Tuesday, October 7, 2008

Sjáiði Orra litla!!


Orri í sólarlaginu á litlu ströndinni hér fyrir neðan. Það eru æðislegir litir í náttúrunni þessar nokkrar mínútur sem sólin er að setjast og hér náðum við einni góðri.
En það giskaði nú barasta enginn á réttan eiganda tásanna á myndinni í blogginu á undan, ekki einu sinni tengdamamma, enda líklega ansi langt síðan hún þreif þessar "litlu" tær. Eigandinn var sem sagt Gaui, ekki Viktor og ekki ÉG (ég er nú pínu sár yfir þessari ágiskun og það eina sem ég get huggað mig við, er að Gaui þykir hafa ansi netta fætur.... fyrir karlmann!


En tærnar hans eru nú ekki alveg jafn fallegar núna eins og þarna á myndinni. Þannig er nefninlega mál með vexti, að þegar hann, Orri og Arnór voru að leika sér eftir fótboltaæfingu síðasta fimmtudag meðan þeir biðu eftir okkur Viktori. Þá komu þjálfarar strákanna til hans og buðu honum að koma með þeim að keppa á laugardaginn. Gaui (að sjálfsögðu ansi ánægður) spurði aðeins út í þetta, jú , þetta er svona "old boys" lið, leikurinn væri stuttur, sjö menn á móti sjö, en á litlum grasvelli með flóðljósum og alles. Jú, Gauja leist vel á það, og þrátt fyrir að hafa ekki spilað fótboltaboltaleik síðustu 20 ár eða svo, þá er þetta náttúrlega eins og að læra að hjóla "when you can, you can". Hann er reyndar ekki með takkaskó, en einn þjálfarinn notar sömu stærð og hann, svo Gaui myndi bara fá lánaða skó hjá honum.

Laugardagurinn rann upp, bjartur og fagur, reyndar fyrr en við ætluðum, eða kl. 7 um morguninn því elskan hún Sheila sem leigir okkur húsið, er ekki mikið fyrir að sofa út. Hún sem sagt hringdi kl. 7 á laugardagsmorgni til að ræða millifærslur, rafmagnsreikning og bankagjöld. Gaui var mjög viðráðanlegur svona árla morguns "yes, of course Sheila, any way you want, of course... yes yes" og bara nokkuð greinilegt að hann vildi bara losna úr símanum, enda ekki skrítið. Alveg virðist þetta vera leyfilegt hérna, að hringja svona fyrir allar aldir og Sheila var sko ekkert að taka neinu hinti, þessi kæra kona. Hún er samt alveg ágæt, þrátt fyrir að sofa aldrei. Okkur fannst þetta ansi snemmt þennan laugardaginn, en svo á mánudeginum á eftir hringdi síminn kl. 5.30, kona að spyrja eftir einhverri konu, þegar við (þ.e.a.s. Gaui, ég sendi hann alltaf í morgunsímtöl..) sögðum að engin með því nafni byggi hér, sagði hún bara "oh, ok, bye, bye". Kl. 5.30 um morguninn!!!! Mig langaði að öskra fram: "kenndi mamma þín þér ekki að maður á ekki að hringja í heimahús fyrir kl. tíu á morgnanna??!!"


Allavega, Gaui var vaknaður og allan laugardaginn var hann smá spenntur, dagurinn leið hægt þar sem hann hlakkaði til að fara að leika sér með hinum köllunum. Við ákváðum að gera þetta að alvöru kaupstaðarferð, leikurinn átti að vera hálf sjö um kvöldið, örugglega búinn um sjöleytið og þá ætluðum við á veitingastað, bara flott á því sko og guttarnir í skýjunum. Gaui átti að hitta hina leikmennina kl. sex á vellinum, hann vildi auðvitað leggja af stað í góðum tíma, svo við fórum af stað kl. fimm, vorum ekki lengi að finna þetta, komin ca hálf sex. Þetta var flottur völlur og greinilega soldil félagsmiðstöð, fólk á öllum aldri sat þarna að spjalla og borða hnetur. Voða gaman hjá því á tröppunum, sem og hópi manna sem voru að spila einhverja útgáfu af dómínó inni. Inni og úti eru samt svolítið opin hugtök hér, því húsin eru svo opin oft, allir gluggar opnir og dyr yfirleitt upp á gátt. Mennirnir inni spiluðu með svaka skellum og látum, alltaf þegar einhver var mátaður heyrðust mikil öskur og köll og maður hélt að slagsmál væru að brjótast út. Bajanar eru ansi háværir og stundum heldur maður virkilega að rifrildi sé í fullum blóma, þar til maður sér fólkið skella upp úr og veifa og kalla "ah-rægt" og bara vinalegheit í öllum þessum látum.

Jæja, við biðum bara þarna og guttarnir fóru að leika sér. Gaui gekk aðeins um, og ég ímyndaði mér að hann væri svona að "psyka sig upp" og kortleggja völlinn. Kom seinna í ljós að hann var bara að spá í hvort við værum á réttum velli, því tíminn leið og leikurinn átti að byrja hálfsjö. Bajanar eru ekkert rosa fastir í stundvísi, liðið fór að tínast inn um hálf sjö og lánsskórnir komu rúmlega það. Reyndar soldið litlir, en hva.. stuttur leikur á litlum velli, með "old-boys". Þá fékk Gaui að vita að reyndar verði leikurinn á velli í fullri stærð.. ok, og reyndar myndu þeir spila í fullar 90 mínútur..... ok, oooog reyndar væru þeir að keppa við stráka, 18-20 ára, sem eru að æfa sig fyrir Karabíu-eyjamót........ OOOkei!! Á sama tíma hlupu ca. tuttugu tvítugir menn inn á völlinn í einfaldri röð og eins búningum, legghlífar og alles og þeir fóru að hita upp, allir í takt. Gaui fékk fjólubláu liðspeysuna og fór til "liðsins", voru komnir sjö, vantaði enn fjóra en þeir gætu farið að hita upp, restin hlyti að skila sér. Markmaðurinn þeirra, með um það bil 40 kílóa maga hitaði um með því að labba (rösklega) milli stanganna og reykja. Og leikurinn byrjaði svo hálf átta. Þetta reyndist hin mesta skemmtun og þrátt fyrir 0-4 tap, þá stóð liðið hans Gauja sig bara ágætlega, Gaui þar á meðal, engu gleymt. Hann var nú reyndar aðeins farinn að haltra í seinni hálfleik, og þegar hann fór úr skónum eftir leikinn urðu hælarnir eftir í skónum, ásamt fjórum tánöglum. Úff. Þess vegna segi ég það, þær eru ekki jafn fallegar og á froskamyndinni.


Við fórum svo á "resturant", þar sem klukkan var orðin tíu þegar við komumst af stað, var eiginlega bara T.G.I. fridays opið, soldið Hard rock-legt, með háværri tónlist, en hva.. maturinn var fínn. Það fyndna var, að fólkið á næsta borði var að halda upp á afmæli, og starfsfólkið mætti við borðið með köku og kerti, klöppuðu í takt og byrjuðu "I don´t know what I´ve been told, someone here is getting old.." og eitthvað meira, klappi klapp, vei vei vei og svo fóru þau öll um leið og lagið var búið. Við svona litu á hvort annað, flissuðum soldið og héldum áfram að borða. Tveimur mínútum seinna kemur í ljós að fólkið ská á móti okkur á líka ammmmæli og þau eru mætt, klappi klapp "I don´t know what I´ve been told, someone here is getting old...." vei vei og allt búið. Við flissum aftur, finnst þetta soldið lummó, en hva, greinilega vinsælt að fara á TGI fridays á afmælum. Heyrðu, tveim mínútum seinna, fólkið hinu megin... afmæli! klappi klappi "I don´t know what I´ve been told, someone.....". Nú vorum við bara farin að stynja, en nei, tveimur mínútum seinna, fólkið á bak við okkur. Í alvöru, þetta er greinilega mega-vinsælt. Við vöktum eiginlega athygli fyrir að eiga EKKI afmæli.


Á sunnudeginum byrjaði ég svo að bólgna á fætinum, komin með annað svona risabit eins og ég var með á handleggnum fyrir nokkrum vikum og þurfti pensillín. Þar sem Gaui var með fætur í hrikalegu ástandi líka, ákváðum við að prófa að sjá hvort þetta myndi ekki jafna sig sjálft hjá okkur báðum, enda enginn hiti eða sýking, ennþá. Um kvöldið þegar við komum uppí kíkti Gaui í bók, sem hann tók með sér í ferðina, sem heitir "Ultimate survival guide" til að sjá hvað ofurhermaðurinn Chris Ryan gerir við sýkingum. Þar mælir Chris með að setja heita bakstur á sárið, skipta um umbúðir þegar þær kólna og setja nýjan heitan bakstur, í allt í 30 mín, endurtaka 3-4 sinnum á dag í nokkra daga. Binda svo utanum, þurrka sárið, halda því hreinu, drekka mikið vatn og sjá hvort þetta batni ekki. Bara svona fínar ráðleggingar. Í ýktum aðstæðum, eins og frumskógarferðum, má nota ferskt þvag til að hreinsa sár ef enginn aðgangur er að vatni. Hmmm. Ef sýkingin fer ekki á nokkrum dögum við svona skolmeðferð á að láta sárið vera opið, hleypa flugum að því og bíða eftir að lirfur/maðkar (maggots) fari að vaxa í sárinu. Binda þá um sárið og maðkarnir éta dauða/sýkta vefinn. Þegar sársauki fer að aukast, eða ferskt blóð að koma úr sárinu veit maður að maðkarnir eru að byrja á heilbrigða vefnum, þá á að skola þá burtu, með vatni, eða ef það er ekki til, þá með fersku þvagi. Þá kom þessi fleyga setning frá Gauja: "Dúddi minn, ætlarðu að míga fyrir mig á maðkana mína..?" Þarf líklega ekki að taka fram að okkur er báðum farið að batna.

5 comments:

Anonymous said...

Oj oj oj

en pensilín er líka bara mygla :-)
Kv. María

Anonymous said...

Oj oj oj
en pencilin er mygla

smyrja vel á :-)

Kv. María

Anonymous said...

Sæl öll!

Líst nú ekki alveg á ormameðferðina, nema maður sé aleinn í frumskógi.

Leiðbeiningar um bloggsvar, vegna spurninga um slíkt:

Skrifa skilaboð í rammann "Leave your comment"
Smella á löngu línuna: Word verification.
Skrifa skrýtnu stafina þar.
Merkja við Anonymous. Neðarlega.
Smella á "Preview"
Smella á "Publish this comment" Vinstra megin þegar skilaboðin birtast.
Þá á að koma melding um að móttakandi þurfi að viðurkenna móttöku, efst á skerminum.

Kveðja, m

Anonymous said...

Best að prófa þar sem við erum ein af þeim sem ekki hafa getað commentað, en Gylfi fylgist spenntur með vini sínum og finnst mjög gaman að skoða videóin, gangi ykkur vel kveðja Gylfi Hólm og mamma

Anonymous said...

kveðja frá Gylfa Hólm