Við fengum nú ekki að sofa mikið út þennan morguninn, frekar en líklega aðrir foreldrar súkkulaðigrísa. Hérna í Chile eru það ekki bara eggin sem eru í aðalhlutverki, það eru líka súkkulaði páskakanínur sem eru voðalega vinsælar. Við völdum okkur svona sitt lítið af hverju og fylgdum hefðinni að heiman með að fela eggin fyrir hvert öðru. Eggin bragðast vel, en þau eru nú í nettari kantinum hér heldur en heima og mjög lítið innan í þeim. Við njótum þeirra nú samt og mikið smjattað og kjamsað.
Við ákváðum að taka smá forskot á páskamatinn og hafa hann í gærkvöldi. Það er vegna þess að okkur langaði í kalkún þegar við rákum augun í ferlíkin í búðinni hér. Við keyptum 7kg kvikindi (lásum seinna á leiðbeiningunum að þetta væri miðað við 16-19 manna hóp..) segir kannski smá um matarlystina á þessum bæ. Við erum í fínum bústað og öll tæki sem til þarf til að elda fína máltíð.. nema kannski kröftugur ofn. Kalkúninum fylgdi kjötmælir, svona voða sniðugt lítið dims sem poppar út þegar kjötið er tilbúið. Við settum hann inn um þrjúleytið, leiðbeiningar sögðu 5 tímar og matur kl. 8 var takmarkið. Við gerðum æðislega fyllingu, fulla af eplum því hér er allt morandi í eplatrjám. Um sexleytið var kominn frábær litur á kalkúninn og kartöflur settar upp og forréttur tekinn fram, kex og ostar, rauðvínsflaskan opnuð, pepsíglös leyfð og eggjaleitarleikurinn hafinn. Um sjöleytið farið að skræla kartöflurnar og undirbúa "brúningu" og auðvitað sósuna. Mmmmm, lyktin var æðisleg og voða matarstemmning. Um átta voru kartöflur komnar á borðið, brúnaðar og girnilegar, sósan tilbúin í pottinum, rauðvínsflaskan hálfnuð, pepsíflaskan líka og allir spenntir, nema pinninn. Hann kúrði í bringunni og lét ekki á sér kræla. Þá var gripið í spil, um níuleytið.. enginn pinni og kveikt á sjónvarpi til að yfirgnæfa sultarhljóðin í maganum, um tíuleytið.. enginn pinni, byrjum að horfa á Mission impossible (viðeigandi). Klukkan ellefu, rauðvínsflaskan tóm og helv.. pinninn rifinn úr, helv.. kalkúnninn skorinn í bita og helv.. skásti hlutinn af honum steiktur á pönnu, helv.. sósan hituð upp oooooog eftir fyrstu bitana var aftur komið bros á alla :) Maturinn sem sagt klukkan hálftólf og ísinn á miðnætti. Ekki alveg eftir forskriftinni hennar tengdó, en dulítið í Latin-america stílnum :) og voða góður matur. Snilldin í þessu plani er svo, að í dag borðum við afgangana.. og kannski líka á morgun... hver veit!? Ég er þó ekki bjartsýn á það, þrátt fyrir slíkt eðli. Strákarnir eru farnir að koma ansi oft á óvart með "borðað magn í hverri máltíð". Minnir mig á sjálfa mig þegar ég var unglingur. Ég smurði mér alltaf fjórar samlokur (já, í allt 8 brauðsneiðar) með grænmeti og osti og borðaði þær ALLAR. Svo einu sinni þá gat ég borðað svo lítið, fór til mömmu og sagði áhyggjufull: "mamma, ég held ég sé að verða veik, ég er eitthvað lystarlaus, gat bara borðið tvær og hálfa samloku..". Mamma, sem borðar tvær snittur og tilkynnir svo "úff, ég er PAKKsödd" og er ekki að grínast, hafði nú ekki miklar áhyggjur af þessu. Þegar ég sagði guttunum þessa sögu, þá hlógu Orri og Arnór, Viktor hins vegar spurði: "og hvaða veiki varstu með..??"
1 comment:
Gleðilega Páska öll!!
Svo gaman að lesa!! Ég fór að hlægja þegar ég las um þig og brauðið!! Sá þarna smá Ara í þér he he. Og gott að drengirnir þínir eru lystugir. Ég þreytist seint á að skoða myndirnar sem þið takið! Umhverfið og módelin svo falleg!
Hvert farið þið næst?
Farið varlega.
Love,
Sísí
Post a Comment