Þá erum við strax búin að vera hér í BA í viku (á morgun) og erum farin að rata um hverfið, voða dugleg. Loftslagið hér er rosalega þægilegt, finnst mér, ca. 25-30°c hiti og þægilega svöl gola. Gauja finnst þetta nú aðeins í kaldara lagi, er algert hitadýr. Við erum komin með fínt vikuplan hérna í æfingum og spænskukennslu heimatilbúinni (því við erum með hjóðbókarnámskeið með okkur) og dagarnir líða hratt. Gaui er með einhverja flensu, hiti og hálsbólga og þegar hann er lasinn þá á hann alveg hreint gríðarlega bágt. Hann var afspyrnu slappur í gær, en er betri í dag og aðeins léttari í skapi eftir því :) Hann setti mér fyrir verkefni í fyrradag (áður en hann veiktist), að skipuleggja hvert við skyldum halda eftir 21. mars þegar BA-dvölin er búin. Ég fór í málið í gær, settist með Suður-Ameríku bókina að vopni og tölvuna, þegar aðrir fóru í spænskukennsluna (sjáið þetta á myndinni). Ég fann hina og þessa staði, Gaui vildi lítið sem ekkert blanda sér, en hlustaði á hugmyndir og leist ágætlega á. Eftir því sem á daginn leið hækkaði hitinn hjá honum, og þá fór hann að leggjast yfir einkabankann. Hmmm, flensa og bókhald fara nú ekki vel saman... Ég var síðan komin með planið, við förum með rútu niður eftir Argentínu, tökum flugvél frá El Calafete, sem er lítill bær, fljúgum til Ushuaia og verðum þar í tvo daga. Það sem er sérstakt við Ushuaia er að það er syðsta byggða ból jarðar!!! Við þurfum þá loksins að nota þessi hlýju föt og hettupeysur sem við höfum dröslað með okkur yfir hálfan heiminn. Gaui samþykkti flugmiðana, leist á hugmyndina um að fara alla leið suður, en þegar ég hélt áfram, vildi náttúrulega sýna lit og standa undir ábyrgðinni "skipuleggjari", þá leit hann upp úr tölvunni, með klósettpappírinn í nefinu og stundi rámri röddu: "þú bara finnur leiðir til að eyða og eyða peningum... hrmmff". Ekki alveg í ferðagírnum kallinn, en þetta var nú flensan að tala. Í dag líður honum mun betur og bólar ekki á skapvonsku, hehe.
En þetta er náttúrulega það sem við erum alltaf að vinna með, þessi blessaða króna og hvernig ferðasjóðurinn, sem hefur minnkað leiðinlega mikið, með gengisfallinu, getur dugað okkur fram á sumar. Stærsta ákvörðun í þessu "látum peninginn duga-ferli" er að við höfum ákveðið að einblína á Suður-Ameríku og Mið-Ameríku. Það kostar óheyrilega mikið fyrir okkur fimm að fljúgja t.d. héðan og til Nýja-Sjálands eða Ástralíu, og það sama er að segja, um að fljúga til Afríku eða Asíu. Það er ofboðslega margt spennandi að sjá og skoða hér "nálægt", Argentína, Chile, Perú, Ekvador, Mexicó, Costa Rica og áfram má telja. Við erum ánægð með þessa ákvörðun og sérstaklega vegna þess að það var einróma samþykkt að búa til "Álfu-ferða-áætlun". Við stefnum sem sagt á það að taka heimsálfurnar, eina í einu, á næstu árum. Byrjum að safna um leið og við komum heim, og eftir 2-3 ár verður næsta heimsálfa skoðuð. Ferðalögin verða nú ekki alltaf jafnlöng og þetta, kannski notum við sumarið í þetta og hver veit nema við fáum ömmur eða afa með í slíka ferð :) Orri var reyndar soldið lengi að samþykkja álfuferð, við skildum ekkert af hverju hann var svona tregur í taumi, þar til hann með tár í augum gat stunið upp: "mig langar bara EKKERT til að hitta álfa!!!!".
1 comment:
Greinilega mikið ævintýri hjá ykkur. Hljómar rosalega spennandi og gaman að fylgjast með ykkur. Gangi ykkur vel með framhaldið.
kveðja úrfrostinu á Frónni þar sem reynt er að nýta dagana uppi í Bláfjöllum :). Gunni Thor (hans Sigga)
Post a Comment