Dagarnir líða áfram hér í stórborginni. Suma daga erum við mikið úti og aðra daga mikið inni í lítlu hrörlegu íbúðinni okkar. Í fyrradag var mikill útidagur, við fórum að skoða Recoleta-kirkjugarðinn, en hann er frá árinu 1822 og mikið af frægu fólki úr sögu Argentínu grafið þar. Það er gríðarlega mikil saga í þessum kirkjugarði og mörg forsetar þjóðarinnar, sumir bara verið forsetar í 1 ár áður en þeim var steypt af stóli. Fremst á meðal jafningja er hún Eva Duarte Peron, sem heimurinn þekkir sem Evitu. Hún var gríðarlega vinsæl meðal fólksins og kom af stað heilmikilli aðstoð fyrir þá sem minna máttu sín í Argentínu meðan maðurinn hennar Peron var forseti. Hún eins og margt annað frægt fólk, lést langt um aldur fram, dó aðeins 33 ára gömul, en það er alltaf fólk við grafreitinn hennar.
Kirkjugarðurinn kom okkur öllum þó nokkuð mikið á óvart, því þetta var eins og að ganga í litlu þorpi. Þetta eru ekki grafreitir eins og við erum vön með legsteinum, heldur eru þetta grafhýsi sem tilheyra hinni og þessi fjölskyldu . Svo eru grafhýsin bara byggð hlið við hlið, stundum gluggar á þeim, og þá getur maður séð kistur fjölskyldumeðlima liggja í hillum (svona eins og bókahillur... bara "líkkistuhillur", sé þetta fyrir mér, mæta í Ikea "já, góðan daginn, mig vantar hillur..." "Já, fyrir bækur?" "nei, nei, fyrir líkkistur. Mig vantar svona fjórar-fimm, vitum ekki alveg með ömmu..."). En allavega, þetta er byggt upp svona eins og hús sem liggja við götur, svo labbar maður bara á milli og skoðar. Sum grafhýsin eru stórglæsileg í nýlegum stíl, speglahús og alles eins og glænýir bankar, meðan önnur eru í barokk-stíl með skreyttum krúsídúllum. Svo eru enn önnur sem eru í niðurníslu og eru því eins og draugahýsi og standa þá líklega barasta bráðvel undir nafni :Þ
Í garðinum búa svo fjölmargir kettir sem hringa sig við grafhýsin og tölta um göturnar eins og íbúar litla þorpsins. Þetta var ansi spes. Svo var líka gaman, að þó þetta sé mikið "tourist-attraction" þá fara líka BA-búar mikið þangað, til að sækja í kyrrðina og hátíðleikann sem ríkir þarna. Þessi kirkjugarður var allavega ólíkur öllum öðrum kirkjugörðum sem við höfum séð!
No comments:
Post a Comment