Þegar við vorum á gangi í bænum einn daginn með gestina á rölti við höfnina, þá leit ég eitt augnablik af honum Gauja, og nema hvað, hann var farinn að spjalla við kallana á höfninni. Þeir voru að selja ferðir í fiskerí, voru með þessa fínu bæklinga með myndum af ofsakátu fólki að skála með bjórinn í einni hendi og sjóstöngina og 2 metra fisk á önglinum í hinni. Í bakgrunninum eru svo auðvitað megagellur í sólbaði uppi á dekki í g-strengsbíkíní. Þetta leit sem sagt rosalega skemmtilega út, og þegar Gaui tilkynnti köllunum honum litist vel á þetta en að hann þyrfti að ræða þetta við betri helminginn. Þeir svöruðu: "Yes of cource, we all have our ministers of finance and home affairs". Við tókum fund (öll sömul) og þetta var rosalega freistandi, það verður að segjast. Við Gaui höfum prófað að fara á sjóstangveiði heima á Íslandi. Fórum með Ásbirni út frá Drangsnesi, hann fór með okkur á galdramið þar sem við MOKUÐUM upp þorski, ég meina það, það var bitið á í hverju kasti og veiðieðlið vaknaði heldur betur hjá mér, annars þessari mjúku sál. Það var rosalega gaman, og mig hefur langað lengi til að fara í bátsferð hér á Barbados, til að upplifa útsýnið frá sjó. Allur aflinn yrði síðan skemmtilegur bónus, og við sáum þetta sem fínt tækifæri til að spara soldið og veiða sjálf í matinn!! Jamm jamm, mega hugmynd. Svo það var lagt af stað, allir eiturhressir og kátir, og við Gaui heldur betur klár í að nota bara þessa ferð sem æfingu, því það er jú soldið átak að hala inn 2ja og 3ja metra sverðfiska, ekki satt??
Svo er siglt út úr höfninni og það kom nú aðeins á óvart að það var bara soldið hart í sjóinn, hmmm. Eftir tíu mínútur veiddist svo fyrsti fiskurinn!! Við höfum verið mjög spennt fyrir að smakka Barracuda fisk hérna, en það er nokkuð erfitt að fá hann á fiskmörkuðum þar sem hann veiðist ekki oft, svo gleðin varð þeim mun meiri þegar við sáum að fiskurinn á línunni var einmitt barracuda. Hann var ekki stór, svo Gaui halaði hann inn án erfiðleika, en þetta var sko flott byrjun. Fimm mínútum seinna var svo fyrsta ælan komin í sjóinn. Öðrum fimm mínútum seinna var æla tvö komin í sjóinn. Skipstjórinn hélt hins vegar ótrauður áfram út á úthaf og öldurnar urðu bara stærri og stærri. Þegar við vorum með Ásbirni á Drangsnesi, þá voru frekar þægilegar öldur og hann stoppaði bátinn og við vorum bara í kyrrðinni að veiða. Aðferðin hér er heldur betur öðruvísi, hér er beitan sett út, og svo er bara brunað, brrrrrrrrrr, leeeengst út, meðfram landi, lengra út eða bara eitthvað, brrrrrrrrrrr, ógeðslega hávært svo enginn gat talað saman, nema rétt með augnaráði sem við Gaui sendum okkar á milli með bendingum um hver drengjanna væri að æla. BRRRRRRRRRR sagði báturinn, beitan skutlaðist í sjónum, kominn einn fiskur og tvær ælur og farnar að renna á okkur tvær og jafnvel þrjár grímur.. á tuttugu mínútum. Og við höfðum keypt 4 tíma túr, takk fyrir. Höfðum verið að spá í 8 tímum, svona til að fá meiri fisk, en Guði sé lof fyrir að við gerðum það ekki.
Það vildi svo þannig til að þessi FYRSTI fiskur okkar reyndist síðan vera okkar EINI fiskur, svo þessi "skemmtilega" sjóstangveiðiferð var ekki alveg eins og við höfðum ímyndað okkur, út frá bæklingnum. Ég er samt fegin að við fórum, því annars hefðum við haldið að við hefðum kannski misst af einhverju. Mig langað alltaf að fara í bátsferð... og ég fékk sko bátsferð. Og svona í minningunni er þetta bara eitthvað sem við getum heldur betur hlegið að núna. Fiskurinn var síðan að sjálfsögðu verkaður (kom sér nú aldeilis vel reynslan af blóðguninni á silungunum sem ég veiddi með pabba (sem á nú einmitt afmæli í dag!! Til hamingju með daginn pabbi!) og við grilluðum hann. Barracuda smages godt, kan jeg lige hils og sige!!
No comments:
Post a Comment