Jæja, þá voru Svanki tengdapabbi og Anna Ingan hans að fara heim til Íslands eftir viku heimsókn hjá okkur. Þau komu frá Ástralíu, þar sem þau voru í heimsókn hjá Höbbu (systir Gauja) og ferðuðust um Ástralíu með henni. Svo lá leiðin hingað, Habba með í för, og þetta var fimmta vikan í ferðalagi þeirra Svanka og Önnu. Rosa heimsreisa hjá þeim og búið að vera frábært að hafa þau hér. Strákarnir hafa notið þess alveg í botn að spila við þau, en þau eru alveg einstök á því sviðið, nenna ALLTAF að spila!! Þau hafa nú að mestu verið mjög spök og þægileg, en áttu það til að missa sig dulítið í Kana, það voru svaðalegar rökræður sem gátu spunnist upp úr einu spili, allt analýserað í grunninn, "ég var með laufa sjöuna, og setti hana út í þriðju umferð, en hefði betur sett kónginn í tígli, svo þú hefðir.....". Ég missi strax einbeitingu í svona samræðum, en Orri, Arnór og Viktor voru þvílíkt með í að ræða hvað hefði verið gott að gera í þessari umferð, þessari umferð og svo þessari, og afi og Anna Inga og Habba alveg frábær í þessu.
Við fórum með þau í hellana, og í hinar ýmsustu skoðurnarferðir, en upp úr stendur líklega þegar við fórum að skoða risaskjaldbökurnar. Gaui er með konu í ráðuneytinu hér (þetta hljómar skringilega... en þið skiljið hvað ég á við :) og hún, Joy-Ann, hefur virkað sem tengiliður fyrir hann, hefur ráðstafað fundunum sem hann fer á og er alveg frábær. Við höfum aðeins kynnst henni og hennar manni, Eamon. Joy-Ann á frænda sem á bátafyrirtæki hér sem fer með túrista að kafa og snorkla. Við fórum með Eamon sem sagt, fengum snorkl-úbúnaðinn lánaðan og syntum út að skjaldbökunum. Rosalega spennandi, sérstaklega fyrir Orra, sem er náttúrulega frekar ósyndur, að synda ca. 70 metra út. Arnór og Orri fengu björgunarvesti (Viktor neitaði!) og ég og Anna Inga fengum líka, svona til að eiga möguleika á að hjálpa guttunum ef þeir þyrftu. Það er nefninlega alveg ótrúlegt hversu þungur t.d. Orri getur verið í öldunum, ef ég botna ekki og hann hangir í mér. Og fyrst við vorum að synda út á 10 metra dýpi fannst mér betra að vera í vesti til að geta hjálpað grísunum. Við fengum froskalappir, sem var ansi fyndið, því við reyndum auðvitað að labba út í sjó og hrundum bara á nefið, maður þarf víst að bakka niður fjöruna. Fengum líka snorklgræjur, tók smá tíma að finna réttar stærðir. Svo syntum við út, Orri og Arnór rosa flottir og bara allir. Hins vegar fór Orri að kvarta mikið þegar við fórum að snorkla, hann var með græjur sem pössuðu frekar illa (kom bara í ljós þegar við vorum komin út), hann fékk sjó í munninn og gekk bara frekar illa. Svo sáum við skjaldbökurnar og það var rosalega gaman þegar maður sá þær allt í einu samlandi þarna. Þær voru ansi stórar en furðulega snöggar í vatninu. Ef maður leit af einni, var hún horfin þegar maður leit aftur. Þær voru þó nokkrar saman í hóp og einn ungi með þeim. Þær fullorðnu voru kúl á því, komu öðru hvoru prófessoralegar upp úr vatninu til að anda í eina sekúndu, og ruku svo niður aftur. Unginn hins vegar var forvitinn eins og lítill kettlingur, synti alveg upp að manni og skoðaði okkur í bak og fyrir. Annað hvort forvitinn eða bara nærsýnn. Þetta var frábær lífsreynsla og ofsalega gaman. Líka fyrir Orra, þó svo snorklið hafi ekki gengið hjá honum, þá náði hann að sá eina skjaldböku og nokkra fiska, og var kátur með það. Arnór og Viktor sáu margar skjaldbökur, eins og við hin. Eamon, sem var með okkur, var með neðansjálvarmyndavél, og tók myndir af okkur og bökunum. Ég set þær inn um leið og ég fæ þær.
Smá pása í bloggi núna.... þarf að koma guttunum í rúmið. Mikilvægt að þeir fari að sofa á sæmilegum tíma, svo jólasveinninn sem er búinn að ferðast yfir höfin, alveg spes til að gefa þeim í skóinn hér á Barbados, fari ekki fýluferð. Hann nefninlega gaf ekkert í skóinn síðasta laugardag, því þá fóru guttarnir ekki að sofa fyrr en hálf tólf, og eins og útskýrt var fyrir Orra, þá fær maður ekki í skóinn ef maður er vakandi þegar jóli kemur. Svo nú er passað að fara að sofa á réttum tíma ;)
Jæja, Gaui sá reyndar um mest, er að lesa barnaútgáfu af Tímavélinni fyrir þá. Hún er í seríu með mörgum klassískum bókum, einfaldaðar aðeins, þannig að börn geti lesið og skilið innihald þessara klassísku og stundum dálítið þungu bókmennta. Við leigum þær á bókasafninu, búin að lesa Skytturnar þrjár, Töfragarðinn og Ferðin að miðju jarðar. Allar á ensku, svo við Gaui fáum ágætis heilaleikfimi að þýða svona jafnóðum og við lesum upphátt á íslensku. Orri er annars upptekinn núna við að færa jólaskrautið til á jólatréinu okkar(er að stelast aðeins fram). Ég var að sýna Önnu og Höbbu miðbæinn í vikunni, og við fórum inn í algera skranbúð sem Kínverji rekur hérna í Swansstreet (það er göngugatan fyrir innfædda). Þetta er svona búð sem er með alls konar dótarí, t.d. gerviblóm, í alvöru, hvaða lit sem þig vantar af gerviblómi og hvaða stærð sem þig vantar... þetta er búðin! Svo er hægt að fá strigaskó (eiginlega plast, en mjöööög gott verð), það er hægt að fá nærbuxur, allar stærðir, oftast þó akrýl, en svo var þetta fína fína gervijólatré á 24 barbadosdollara (12 US) og ég bara sló til. Þegar ég labbaði út, í jólastemmningu með litla kínverska jólatréið mitt, var kakkalakki á leiðinni inn. Veit ekki hvort hann vantaði jólatré eða gerviblóm.
Ég fór með gestina í messu í Thankful family church. Mér fannst það svo mikil upplifun að fara í svona hressa messu, þegar ég fór fyrir 3 vikum. Þetta er soldið eins og að vera á tónleikum fannst mér. Þetta er líka leiðin til að ná í unga fólkið í krikjuna, því þetta er skemmtilegt. Þeir gera það skemmtilegt að fara í kirkju, þannig að ef maður er trúaður þá hvetur þetta form klárlega til þess að viðkomandi rækti trúnna sína. Allavega, fyrsta messan sem ég fór á með strákunum var svona "barnamessa" þar sem börnin í hópnum vour með alls konar atriði og rosa gaman. Ég sagði Önnu og Höbbu frá þessu, Önnu leist vel á að kíkja, Habba aðeins efins um að þetta, en til í að mæta. Þetta er er náttúrulega upplifun að vera með í svona messu. Tengdapabbi aftur á móti..... "hmmm, hvaða bull eretta.. hmmm... ég veitaekki... hmmm... neinei... djös kjaftæði... susss... hmmm" og svona. Svo kom nú sunnudagsmorguninn og hann ákvað að koma með. Við fórum auðvitað í messuna kl. 9, ekki að ræða það að við nennum kl. 7 á sunnudagsmorgni. Mættum samt fullt af fólki á leiðinni út úr kirkjunni, sem hafði mætt kl. 7, messurnar eru nefninlega í tvo tíma. Svo var messan, rosa stuð, mikið Hallelúja, Hallelúja, Amen og allt. Presturinn er mikill prédikari, töffari (á Harley ;) og mjög skemmtilegur, svo tíminn er frekar fljótur að líða. "Do I hear an Amen to that???.... DO I HEAR AN AAAAAAMEN?!?!" öskrar hann stundum og allir kalla á móti. Svo er sungið, textinn á risaskjá svo maður gat sungið með og dillað sér, svo kom söngkona að syngja (söng frábærlega, en það truflaði soldið að einhverskonar dansari var til hliðar á sviðinu og var með danstúlkun á sálminum sem hægt var að líkja við sálarmorð eða örvæntingu, erfitt fyrir svona jarðbundið fólk úr norðri að skilja). Anna skemmti sér vel, Habba líka, svona stundum, ég skemmti mér konunglega.. en tengdapabbi elskan virðist hafa setið á óþægilegum stól. Var soldið eins og hann sæti á kaktusi, hehe. Var ekki hrifinn, fannst þetta allt of mikil læti og jaðra við ofstæki. Ég grét úr hlátri þegar hann lenti í "HUG TIME", var knúsaður í bak og fyrir af hinu ýmsasta fólki sem hann þekkti ekki neitt. Tók því reyndar af stökustu ró, er svo kurteis. Ótrúlega ólíkt messuform miðað við það sem við þekkjum á Íslandi, en ég viðurkenni að ef messurnar væru svona skemmtilegar heima, þá færi ég kannski oftar en bara í brúðkaup og jarðafarir í kirkju. Get samt alveg verið án "HUG TIME".
Núna eru sem sagt tengdapabbi og Anna farin heim, eru líklega komin til New York og fljúga svo heim í kuldann á morgun. Við höfum sem betur fer ennþá hana Höbbu hjá okkur, yndislegt, enda ekki séð hana í eitt og hálft ár og hún er svo hress og kát og hefur svo smitandi hlátur. Svo á laugardaginn koma tengdamamma og Eiríkur. Og við teljum dagana þangað til, það er svo gaman að fá svona góða gesti. Strákarnir ELSKA að fá fjölskylduna, það er fátt sem undirstrikar betur væntumþykjuna eins og smá fjarvera. Því það er auðvitað ekki sjálfsagt hjá okkur núna að skjótast í heimsókn til ömmu eða afa, og þá fatta guttarnir hversu mikið þeir njóta þess að vera með þeim. Ekki það að ég vilji alltaf vera svona langt í burtu, en stuttur tími eins og árs ferðalag held ég styrki bara böndin, bæði til ástvina heima og svo okkar á milli hér í kjarnafjölskyldunni.
Við erum ennþá rosalega ánægð með ferðina til St. Lucia, fyndið hversu ólíkar eyjurnar eru í landslagi. Á myndinni hér fyrir ofan sést nú landslagið á St. Lucia ekki mikið. Guttarnir standa við hvert sitt pálmatréð á ströndinni á Pigeon Island, nýkomin úr fjallgöngunni og búin að borða pizzu keypta í 200 ára gömlu steinhúsi, með lofthæð í 1.80m. Alltaf sama góða veðrið samt :)
No comments:
Post a Comment