Tuesday, May 26, 2009

Sandfjallið - og smá mont


Þarna er ég á leið niður úr ferð númer tvö upp á sandfjallið sem var fyrir ofan hostelið okkar í

Huacachina. Þetta var hörkuæfing að fara upp fjallið, maður sekkur niður í sandinn í hverju skrefi og hjartað fer á fullt eftir nokkur skref. Við fórum öll upp fjallið á fyrsta degi, guttarnir létu ekki erfiðið stoppa sig, og svo fórum við Gaui tvisvar í viðbót. Mega-æfing! Þegar Gaui var að taka göngu númer tvö á degi tvö og ég beið niðri við laugina til að taka tímann hjá honum, þá heyrði ég í tveimur könum sem voru að plana ferð upp fjallið. Þeir byrjuðu að teygja, voru að hita sig upp, rosa alvarlegir meðan þeir spjölluðu um kallinn sem var þarna kominn hálfa leið (Gaui). "Hann fer þetta ótrúlega hægt mar, við tökum þetta á spretti, það er málið, bara hratt og örugglega!!" Ég alveg titraði af spenningi, búin að prófa þetta daginn áður, vissi aðeins um hvað þeir væru að fara í. Þeir löbbuðu rólega frá lauginni, teygðu hálsinn aðeins og sveifluðu handleggjum og öxlum og svo þegar þeir komu að hliðinu, þar sem fjallið byrjaði strax í miklum bratta, þá sprettu þeir af stað!!! Sprettu, sprettu, sprettu í cirka 6 sekúndur, og þá hægði nú á hjá hetjunum, í nokkrar sekúndur, og svo voru þeir bara stopp! Hahahah, ég er nú svo mikið kvikindi að ég hafði gríðargaman að þessu. Á meðan þeir reyndu að skríða áfram og tóku ansi margar pásur í skriðinu, hélt Gaui áfram jafnt og þétt, ekkert stopp og náði toppnum á 12 mín. Svo skokkaði hann niður, rosa gaman að fara niður, því maður eiginlega skíðar niður og það tekur bara 2-3 mín. Hetjurnar voru þá komnar ca einn þriðja af leiðinni og voru alveg stopp. Þá var komið að mér, og ég hélt nú að það myndi aðeins ýta við þeim að sjá stelpuskjátu (ég var meira að segja í bleiku pilsi og bleikum bol... hehe) nálgast þá og þeir myndu gefa í. En ég náði þeim fljótt, því þeir gáfust barasta upp! Ég mætti þeim þegar þeir voru nýbúnir að snúa við, þeir sögðu "þetta er mun erfiðara en það lítur út fyrir að vera!" og ég reyndi aðeins að hvetja þá áfram, en nei, þeir gáfustu bara upp. Þá missti ég út úr mér "common, it´s not that hard.." og hélt áfram. Fátt sem mér finnst jafn asnalegt og að fullfrískir menn sem gera grín að öðrum í æfingum, gefist upp og standi ekki undir montinu! Æ æ æ, þeim fannst nú ekki gaman að koma niður. Kærasta eins þeirra, sem hafði nuddað hann með olíu fyrir "sprett-ferðina miklu" tók á móti þeim (Gaui heyrði í þeim) og þeir töluðu um hvað þetta væri erfitt og hvað það væri heitt og hvað þetta væri svakalega hátt" og hún hlustaði samúðarfull á þá og sagði svo lágt "já, já, þetta er eflaust erfitt.... stelpan þarna virðist þó ekki vera í neinum vandræðum". Ok, kvikindislegt af mér að segja þessa sögu, eeeen þetta var bara svo fyndið...hihi. BTW ég var líka 12mín upp.

No comments: