og þær sugu hann upp. ....og auðvitað fengum við að prófa að gefa þeim!! Strákarnir og Gaui voru ekki lengi að rífa sig úr skónum og stilla sér á þrepið sem þeir áttu að standa, og svo bara sá maður stungusköturnar synda til þeirra á leifturhraða, með broddinn sinn á eftir sér og mamman með hjartað í bróknunum enn og aftur!!! Gaurinn sem var að gefa þeim kenndi okkur aðeins um sköturnar, þær stinga sem sagt bara í ýtrustu neyð, bara þegar þeim er ógnað og það gerist auðvitað stundum óvart hér við strendurnar, því þær grafa sig í sandinn nálægt landi og þegar maður skundar út í sjóinn, þá er stundum stigið óvart á skötu. Ráðið til að verjast þessu er að labba alltaf rólega út í sjó og nota skautahreyfingu til að vara þær við. Og ef maður er svo óheppinn að fá brodd í sig, þá má maður ALLS EKKI fjarlægja hann, því þá fær maður eitrið í sig. Maður á sem sagt að tölta í rólegheitunum upp á strönd aftur með broddinn út í loftið, hóa á sjúkrabíl og láta lakknana fjarlægja þetta á spítala. Krefst auðvitað hrikalegrar sjálfstjórnar, en borgar sig.


Svo sem sagt er amma Dóra farin til Íslands, þessi stutta en frábæra heimsókn búin og mikið var þetta gaman. Strákarnir eru pínulítið áttavilltir eftir að amma fór, eru strax að skrifa bréf til hennar og spyrja mikið um hvenær við sjáum hana næst, og satt best að segja þá bara veit ég það ekki. Ég vona að það verði fyrr en síðar, hún er svo frábær. Kannski kemur hún aftur að hitta okkur í ferðinni, hver veit hvar eða hvenær, en kannski hittum við hana á Íslandinu góða. Vona samt að það verði fyrr. Vil eiginlega ekki einblína á hvenær við hittum hana næst, betra að hugsa bara um það, hvað var gaman að hafa hana núna. Arnór sagði svo áðan "nú skil ég af hverju það er svona mikilvægt að eiga góða ættingja" og ég spurði "já, af hverju segirði það?" og hann sagði "nú, af því amma Dóra er svo góð, það er svo gott að vera með henni, manni líður svo vel þá".


Úff, nú er Gaui að borða súpu sem hann fékk smagspröve af frá Sheilu, konunni sem leigir okkur. Súpan er afskaplega ólystug svo ekki sé meira sagt, "kjúklingafótasúpa". Það eru sem sagt notaðar lappirnar af kjúllunum (við eru ekki að tala um lærin eða leggina, heldur gulu stangirnar sem þessi dýr labba á..) og svo ýmislegt grænmeti eins og sætar kartöflur, gulrætur og svoleiðis. Ég spurði hana vongóð þegar hún var að lýsa þessu "ok, so you don´t actually eat the chicken feet, you just use it for flavoring..?" "oh, no, no, we eat the feet" svaraði hún hress og kát, bætti svo við alvarleg "but we spit out the clawes..". Oj, oj, oj, en eins og Gaui segir þegar hann borðar svona dótarí: "Vala, þetta er bara state of mind". Uhmmm.... ég þroskast kannski einhverntíma með þetta. Ég veit ekki hvort ég nái þeim þroska að borða kjúklingalappir og spýta út úr mér klónum.... en hver veit..

1 comment:

Anonymous said...

Ekkert smá gaman að fylgjast með ykkur:) þið eruð að upplifa ekkert smá mikið. hafið það rosalega gott og haldið áfram að vera svona dugleg að blogga.
kveðja Erna og fjölskylda