Wednesday, June 3, 2009

Kirkjugarður, opinn


Þegar við komum á flugvöllinn til að skoða Nazca-línurnar sögðu þeir okkur að það tveggja tíma bið eftir fluginu og þeir stungu upp á að við notuðum tímann til að heimsækja Chauchilla kirkjugarðinn sem er rétt fyrir utan Nazca. Við höfðum ætlað að fara að skoða hann eftir flugið, en sem betur fer létum við verða af því fyrir flug, því eftir flugið vorum við nú ekki "hressasti hópur í heimi". Chauchilla kirkjugarðurinn er kirkjugarður þar sem jarðaðir eru þeir sem tilheyrðu "pre-Inka" kúlturnum, sem sagt þjóð sem bjó á svæðinu áður en Inkarnir tóku völd. Grafhýsin sem voru gerð um 1100-1200, eru gríðarlega mörg og hefðin var að fjölskyldur voru grafnar saman í hvern sinn reit. Við fengum þennan líka fína guide til að keyra okkur á staðinn og labba með okkur og segja okkur frá. Það eru 12 grafreitir sem eru opnir, en svæðið er sérstaklega þekkt vegna þess að það var uppáhaldvinnustaður grafarræningja um 1940, vegna gullskartgripa (það eru gullnámur þar í kring) og textil-efna, sem þótti verðmætt. Þeim var hins vegar skítsama um múmíurnar sem "bjuggu" í reitunum, og skildu grafreitina eftir opna og iðulega alla íbúa eftir í hlutum, á víð og dreif um jörðina í kring. Hrikaleg óvirðing og magnþrungið að ganga þarna um og skoða grafirnar. Guidinn okkar hefur greinilega farið ansi oft á staðinn og var ægilega stoltur af þessum furðulega stað og spurði alltaf reglulega "nice!! yes!! nice!!" og við kinkuðum þögul kolli og kreistum fram bros. Hann sagði okkur meðal annars að fólkið var eftir andlátið (maður var hundgamall ef hann náði fertugsaldri, orðinn hokinn og þreyttur enda lítið um góða fæðu, lítið sem ekkert vatn, en hins vegar mikið um erfiðsvinnu, draumur masókistans) þá var það opnað frá nára upp að rifbeinum (og meðan guidinn sagði okkur þetta, dró hann Viktor til sín og sýndi með tilþrifum hvernig kviðristan væri framkvæmd), "they open the chest!" sagði hann og þóttist rífa upp brjóstkassann á Viktori mínum, "and then they clean.. yes" og nuddaði magann á Viktori, sem var orðinn ansi vandræðalegur á svipinn! Og síðasta skrefið í ferlinu var að nudda kviðinn innanverðan með olíu frá trjánum í kring og einhverjum jurtum og loka svo öllu saman. Svo var sá látni vafinn inn í baðmull frá toppi til táar, í sitjandi stellingu með krosslagða fætur, og settur í grafreitinn og snúið í austur. Þannig gæti hann horft á sólarupprásina og þar sem öðlast nýtt líf. HINS VEGAR... ef þú hafðir hagað þér illa í lífinu, þá var nú svo sem gengið jafnvel frá líkinu, eeen það var grafið í öðrum kirkjugarði, látið horfa niður og... það kvikindislega.. snúa baki í sólarupprás. Ekkert nýtt líf fyrir þig takk fyrir! Þannig var nú losað sig við glæpamenn í þá daga, og þá voru þeir ekki svona eilíft að endurfæðast og skemma fyrir okkur hinum.

No comments:

Blog Archive