Monday, January 26, 2009

Helgin - Ekki fáir þarna!


Svo sunnudag, var smá vinnutörn hjá Gauja fyrir hádegi. Hann tölvustússaðist og ég og guttarnir fórum í sund á meðan. Það er laug hér í húsinu, rosa fín lítil laug með vatni sem er reyndar við frostmark, og svo er heitur pottur, en það finnst mér ALGER LÚXUS!! Eftir hádegi fórum við svo á fótboltaleik hjá Flamengo á sjálfum Maracana, en það er víst stærsti fótboltavöllur í heimi, tekur milli 150-200þús áhorfendur. Flamengo var að keppa við Friburguense og á leikinn mættu um 36þús manns. Þetta var rosaleg upplifun, bæði leikurinn sjálfur, en ekki síst umgjörðin. Það var gríðarlega mikið af fólki og langflestir í Flamengo-treyjum og langar biðraðir við miðasöluna. Biðraðirnar pössuðu vopnaðir verðir, og allir sem reyndu af svindla sér í röðina voru umsvifalaust sendir aftast. Ég skil bara ekki í fólki sem þorir að reyna að svindla á þessum mönnum með skammbyssuna. Reyndar eiga strákarnir frekar erfitt með að taka þessar löggur alvarlega, Arnór stóð við hlið einnar löggunnar og var með andilitið í sömu hæð og byssubeltið. Þá horfði hann upp á mig, með stríðnissvipinn sin og hvíslaði: „ég ætla að koma við byssuna!...“ eins og ekkert væri eðlilegra. Ég rétt náði að stoppa hann, en hvernig eiga krakkar frá Íslandi að þekkja þetta, þeim finnst þetta bara spennó og fatta ekki hverju löggurnar hérna lenda stundum í. Reyndar eru okkar íslensku löggur að lenda í frekar óskemmtilegum hlutum núna heyrist mér á fréttum heima, en ég vona svo sannarlega að fólk átti sig á því að löggurnar okkar eru lágt launaðar og þeirra fjárhagsstaða jafnvel verri en margra mótmælendanna í þessu ástandi sem er núna. Þær eru að vinna vinnuna sína og vilja gera hana vel. Stuðningskveðja til lögganna heima, Jón Viðar, Kjarri, Helga, Baddý og þið öll!!!!
En aftur að Maracana: Þegar kom að okkur í miðasölunni þurfti Gaui að krjúpa niður að litlu gati ca. 20cmx20cm stóru og í 1m hæð. Það er á sko heldur betur ekki að vera hægt að stela úr kössunum þarna. Við fengum miða og þá hófst ganga kringum hálfan völlinn til að fara að innganginum sem okkar sæti voru nálægt. Þetta er STÓÓÓÓR völlur! Við komum um hálftíma fyrir leik, fundum okkur sæti og nutum þess að horfa í kringum okkur. Gaui táraðist. Draumur að uppfyllast hjá honum og fátt sem gefur honum jafnmikla gæsahúð og mörg þúsund fótboltabullur syngjandi og hoppandi í takt. Það var einungis hægt að kaupa gos eða vatn í sjoppunni og okkur varð hugsað til síðasta leiks sem við fórum á, en hann var á Barbados. Tvo sterkustu lið Barbados að keppa, um 150 manns mættu, ca. 5 sem horfðu á, hinir voru meira í að drekka vodkað sem hægt var að kaupa í lítraflöskum í sjoppunni og kjafta. Völlurinn þar var líka skemmtilega hæðóttur, við vorum á „vinstri væng“ og þegar spilið barst yfir á þann hægri, þá sáum við ekki leikmennina því það var nokkuð há brekka á miðjum vellinum. En á leiknum í gær var yndislegt að fylgjast með fótboltanum, þeir eru svo léttspilandi og snöggir og alltaf eitthvað að gerast á vellinum, enda liðu þessar 90 mín hratt. Flamengo vann leikinn 1-0 en samt var púað á þá, hér eru áhorfendur kröfuharðir, þeir vilja fullt af mörkum og 1-0 sigur ekki nóg. Gaui ætlar kannski að taka eitt gott fótboltablogg hérna á næstu dögum, langar eflaust að bæta við hérna.

Heimleiðin var skrautleg. Við tókum leigubíl með hrikalegasta bílstjóra sem ég hef hitt. Bíllinn var alger dós, átti erfitt með að komast í gang í byrjun, og svo keyrði hann á 150 alla leiðina. Hann keyrði yfir rauð ljós og ef einhver var rólegur og á löglegum hraða fyrir framan hann lá hann á flautinni og bilkkaði ljósunum til að komast framhjá. Ég er viss um að hann hafi verið helming leiðarinnar á tveimur dekkjum og ég var virkilega með hjartað í brókunum í þessari ferð. Við vorum viss um að ef ömmurnar okkar hefðu verið í bíl með þessum manni hefðu þær hent sér út á ferð, bara til að losna burt, hehe. Svo þegar við vorum komin heim, þá borguðum við og fengum þetta blíða sólskinsbros frá honum, pollrólegur og kátur. Svo tætti hann af stað aftur. Við vorum öll frekar „hrist“ eftir þetta, nema Viktor sem sagði: „vá, ég ætla að ráða þennan sem einkabílstjóra þegar ég verð stór“.
Góð helgi að baki og nú er mánudagur og við búin á einni tveggja tíma BJJ æfingu og þrír tímar í þá næstu, sem er þrír tímar! So tudo bem! Ciao!! J

2 comments:

Anonymous said...

Kemur þú heim í ágúst.Ég sendi nammi til þín í dag sko 26. janúar þannig hvenar heldur þú að þú fáir það. Hvenar kemur þú næst inná msn?

Anonymous said...

Ég (amman) hefði ekki hent mér út, hefði frekar viljað vera með ykkur í umferðaslysinu.

36 þúsund manns, sami fjöldi eins og var á Rolling Stones tónleikunum um árið. Vopnaleit, og - ég skil hugsun Arnórs - hugsaði einmitt þá: "Hvað ef ég pota aðeins í hann, eða segi smá brandara, eða hleyp í burtu". Gengur hvorki við vopnaða lögreglumenn í London, né í Rio. Þeir eru ekki eins elskulegir og óvopnaðir lögreglumenn í Reykjavík.

Ástarkveðja, amma Dóra