Allt komið í gott horf núna, allir frískir og námskeiðið gekk vel. Fyrstu vikuna hér vorum við eins og í helli hér á herberginu. Það að veggirnir og loftið eru dökkgræn á lit gerði þetta enn meiri hellistilfinningu, plús að það er enginn gluggi á herberginu. Eða jú, það er gluggi, en hann er út á ganginn, sem er grænn á lit. Heilsan kom sem betur fer frekar fljótlega og ég var tilbúin í CrossFit námskeiðið. Það var gaman á því, ég lærði eitthvað nýtt, sem er alltaf gaman. Hæst stendur uppúr að ég lærði góð aðferð til að gera hnébeygju með stöng fyrir ofan höfuð overhead-squat), muscle-ups og kipp-upphífingar (ekki komin með muscle-ups sjálf, en veit hvernig á að kenna það og næ því einhverntíma sjálf, þó það sé freeeeeekar mikið erfitt). Það var soldið fyndið að vera á þessu námskeiði, því þar sem ég er ketilbjöllu-kennari, þá leit sumt fólkið á námskeiðinu á mig sem "óvininn" (voða fáir, og bara CF-nördarir). CrossFit getur nefninlega verið pínulítið eins og söfnuður, fólk bara trúir á þessa aðferð og EKKERT annað getur verið godt nok. Það eru nú alls ekki margir sem eru þannig, en það er alltaf gaman að þeim fáu sem láta svona, hehe. Það sem CrossFit snýst um er að gera erfiðar, fjölbreyttar og hraðar æfingar, alltaf pælt í notagildi æfingarinnar, ef hún hefur ekki notagildi í daglegu lífi, þá er hún ekki sniðug (eins og biceps-curl, EKKI functional!). Margt mjög gott á námskeiðinu, kennararnir góðir og bara gaman að kynnast þessu. Ég á líka pottþétt eftir að nota þetta í ketilbjöllutímunum, því ketilbjöllurnar eru frábærlega funcional og CrossFit smellur eins og flís við rass inn í bjöllutímana.
Lima kemur okkur soldið á óvart, hún er í raun mjög vestræn og hverfið sem við erum í er rosalega þægilegt, breiðar götur, snyrtilegt og falleg hús. Hér er reyndar allt vaðandi í amerískum merkjum, Starbucks, TGI Fridays, KFC, MacD og fleira í þeim dúr, og það getur bara verið nokkuð gott að grípa í þetta þegar maður er hræddur við magakveisur. Við erum samt dugleg að elda hér sjálf, miklu betra að gera það, þá þorir maður líka að borða salatið, veit að það er skolað í flöskuvatni en ekki kranavatni. Stundum á veitingastöðum lítum við út eins og ein stór matvönd fjölskylda, allir búnir að fjarlægja salat, tómata og annað hollt til hliðar, en búin að borða kjötið eintómt, hihi. Perúanskur matur þykir einstaklega góður, og við stefnum nú á að fara á vandaðan veitingastað áður en við förum héðan til að prófa þjóðarréttinn þeirra, Cerviche (veit ekki hvernig skrifað) en það er hrár fiskur, með lime og einhverju góðu. Spennandi, en ekki eitthvað sem maður vill smakka hvar sem er.. því miður, því maturinn á götuhornunum er oft hrikalega vellyktandi, girnilegur og ódýr! Buhú.
Við fórum niður í miðbæ Lima í gær í fyrsta sinn, höfum annars haldið okkur mest í Miraflores og Surco hverfunum. Miðbærinn er mjög flottur, risa hús, skrautleg og allt mjög snyrtilegt. Svo eins og aðrar stórborgir, ef maður fer aðeins út fyrir "túrista-hlutann" þá minnka snyrtilegheitin, maður verður eini gringóinn, starað á mann, götur þrengjast og allt út í litlum búllum. Ekki endilega drykkjubúllum, í gær lentum við í prentarahverfinu, þá var bara prentarabúlla við prentarabúllu, kallar sveittir og berir að ofan að hreinsa prentrúlluvélarnar, allt á fullu, blað eftir blað að koma út, konur að taka við, stafla og sortera. Allt í gangi á ca. 10 fermetrum, og við hliðaná nákvæmlega það sama að gerast líka á 10 fermetrum, og þar við hliðiná og því næsta. Fyndið svona, það er allt í kös á sama stað. Líka með föndurbúðir, við höfum ekki séð neina föndurbúð hér, en í gær gengum við eina götu, og þá voru þær ca fimmtíu!! Í röð.
Og ef þið hafið verið að leita að bjöllum (bílunum), og ekki fundið, þá skil ég það vel, þær eru allar hér í Perú, þeim líður vel, eru mikið keyrðar og þær biðja að heilsa!! Umferðin hér.... úff... er kafli út af fyrir sig, sem bíður betri tíma.
1 comment:
HæHæ gaman að lesa dagbókina
Maturinn, það er langbest að velja sér góðan tíma, éta allt og drulla í 2-3 vikur. Þá er vatnið og salatið ekkert vandamál :-)
Cheviche er stórkostlegt og best við þynnku (skilst mér, hef ekki upplifað þynnku sjálfur). Steikt beljukjöt fínt og sitt hvað fleira. Ætli fiskihefð sé ekki aðeins meiri hefð fyrir en i Ecuador enda Perú með mestu fiskveiðiþjóðum í heimi.
Bestu kveðjur og gangi ykkur vel
Goðarnir
Post a Comment