Sunday, October 12, 2008

Miló api og fjallgangan gríðarlega


Við höfum verið frekar heimakær síðustu vikur þar sem gengið var að stríða íslensku krónunni og við ekki alveg búin að finna jörðina aftur í þessu. Þegar dollarinn var sem hæstur kostaði cerios-pakkinn um 13oo kall, svona til að gefa ykkur smá mynd af þessu. Á tímabili fannst mér bara eins og við gætum ekki hreyft okkur án þessa að það kostaði tuttuguþúsund kall, en ég hef líka alltaf verið dramadrottning. Ekki það að við viljum væla, enda brugðumst við bara við þessu.

Við höfum t.d. sett okkur betur inn í það grænmeti sem er "in season" og kaupum það á mörkuðum en ekki í súpermörkuðum. Við erum komin með okkar eigin grænmetisstelpu sem við förum til, hún er búttuð og hlýleg, ca. 30 ára bóndastelpa með skjannahvítar tennur, dökkbrúnan hörundslit og risastórt bros. Hún er með þennan fína sölubás í Speigtstown og hún kennir okkur hvað allt þetta skrítna grænmeti heitir sem við sjáum hjá henni og segir okkur hvernig við eigum að elda það. Við erum orðin algerir "jam-aðdáendur", það eru stórir hvítir rótarávextir sem eru soðnir eins og kartöflur og það er bara svakalegt hvað maður verður saddur af þessum sterakartöflum. Ég kalla þær það, því þær eru eins og kartöflur á sterum, ca. 5 kílóa kartafla, fást bæði gular og hvítar. Svo eru það "ojstens" sem ég hef ekki hugmynd um hvernig maður skrifar, er víst hrikalega gott og maður sýður það í smá stund og borðar svo. Svo eru það stönglar sem eru eins maisstönglar, bara grænir og með bólur. Þeir eru víst beiskir á bragðið, maður steikir þá á pönnu, og hún varaði okkur við, "steikið þá fyrst og smakkið ÁÐUR en þið setjið þá út í matinn. Eigum eftir að gera það :) Svo gefur hún okkur alltaf eitthvað aðeins í lokin, gaf Orra stóra vatnsmelónusneið um daginn, og gaf okkur nokkur "golden apples" síðast. Það eru epli sem vaxa hér, eru eins og lítil, súr og fersk mangó, rosa góð. Og við eigum eftir að prófa ýmislegt af þessu sem er í boði, galdurinn er að kaupa það sem er "in season" því það er ódýrast, allt annað, sem er ekki in season er sem sagt aðflutt og þeim mun dýrara fyrir vikið. Þannig að þetta er ekkert neikvætt að þurfa að gæta peninganna.


Við fórum í smá ferð í dag, ákváðum að taka nú daginn útivið og stefndum hvorki neira né minna en á hæsta tind eyjunnar, Mount Hillaby. Fyndið þegar maður kemur úr svona allt annarri menningu, þá mætir maður í verkefnið með ákveðnar myndir í huga sem maður býst við að sjá. Ég t.d. bjóst við einhverskonar bílastæði, þar sem væru leiðbeiningar um gönguleiðina á toppinn og svo kannski útsýnispalli þar sem hægt væri að dást að útsýni yfir eyjuna. Það stóð nú í bókinni að frá toppinum væri einstakt útsýni yfir suður, norður og austurhluta eyjunnar. Svo við vorum spennt og í góðu skónum, engir sandalar í fjallgöngu takk fyrir..... allavega, eins og með margt annað hér í Karabískahafinu, þá sýndi það sig enn einu sinni að það þýðir bara ekkert að hafa fyrirfram myndaðar væntingar. Ó nei. Í fyrsta lagi, þá keyrðum við um í villu og svíma í að minnsta kosti klukkutíma áður en við fundum afleggjarann að fjallinu. Endalausir litlir vegir þar sem alls staðar eru hús og kofar og bárujárnsgirðingar og geitur (sem Gaui segir að séu kindur kallaðar "black sheep") og alls staðar og ég meina alls staðar karlar, konur og krakkar á rölti eða sitjandi á stólum við veginn, eða sitjandi við húsin sín að horfa á ég veit ekki hvað. Jæja, við fundum svo loksins þorpið Hillaby, og þaðan afleggjarann að "fjallinu" (343 metrar). Og við keyrðum og við keyrðum, og vegurinn varð verri og svo vorum við komin upp á topp! Í bílnum! Og toppurinn var sem sagt innkeyrsla að kofa, þar sem hundur var í bandi fyrir utan, fólk inni að spjalla og bara tré alls staðar, svo við sáum ekki neitt!! Einstakt útsýni, já, inn á milli trjánna, með því að standa á tám eða laumast inn á private property þrátt fyrir brjálað hundagelt. Þetta var ekki alveg Esjan svona skipulagslega séð, verð að viðurkenna það, en milli laufblaðanna var óskaplega fallegt útsýni, hehe. Það eina sem strákarnir sögðu um þetta var "ertekki með nesti mamma?"


Reyndar sá ég í fyrsta sinn á ævinni avókadotré í þessari fjallkeyrslu. Hafði hreinlega ekki kveikt á því að avókato yxi á trjám, en það segir kannski bara eitthvað um minn einfaldleika. Við fórum náttúrulega í það að reyna að ná í avókadó, með falli krónunnar er kílóverðið á þessum ávexti komið upp í 300 þúsund kall eða svo. Og Gaui tók körfuboltahoppið sitt fræga, dugði ekki. Tók þá Viktor í skeifutak ( lét hann stíga í hendina), gekk ekki, hélt þá á Arnóri sem teygði sig, gekk ekki. Það var ekki fyrr en hann tók dramadrottninguna sjálfa á háhest (ég skal aldrei aftur gera grín að börnum sem þora ekki á háhest) og mér tókst að teygja mig í það sem mér fannst vera forboðni ávöxturinn. Yeeees!! Náðum einum. Hann er reyndar pínulítið ormétinn, og óþroskaður, en við tókum hann sko með heim!


Svo eftir þessa skrítnu fjallgöngu fórum við á austurströndina og settumst aðeins í fjöruna og borðuðum nestið, og lékum okkur hjá öldunum, vá hvað þær eru stórar og flottar. Það er alltaf jafnmerkilegt fyrir mér, hversu mikill munur er á austur- og vesturströndinni. Austanmegin er Atlandshafið og vestanmegin er Karabíska hafið. Og þetta er bara svakalega ólíkt. Atlandshafið er svo hrátt, rosaleg undiralda, hávært, skellur á klettunum sem það er búið að forma, meðan Karabískahafið er mjúkt, rólegt, lítill straumur og sandfjörur eftir allri strandlengjunni. Svona rosalegur munur á ströndum þessarar pínulitlu eyjar. Við keyrðum síðan eftir ströndinni og stoppuðum til að kaupa ís í lítilli búð/krá/hang-out. Þar var maður að súpa bjór, og hann var með lítinn apa með sér. Algert krútt, 5 mánaða, heitir Miló, alveg eins go Herra Níels hennar Línu Langsokk. Og hann var svona líka hrifinn af stráknum, hann Miló. Hann hoppaði í kringum þá, gerði allar sínar flottustu listir, naut svo athyglinnar og þeir fengu allir að halda á honum. Það er að segja Viktor og Arnór héldu á honum, Orri vildi ekki taka hann í fangið, þá beið Miló bara eftir því að Orri sneri baki í hann, hoppaði þá á öxlina á Orra, færði sig aftan á hnakka og byrjaði að róta í ljósa hárinu hans, eins og hann væri að leita að flóm. Við fengum algert hláturskast, Orri fór í algera skræki um leið og hann hló með. Þetta var alveg frábært. við tókum auðvitað myndir, en svo bara eyddust þær óvart, og þið þurfið bara að ímynda ykkur hvernig þetta var. Arnór sagði þegar við vorum á leiðinni heim, að þetta hefði bara verið einn af uppáhaldsdögunum hans hér á Barbados. Og það í sjálfu sér er náttúrulega málið. að njóta dagsins! Svo nú skuluð þið gera það heima á Íslandi, það er fullt af góðum hlutum sem hægt er að gera þrátt fyrir kreppu og læti. Njótið dagsins og sendið okkur comment!


Gylfi, Orri segir takk fyrir skilaboðin frá þér og til hamingju með afmælið um daginn :) Á myndinni er hann með snorkl-græjurnar, hann er að læra á þær smátt og smátt, getur verið í kafi í ca. 5 sekúndur núna og er búinn að sjá nokkra fiska og einn ál meira að segja!

1 comment:

Anonymous said...

Til hamingju Orri! Búinn að missa hina framtönnina líka!

Ástarkveður, amma Dóra