Saturday, June 20, 2009

Dagsferðin


Við höfum heyrt að þorpið Jura rétt fyrir utan Arequipa sé svæði sem maður eigi endilega að heimsækja. Aðallega vegna heitra uppspretta sem eru þarna, sem gerð hafa verið böð í kringum og vatnið þykir hafa læknandi mátt, sem er jú ekki verra á þessum síðustu og verstu. Gaui líka soldið lúinn eftir klifrið á EL Misti dagana áður (5825m gott fólk! og meira um þann túr á morgun) og gott að hvíla lúin bein í heitri læknandi lind undir heiðbláum himni. Við ákváðum þess vegna að kaupa okkur einn túr til Jura, með sama fyrirtæki og sá um túrinn hans Gauja á El Misti. Svakalega hentugt að panta túrinn daginn eftir fjallaferðina, og skelltum inní litlum göngutúr upp að fallegum 10m fossi sem átti að vera rétt hjá Jura. Göngutúrinn væri jú léttur, 30-60 mínútur, fer eftir formi, hahahaha en voða fallegur foss. Og lindirnar, úlala. Við hlökkuðum því mikið til þegar við vorum tilbúin í morgun, sundföt, handklæði, hlý föt (því þó sólin sé mjög heit, þá er oft ansi kalt í skugga) og smávegis nesti, vatn og kókoskúlur, hjemmelavet, sin azucer. Við erum sótt, alveg á réttum tíma, förum í þennan fína, soldið gamla "van", engin belti, en við erum eiginlega hætt að kippa okkur upp við það, það er bara ekki vaninn hér. Maður sér ungabörn í fangi mæðra í framsæti og hin 6 börnin ofan á ömmu sinni í aftursætinu í bílum hér, þannig er það bara. En við spennt, fara út úr bænum og Gaui spes spenntur fyrir heitu lindunum, beinin ponkulítið lúin eftir Misti. Svo erum við kysst í bak og fyrir, það er lenskan hér, allir kysstir og klifrum inn í bíl. Bilstjóri og ung stelpa sem er guidinn okkar, voða vinaleg. Svo keyrum við af stað og eftir ca hálftíma er fyrsta stopp. Til að spyrja til vegar! Ok, kannski eitthvað búið að breyta hugsum við, alltaf jákvæð. Þau skoppa aftur uppí bíl, eða skopa og skoppa, unga daman er ca 30kg of þung, en hva.. þetta er bara hálftíma ganga, svo það ætti ekki að vera vandamál. Soldið kvefuð líka, hnerrandi og snýtandi sér reglulega, en ce la vie. Ok, við keyrum áfram, í korter, stoppum þá aftur. Til að spyrja til vegar. Tökum þá eina innfædda í bílinn, sem situr með okkur í 5 mín, bendir bílstjóranum hvert á að fara og yfirgefur okkur svo. Þá kom örlítil löngun í að biðja nú blessaða konuna um að fara ekki, hún var eitthvað svo örugg í þessu, en við kunnum nú ekki við það. Svo keyrum við áfram, stoppum, og spyrjum til vegar, snúum við, keyrum lengi tilbaka og þegar stoppað er, þá loks er komið að því. Gangan upp að fossi að hefjast. Jei!! Voða gaman, löbbum frá Jura, bænum með heitu lindirnar, út í eyðimörkina. Svo bara löbbum við og löbbum, svakalega hrjóstrugt en sjarmerandi umhverfi, mjög ólíkt því sem við sjáum á Íslandi og mikil upplifum. Eitthvað kvartaði nú Orri í byrjun, heitt og þurrt, hann í sandölum og alltaf öðruhvoru kaktus-þyrnar að stinga sér í tærnar á honum. Svo þegar við erum búin að ganga um einn og hálfan tíma, komum við að svæði þar sem bændur eru að rækta, vökva vel og ótrúlega gaman að sjá svona græn svæði eftir allan sandinn, kaktusana og rykið. Eitthvað var nú fossinn lengi að sýna sig og í fyrstu vatnspásunni segir stelpan okkur að þapð séu í raun 3 ár síðan hún var hér síðast og búið að breyta leiðinni. Ok. Svo töltum við áfram, lengi lengi lengi og komum loks að gili. Þar á fossinn að vera! Frábært, soldið lengri göngutúr en við höfðum reiknað með, en spennó að sjá fossinn. Svo klifrum við áfram, gengum trjágöng, vöðum drullu, göngum meðfram steinveggjum, allt voða ævintýri, komin inn í gilið, og þá segir Janet; við komumst ekki lengra! Fossinn sem sagt ennþá langt í burtu, en hei, við erum komin í gilið! Don´t get me wrong, gilið var rosalega fallegt!!! En við vildum sjá fossinn! Við klifruðum aðeins lengra, lékum okkur að vaða í ánni og nutum þess virkilega að vera svona úti í náttúrunni, en það verður að viðurkennast að við vorum soldið svekkt að sjá ekki fossinn. Þessi hálftíma ganga var á þessum punkti orðin tveir og hálfur tími, en við kát samt, þrátt fyrir fossaleysi, enda heitu lindirnar sem biðu okkar! Við töltum tilbaka, hittum aftur tannlausu vingjarnlegu bóndakonuna, sem benti okkur á veg, sem væri miklu auðveldari að ganga. Tæki bara tíu mínútur að komast til Jura. Ok, við töltum hann, lítið eftir af vatni, við búin að gefa "guidinum" soldið vatn, því hún var ekki alveg viðbúin svona langri göngu, greyið. Tíu mínúturnar reyndust vera Suður-Amerískar, því þetta voru um tveir tímar. Í EYÐIMÖRK. Þetta var ævintýri líka, sólin bakaði okkur, við erum öll eins og karfar núna, en reynslunni ríkari. Og þetta var gaman! Bara ólíkt því sem við höfðum pantað. Meira að segja mjög ólíkt. Jæja, ef þú ert enn að lesa, þá er ég mjög þakklát þér fyrir þolinmæðina! Eftir tæplega 5 tíma göngu komum við í Jura, ÞVÍLÍKT tilbúin fyrir heita pottinn, guidinn búin að hringja á bílstjórann úr tíkallasíma, því gemsinn hennar var batteríslaus (ég sem hélt að guide ætti vera svona "semi-skáti" ávallt viðbúinn!). Bílstórinn kom og sótti okkur og þá var stefnan tekin á böðin. Fyrst þurftum við samt að snúa við tvisvar, því hann fann þau ekki. Þegar við loks komum um fjögur, þá var tilkynnt, neeeeeeiiiiiiii, þau loka kl. 3! Vá hvað við vorum svekkt!!!! Og jákvæðnin sem einkennir familíuna á ögurstundum sýndi sig í geðveiku hláturskasti hjá Arnóri og Viktori, Orri fór að gráta og ég og Gaui urðum eins og móðgaðar konur í saumaklúbb, munnurinn varð að striki og við strunsuðum í helv.. "vaninn". Arnór hélt áfram að hlæja alla leiðina heim segjandi "ég hef aldrei, aldrei, aldrei hitt jafnmikla jólasveina!" og við Gaui spjölluðum í hálfum hljóðum um að við vonuðum bara að túrinn til Colca Canyon verði ekki eins "Ja, ja, we just can´t find the Canyon.. it´s supposed to be really big...." og þá bætti Orri við með ekka "við bara pössum að ÞAU TVÖ verði ekki með okkur!!". Sjáum til.

4 comments:

Anonymous said...

HAHAHAHAHA...æjæ....þvílík fýluferð...þó greinilega svolítið skemmtileg. Sem betur fer hafa þær ekki verið margar ;) Vildi að ég gæti komið og verið með ykkur síðustu vikurnar :)
Risaknús frá OZ

Anonymous said...

Þið eru sterk fjölskylda að geta hlegið að öllu saman. Og þetta verður líklega munað lengi!! Þið hljótið að eiga efni í margra binda ferðasögu þegar heim kemur..K.kv. Jónína ofl. í Furubyggð 28

Anonymous said...

Þú segir svo skemmtilega frá þessari göngu að maður heldur að það hafi verið eintóm gleði. Næst skulið þið ganga að Móakotsfossi og fara undir hann, viss um að Orra líki betur við hann. Ástarkveðja moster María.

Vala said...

Hæ, nú erum við komin úr Colca ferðinni og hún var nú töluvert mikið betri!!
Habba, við vildum svo sannarlega hafa þig með! Fátt yrði skemmtilegra :)
Jónína, já, sögurnar og minningarnar eru að verða ansi margar og góðar, þetta hefur verið alveg frábær tími. Og við erum líka öll farin að hlakka mikið til að hitta ykkur öll á Íslandi!!
María, já, Móakotsfossinn er nú alveg spes, ég elska að fara undir hann :) ferðin var svo sem ok, hún var bara eitthvað allt annað en við höfðum pantað, haha. En svona reynsla er alltaf fín og fyndin eftir á :) hlakka til Barmahlíðar í sumar!!! koss og knús á töntu mína!!

Blog Archive