Saturday, September 6, 2008

Safarí og veðrið hér

Dagurinn í gær var ansi skondinn. Ég fór í þennan blessaða æfingaakstur, sem gekk svona upp og niður, en takmarkið var að komast í "Kringluna" og það tókst. Á heimleiðinni tókst okkur að sjálfsögðu að villast, en það reddaðist auðvitað á endanum. Eftir Kringluferðina tók Gaui vinnutörn og við guttarnir fórum á ströndina okkar, sem sagt þessa sem er beint fyrir neðan. Hún er mjög skemmtileg þegar það er lítið af öldum, því það eru steina og sker í botninum og í kringum þau eru svo margir fiskar. Ströndin í Holetown, sem er ca 5 mín akstur héðan er hins vegar bara sandur og rosalega góð þegar smá öldugangur er, því öldugangurinn setur sandinn af stað og þá sést ekki neitt í kafi. Allavega, við höfðum það rosalega gaman, eins og þið sjáið smá sýnishorn af á videoinu sem við settum fyrr í dag. Gerðum svaka kastala í sandinum, með virkisveggjum í kring til að sjórinn myndi ekki eiga séns að skemma. Kom hins vegar í ljós að við áttum ekki séns að hindra sjóinn í því :) en það mátti reyna að berjast. Eftir að við höfðum leikið okkur heillengi kom þessi líka svakalega rigning. Það er fyndið með rigningu hér, að hún byrjar ekkert með smádropum fyrst, eða þungum skýjum. Eina sekúnduna er sól, næstu dregur fyrir sól og á þeirri þriðju ertu í sturtu!! Nú, við vorum þarna á sundfötunum, ég sitjandi á handklæði og guttarnir í fjöruborðinu, og það var eins og rigningin róaði sjóinn. Öldurnar snarminnkuðu og allt varð svona þokukennt grátt. Rosa skrítið. Svo stytti upp og ég var mjög kát yfir að hafa náð að halda fötunum sem voru í tösku, þurrum, ásamt símanum og myndavélinni. Svo vorum við aðeins lengur, svona til að þurrka okkur, ca. tíu mínútum seinna orðin þurr, og ég byrja að smala liðinu í fötin... þrír, tveir, einn..STURTA!! Við drifum okkur af stað, þurftum að koma við í Jordans supermarket að kaupa í matinn, og ég hef nú sjaldan vakið jafnmikla athygli. Barbados-búar eru upp til hópa mjög vinalegir og brosmildir, en þeir sem búa ekki yfir þeim eiginleikum, eru látnir vinna í jordans súpermarkaði. Þarna vorum við, útötuð í sandi og rennandi blaut, keyptum í matinn og ég vildi bara drífa okkur út, en þá kom í ljós að peningurinn hafði ekki alveg sloppið við rigninguna.. eða sandinn, hihi. Það myndaðist löng röð við kassann, meðan kassadaman þurrkaði fýlulega af hverjum einasta seðli, báðu megin, tvisvar. Ég byrjaði eitthvað aðeins "sorry, about the sand..hehe, we just got caught in the rain.. new in town.. you know.." en svo hætti ég bara þessum kurteisistilraunum. Hún hafði engan húmor, daman, ekki einu sinni fyrir óförum annarra!!

Í dag fórum við svo í Barbados Wild life reserve í dag og það ferlega gaman. Þetta er svona eins og frumskógur með stígum sem maður á að fylgja. Stígarnir eru fyrir mannfólkið, en svo finnst skjaldbökunum þær líka eiga stígana, og þær rölta virðulega og í hæææææægðum sínum eftir þessum litlu hlykkjóttu stígum. Alveg frábærar. Svo sáum við slöngur, litla hirti (alltaf þegar við sáum hjört, kallaði eitthvert okkar "hvar er Ágústa?" smá innan-tribe-húmor"), svo voru eðlur af öllum stærðum og gerðum, fuglar og hinir frægu "green monkeys" en það eru litlir apar sem eru frjálsir um garðinn og eru líka mjög frjálslegir. Gaui "lenti" t.d. í því að taka video af tveimum öpum, rosa krúttlegum að leika sér, og á sekúndubroti voru þeir bara komnir á fullt í xxx og leikstjórinn roðnaði og hrópaði "cut".
Við erum búin að vera hér í viku núna og erum ánægð. Ég fékk væga heimþrá samt í kvöld, kíkti á mbl.is og sá myndir af fjöllunum. Úff, væri gott að fá ca 5 mín af ferska kuldanum :) við erum að mestu bara í stuttbuxum, bol og sandölum. Allt meira en það, og maður er farinn að svitna eins og Óskar í ketilbjöllutímum!!

7 comments:

Anonymous said...

EN GAMAN þið séuð með blogg :D:D Er búin að vera hugsa svo mikið til ykkar í ágúst og velta fyrir mér hvenær þið færuð út!! Ætlaði einmitt að hringja í þig...

Vona að ferðin út hafi gengið rosa vel og ég hlakka til að fylgjast með ævintýrinu ykkar ;*

Knús frá Íslandinu
Erna, Elmar og Eik

Anonymous said...

Hæ Arnór. Það er allt á fullu í fótboltanum. Nú er farið að rigna. Ég veit að það er gott veður hjá ykkur. Ég sá mynd af ykkur á ströndinni. Ég sakna þín rosalega mikið. Mamma ætla að kaupa webcam svo að við getum talað saman á skype. Fínt ef þú getur sent mér sms þegar þú ert á msn.
Kær kveðja, Alexander.

Anonymous said...

Sæl öll sömul.
Frábært að geta fylgst með ferðinni ykkar og geta lesið um hvað á daga ykkur drífur þarna í útlandinu. Nú er komið sannkallað haust hérna með rigningu og kulda ... og ég held að þið ættuð ekki að sakna þess í meira en 5 mínútur á mánuði ;)
Hafið það sem allra best og við sendum öll bestu kveðju,
Júlíana og co.

Anonymous said...

Sæl öll sömul,
Frábært hjá ykkur að opna bloggsíðu og leyfa okkur að fylgjast með af klakanum. Hér er haustið að skella á með tilheyrandi rigningu og kulda og þið ættuð nú ekki að sakna þess ... nema að hámarki 5 mínútur á mánuði ;)
Hafið það sem allra best og bestu kveðjur frá okkur öllum.
Júlíana og fjölsk.

Anonymous said...

Hæ elskurnar!

Frábært að heyra af upplifunum ykkar. Allt svo öðruvísi, náttúran, veðurfarið, fólkið og lífsstíllinn.
Kettir ánægðir, nýbúnir að vera í líflegum eltingaleik.

Ástarkveðjur, mamma/amma Dóra

maría said...

Gaman að allt gengur vel. Verð að segja krökkunum frá þessum einkabrandara :)
Var að skoða sjósundsmyndir úr Eyjafirði frá því 2005. Alls ekkert ólíkt Barbados!
Góðar heilsanir eins og færeyingar segja.
p.s Frábært blogg alveg bráðnauðsynlegt
María

Unknown said...

Hæ kæru vinir
ánægjulegt að sjá að þið eruð að aðlagast :-)
Leitt þetta með Kotasæluna en þú finnur e-ð annað í staðinn. Eðlilegt að spurt sé um Ágústu þegar þið sjáið Hjört. Hjörtur er varamaður núna því hann datt á hana í skólanum.
Kær kveðja Goðarnir

Blog Archive