Saturday, October 25, 2008

Planið í dag!


Þessi fallegi hákarl er vonandi ekki fyrirheit um hvað við munum sjá eftir tvo tíma, en þá erum við að fara í kafbátaferð! Kafbátaferð er nokkuð sem er vinsælt hér hjá túristunum, fólk fer að skoða kóralrifin og sokkin skip og þetta er eitt af því sem við höfum geymt þar til við fengjum gesti til að taka með í þetta. Og nú er fyrsti íslenski gesturinn kominn, hún mamma er í heimsókn og þó hún teljist nú seint ævintýramanneskja, þá fær hún að koma með okkur í kafbátaferð :)))


Það er frábært að hafa mömmu hérna, hún stendur sig eins og hetja í hitanum, en þó svo allar fræðikenningar segi að hitinn eigi að vera farinn að minnka hér, þá er bara hitinn ekki sammála og ennþá er bara steikjandi heitt. Við fórum að sækja mömmu á flugvöllinn á þriðjudaginn síðasta, biðum úti (maður má ekki fara inn í bygginguna, bíður bara fyrir utan, enda aldrei slabb og slydda að komast inn úr..). Biðin eftir henni var löng og við fengum útskýringu á því. Fyrst var það klukkutíma löng biðröð til að komast í gegnum passa-skoðun. Þar er fólk sko ekkert að flýta sér, allir spurðir eins og í Bandaríkjunum, hvað á að gera hér, hversu lengi ætlar það að vera og allt það. Svo var það nú þannig að mamma var með barnabílsessuna fyrir okkur (sessa með baki, létt, en dálítið fyrirferðamikið) og vegna þess var hún tekin í "spes viðtal". Það að sextug kona, ein á ferð, væri með slíkan farangur fannst þeim frekar dúbíus! Svo hún var spurð spjörunum úr og eftir að hafa fengið skýr svör um hvers vegna hún væri með þetta með sér, klykktu þeir út með því sem þá grunaði allan tímann: "Are you going to sell it, mam!!!?" eins og konan væri með barnasessu sem færi á markaðsvirði kókaíns. Nú jæja, hún komst í gegn, þrælaði sér með farangurinn út að hurðinni (hún var með 13 kíló í yfirvigt, enda mikið af yndislegum sendingum að heiman fyrir okkur :) Strákarnir hlupu inn til að knúsa hana og hjálpuðu henni svo með farangurinn út til mín. Ég hef ALDREI séð múttu svona þreytta áður, og mun líklega aldrei gleyma svipnum á henni þegar hún gekk út úr loftkælda flugvellinum, svo örþreytt, á móti hitaveggnum á "Paradísareyjunni" hehe. Og hún hefur líklega aldrei verið jafnglöð að komast inn í loftkældan bíl áður. En þetta er allt að venjast hjá henni, og þegar hitinn verður of mikill fyrir hana, þá sest hún aðeins inn í herbergið sitt og setur loftkælinguna af stað. Yfirleitt fær hún nú ekki að vera lengi ein þar inni, einhver strákanna er kominn ýmist til að lesa, spila eða spjalla, en það er bara huggulegt.


Tíminn líður allt of hratt með henni hér, við höfum aðeins farið í Bridgetown, dropasteinshellinn, út að borða á Brown Sugar og á safn með sögu Barbados. Rosa gaman að taka túristann á þetta, og núna á eftir erum við sem sagt að fara í kafbát að skoða djúp hafsins í kring. Úúúúúúúíííí! Vonandi hittum við ekki hákarl, eða jú, vonandi hittum við hákarl, eða nei.... eða jú.. veit ekki.

No comments: