Friday, January 16, 2009

Dagur tvö í Ríó, betri líðan, meiri svefn :)



Þá er fyrsti heili dagurinn okkar í Ríó að klárast og við erum kát og glöð. Við sváfum alveg svakalega vel, 12 tíma straight án þess að rumska, enda mjög lúin eftir langt ferðalag. Við vöknuðum um ellefu, og þá var mjög sérstakt að koma út á svalirnar okkar og horfa yfir Atlandshafið og iðandi mannlífið á ströndinni hér fyrir framan. Glæsilegt útsýni og í raun alveg eins og við höfðum óskað okkur þegar við hugsuðum til Brasilíu meðan við vorum á litla Barbados. Ég segi litla Barbados, því það er MJÖG ljóst hversu lítið samfélag er þar, þegar maður er komin í þessa tíu milljón manna borg. Við erum þó í úthverfi við borgina, kallast Barra (borið fram Baha) og hér er mjög lítil um betlara eða heimilislausa. Þetta er millistéttahverfi og það iðar af heilbrigðu lífi. Við búum í 12 hæða íbúðahóteli með tveimur svefnherbergjum, tveimur litlum baðherbergjum, stofu og eldhúskróki. Svalirnar eru besti hluti íbúðarinnar, þær eru í L, meðfram allri íbúðinni með flottasta útsýni sem ég hef nokkurntíma haft. Við erum alveg við ströndina, ein gata á milli og svo bara breið, skjannahvít strönd. Og við snúum í vestur og suður, svo við sjáum sólarlagið á hverju kvöldi meðan við sötrum brasilískt rauðvín. Está legal!!


Það er gríðarlega mikill áhugi á líkamsrækt hér, ströndin og hreyfing er greinilega lífsstíll hjá fólki. Við fylgjumst með heilu fjölsyldunum stíga út úr bílunum hér á stæðinu fyrir framan, allir í sundfötum (efnislitlum) eins og ekkert sé eðlilegra. Svo töltir fólk bara yfir götuna og niður á strönd. Meðfram strandlengjunni er hjóla/skokkstígur og þar er alltaf fólk að æfa. Ég flissa ennþá þegar ég sé menn í sundskýlu og strigaskóm að skokka, en það venst líklega. Bíkíníin eru líka kapituli út af fyrir sig, þetta er eins og hárbönd í misnotkun, og það skiptir engu hvernig vöxturinn er. Strengur skal það vera. Ég hins vegar er ennþá í bíkíní með góðri brók, eins og vinkona mín hún Billa kallar það. Ég var einu sinni með henni í bíkíníleiðangri á Portúgal, þar sem við hittumst, og þetta var skilyrðið hjá henni: „ég vil bara bíkíní með góðri brók!“ haha, en ég er svo innilega sammála henni. Allavega ennþá J Svo eru blakvellir, upphífingastangir, dýfustangir og fótboltavellir hér á ströndinni, og allt í notkun, iðandi af lífi. Þetta er æðislegt!!


Við höfum haft smá byrjunarvesen hérna með íbúðina, hún er svakalega flott á myndum, en sumt af henni er svona „fjarskafagurt“ eins og sagt er. Það er dálítið af maurum hér, við erum nú vön því frá Barb, og sem betur fer eru þeir mjög litlir, þó þeir séu margir. Fúgan í flísunum hér og þar er farin, og eftir standa líka þessi fínu göng fyrir þá. Svo er vaskurinn í eldhúsinu saga út af fyrir sig. Hann freyðir alveg svakalega þegar kellan í næstu íbúð vaskar upp, og svo leggur dauninn upp úr niðurfallinu öðru hvoru. Í dag ætlaði ég að vinna á fýlunni af íslenskri röggsemi, skrúfaði af fullum krafti frá krananum, en þá þaut bara kraninn af og ég var með svaka flottan gosbrunn í eldhúsinu. Strákarnir sprungu úr hlátri.


Við fórum í súpermarkað í gær og í dag til að koma okkur í gang með birgðirnar. Við þurftum að kaupa flestar almennar heimilisvörur eins og tuskur, uppþvottalög, sápu, svamp (nota ekki uppþvottabursta hér), þvottaefni, Ajax (því ég þreif skápana, voru frekar illa lyktandi, svo jafnvel mér ofbauð og þreif þrátt fyrir 40 tíma svefnleysi, hehe, þá er fýlan vond!). Brasilíumenn tala mjög fáir ensku og það var gaman að skottast í búðinni og giska á hvað væri í hverjum pakka, því við skiljum ennþá sama og ekkert. En ávaxtaborðið og kjötborðið eru frábær og það Gaui er eins og barn í dótabúð, hann elskar þetta. Við erum ennþá að æfa portúgölsku, en erum komin ansi stutt. Höfum verið að spá í að fara í portúgölskutíma meðan við erum hér, Orri tilkynnti alvarlegur á leiðinni úr búðinni í dag: „við VERÐUM að læra fleiri orð hérna!“. Svo á leiðinni úr búðinni stoppuðum við í lítilli búllu og strákarnir fengu gos og við fengum okkur lokal bjór, sem heitir SKOL. Hmmm. Hann var ágætur, en bjórinn hérna er víst uppfullur af rotvarnarefnum, svo við ætlum nú ekki að leggjast í hann (það er ekki eina ástæðan, no worries my brother!). Strákarni fengu rör með dósunum, og ég reyndi að spyrja „þjóninn“ líklega fastakúnninn, settur í vinnu (ca sjötugur hrukkóttur, dökkbrúnn kall með svuntu) hvað „rör“ væri á portúgölsku, því hann hafði notað orðið áður, þegar hann var að spyrja okkur hvort við vildum rör. En hann misskildi mig allsvakalega, hélt að ég vissi ekki hvað þetta væri, svo hann tók rörið af Arnóri, horfði alvarlegur á mig og tók svo hægt utan af því, tók dósina af Arnóri, opnaði hana og stakk því ofaní. Ég náði nú að stoppa hann áður en hann fékk sér sopa, brosti og sagði: „Aha, obrigada!“ (sem þýðir takk).

5 comments:

Anonymous said...

Hæ kæra fjölskylda!
Ég fylgist reglulega með ykkur hér í netheimum og dáist svo að ykkur á þessu ferðalagi! Segi alltaf reglulega við Sigga: Svo ætlum við í heimsreisu eins og Vala og Gaui einhverntímann!!
Hló mig máttlausa yfir frásögninni af bikiníbrókinni....ohh man þetta eins og í gær þegar ég var að leita að "góðri bikiníbrók"..hahaha!! Ég myndi sumsé ekki fitta vel inní alla "mjóu strengina" þarna í Ríó í minni "ömmu-brók"!...haha!!
Hafið það öll sem best...
Kveðjur úr Eyjafirði þar sem allt er á kafi í snjó og börnin búin að búa til snjókarlafjölskyldu í garðinum!!
Knús
Billa og co

Anonymous said...

Vá, sannarlega ævintýraleg lýsing!!
Hvað verðið þið lengi? Passaðu strákana! Mið drengurinn þinn (man ekki nafnið) minnir mig á Bóa sem strák :)
Gott að hella smá matarsóda eða klór í niðurfallið á vaskinum til að eyða lykt. Og matarsóda í skápa.
man ekki hvað ég notaði á maurana í Texas.

Og eru allar konur með þennann 'brasilian butt' þarna?
Love,
Sísí

Anonymous said...

Hæhæ elsku fjölskylda, alltaf gaman að fylgjast með ykkur, tölvan búin að vera að stríða okkur þannig að það er langt síðan við vorum hér síðast. Gylfi vill þakka Orra fyrir sendinguna og stóra spurningin er núna sú hvort þig verðið einhvern tíma þarna þannig að Gylfi geti fengið að senda Orra vini sínum pakka, var alltaf að spurja um það og svo bara komu jólin með allri sinni Íslensku geðveiki þannig að tíminn flaug, en allavegana það væri gaman fyrir hann að fá að senda honum pakka. Svolítil langloka en gangi ykkur vel og við höldum áfram að fylgjast með ykkur kveðja Gylfi Hólm og mamma

Anonymous said...

En gaman að fá kommentin frá ykkur :) Billa, ég held ég muni aldrei gleyma þessu "bíkíní með góðri brók!!" fannst það frábært. en jú, maður sker sig soldið úr hér í sínum ömmubrókum... því meira að segja ömmurnar eru í g-streng!! :Þ

Ásta, við verðum hérna í mánuð, en veit ekki hversu lengi póstur er að berast hingað. Orri sendir bestustu kveðjur til Gylfa og hlakkar til að hitta hann aftur.

Sísí, Bjj er Brasilískt jiujitsu, rosa erfitt og maður svitnar eins og svín hehe. Takk fyrir húsráðin, veitir ekki af hérna :)

knús til allra!! Vala

Vala said...

Hæ Ásta, heyrðu hér er heimilisfangið okkar hér í Brasilíu. Við verðum hér í mánuð og eftir smá pælingar höldum við að líklega sé alveg hægt að ná sendingu til Orra. Mikið svakalega held ég að hann hefði nú gaman að því!!! Ég veit að mamma er að setja saman smá sendingu, hennar sími er 551-2822, hún býr í Grenibyggðinni sem er rétt hjá Reykjakoti. Kannski gætuð þið sameinað sendinguna til að einfalda þetta

Gudjon Svansson/Renzo Gracie
Apartment 201
Av. Do Pepé,
1120 – Barra da Tijuca CEP. 22.620 – 171
Rio de Janeiro – RJ
Brazil

Orri vill vita hvernig Gylfi hafi það, Orra líður mjög vel, er að teikna, að fylla heilt blað af vopnum og hefur mjög gaman að því að segja mér ALLT sem vopnin geta gert. Sérstaklega af því hann veit að ég er ekki hrifin af vopnum hehe. Hann er stríðnispúki.
Kær kveðja,
Vala og Orri